Kaldakol, brot í lok bókar

Skyndilega heyrðist skært öskur á næsta borði. Kona í dumbrauðum samkvæmiskjól strunsaði út á svalir og fleiri tipluðu í humátt á eftir. Stuttu síðar kom svartklæddur þjónn hlaupandi með slökkvitæki og gerði sig líklegan til að sprauta froðu yfir borðið en hætti við þegar í ljós kom að sökudólgurinn var geitungur sem hafði drekkt sorgum sínum í rauðvínsglasi.

„Svo mikil harðindi út af einni flugu?“ hváði Doktor Björn glottuleitur á sinni stirðu íslensku.

„Þetta er hættulegasta dýr Íslands.“ ansaði Svanfríður.

„Nei, er það?“ hváði Þjóðverjinn, skyndilega áhugasamur. „Hvað með ísbirni?“ 

„Ísbirnir hafa ekki fasta búsetu á Íslandi,“ sagði Ragnar . „Þeir villast öðru hverju upp á landið norðanvert og valda þar usla.“

„Eins og þegar Davíð Bowie kom til Berlínar?“ hló Doktor Björn.

„Sveltur, snjóhvítur og kókaður,“ samsinnti Svanfríður. „Já, hárrétt ályktað hjá doktornum. Ísbirnir á Íslandi eru eins og David Bowie í Berlín.“ 

Dáni sem hafði haft hljótt um sig við borðið náði nú að fanga athygli Kötlu Ránar.

„Við Sigurbjörg Erla vorum að ræða áðan hvernig best væri að nýta allar þessar tómu byggingar í Reykjavík yfir vetrartímann, ef ferðamönnum fækkar á þeim árstíma. Sem þarf auðvitað ekkert endilega að vera.“

„Þannig að landið verður paradís fyrir moldríka túrista …“

„Já, yndislegt ekki satt? Ósnortið land fyrir rétt verð! Svo virkjum við allt sem hreyfist án þess að það sé eitthvert eilífðar nöldur í kringum það. Hlutverk okkar Íslendinga er jú líka að bæta heiminn með því að útvega eins mikla hreina orku og mögulegt er.“

„En orkar það ekki tvímælis?“

„Hvað áttu við?“

„Ósnert náttúra sem þó er virkjuð í botn?“

„Alls ekki. Túristar … Hefurðu séð pallana og reipin á þingvöllum? Túristar skoða bara það sem við setjum í bæklingana. Það er ekkert mál að stýra þessum skríl þótt einstaka bakpokaferðalangar þvælist hingað af og til og drepi sig í einhverri brekkunni uppi á afrétti. Við hættum auðvitað bara að senda út björgunarleiðangra og málið er dautt.“ 

Katla Rán kinkaði kolli og vissi allt í einu ekki hvernig hún átti að halda samtalinu áfram. Hún leit ofan í disk sem þjónn hafði smeygt á borðið, nánast án þess að hún tæki eftir því. Hreindýrakjöt með kúskúsi og ilmandi brúnni sósu, við hlið villibráðarinnar stóð háfætt ilmandi rauðvínsglas. Hún smakkaði varlega á kjötinu og fann hvernig það bráðnaði í munninum, síðan skolaði hún bragðinu niður með rándýru víninu. Fékk sér annan sopa og rámaði í barnæsku í krækiberjamó.

Ríkulegur fordrykkur hafði haft sitt að segja og þegar hún fékk þriðju áfyllingu af rauðvíni fór að svífa aðeins á hana. Hún bað um meira á diskinn, meiri sósu, meira vín – og hún var ekki ein um það. Nú var létt yfir fólki, búið að hækka í tónlistinni og ekkert virtist lengur ómögulegt. Kötlu sýndist dægurlagasöngvarinn Geir Ólafsson vera í hinum enda salarins að flytja slagara eftir Sínatra. Eða var þetta ekki hann? Varla var þetta eftirherma að herma eftir Geir að herma eftir Sínatra? Borðhaldið fór á enn meira flug. Fólk þurfti hálfpartinn að æpa til að heyra hvert í öðru. 

