Guð býr í góðærinu, gorgeirnum og gortinu, þú mellu- og tíkarsonur

Um Kling Kling eftir Herra Hnetusmjör og Joe Frazier

Rapptónlist ku vera vinsælasta tónlistarformið á Íslandi þessa dagana. Tónlistarstefnan sú  sem á upphaf sitt á meðal blökkumanna á austurströnd Bandaríkjanna, nánar tiltekið í New York-borg hefir farið eins og eldur í sinu á Fróni síðustu ár. Hér verður þó saga rappsins á Íslandi ekki rakin heldur til gamans litið á einn texta þess listamanns sem kallar sig Herra Hnetusmjör og þykir einkar frambærilegur á sínu sviði og nýtur um þessar mundir afar mikllar lýðhylli. Hafi einhver áhuga á að lesa sér til um sögu íslenskrar rapptónlistar getur sú hinn sama gjört svo hér.

Nú má gera sér í hugarlund að yrkisefni rapptónlistarmanna séu af margvíslegum toga. Margir eru þeir rappararnir og mörg hljóta hugðarefnin að vera. Næsta víst er ort um allan andskotann. Eitt er það þó sem virðist oftar en ekki eiga upp á pallborðið og það er gorgeir, grobb, raup og stóryrði. Rapptónlistarfólkinu virðist og oft vera tamt að yrkja um hve frambærilegt það sé, hve mikið af peningum það eigi og að samferðafólk þeirra í rappheiminum eigi ekki roð í það. Einnig má slá því á föstu að samfarir eða samfaralöngun hafi löngum verið tilefni til að setja saman texta og bera kynferðistilburðir af margvíslegum toga oftlega á góma og grill í rapptextum. Í því samhengi er oftar en ekki derringur í rappmælanda (við setjum ekki samasemmerki á milli höfundar texta og rappmælanda) sem telur sig algerlega ómótstæðilegan á meðan hinir, þá líkast til aðrir rapparar, njóta engan veginn sömu hylli, allir fæðingarvegir þorna upp, allir limir lyppast niður og þar fram eftir götunum. Þessi heimur er einkar karllægur þótt einstaka kvenmaður bangi það sem hún vill.

Textinn sem fyrir valinu varð er við lagið „Kling, Kling“ og er að finna á hljómplötunni KÓP BOI frá árinu 2017. Umfjöllun um verkið er hér að finna. Textinn var fenginn hér. Á síðunni, þar sem textinn var fenginn, eru þrjár línur textans útskýrðar og er það vel. Engu að síður skal nú líta aðeins á téðan texta. Hér er ekki tekin afstaða til rappfærni tónlistarmannsins sem án vafa er stórkostleg og stórkarlaleg.

Tvær, þrjár, fjórar keðjur á mér, kling, kling, kling
Fimm, sex, sjö hringir á mér, bling, bling, bling
Tíu-, tuttugu-, þrjátíu þúsund á mér, ching, ching, ching
Keðjur skella á mér. Keðjur skella saman á mér. Kling. [x2]

Lagið hefst á viðlagi sem gefur til kynna að rappmælandi telji sig vel stæðan. Hann er og skrautgjarn og vill að fólk beini sjónum sínum að þeim skartgripum sem hann ber. Athyglisvert er að hann segist ekki hafa meira en þrjátíu þúsund á sér sem er nú til dags ekki svo mikill peningur nema þá hugsanlega fyrir ungmenni. Ísland er land þar sem hamborgari kostar sumstaðar um 5000 krónur og þá ekki með gullflögum og kókaín-ketchup. Rappmælandi er því líkast til glysgjarnt ungmenni sem þráir að fólk veiti sér eftirtekt og stærir sig af því sem þjóðfélögin snúast um, peninga og ríkidæmi og telur að það geri hann gildandi. Hann leitast við að gera sig gildandi en það er spurning hvort innistæða sé fyrir borginmennskunni. Viðlagið er endurtekið alloft sem ýtir undir það að með þeirri möntru vilji rappmælandi gera það lýðnum ljóst að hann sé fjárhagslega með allt á grænni grein.

Hefurðu haldið á hálfri milljón í gúmmíteygju?
Hefurðu hent hátt í hundrað þúsund í Gucci, drengur?
Sigl’út sex, þú veist ekki hvað það er
Þarft að Googla allt sem ég segi bara til að vera með
Ég sem og spila og spara og spreða, nota minn pening
Þú’rt meir’að eyða þessum: „Pabbi, pabbi, plíís pening”
Hark og metnaður, ég verð ekki stressaður
Ég er ofboðslega frægur. Komdu sæll og blessaður

Erindi þetta áréttar þann boðskap sem viðlagið hefir að geyma, meira af hinu sama. Nema hvað hér er fjármagnið meira sem rappmælandi á í handraðanum og svo agnúast hann út í þá sem eigi hafa þurft að hafa eins mikið fyrir hlutunum og hann sjálfur, pabbastrákar. Svo stærir sig rappmælandi hér sig aukinheldur af því að njóta mikillar lýðhylli með vísun í þekkt dægurlag Stuðmanna „Ofboðslega frægur“ af hljómplötunni Tvöfalda bítið.

