Ritdómur um Pnín eftir Vladimir Nabokov 

Kynning

Eitt af því yndislegasta við að vera manneskja er hæfnin til að þroskast. Þó getur verið sársaukafullt að taka út þroska, því að gleðin yfir því að hafa breyst til hins betra er gjarnan menguð með blygðun á hinu fyrra ástandi og gjammandi rödd hins vanþroskaða sjálfs bergmálar um alla ganga hugans og það gjammar með þinni eigin rödd. Þegar góður Guð skapaði mannslíkamann setti hún rassinn sem fjærst andlitinu en þegar hún skapaði manninn að innri gerð er eins og hún hafi skyndilega skipt um skoðun. Þar er stundum eins framrúða og baksýnisspegill renni saman í geðsýkislegan hvirfil, andlitið starir í skömmina og sinninu svíður undan þroskanum og viskunni.  

Vladimir Nabokov tengist vitsmunaþroska mínum sterkum og nokkuð sársaukafullum böndum. Ég geng svo langt að segja að nafn Nabokovs veki hjá mér minningar sem fá mig til að engjast af eftirsjá sem væri ég ánamaðkur í fondue-potti. Hér á ég við tilhugsunina um það heimskulegasta og versta á mínum akademíska ferli sem að öðru leyti var bæði stuttur og misheppnaður, atburð sem yfirskyggir meira að segja rantið mitt í menningarfræðitímanum árið 2011 þegar ég fékk að úttala mig um yfirburði póstfemínismans. Þessi atburður var Skapandi skrif-kynningin. 

Kynningin var mest glærusýning með nokkrum æfingum og var hugsuð til þess að kynna nám í skapandi skrifum fyrir nýnemum. Þessi kynning fól að hluta til í sér umfjöllun um atvinnutækifæri í skapandi skrifum svo og ýmsar klisjur tengdar rithöfundum og ritstörfum almennt. Nú bið ég til Guðs að þessi aumingjans börn hafi ekki látið glepjast, bundið ráð sitt við refshala og farið fyrir mín orð í nám í skapandi skrifum af því að að þar væri svo mikið af atvinnutækifærum. „Hvaða helvítis atvinnutækifæri?“ hefði hið þroskaðra sjálf fyrirlesarans líklega spurt hefði það verið í kennslustofunni þennan dag, en því var ekki að fagna. Það mættu sem betur fer ekki nema þrír nemendur og svo voru þrír kennarar úr enskudeildinni þarna líka. Einn þeirra, karlmaður á sjötugaldri, smánaði sig svo með því að skrifa lesbíska klám-fantasíu í einni æfingunni þannig að þegar allt kemur til alls þá var þetta kannski ekki alslæmt. Nóg um það í bili. 

Hluti af rannsóknarvinnunni fyrir kynninguna gekk út á að safna saman ráðleggingum sem ýmsir reyndari rithöfundar höfundar hafa látið frá sér, oftast í svona 6-10 atriða listum. Þekktustu dæmin eru líklega frá George Orwell, Kurt Vonnegut og Elmore Leonard. Það sem vakti athygli mína, og nú fer ég að komast að kjarna málsins, er að oftar en einu sinni var Nabokov nefndur í sambærilegum listum. Í eitt skiptið stóð að maður skyldi ekki reyna að smjaðra fyrir Nabokov, hvað sem það nú þýðir, og annarsstaðar stóð einfaldlega „ekki lesa Nabokov“. Þessar aðvaranir gerðu mig meira en lítið forvitinn um þennan höfund, en ég ímynda mér að megininntakið gangi út á að ef fólk reyni að apa eftir Nabokov, eða hafi skrif hans á einhvern hátt til hliðsjónar, þá sé voðinn vís. 

