„Peningalyktin mun gera þig háða – að peningasnáða“

Kópboi Herra Hnetusmjörs

Ég vil tala um orð og texta – merkingu, ætlaða eða ekki. Um tengingar sköpunar við samfélag. Byrjum á að nefna lexíu númer eitt: orð hafa mikið vald og þau eru gildishlaðin. Auðvitað eru einhverjir tónlistarmenn sem gefa frá sér tónlist sem þeir sérstaklega merkja sem pólitíska, á meðan aðrir vilja helst ekki heyra á orðið minnst né vera á nokkurn hátt tengdir því. Þeir eru bara leikmenn að skapa dót, fyrir sig og aðra til að leika með. En ég ætla að fullyrða hér að allt getur verið pólitískt. Sérstaklega ef það er á mjög opinberum vettvangi. Ég kýs allavega að líta aðeins dýpra í allt sem kemur mér fyrir sjónir og eyru, að hálfu til gamans og að hálfu því ég endaði í námi sem gerði það að verkum að ég er orðin svo skelfilega innstillt á gagnrýna hugsun að ég bara kann ekki orðið annað. Svo hér er ég, stelpan, aftur komin í skotgrafirnar að troðast með puttana í vinsælustu tónlistarstefnu landsins. Að rýna í eitthvað sem gefur sig út fyrir að vera bara dægrastytting og ekkert meira en það 1. Alla þessa hluti sem eru bara svo yndislega og hressilega rótgrónir í stefnu sem snýst mestmegnis um valdeflingu og upphafningu kapítalísks lífstíls. Ég í alvöru dái það. Í þetta sinn er ég hér til að pæla í nýjustu plötu þess sem vermir hásætið. Þess sem leyfir nýliðunum ekki að njóta sviðsljóssins nema í agnarstutta stund áður en hann snýr aftur fjórfalt sterkari til að staðfesta hver trónir á toppnum. Ég er auðvitað að fara að tala um Herra Hnetusmjör og nýju plötuna hans Kópboi.

Boi ó boi

Aha já ég veit, ég verð mögulega bæði leiðinleg og skemmtileg. Myndi samt halda að það væru einmitt allar umræðurnar og pælingarnar sem gerðu þetta allt svo miklu meira lifandi og áhugavert. Formið, tungumálið og túlkunin er lifandi eining sem samfélagið skapar í sameiningu. Margræðnin það sem gerir allan heiminn spennandi. Eða viljum við bara dansa og hætta pæla? Ég meina, Árni og restin af senunni gætu þá bara ort textana sína sem samansafn af tilviljanakenndum orðarunum sem smella mætti saman við frábærlega vel skapaðan takt sem lætur fólk vilja hækka í útvarpinu og skella laginu á repeat í ræktinni. En nei, þar liggur ekki allur galdurinn. Þetta vinnur nefninlega allt saman. Textinn og orðin – hvað er sagt, skiptir heilmiklu máli í því að skapa heild sem virkar fyrir hlustandann. Fyrir þessa tilteknu tónlistarstefnu skiptir flæðið einnig virkilega miklu máli en við vitum öll að Herra Hnetusmjör er virkilega fær á því sviði svo við skulum ekki bollaleggja um það frekar. Nokkrir fuglar tístu að mér að einhver nístandi umræða hefði skapast um fyrsta lag plötunnar stuttu eftir útgáfu. Það er eins konar inngöngu-lag og er tiltölulega stutt. Umræðan snerist að orðanotkun í tilgangi valdeflingar og niðurlægingar. Sem er svosem það sem allur leikurinn snýst í rauninni um – en greinilega þykir einhverjum nokkur stöðnun vera í tungumálanotkun, að rapparar og tónlistarfólk ættu kannski að vera í takt við breytta tíma. Þið vitið, þessa pólitísku rétthugsun sem leyfir manni ekki að gera neitt lengur. Nema bara sirka allt fyrir utan það að móðga og særa aðra. Línurnar umtöluðu innihalda sumsé orðin; faggar, hommar og kellingar.

