#bergmálsklefinn er ný íslensk ópera um kynjahyggju á samskiptamiðlum frá tón-leikfélaginu Aequitas Collective í samstarfi við Alþýðuóperuna […]
Skjárinn á sviðinu verður með „Twitter feed“ í beinni þar sem áhorfendur geta tístað beint inn í atburðarrásina.
Mér skilst að læv-tvít möguleikinn hafi eitthvað verið bilaður í sýningunni sem ég fór á. Að minnsta kosti bárust einungis 1 af 3 tvítum sem ég sendi á tjaldið og nánast engin tvít birtust frá áhorfendum út í sal. Höfundur verksins tjáði mér að það væri gjörólík upplifun að sjá verkið þegar margir væru að tvíta, svo ég bið fólk að hafa það í huga þegar það les þessa umfjöllun.
Sviðsmyndin er minimalísk. Unnið er með tvö lök, þar sem varpað er tvíttextum og leikarar geta umvafist til að sýna skömm sína eða kynlífsathafnir, borð og stólar sem leikarar færa til og frá á sviðinu eftir því hvað er að gerast og svo halda allir leikarar á vasaspegli með ljósum, sem sinna fyrst og fremst því hlutverki að tákna snjallsíma, en fá þó ýmis önnur auka táknræn hlutverk líka. Ef ég væri betur lesinn í Jung, myndi ég skrifa hér eitthvað um narsissisma, spegla og samfélagsmiðla — en ég er það ekki og læt mér nægja að nefna að mér finnst þessi einfaldleiki þjóna sýningunni vel.
Tónlistin er góð, að minnsta kosti hnaut ég aldrei um að hún væri að eyðileggja upplifun mína af verkinu. Einn píanóleikari sá um undirleik fyrir söngvarana og stundum var hann (hann píanóleikarinn, hún konan) líkt og hljóðrás í þöglum bíómyndum, eitthvað sem gefur atburðum verksins, einsog tvítum og skilaboðum, skopleg en lýsandi hljóð. Tónlist getur gert kraftaverk, og hér náði hún til dæmis að færa ástarsenu sem hefði hæglega geta verið hálf-útslitin og fúl yfir í að vera fín.
En það merkilegasta við þessa sýningu er eflaust textinn og hvernig hann er unninn.
Á síðasta áratugi varð til flarf, hópur sem skrumskældi alþjóðlega fríljóðið og bandaríska ljóðahefð með internet-textum og flippskunkahætti; flarfið stal klisjum til að búa til klunnalega vitleysu sem var með öllu ónothæf nema sem árás á hefðbundna notkun tungumálsins. K. Silem Mohammed, einn flarfista, lýsti fagurfræðinni svo:
„Meðvitað ólögulegt innihald, form, ólöguleg stafsetning og hugsun almennt, frjálslega stolið úr netspjallsblaðri og póstfarstexta, oft í þeim tilgangi að skapa lærða blöndu hins andstyggilega, hins væmna og hins barnalega.“ 1
Þegar texti óperunnar er bestur minnir hann á flarf. Einfaldir og hráir internettextar kallast á við hátíðlegt form óperunnar. Það er gott LOL að heyra óperusöngkonuna syngja I came here to fuuuuuu. Og það er skemmtilegt að heyra SUBMIT hnappinn verða hluta af söngtextanum. Að setja hversdagslega internettexta í óperu er afjúpandi bæði fyrir form texta og óperu.
En að því sögðu er einsog stundum sé ekki kafað nógu djúpt. Flarfistarnir lögðu undir sig heilu leitarvélarnar (Google var ungabarn þegar það hófst) til að finna eins kjánalega orðanotkun og þeir gátu, en mest öll óperan er frekar fyrirsjáanleg í því hvaða texta hún fangar — en kannski stendur þessi textaheimur mér of nærri.
Meir að segja upphafstvítið, tvítið sem keyrir alla atburðarrásina áfram, hefur verið endurritað. Það er ekki lengur stutt og býður upp á margar túlkanir, ekki hægt að finna jafnt hvíta sektarkennd sem og foréttindablindu, heldur virðist næstum bara ein túlkun möguleg: Konan hefði aldrei átt að rita þetta tvít og það er engin leið að skilja hvers vegna hún ýtti á SUBMIT.
Það var kannski of mikið að gerast á sviðinu á þessum klukkutíma. Hliðarsögurnar kveiktu lítið í mér, og það hefði mátt vinna meir með átök aðalpersónunnar. Sektarkenndin. Skömmin. Ofsóknirnar. Það er jú bíó, já eða ópera. Höfundi til varnar er alveg grútleiðinlegt hvernig sami karakter er tæklaður í bókinni So You’ve Been Publicly Shamed sem verkið byggir á. Það hefði kannski þurft að fara aðrar leiðir, samtvinna þetta öðrum karakterum, skálda og stela til að fá meira kjöt á beinið. Kannski en allavegana þykir mér sagan liggja þar, allt hitt er auka skraut sem gaf mér lítið.
Þegar söngtextinn er tekinn frá stendur eftir runa af tvítum, við hlið ýktra svipbrigða, hreyfinga og píanóleiks — þá sé ég loks að internetkynslóðin hefur endurskapað Chaplin í sinni mynd, og sem maður sem hefur bara átt þrjú plaköt (af Chaplin, Emilíönnu Torrini og Íslenska dansflokknum) þá gleður það mig mjög. Chaplin mætti bara taka sig ögn minna hátíðlega næst. Hann er jú alltaf bestur þegar ég átta mig ekki á því að hann er grafalvarlegur. Ég hlæ og hlæ, en samt er í raun ekkert fyndið að gerast. Það fór ekki framhjá mér í þetta sinn að það var ekkert fyndið að gerast.
Ágæt tilraun, en ég hefði viljað sjá meira.