Hugmyndin að Gallerí Úthverfu var að maður gæti notið sýningana utan af götu vegna þess hvernig stór glugginn opnar allt sýningarrýmið fyrir vegfarendum. Það virkar síðan misvel, einsog allar góðar hugmyndir, en svínvirkar á sýningu rússnesku tvíburasystranna Mariu og Nataliu Petschatnikov „Learning to read Icelandic patterns …“ – að læra að lesa íslensk mynstur. Upplýst rýmið sem er veggfóðrað með útflöttum pappakössum sem búið er að mála á landslag 1, stóra andlitsmynd sem einsog fellur að landslaginu og sauðfé, og skreyta svo með minni verkum – svo minnir á skýringarmyndir með söguslóðakorti þar sem dregnar hafa verið fram ásjónur frægra kempa – nýtur sín mjög vel utan af gangstétt, ekki síst þegar það er myrkt og hljótt. En það nýtur sín jafnvel ennþá betur, eða öðlast í það minnsta aðra dýpt, þegar maður kemur inn. Pappakassahúðin á veggjunum (og gólfinu) verður í senn aðþrengjandi og alltumlykjandi, einsog maður sé kominn inn í ævintýraveröld, þar sé gott að vera en hún sé bæði heldur lítil og þröng og ekkert víst að maður rati nokkurn tíma út aftur.
Sýningunum í Gallerí Úthverfu má að jafnaði skipta í tvo hópa. Annars vegar eru það sýningar sem koma tilbúnar – hugmyndir í leit að einhverju rými, þar sem megi útfæra þær. Hins vegar eru það sýningar sem eru sérsamdar inn í Gallerí Úthverfu og taka þá oft mið af bæjarfélaginu Ísafirði, þar sem galleríið er staðsett, og umhverfi þess. Sýning tvíburanna fellur auðsjáanlega í seinni flokkinn 2. Listamennirnir dvöldu á Ísafirði í gestavinnustofum ArtsIceland um fjögurra vikna skeið og bygðu sýninguna á „fyrstu hughrifum og rannsóknarvinnu“, líkt og segir í sýningarskrá.
Oríent expressjónismi
Í sýningarskrá skrifa þær systur þá einnig:
Iceland from the first glance strikes us with its astonishing beauty. We feel like we’ve either landed on another planet or found ourselves inside a work of art. Our visual senses are stimulated to such a heightened degree, that we are starting to doubt the actual existence of this place and our presence in it, sometimes toying with an idea, that we’ve been pasted into the marvelous landscape by virtue of Photoshop …
Það er sagt að gests augað sé glöggt og má til sanns vegar færa. Gesturinn tekur eftir því sem heimamenn hafa vanist og mætir heiminum einsog barn fullt af furðu og dásömun. Heimamaðurinn svarar þessari dásömun með því að roðna og tafsa einhverjum hógværðarstunum upp úr sér og opnar kannski augun aðeins – skoðar þetta fjall aðeins betur, sér þennan fjörð upp á nýtt. Af einhverjum orsökum fer heimurinn svo að taka mið af því hvernig gestirnir sjá hann og verður jafnvel með tímanum líkari ímyndinni – spegluninni í gests auganu – en „raunveruleikanum“ (hvað svo sem hann er). Heimamenn fara gjarnan að haga sér einsog ætlast er til að þeir séu og treysta gamlar – jafnvel úreldar – hefðir í sessi ef gesturinn hefur fagnað þeim.
Í hinu fræga riti Orientalism eftir Edward Said er sett fram sú kenning að vesturlönd teikni jafnan upp mið-austurlönd og önnur svæði utan vesturlanda – hins „siðmenntaða heims“ – sem vanþróuð og í eilífri kyrrstöðu. Þetta gestasjónarhorn þykir patróníserandi, líka og kannski ekki síst þegar það er fullt furðu og dásömunar, og þeirri exótíseringu sem fylgir.