Það er áhugavert að velta því aðeins fyrir sér betur hvernig orð virka og þá hvernig þau geta oft verið margræð. Merking og meining getur oft verið illskilgreind. Hver ákveður hvað orð þýða hverju sinni?

Orðið „faggi“ var upphaflega níðyrði yfir samkynhneigða karlmenn, en einhversstaðar í hinni flóknu menningarmeltinguhefur lýsingarorðskrípið „faggalegt“ fengið meininguna „asnalegt“ og þar af leiðandi gæti orðið “faggi” hafa umbreyst í það að merkja einungis einhvern sem telst vera asnalegur. En mikilvægt er að spyrja sig afhverju sú þróun hafi átt sér stað. Orðið „kellingar“ (kéllingar, kerlingar, kjellingar) sem annað dæmi er til að mynda oft notað í dag til að tala um karlkyns aumingja (áfram eitruð karlmennska). Þar afleiðandi ekki endilega beintengd konunni eða ákveðið níðyrði um konur almennt. Eldri konur voru líka kallaðar kerlingar hér á öldum áður og karlar voru þá karlar og var ekkert athugavert við það, en eins og flestir vita getur merking orða breyst í gegnum tíðina með menningarlegu tilliti. Þetta getur verið svolítið flókin samsuða sem erfitt getur verið að greina. Hvenær á hvaða merking við? Þannig gæti maður túlkað “bitches” í rapptextum, eins og til dæmis í texta HH í laginu Já ég veit: „bitches voru að followa mig- ég followa engar bitches tilbaka“, sem einungis einhverja lúsera. Tíkur er þá ekki endilega kynjað níðyrði heldur vísun í hóp af fólki sem hann staðsetur fyrir neðan sig. Hóp af fólki sem á sama tíma upphefja hann og setja á stall.  Ég meina, ég  persónulega þekki alveg nokkra karlmenn sem ég myndi mögulega kalla tussur eða tíkur við einhver tilefni. Þó má ekki alltaf fela sig á bak við afsökunina að allt sé opið til túlkunar, allir verða ávallt að svara fyrir orð sín og sýna skilning að það geta verið ólíkar móttökur við orðræðu. Það getur skipt máli úr hvaða átt orðin koma. Tungumálið er nefninlega svo lifandi en samt svo menningarþrungið og mótandi. Orð eru grunnur okkar að skilningi og skilgreiningu á heiminum. Eru þessar skilgreiningar kannski sífellt í endurmótun? Má hver sem er búa til skilgreiningu eftir hentugleika?

HH hefur auðvitað ekki útlistað sig sem pólitískan tónlistarmann svo orð frá honum geta bara verið notuð í flimtingum –  það þarf ekki alltaf að ofhugsa allt svona mikið. Eða hvað?. Tónlistarstefnan gerir líka út á það að ögra, vera með illmælgi og jafnvel rífast eða skapa deilur. Ljót orð um minnihlutahópa auðvitað auðveldasta leiðin til að upphefja eigið sjálf . Frekar ódýr leið samt ef maður spáir aðeins í því. Orðin aldrei ætluð minnihlutahópunum heldur einhverjum öðrum, stærri hópi eða jafnvel bara ætluð engum. Einungis merking í lausu lofti. Mörg orðanna í raun útrunnin og ekki lengur leyfileg í daglegu tali nema í svona rótgróinni stefnu sem fær allt fyrirgefið út á að „svona er þetta bara“.Orð hafa samt sem áður sögu og þessi fortíð skiptir máli í samfélaginu. (Hér má til gamans geta að orðið „boi“ eins og í „Kópboi“, hefur til að mynda ákveðna menningartengda sögu og margar aðrar tengingar og merkingar heldur en bara það að vera afbrigði af orðinu „boy“, margar hverjar eru mjög skyldar minnihlutahópum). Túlkanir geta auðvitað verið jafn mismunandi og við erum mörg og ég heyrði víst að tjáning þarf ekkert endilega alltaf að fela í sér einhverja dýpri merkingu. Þetta eru flest góðir strákar auðvitað svo afhverju erum við að stjaksetja þá fyrir það sem er bara augljóslega aldrei meint í neinni alvöru illu, þetta er allt bara hluti af sýningunni. Eða er það svo augljóst? Orðið „epalhommi“ var reyndar valið orð ársins 2017 svo greinilega er það frekar innstillt í menningu okkar að nota gildishlaðin orð sem bæði jaðarsetja og búa til staðalímyndir. Tölum um rest af plötu, það er víst búið að ræða þetta nóg.

