Keisarinn og heimspekingurinn (eða hræsnarinn?)

Um mildina

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins gaf út fyrir jól þýðingu á öðru lykilriti fornaldarheimspekinnar. Slíkar þýðingar eru alltaf tilefni til fagnaðar, en áður hafa auðvitað birst þýðingar á einhverjum stærstu ritum fjölmargra klassískra heimspekinga og hugsuða: Platon, Aristóteles, Þeófrastos, Cicero, Tacitus, o.fl. Þessar þýðingar, ásamt ítarlegum og vönduðum inngöngum sem setja verkið í samhengi fyrir nútímalesendur, er ómetanlegt framlag til íslenskra bókmennta og fræða. Það verður aldrei sagt of oft. Þýðingin sem hér er til umfjöllunar passar einnig vel inní þennan félagsskap – en um er að ræða eitt helsta rit eins mikilvægasta heimspekings rómverskrar heimspeki: Seneca. Að geta lesið Seneca loksins á íslensku, hvað þá eitt lykilrit hans og klassískrar heimspeki, er því mjög spennandi (Gegnir segir mér þó að Um hugarró og Um reiðina hafi verið þýdd sem lokaverkefni).

Lucius Anneus Seneca (c.a. 1 f.kr. – 65 e.kr.) er líklega áhrifamesti stóuspekingurinn ef allt er tekið með í reikninginn. Hugleiðingar Markúsar Árelíusar eru þó kannski meira lesnar af almennum lesendum í nútímanum. En Seneca hafði víðtæk áhrif sem ná allt til dagsins í dag, t.d. í nútíma akademískum rannsóknum í siðfræði og heimspeki tilfinninga. Það voru að stórum hluta rit hans og heimspeki sem lesin voru af hugsuðum Endurreisnarinnar, sem gerðu það að verkum að Seneca hafði mótandi áhrif á skilning evrópskra menntamanna á stóuspeki, eithvað sem hafði langvarandi áhrif. Fyrir utan heimspekina sjálfa höfðu rit hans einnig mikil áhrif á bókmenntirnar. Þar er hans helsti lærisveinn auðvitað Montaigne sem ásamt því að vitna statt og stöðugt í rit Seneca, mótaði rit sín og stíl eftir þeim með greinilegum hætti. Montaigne er almennt talinn vera sá sem fann upp bókmenntalegu esseyjuna, sem er svo sem ekki rangt, en ekki má gleyma gríðarlegum áhrifum Seneca sem náðu yfir bæði form og efni franska heimspekingsins.

Um mildina, sem Haukur Sigurðsson þýddi og Eyja Margrét Brynjarsdóttir ritstýrði, er þó rit sem stendur ekki aðeins uppúr meðal þeirra rita sem varðveittust eftir Seneca, heldur er það um margt einstakt í heimspekisögunni.

Til að skilja þessa sérstöðu förum við aðeins yfir ævi hans: Seneca fæddist inní yfirstéttarfjölskyldu, stundaði nám í heimspeki og ræðulist áður en hann settist á rómverska þingið og fór að vekja athygli fyrir einstaka ræðusnilld. Hann komst þó í hann krappann þegar Messalina, eiginkona hins nýkrýnda keisara Kládíusar, sakaði Seneca um að stunda framhjáhald með Júlíu Livillu, systir Kaligúla og Aggripínu. Hann rétt slapp undan dauðarefsingu og var sendur í útlegð til Korsíku þar sem hann dvaldi í átta ár. Hann komst þó aftur í náð keisarafjölskyldunnar fyrir tilstilli Agrippinu, sem hafði þá gifst Kládíusi, sem skipaði hann sem einkakennara sonar síns – framtíðarkeisarans Neró. Átti Seneca svo eftir að vera ráðgjafi Neró í valdatíð hans þar sem ýmislegt gekk á og endaði auðvitað með frægu sjálfsvígi hans eftir baktjaldamakk og samsæri sem hann tók að öllum líkindum engan þátt í.

Tónn ritsins er því nokkuð frábrugðinn þeim sem við eigum að venjast úr öðrum ritum Seneca, en þar er hann jafnan minna hátíðlegur. Þar sem hann er jú að ávarpa framtíðarkeisarann einkennist það af miklu lofi og hrósi – en Seneca virðist álíta sem svo að með því að tala um hinn unga keisara eins og hann sé nú þegar mikill og dyggðugur vitringur, þá muni hann tileinka sér þær dyggðir og haga sér eftir þeirri sjálfsmynd (svona svipuð hugsun og var á bakvið ákvörðun Nóbelsnefndarinnar um að veita Obama friðarverðlaunin kannski?). Það krefst auðvitað einnig þess að hann lítur framhjá ódæðunum sem hann hafði þá þegar framið.

Framan af virtist Seneca takast ágætlega upp, en hinn ungi Neró var efnilegur stóuspekingur og keisari snemma á lífsleiðinni. Síðar meir leiddist hann þó auðvitað út í geðveikina sem keisarar Rómaveldis einkenndust margir hverjir af, eins og frægt er. Spurningin sem hægt væri að spyrja væri þá kannski hvort Seneca brást sem kennari og klúðraði þessu einstaka tækifæri til að móta keisara sem væri jafnframt vitringur í anda stóuspekinnar?