Skáldsagan Pnín

Áður en ég sný mér að sjálfri þýðingunni langar mig að minnast lítillega á skáldsöguna Pnín. Hún kom út árið 1957, rúmu ári á eftir Lolítu sem er í dag þekktasta verk Nabokovs. Bækurnar voru þó skrifaðar um svipað leyti og ýmsir hafa bent á sterk tengsl milli þeirra, sérstaklega að því leyti að söguhetjur bókanna eru fullkomnar andstæður. Humbert Humbert, aðalsöguhetja Lolítu, er (að eigin sögn að minnsta kosti) myndarlegur, heillandi og fullur sjálfstrausts en Tímófei Pnín er aftur á móti klaufalegur og skrýtinn. Humbert Humbert er svo hrotti og ljótur að innan meðan Pnín er góður í gegn og fallegur að innan. Einhversstaðar las ég að Nabokov hafi skrifað sögur um Pnín um það leyti sem hann var gjörsamlega heltekinn af sögunni um Lolítu, svona eins og til þess að hvíla sig, en Pnín birtist í nokkrum hlutum í tímaritinu New Yorker um það leyti sem Nabokov leitaði að útgefanda fyrir Lolítu.  

Að forminu til er Pnín frekar einkennileg. Hún skiptist í sjö kafla sem allir eru nokkuð ólíkir innbyrðis og í stuttu máli sagt þá er svolítið sérstakt hvernig sagan fer frá A til B til C. Bókin hefst til dæmis á einhverskonar farsa, Pnín er í vitlausri lest á leið eitthvert til að halda fyrirlestur og svo er ruglingur með töskuna og skjölin, og heildina litið er stemningin ekkert ósvipuð leikritinu þarna þar sem það voru tvö sett af tvíburum, trúlofanir þvers og kruss, tvær hurðir og kista. Bókin skiptir þó fljótlega um ham og er að stórum hluta einskonar háskólaskáldsaga (e. Campus novel) í gamansömum tón sem er þó nokkuð tregablandin á köflum, ekki síst þar sem borgarstríðið í Rússlandi og Helförin hafa sett mark sitt á margar persónanna. Þegar ég fór að lesa mér betur til um söguna kom það í ljós að skýringin á bakvið hina undarlegu söguframvindu er ef til vill sú að skáldsagan Pnín er í grunninn unnin uppúr smásögum sem höfundurinn svo hnoðaði saman í eina heild og sumir ganga svo langt að segja að Pnín sé í raun einhversstaðar á mörkum skáldsögu og smásagnasafns. 

Stíl sögunnar mætti líklega lýsa sem síðmódernískum skammlausum gáfumannastíl. Höfundurinn neimdroppar ógrynni af rithöfundum, málurum, tónskáldum, ljóðskáldum og jafnvel ljósmyndurum, og setningar ná margar hverjar yfir 12-14 línur og eru þá uppfullar af innskotum, þankastrikum, svigum og semíkommum. Hér er dæmi: 

Sem kennari var Pnín fjarri því að geta keppt við þær undraverðu rússnesku konur sem láta víða til sín taka í háskólastarfi í Bandaríkjunum og tekst einhvern veginn, án þess að hafa nokkra formlega menntun, að blása, með innsæi, málæði og eins konar móðurlegri atorku, töfraþekkingu á erfiðri og fagurri tungu sinni í brjóst hópi af sakleysislegum nemendum í andrúmslofti mörkuðu sönglögum um Móður Volgu, rauðum kavíar og tei; ekki vogaði Pnín sér heldur, sem kennari, nokkurn tíma að nálgast hátimbraða sali vísindalegra málvísinda nútímans, þess meinlætalega bræðralags hljóðunga, það hof þar sem alvörugefnu ungu fólki er kennd ekki tungan sjálf, heldur aðferðin við að kenna öðrum að kenna þá aðferð; en sú aðferð, líkt og foss sem slettist frá einum kletti til annars, hættir þá að vera miðill röklegrar leiðsagnar en kann ef til vill í einhverri ótrúlegri framtíð að eiga þátt í að þróa framandlegar mállýskur – frumbasknesku og svo framvegis – sem aðeins vissar flóknar vélar geta talað.