Áður en ég byrja á því að fara þvert á það sem ég var að enda við að segja, og fer að kafa dýpra í þessa plötu sem geymir líklegast ekkert annað en skemmtileg og hress lög sem maður á bara að hlusta á, ekki pæla í, þá ætla ég að fara yfir formlegu atriðin. Að útlista hverjir standa á bak við plötuna – en það skiptir miklu máli. Herra Hnetusmjör sem ber einnig skírnarnafnið Árni Páll, hefur lengi verið í nánu samstarfi við taktasmiðinn Joe Frazier, öðru nafni Jóhann Karlsson, en sá félagsskapur hefur látið virkilega gott af sér leiða í gegnum tíðina og virðist ekkert bera á því að sú samvinna muni hætta í bráð. Enda engin ástæða til, þeir eru að skapa bókstaflegt gull saman. Kópboi er afrakstur þeirrar samvinnu. Joe Frazier rappar einnig með Herra Hnetusmjör í laginu Lítur allt út fyrir það og Friðrik Dór syngur með í laginu Labbilabb. Það eru ellefu lög á plötunni. Hópurinn KópboisEntertainment sem er iðulega bara skammstafað KBE í daglegu tali og tilkynningum stendur einnig á bak við tónlistarmennina tvo og útgáfu plötunnar. Platan kom út í desembermánuði síðastliðins árs.

Elskum seðla, allskonar bleðla

Þema plötunnar þykir mér frábært (í alvöru, engin kaldhæðni hér). Kópboi er meira og minna að öllu leyti óður til okkar samfélagslega drottins, þess sem fær okkur til að tifa, og sem kætir allra geð. Ég er auðvitað að tala um hið sívinsæla fyrirbæri sem kallast peningar. Meina, hver elskar ekki peninga? Ég elska þá. Vitiði hvað ég elska jafn mikið og peninga? Að hlusta á tónlist um peninga og þá um leið líða eins og ég sé samstundis valdameiri. Já mér finnst ég jafnvel heyra kling kling skella inn á bankareikninginn minn um leið og ég hlusta á samnefnt lag af plötunni.

Það er svona svipuð tilfinning eins og þegar ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta skipti og vissi þá að ég yrði rík í framtíðinni með atkvæðinu einu saman. Þetta þema er samt svo skemmtilegt að ég fyllist gleði og upplifi mig mjög valdsmannslega og sjálfsörugga á meðan ég hlusta. Það er að segja ef að ég, við hlustun, set mig í spor rapparans sem er að græða 400k allar helgar. Fyrrum uppáhaldslagið mitt – minn lífsins óður; Peningar úr hinni klassísku kvikmyndaperlu Tommi og Jenni mála bæinn rauðan hefur klárlega vikið fyrir um það bil öllum lögunum á þessari plötu. Undanskilið þar er fyrsta lagið, Giftur leiknum, ég sleppi því alveg. Það gerir ekki neitt fyrir mig né þessa plötu í heild. Bara kalt mat.

En aftur að því sem lætur okkur tifa: peningar, þeir eru jú síendurtekið þema í þessari tónlistarstefnu svo HH er svosem ekki einhver brautryðjandi í því. Brakandi búntin eru í raun svo sterkur þráður að jafnvel yngstu leikmenn eru byrjaðir að tala um að hætta í skóla til að græða peninginn. Já ekki bara græða pening heldur THE MONEY með greini enda er „peningurinn“ mikið og stórt fyrirbæri sem stjórnar öllu. Hann ræður goggunarröðinni. Þið vitið þessari sem enginn vill tala um að sé til staðar í íslensku samfélagi. Og við sem héldum að HH væri ekki pólitískur rappari! Þá undirstrikar hann einmitt hina mjög skýru stéttaskiptingu á Íslandi. Frábær samfélagsádeila!. Smellur líka svo fullkomlega vel inn í tímabilið, í húrrandi nýja góðærinu og svona.