Það myndi ég hins vegar telja ósanngjarnt. Hér kemur mér til hugar áhugaverð söguskýring Gore Vidal (sem skrifaði mikið um rómversku keisaranna), en hann vildi meina að geðveikin væri gjaldið sem þeir greiddu fyrir að ráða yfir öllum heiminum – eins og Rómaveldi gerði í þá daga. Líf keisaranna sýni okkur að slíkt vald sé ekkert sem menn geta borið. Því var Seneca dæmdur til að mistakast í þessu hlutverki sínu alveg frá byrjun.

Þær ráðleggingar sem Seneca reynir að miðla til hins unga keisara í ritinu eru þó auðvitað runnar undan rifjum stóuspekinnar. Sú stóuspeki sem Seneca og aðrir rómverskir fylgismenn hennar, einna helst Epiktetus og áðurnefndur Markús Árelíus, hefur þó nokkuð aðrar áherslur en sú stóuspeki sem á uppruna sinn í Grikklandi. Upphafsmaður hennar var Zenó og áhrifamesti fylgjandinn Chrysippus. Spratt sú stefna fram í byrjun sem gagnrýni á skóla hundingjanna annars vegar og Epikúrisma hins vegar. Í staðinn fyrir ánægju, lögðu stóuspekingarnir ofuráherslu á skynsemina sem leiðarvísi. Án þess að fara náið út í verufræði og frumspeki stóuspekinnar, sem er töluvert flókin, nægir að nefna að samkvæmt henni voru mikilvægustu þekkingarsviðin: rökfræði, náttúruspeki (eðlisfræði eins og við köllum hana í dag) og siðfræði ekki aðskilin fyrirbæri eins og nú á dögum. Þau héldust í hendur og byggðu sameiginlega upp hugmyndakerfið.

Rökfræðin, sem stóuspekingarnir gerðu merkar uppgötvanir í og áttu eftir að hafa mikil áhrif á heimspekisöguna, var notuð til að skilja heiminn og náttúruna, einna helst það sem þeir kölluðu náttúrulögmál. Heimurinn fyrir þeim var bæði skynsamur og guðdómlegur – en þetta er auðvitað löngu fyrir vísindalegu heimsmynd nútímans. Hið guðdómlega var að finna í náttúrunni, hlutverk skynseminnar var að uppgötva lögmál hennar svo hægt væri að lifa í samræmi við þau, með því að breyta rétt og skynsamlega og láta ástríðurnar ekki leiða sig í gönur. Hér þarf þó auðvitað að hafa í huga að Forn-grikkir áttu við nokkuð aðrar hugmyndir en við þegar þeir töluðu um Guð, náttúru og sérstaklega skynsemina (eða logos). Þetta er fyrir uppgang kristninnar og löngu fyrir „aftöfrun“ (e. disenchantment) náttúrunnar (sem Charles Taylor hefur greint hvað best í bókinni A Secular Age) og þá mekanísku heimsmynd sem á uppruna sinn í Descartes, Francis Bacon, Galileo, Newton o.fl.

Helstu stóuspekingar Rómverja, Seneca þ.á.m., gerðu hana þó að sínu. Einna helst með breyttum áherslum, en hann, Epiktetus og Markús Árelíus (ásamt Cicero) einblína fyrst og fremst að siðfræðinni og ræktun dyggðanna. Hér er það aristótelíska siðfræðin sem þeir vinna úr: hvað er hið góða líf og hvernig má nálgast það? Helsta framlag þeirra er áherslan á hugarró og ýmsar aðferðir til að beisla ástríðurnar og tilfinningarnar, láta skynsemina ráða för. Ólíkt Aristótelesi, sem taldi dyggðugan mann vera þann sem hefur slíka stjórn á ástríðunum að þær henta ávallt við hverjar aðstæður, líta stóuspekingarnir á þær sem óskynsamt fyrirbæri sem vitringur þeirra lætur engin áhrif hafa á sig. Skynsemin og ástríður (e. pathé) eru þannig ósamrýmanleg fyrirbæri að þeirra mati, og eru mörg rit Seneca leiðsögn í að skilja hverja ástríðu eða tilfinningu fyrir sig í þeim tilgangi að ráða niðurlögum þeirra – einna frægast reiði og sorg. Vitringur stóuspekinganna er því sá sem lætur engin utanaðkomandi öfl hafa nokkur áhrif á sig. Að þeirra mati var það mögulegt að vera dyggðugur og öðlast hamingju (e. eudaimoniu) þrátt fyrir allar félagslegar aðstæður og hlutskipti – eitthvað sem Aristóteles neitaði.

