Galdurinn að baki því hvað ég er ótrúlega afkastamikill 

Fólk spyr mig stundum hvernig ég fari að því að vera svona ótrúlega afkastamikill. Leyndarmálið er … nei, fólk spyr mig reyndar aldrei að þessu. Því miður. Mig dauðlangar að svara þessari spurningu. Og nú langar mig, vegna fjölda áskorana, að ljóstra upp galdrinum. 

Ég styðst við tvær meginreglur. Það fyrra er lögmálið um lágmarksfyrirhöfn. Ekki rembast. Ef þú færð til dæmis hugmynd að sögu, þá geturðu skrifað hana. Skrifaðu hana bara! Ég sé fyrir mér fallegt tré úti á engi. Tréð vex og dafnar bara með sínum náttúrulega hætti. Ekki reyna að þvinga fram lit laufblaðanna, lögun trjágreinanna, ilm blómkrónanna. Leyfðu þessu bara að spretta fram, áreynslulaust. Aaah.

Hin viðmiðunin er algjört samþykki mitt á því að öll hegðun mín endar á (skömmustulegum) flótta. Við gætum kallað þetta seinna lögmál flóttabölvunina. Nú, eða flóttablessunina, þar sem ég fagna þessari tilhneigingu minni. Sama hvað gerist, þá leitast ég alltaf við að flýja af hólmi. Ég ætla að reyna að útskýra þetta betur þó að ég geti það sjálfsagt ekki – og muni sjálfsagt strax byrja að gera eitthvað annað nú um leið og ég hef sett mér fyrir það verkefni að útskýra hvers vegna ég fer alltaf að gera eitthvað annað en það sem ég á að vera að gera. (Og hvers vegna það er að vissu leyti bara fínt.)

Grundvallarskilyrði er að vera alltaf með nokkur járn í eldinum. Ef ég ákveð til dæmis að vinna að morgni dags í nýju skáldsögunni minni, þá er mjög líklegt að ég geri allt til að forðast að vinna í nýju skáldsögunni minni. Til dæmis er líklegt að ég detti í rétta gírinn til að skrifa grein fyrir vefsíðu eða tímarit. En ef ég hins vegar, að morgni næsta dags, sest niður til að skrifa grein fyrir vefsíðu eða tímarit – meðan klukkan tifar og gálgafrestur skila nálgast – þá eru yfirgnæfandi líkur á því að ég snari fram tíu síðum í nýju skáldsöguna mína í einum grænum. Ég veit ekki af hverju ég hegða mér með þessum hætti, en svona er ég bara.

Segjum nú að ég hafi tekið af mér að þýða hundrað blaðsíður af íslenskum texta yfir á ensku fyrir íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Ég hef eina viku til að vinna verkið og nóg annað á dagskránni – barnauppeldi, ótal útréttingar í stórborgarskrímslinu New York (þar sem jafnvel minnsta útrétting tekur óratíma), önnur þýðinga- og skrifverkefni, vinafundi, eldamennsku, bleyjuþvotta, brauðbakstur – í slíkri viku er líklegt að ég snari fram (á stanslausum flótta undan þýðingaverkefninu) tuttugu ljóðum, yrki jafnvel sjö rímuð kvæði, setji niður fjórar smásögur, skrifi hundrað blaðsíður í nýju skáldsögunni minni og það á tveimur tungumálum (þar af öðru sem ég skil ekki) og byrji aftur að skokka, skrái mig í ræktina, geri plön um að hitta vini á hverju einasta kvöldi og taki að mér að leika undir á gítar í söngskemmtun og baka köku fyrir brúðkaupsveislu og sinni loks tímafreku sjálfboðaliðastarfi sem túlkur fyrir samtök sem hlúa að málefnum flóttafólks. Daginn fyrir skilin stóru hef ég því ekki þýtt stakt orð af textanum fyrir íslenska sjávarútvegsfyrirtækið og neyðist til að púrra upp í mér ofurmannlega krafta með einhvers konar vafasamri lyfjagjöf sem er á grensunni með að teljast lögleg og sitja svo yfir sjávarútvegsþýðingunni sleitulaust án hlés uns haninn galar og ég ýti vankaður á Senda og átti mig ekki einu sinni fyllilega á því yfir á hvaða tungumál nákvæmlega ég þýddi textann. Og þá tekur við önnur vika þar sem ég geri ekkert. Bókstaflega ekkert. Yrki ekki einu sinni ferskeytlu.

Vandinn við að vera svona gerður er augljós. Af nákvæmlega sömu ástæðu er rosalega erfitt fyrir mig að gera langtímaplön. Til dæmis er mér áþján að kaupa miða á djasstónleika sem fara eiga fram eftir sex vikur. Hvers vegna gerir fólk sér annað eins? Þegar stóri dagurinn rennur loks upp, þá er það síðasta sem ég vil gera að hlusta á einhverja helvítis djasstónleika! Ég vil miklu frekar lesa bók.

En ef ég á hinn bóginn hafna boði góðs vinar um að kíkja út með honum á áhugaverða djasstónleika, undir þeirri átyllu að ég hafi vísvitandi barist vikum saman fyrir því að skapa mér nokkurra klukkustunda næði að kvöldi dags til að lesa góða bók, þá naga ég mig í handarbökin yfir að missa af þessum frábæru djasstónleikum þegar ég kveiki loks á leslampanum og sest í ruggustólinn. Við mér gína heilar þrjár klukkustundir af gapandi eirðarleysi sem ég eyði líklega í að horfa á gömul viðtöl við bandaríska uppistandara á YouTube. Nú, eða hlusta á djass á Spotify.

Já, góðir hálsar, það er svona sem ég fer að því að vera svona ótrúlega afkastamikill. Þessa grein skrifaði ég þegar ég settist niður á kaffihúsi til að vinna í nýju skáldsögunni minni. (Ég á bara eftir að skrifa nokkrar blaðsíður af henni, kannski svona þrjár, eða sjö; en líklega skrifa ég þær ekki fyrr en ég stend í biðröðinni í matvörubúðinni seinna í kvöld.) Ég skrifaði þessa grein eins og tré sem vex til himins. Kannski gagnaðist lesturinn þér, kannski ekki. Hvað um það, svona hljómar hún, og það er svona sem ég fer að því að vera svona ótrúlega afkastamikill.