Gengi – gengi –gengur vel

Það gengur auðvitað vel hjá HH útaf góðu gengi, sem getur auðvitað verið tvírætt. Eða hvað segir HH um peninginn? Jú, að hann eigi mikið af honum og þar með er hann efstur efstur í goggunarröðuninni-  á toppnum nánara tiltekið. Hann er vissulega á ákveðnum toppi. Einn vinsælasti tónlistarmaðurinn á Íslandi í dag; uppselt á alla tónleika, bókanir langt fram í tíma, – þessi tiltekna plata sat lengi á toppsæti landsins á tónlistarveitunni Spotify og flest lögin eru í endurtekinni spilun á helstu útvarpsstöðum. Hann er búinn að gera það vel og stendur sig vel í því sem hann gerir. Vert er að taka það fram að það er virkilega mikilvægt fyrir þessa stefnu að tónlistarmennirnir sem spýta frá sér rímum séu með virkilega stórt sjálfstraust og að þeir sýni það í lögunum sínum. Auk þess er þetta sífellda ris til frægðar og frama mjög endurtekin uppistaða í þessu öllu saman. Þessvegna ætla ég aldrei að fara neitt að gagnrýna það að HH leggi flest lög plötunnar undir upphafningu á sjálfi og lof um eigið ágæti og ríkidæmi. Það er einmitt það sem þetta snýst allt um og lætur okkur hlusta, annars gætum við bara gleymt þessu öllu saman og skellt bara Ruth Reginalds á fóninn sem syngur um hvernig við erum öll algjör furðuverk.

Reyndar, þegar ég hugsa um það þá gerir það lag nákvæmlega sama hlutinn fyrir mig og mörg lögin af þessari plötu gera. Grínaðist einhverntímann með það að lagið Ég er furðuverk léti mér líða þúsundfalt betur í verstu þynnku eftir slæma höfnun á B5 kvöldinu áður (hálft grín- hálft ekki). Lög á borð við 203 Stjórinn, Spurðu um mig, Ár eftir ár og Kling Kling, keyra mig í raun jafn mikið, ef ekki betur, í gang ef ég er eitthvað langt niðri. Sérstaklega þegar allir smálána reikningarnir hrannast inn. Hver elskar ekki upphafningu á sjálfi. Nei svona í alvöru. (Ég var líka alltaf valin síðust í íþróttum í æsku HH –  svo ég tengi.) Við erum að tala um að í hvert skipti sem þessi lög koma í útvarpinu hækka ég umsvifalaust í botn og syng fáranlega hallærislega með þeim, með áföstu aulaglotti og hvatningu í brjósti.

Pörupiltur trylltur enginn kórdrengur

Lagatextar geta haft ýmis áhrif á hlustandann. Oftast setur maður sig í spor „ljóðmælanda“ eða „sögumanns“ við lestur á skáldverki. Í þessu tilviki er það syngjandinn auðvitað eða sá sem rappar sem hlustandinn viljandi eða óviljandi „íklæðist“ við hlustun. Upphafning HH á sjálfum sér er því aldrei slæm í sjálfu sér, því þegar hann gerir það get ég orðið hluti af því um leið sem hlustandi. Takturinn og hljómur spila svo auðvitað líka sitt hlutverk í að skapa ákveðna stemmingu. Því eru taktfastur rytminn og valdsmannslegur hljómurinn einnig mikilvægar breytur. Takturinn á það til að breyta skapgerð hlustanda á örskoti en einnig  getur rappið með sínum valdeflandi skilaboðum látið hlustanda líða eins og hann sé með lífið á hreinu. Svona „hey ég er flottur karl sama hvaða ömurð hrynur á mig í dag“. Því oftar sem þú segir það við sjálfan þig því sannara verður það. Ekki satt? Erfitt þegar einhverjir hópar samfélagsins fá ekki að deila þessari líðan fullkomlega því að viss merkingarþrungin orð eru notuð kerfisbundið sem tól til að niðurlægja í krafti upphafningar. Það bara hljóta að vera til önnur orð og yrkingar sem gera sama galdur. Eða kannski eru einungis til níðyrði út frá orðum sem tengjast minnihlutahópum? Núna þegar ég hugsa það þá gæti það vel verið raunin. Sem eitt og sér er áhugavert í sjálfu sér. Hvað með að taka upp níðyrði um efri stéttir? Nei fjárinn, það myndi auðvitað ganga gegn upphafningunni sem er nauðsyn í þessu öllu saman. Þettasnýst aðallega um völd og auðæfi. Frekar erfitt að niðurlægja hópinn sem maður vill tilheyra.