(9)

Fjúff, segi ég nú bara. Þetta dæmi gefur kannski ákveðna hugmynd um stílinn sem er stundum tyrfinn þó hann sé kannski ekki allstaðar svona rosalegur.

Það sem stíll Nabokovs er svo kannski þekktastur fyrir, svona í mínum huga að minnsta kosti, er fyrirbærið samskynjun (e. synesthesia) sem lýsir því þegar skynjun flakkar milli skynfæra og fólk fer að sjá tónlist eða heyra liti (gjarnan tengt við ofskynjunarlyfið LSD). Þetta fyrirbæri opnar fyrir ýmiskonar frumlegheit í myndmáli og áhrifin verða á köflum sýkadelísk. Á einum stað er flesksneið til dæmis lýst sem „ópallýsandi“ (26) og það er mín tilfinning að höfundurinn sé þarna að lýsa bragðinu frekar en litnum. Hvað sem því líður þá er myndmál bókarinnar oft ótrúlega frumlegt og lifandi. Til dæmis þar sem Nabokov minnist á Clementshjónin, leigusala Pníns, sem „voru niðurdregin, kvíðin og einmana í sínu fallega gamla næðingssama húsi sem nú virtist hanga utan á þeim eins og slapandi hörundið og flaksandi fötin á fábjána sem hafði megrað sig um þriðjung þyngdar sinnar“ (24). Höfundur er svo í svipuðum ham síðar þegar hann lýsir innbúi í stóru sveitasetri þar sem „mátti finna, innan um sundurleit húsgögn, nokkur yndisleg skatthol úr satínviði, nokkra rómantíska sófa úr rósaviði, en einnig alls konar fyrirferðarmikla og ömurlega hluti, brotna stóla, rykug borð með marmaraplötu, fýlulegar hillur með dökkleitum glerbútum aftast sem voru jafn harmþrungnir og augun í gömlum öpum“ (100). Það eru að mínum dómi augnablik eins og þessi sem gera einstaka bækur eftirminnilegar og bara þessi tvö dæmi, og sérstaklega þetta með apaaugun, eiga líklega eftir að hringla í höfði mínu til elífðarnóns, eins og einhver mögnuð hringla. Og svona til samanburðar, hvað eru mörg svona augnablik í bókinni A Little Life eftir Hanya Yanagihara sem þó spannar 720 blaðsíður? Nákvæmlega núll!

Þýðingin Pnín

Það fyrsta sem dæmið hérna að ofan, langa setningin, segir okkur er að þýðandi Pníns, Árni Óskarsson, réðst sko ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Það sem ég fór að velta fyrir mér er einfaldlega hvernig í ósköpunum maður fer að því að snúa svona setningum og svo hinu, hvort að það séu einhverjir aðrir valkostir í stöðunni? Er íslenskan svo álíka móttækileg fyrir 14 línu setningum og enskan? 

Tímófei Pnín er svo mikill sérvitringur að strax á síðu 13 hefur hann öðlast sitt eigið lýsingarorð, „pnínskt“. Í stuttu máli þá talar Pnín asnalega. Djókið við Pnín byggir á fyrirbæri sem í málvísindum nefnist millimál (e. interlanguage) og lýsir því ástandi þegar manneskja notar nýtt tungumál en hallar sér í uppað móðurmálinu þegar í harðbakkann slær (þetta er reyndar nokkur einföldun). Millimál útskýrir þannig oft ýmis málfræðileg frávik og kúnstugheit í orðavali, orðaröð og fleira hjá þeim sem eru að spreyta sig á tungumáli sem er ekki þeirra móðurmál. Hjá Íslendingum í Svíþjóð, svo ég noti dæmi sem ég þekki, kemur þetta til dæmis fram í tilhneigingu til að nota ógrynni af smáorðum og hjálparsögnum. Íslendingurinn sem er vanur að segja „við ætlum að fara að koma okkur“ er þannig ekki líklegur til að láta „vi går“ duga sér o.s.frv. Það sem flækir málið svo enn frekar er að millimálið er að einhverju leyti einstaklingsbundið.   

