Feðrafúga

Feðurnir fara úr húsi fyrir allar aldir um aldir alda
Hafa varla sést í aldaraðir
ekki fyrr en þeir birtast aldurhnignir
– langt fyrir aldur fram

Grönvold Hafstein Hjaltested Norðfjörð Nordgulen
og hvað þeir nú heita
og lenda hinum megin við götuna
– á Grundinni góðu

Feðurnir stíga ölduna færandi varninginn heim
langt fyrir allar aldir og um aldir alda
sækja þeir sjóinn
– stíma eftir soðningu

Sumir koma í land stíga ölduna á mölinni
skjótast snöggir milli skrifstofa
í frakka og sígildum feðrabúningi
– heillum horfnir

Ólánsamir herrar bakvið gervið
hengdir upp á herðatré
í hrönnum
– sem hlýðinn flokkur

Þúfnagöngulagið arfur í beinan karllegg
galvaskur göngutakturinn
runninn þeim í merg og bein
– beint upp úr gjöfulli fósturjörðinni

Ósýnilegir feður fara þegar við sofum
koma þegar við erum sofnuð
og sofa þegar við vökum

Blessuð sé minning feðranna
– um aldir alda.