Lögin á plötunni eru misgóð en öll frekar samtengd. Þau sem ég taldi upp hér á undan eru lögin sem peppa mig hvað mest og eru þar af leiðandi eigin mati sterkustu lög plötunnar.  Lagið Vinna getur verið mjög gott líka ef einhver er lítill í sér í heimi sívaxandi jafnræðis og vill líða eins og það að vera fyrirvinna einhvers sé toppurinn á ísjakanum. Platan er í grunninn þó ekki einungis um peninga, heldur einnig um það að vera sjálfsöruggur – að vera sama hvað öðrum finnst – að vinna markvisst að markmiðum sínum og um mikilvægi eigin sjálfsmyndar.  HH talar um að hafa byrjað á botninum og unnið sig upp vegna eigin ágætis og dugnaðar. Sem er allt jákvætt og stór hluti af aðdráttaraflinu. Tónlistarstefnan er náttúrulega í raun eign neðri stétta samfélagsins, lítilmagnans sem þráir að rísa upp.

En ætli það fari mögulega bara eftir viðhorfi hvers og eins, hvar hver hlustandi staðsetur sig í orðræðunni hvort að hann geti samsamað sig með lögunum eða ekki? Þetta er alveg pæling. Ríkjandi hefð orða í samfélaginu mögulega bara að rugla í ríminu?  En Herra Hnetusmjör notast við samtímalegar vísanir og oft og tíðum skrautlega orðanotkun sem ljá lögunum ferskleika. Þau eru aggressív, þau eru hröð og hrá. Kannski hafa þau enga dýpri merkingu, eiga bara að hljóma vel, vera töff og skemmta öðrum. Flestir munu að öllum líkindum hlusta á þau þannig, en sú staðreynd skiptir líka ákveðnu máli. Ég er kannski að fara í endalausa hringi með þetta, en það er bara því það er hægt að horfa á þetta frá tveimur sjónarhornum. Orð hafa vald en þau virðast einnig vera frjáls til túlkunar – og í því liggur mergur málsins.

Að lokum vil ég nefna að ef fólki finnst það vera hræsni þegar það sér mig keyra hraðbrautina með Kópboi í botni eða þegar þeir sjá mig standa kokhrausta í fremstu röð á næstu tónleikum þá vil ég ítreka að það er alveg hægt að meta eitthvað mikils og vera mjög gagnrýnin á það um leið. Í rauninni ættu allir hlutir að vera litnir gagnrýnisaugum og það hefur engin áhrif á lífsgæði. Og ef þú lesandi góður ert mögulega ennþá smá ringlaður um lokadóm og ekki viss hvort gagnrýnandi sé að fella kónginn, hylla hann eða í hrópandi þversögn við sjálfan sig? Ákveðið svekk, en ef þið viljið bara stjörnugjöf og innantóm orð á borð við „algjör negla“ eru þið að lesa vitlausa grein. Meina þarf þetta líka eitthvað að vera satt og rétt? Erum við ekki bara öll að hafa gaman af þessu?

   [ + ]

1. Ekki stressa of mikið elskan, þetta er bara leikur ekki hata leikmanninn