Í dæmi Pníns þá skín það oftast í gegn í þýðingunni að hann er að tala asnalega. „‘Mikilvægur fyrirlestur!‘“ hrópar hann, „‘[h]vað ber að gera? Þetta er katastrófa!‘“(14). Til þess að undirstrika hversu undarlegur talandi Pníns er þarf svo allur textinn umhverfis að vera ofurvenjulegur í samanburði. Maður ímyndar sér að það sé talsverður línudans að fá þessar löngu setningar til að hanga saman án þess að textinn verði sjálfur pnínskur, það er, halli sér merkjanlega að móðurmáli sínu sem í tilviki Pníns er rússneska en í tilviki textans er enska. Ég fann örfá lítilsháttar dæmi þar sem að orðaröð, laus greinir (hinn/hin/hitt) eða önnur einkenni minna mann á að þetta er þýðing og lógík textans er að upplagi ensk, en þegar ég svipaðist sérstaklega um eftir þessu þá varð það frekar til að auka virðingu mína fyrir þýðingunni og þýðandanum heldur en hitt. Það er ekki einfalt mál að þýða texta eftir mann sem hefur verið lýst sem virtúósó í meðferð sinni á ensku, því tungumáli sem hefur hvað stærstan orðaforða, yfir á íslensku, tungumál sem er með fátæklegan orðaforða. 

Dæmið hér að ofan er kannski ekki síst tyrfið á köflum vegna þess að íslenskan er tyrfið tungumál. Að blása einhverjum eitthvað í brjóst er eitt dæmi (sem þýðandinn hefur neyðst til að nota í dæminu að ofan), að bjóða einhverjum byrginn er annað. Þarna hefur enskan einfaldar sagnir (inspire annars vegar og challenge eða confront hins vegar) á meðan íslenskan hefur skrýtnar klisjur eða tuggur sem svo taka með sér aukaföll sem verða svo aftur eina haldreipi manns til að átta sig á hverjum er verið að blása hvað í brjóst þegar maður reynir að stauta sig fram úr löngum setningum. 

Þá byrjar maður að hugleiða, væri hægt að gera þetta öðruvísi? Taka kannski hugmyndina um dýnamíska þýðingu skrefinu lengra og byrja að búta niður setningar, skilja stílinn eftir, taka ekkert með nema innihaldið (apaaugun fengju þannig að flakka með). Myndi þá ekki bara allt heila draslið byrja að rakna upp eins og flaksandi fötin á fábjána? Mér finnst ég skilja mjög vel hvers vegna þetta er slæm hugmynd (ég er tiltölulega nýbúinn að lesa Myrkranna Makt, Drakúla-þýðinguna sem er svo róttæk að hún hefur verið þýdd aftur yfir á móðurmál sitt) en ég næ samt ekki alveg að hrista þessa hugmynd úr hausnum á mér. 

Niðurstaða

Mig langar annars að enda á því að hrósa þýðandanum fyrir skýringar sem fylgja með í lok bókar. Það kannast flestir við Dostojevskí, sumir kannast líka við Lermontov, en það eru líklega fæstir búnir að lesa Ostrovskí eins og ég, og þá koma skýringarnar að góðum notum. Skýringarnar útskýra líka ýmis mikilvæg minni (eins og íkornamótífið) og hjálpa til við að leysa úr orðaleikjum. Ég vil að lokum mæla með þessari sögu í þessari þýðingu. Eftir því sem ég les mér meira til um hana þá hallast ég að því að ég þyrfti helst að lesa hana aftur. Kápan er líka smekkleg og brotið allmennt þannig að það er þægilegt að drösla bókinni með sér hvert sem maður fer. Þau sem hafa haft áhyggjur af því að lestur á Nabokov geti haft neikvæð áhrif á atvinnutækifæri þeirra í skapandi skrifum geta svo sannarlega andað léttar. Hér er ekkert nema innblástur. Þið megið stela þessu með lýsandi beikonið, ég ætla að taka apaaugun.