The Orient is watched, since its almost (but never quite) offensive behavior issues out of a reservoir of infinite peculiarity; the European, whose sensibility tours the Orient, is a watcher, never involved, always detached, always ready for new examples of what the Description de l’Egypte called “bizarre jouissance.” The Orient becomes a living tableau of queerness.
Edward Said – Orientalism bls. 103
Mín kenning er sú – svo ég stafi það nú bara ofan í ykkur – að í mörgum skilningi eigi þessi sýn og þessi lýsing við fleiri rými en bara austurlönd og sennilega alla upplifun af hinu exótíska (sem er aldrei exótískt fyrir þeim sem á heima í rýminu). Þegar einstaklingurinn fer út úr sínu hefðbundna umhverfi – t.d. út úr borginni, þessum borgum sem sífellt svipar meira og meira saman – á einhvern stað sem kemur honum á óvart tekur hann eðli málsins samkvæmt fyrst og mest eftir því sem er frábrugðið og það blæs upp í höfðinu á honum og tekur yfir allt annað. Fyrren varir eru allir Finnar orðnir fyllibyttur, allir Spánverjar æpandi af ástríðu, Vestfirðingar étandi selshreifa í morgunmat, allir Kínverjar hrækjandi og ropandi við matarborðið og Akureyringar geta aldrei farið framhjá sjoppu án þess að fá sér „kók í bauk“.
Í valdgreiningu er síðan kannski ágætt að hafa í huga að þótt maður (hin oríentalíska landsbyggð) sé undirskipaður norminu (hinni vesturlensku borg) þá er ekki þar með sagt að maður sé kominn lengst út á jaðarinn og sé fullkomlega bjargarlaus þolandi í grimmum heimi. Hírarkían er í þrepum – og landsbyggðin er sannarlega ekki í þriðja heiminum þótt hún virki sláandi á gests augun.
Lífið í Hörgshlíð
Myndin sem birtist manni í sýningu Mariu og Nataliu Petschatnikov magnar hið furðanlega og maður finnur sterkt fyrir því sem þær lýsa í sýningarskrá, að þær séu lentar á annarri plánetu og gagnteknar af fegurðinni. En svo er myndin á veggnum líka bara af Finnboga Jónssyni í Hörgshlíð – þessar kindur eru eins hversdagslegar og kindur geta orðið, við þessi fjöll höfum við vaknað alla ævi. Sýningin er speglun af okkur sem hérna búum, heiminum sem við tilheyrum og sem tilheyrir okkur, og það er alltaf pínu ofbeldisfullt að sjást, að portretterast, að láta lýsa sér og sjá, sem hlýtur alltaf að vera raunin, að maður er ekki nákvæmlega einsog maður hélt að maður væri, að minnsta kosti ekki í augum allra. Tilfinningunni mætti lýsa sem svipaðri þeirri að heyra rödd sína af upptöku í fyrsta sinn. Fyrstu viðbrögð eru alltaf að segja: „Nei, þetta er ekki ég, ég hljóma ekki svona.“ Og samt veit maður að þetta er maður sjálfur, maður heyrir það líka.
„Learning to read Icelandic patterns …“ er exótíserandi sýning og hún er ekki óproblematísk, sem slík (það er ekki endilega hlutverk listarinnar að vera óproblematísk, en látum það liggja á milli hluta). Hún er kraftmikil og hún er falleg og hún er unnin af virðingu við efniviðinn, sem lýsir sér kannski ekki síst í titlinum: Petschatnikov-tvíburarnir eru að læra, þær eru ekki að fullyrða, heldur að þreifa fyrir sér og sjá í „hógværri tilraun til að skilja þennan stað“ einsog þær orða það í sýningarskrá. En þótt tilraunin sé hógvær og lesturinn varkár, þá er sýningin stór, sterk og svipmikil.
1. | ↑ | Það er áhugavert að þetta er önnur „gestasýning“ ársins þar sem búið er að mála fjöll á veggina – sú fyrri var sýning Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur í vor. |
2. | ↑ | Þó skal tekið fram að listamennirnir hafa lýst yfir eindregnum vilja sínum til að þróa þessa sýningu áfram – og þá væntanlega sýna annars staðar. |