Eins og þýðandinn rekur einnig í innganginum, þá á rit Seneca margt líkt með kristinni siðfræði. Fyrstu kristnu hugsuðurnir gerðu mikið úr því að reyna að tengja rómversku stóuspekingana, Seneca einna helst, og helstu lærifeður kristninnar, Pál Postula sérstaklega. Það er þó ekki hægt að leggja Seneca að jöfnu við kristni vandræðalaust, en hann sker sig frá henni á a.m.k. einn lykilhátt í ritinu sem hér um ræðir: í mikilvægi fyrirgefningarinnar. Seneca talar um mikilvægi mildarinnar en telur fyrirgefningu eða náðun ekki vera skynsama breytni fyrir keisara. Hann kallar fyrirgefningu það „að leysa mann undan réttlátri refsingu“ og segir að „spakur maður“ gefi ekki eftir „refsingu sem hann ætti að beita“ (bls. 140). Þannig er fyrirgefningin óskynsöm athöfn á meðan að mildin „hefur einkum þá yfirburði að hún lýsir því yfir að þeir sem sleppt er áttu ekki skilið neina aðra meðferð. Hún er fullkomnari en náðun og heiðvirðari.“ (bls.141). Hér kemur munurinn á kristinni siðfræði bersýnilega í ljós.

Það er þó fleira við heimspeki Seneca sem er framandi fyrir nútímalesendur. Einna helst hversu ógagnrýninn hann er á bæði stöðu keisarans (eða „furstans“ eins og hann kallar hann einnig) og þræla. Hann taldi það í samræmi við náttúruna að keisarinn hafði óskorað vald til að drottna yfir alþýðunni, staðsettur á milli manna og Guða, og að þrælahald væri einhvers konar náttúrulegt hlutskipti (eins og Aristóteles reyndar). Honum til tekna má þó benda á að hann taldi húsbóndann eiga að fara vel með þræla sína og færði fyrir því ítarleg heimspekileg rök – eitthvað sem gerir hann töluvert prógressívan fyrir sinn tíma.

Spurningin sem vaknar þó, að vissu leyti óhjákvæmilega, er: hvernig eigum við að samrýma stóuspekinginn Seneca og þáttöku hans í brútal valdapólitík Rómarveldis? Líf hans virðist sjaldnast einkennast af þeim dyggðum sem hann talar fyrir í ritum sínum – þá kannski helst hvernig hann talar jákvætt um fátækt og telur hana engin áhrif hafa á dyggðir vitringsins þrátt fyrir að hafa sjálfur sankað að sér töluverðum auðæfum. Einnig hafa margir bent á að fræga sjálfsvíg hans samræmdist ekki hugsjóninni um vitringinn sem hann sjálfur predikaði – sú frásögn er þó komin frá Tacitus og ber að taka með einhverjum fyrirvara. Ljóst er þó að Seneca lifði sjaldnast samkvæmt eigin heimspeki og því hafa margir kallað hann hræsnara sem lítið mark er á takandi af þeim sökum. Spurningin hér er því hvort hræsni höfundarins hafi einhver áhrif á gildi verka hans? Er hún svo mikil og alvarleg að hún hefur neikvæð áhrif á lestrarupplifunina? Jafnvel svo mikið að ekki er hægt að taka rit hans alvarlega?

Hér verður hver að svara fyrir sig, en ég myndi svara því neitandi. Vissulega má gagnrýna Seneca fyrir persónulega misbresti og vankanta, jafnvel mikla hræsni á tíðum, en það að höfundurinn lifði ekki eftir eigin speki segir þó ekkert um réttmæti hennar sem slíkrar – hún er alveg jafn sönn (eða ósönn) hvort sem hún komi frá munni eða penna hræsnara eða einhvers með óflekkað siðferðilegt orðspor. Þess fyrir utan, ef líf og störf Seneca eru skilin á eilítið örlátari hátt, þá getur maður lesið hann sem heimspeking sem einmitt barðist við að samþætta heimspeki sína og tilvist – eitthvað sem honum tókst sjaldan en reyndi þó eftir fremsta megni. Með öðrum orðum, hann var „mannlegur, alltof mannlegur“ eins og Nietzsche myndi segja. Persónulega gerir slíkt heimspekinga eða rithöfunda meira spennandi frekar en minna – raunverulegur vitringur stóuspekinganna væri heldur óspennandi. Það geta ekki allir verið Sókrates eða Díógenes.

Þýðingin og útgáfan er öll eins og best verður á kosið, með ítarlegum inngangi og skýringum eins og lærdómsritin eru þekkt fyrir. Slíkt lykilrit fornaldarheimspekinnar á íslensku á eftir að verða ómetanlegt fyrir fræðimenn og nemendur hér eftir.

Og hvað svo sem fólki kann að finnast um gildi heimspeki hans og erindi hennar í dag, eða persónu hans og breyskleika eða hræsni, þá stendur samt sem áður eftir það allra mikilvægasta: að rit Seneca bjóða upp á einstaka og djúpa heimspekilega íhugun um allt milli himins og jarðar ásamt töluverðu fagurfræðilegu gildi. Slík rit eru ávallt gefandi að takast á við. Eitthvað sem er raunar bráðnauðsynlegt myndi ég segja.