[Chorus]
Tvær, þrjár, fjórar keðjur á mér, kling, kling, kling
Fimm, sex, sjö hringir á mér, bling, bling, bling
Tíu-, tuttugu-, þrjátíu þúsund á mér, ching, ching, ching
Keðjur skella á mér. Keðjur skella saman á mér. Kling. [x3]

[Verse 2]
Ég er með mitt, Binni með sitt
Allir að éta með kúffullan disk
Umkringdur jámönnum, málglöðum fávitum, allir að reyna að segja mér til
Þeir tal’ eins og þeir vilji beef, en segj’ ekki shit
Þegar ég mæti þeim, krúttlegt
Heldurð’ að ég gefi shit?
Þú og þitt lið
Aldeilis flottir á Twitter

Hér er spurning með Binna. Ekki var lagt í að finna út hver sá kauði kann að vera. Hugsanlega má útleggja fyrstu línuna með hver er sjálfum sér næstur eða við sláumum um okkur með þýsku og segum Jedem das Seine eða þá latínu suum cuique svona til að vera einnig með mannalæti í anda textans. Svo gæti auðvitað verið að Binni sé vinur rappmælanda og að Binni og rappmælandi éti af kúffullum diski. Hér er enn vísað til hagsældar þeirra, að ekki sé neitt skorið við nögl á þeim bænum. Við lestur næstu línu má spyrja sig hvort Binni sé jámaður eða málglaður fáviti? Það gildir svo sem einu. Það sem máli skiptir er að rappmælandi lætur engan segja sér til, enda er ljóst að engum yrði kápan úr klæðinu með það. Þeir sem hafa eitthvað út á hann að setja leggja niður skottið þegar hann mætir á svæðið. Hér mætti ímynda sér hund sem mænir upp á húsbónda sinn en illu heilli fyrir hundinn (þá sem mæta okkar skrautgjarna, peninga-maníska rappmælanda) þá stendur honum slétt á sama um hvaðeina sem þeir hafa til málanna að leggja. Hér er þó af textanum ekki alveg ljóst hver er ávarpaður í annarri persónu en líkast til er um einhverskonar hælbíta að ræða sem eru einvörðungu færir um að láta til sín taka á samskiptamiðlinum Twitter.

Keypti mér meira, fannst ég ekki hafa eytt nóg
Ég gæti keypt drasl bílinn þinn eftir eitt show
Tvö þúsund og fjórtán ég var gigg eftir gigg
Og enginn að hlust’ á þig
Segðu mér en er eitthvað breytt hoe?

Í þessu erindi gortar rappmælandi sig af ríkidæmi sínu og stærir sig af því að vera fær um að eyða (sennilega) fúlgum fjár. Sjálfhælnin heldur svo áfram á kostnað annarrar persónu (vonandi að sú persóna sé ekki hlustandi) sem hann vill meina að enginn hlusti á. Ekki er tekið fram hví svo er en líklega stafar það af því að persónan sú sé ekki jafn æðisgengin, hvort sem það stafar af eðlislægum þáttum (hinir hæfustu lifa af) eður vegna rappfærni viðkomandi. Undir lokin er viðmælandi móðgaður með orðinu hoe og er þar að öllum líkindum ekki átt við hlújarn. Líklegra verður að teljast að hoe sér hér notað í merkingunni léttúðardrós, mella, hórkerling/karl eða portkona.

[Chorus]
Tvær, þrjár, fjórar keðjur á mér, kling, kling, kling
Fimm, sex, sjö hringir á mér, bling, bling, bling
Tíu-, tuttugu-, þrjátíu þúsund á mér, ching, ching, ching
Keðjur skella á mér. Keðjur skella saman á mér. Kling. [x3]

[Hook]
(Keðjur skella saman á mér) Kling kling kling
(Keðjur skella saman á mér) Bling, bling, bling
(Keðjur skella saman á mér) Ching, ching, ching. [x3]

Það kemur nokkuð á óvart hve lítið er lagt upp úr rími í texta þessum. Rím finnst vissulega á nokkrum stöðum en meira er þó um hálfrím auk þess sem lítið virðist vera pælt í atkvæðafjölda. Yfir innihaldi texta svífur 2007 ++ yfir vötnum þar sem grætt er á kvöldin, grætt er á daginn, eytt er á kvöldin, eytt er á daginn og guð býr í góðærinu, gorgeirnum og gortinu, þú mellu- og tíkarsonur. Ber rappið með sér að almennt góðæri eða góðæri einvörðungu fyrir útvalda? Hvað segir okkur svona texti um samfélagið? Þeim spurningum verður ekki svarað hér.