Kjötið bráðnaði í munninum og Katla horfði í kringum sig. Hún var komin hringinn; í stað ókeypis pylsu á planinu niðri á Granda var komið rándýrt hreindýrakjöt í Perlunni og hún ennþá inni í búri: Frú venjuleg. Hún myndi aldrei sleppa, mjúkmæltir náungar eins og Dáni og Doktor Björn sæju til þess.

Eitt augnablik langaði hana að hrækja hreindýratægjum yfir hvítdúkað borðið og öskra af öllum lífs og sálar kröftum að Kaldakol væri helvítis nær að leyfa Íslendingum að búa í eigin landi. Þjóðin hefði rétt til þess að njóta sinna auðlinda í sínu náttúrulega umhverfi – ekki á yfirgefnum flugvelli í skítugri stórborg. 

En þá kom áralöng reynsla hennar í almannatengslum að góðum notum. Hún gat haft hemil á tilfinningum sínum þegar á reyndi; fengið sér vatnssopa og andað djúpt. Hún vissi sem var að ef hún missti sig í óþarfa tilfinningasemi myndi Dáni bíða þess að hún lyki sér af og síðan kalla eftir þjóninum sem myndi fjarlægja kjöttægjurnar af dúknum í rólegheitum, án þess að þau hin við borðið tækju almennilega eftir því sem hefði gerst. Síðan myndi hann segja, lágmæltur og ofur rólega: „Hvaða rétt? Hvernig eignast þjóð rétt? Á ekki heimurinn allt saman? Hafa Íslendingar farið sérstaklega vel með sitt hingað til? Væri ekki nær að þeir sem væru vel að sér í viðskiptum sæju um málið og létu heiminn njóta góðs af? Íslendingar fengju nóg ofan í sig og á.“

Katla Rán leit um öxl og lyfti tómu rauðvínsglasi í átt að þjóni sem var ekki lengi að fylla á glasið, afsakandi sig á ensku. 

„Don‘t be sorry,“ svaraði hún.

Þetta var besta rauðvín sem hún hafði nokkurn tímann smakkað. Og svo kom eftirrétturinn: dýrindis tíramísú, lífrænn eplasnafs og kaffi. Það var farið að svífa verulega á Kötlu Rán. Hún mundi næst eftir sér á barnum þar sem henni tókst að slá Gunnar Stein út af laginu með því að hreyta í hann ónotum svo barþjónarnir litu flissandi upp úr snittunum. Síðan reikaði hún niður tröppurnar í átt að hitabeltissvæðinu á milli tankanna. Hún heyrði glaðlega djassaða tóna. Bassinn tiplaði létt á tánum í kringum léttan trommutakt, tvö blásturshljóðfæri kváðust á. Fyrst var stefið línulegt og endurtekið, síðan leystist það upp í fjörugra tempó og meiri óreiðu. 

Glæsilega klædd pör hölluðu sér upp að veggjunum með glös í hendi og fylgdust misdrukkin til augnanna með því sem fram fór. Flest voru dökkklædd og einbeitt í þeim ásetningi að leiða hvert annað hjá sér. Þetta var aðallega fólk á miðjum aldri og sum andlitin þekkti hún úr íslensku þjóðlífi og fjölmiðlum, sumt hafði hún átt bein samskipti við í lokuðum fundaherbergjum þar sem rædd voru markaðsmál. En þegar hún reyndi að ná augnsambandi við kunnugleg andlit var það til einskis, henni var mætt með tómlæti. 

Á planinu fyrir utan biðu dýru jepparnir og örlítið lengra í burtu þoturnar sem myndu bera þau flest út í heim; til Lúxemborgar, Sviss og Spánar – þessa sömu nótt. Þetta fólk var innsti kjarni Kaldakols, sigurvegararnir. Það skipti ekki máli að þau tóku henni fálega, hún var hluti af þeim. Hún sem til skamms tíma hafði verið textaskrifandi senditík á auglýsingastofu var orðin hluti af fámennri elítu. 

Katla Rán greip rauðvínsglas af bakka þjóns sem sveif framhjá henni. Enginn virti hana viðlits þegar hún sturtaði því upp í sig í einum sopa og reikaði út í bjarta sumarnóttina.