Með Tangerine fyrir tveimur árum fangaði Sean Baker athygli mína og gott betur. Með The Florida Project er hann orðinn einn áhugaverðasti leikstjóri sem ég veit um í dag. Einn af þeim sem ég fylgist náið með og bíð spenntur eftir næstu mynd frá. Myndin var tvímælalaust ein af þeim allra bestu sem komu út á síðasta ári og – þrátt fyrir að Willem Dafoe hafi fengið tilnefningu fyrir leik í aukahlutverki – er það sorglegt að myndin hafi ekki fengið meiri athygli á Óskarnum. Tilnefning sem besta mynd hefði auðvitað verið lágmark en mér finnst reyndar hún hafa átt miklu meira skilið að vinna en The Shape of Water. Þetta er þó svo sem mjög skiljanlegt í ljósi umfjöllunarefnisins og ég mun ræða neðar.
The Florida Project fjallar um mæðgurnar Halley (Bria Vinaite) og Moonee (Brooklynn Prince) og líf þeirra á ódýru móteli í Flórida, rétt fyrir utan Disneyland (þetta er víst alvöru mótel og myndin var tekin upp á meðan að það var opið – mikið af fólkinu í bakgrunninum eru alvöru gestir). Við fylgjumst með þeim yfir nokkra daga eða vikna tímabil, ásamt mótelstjóranum Bobby (Willem Dafoe) sem þau eiga í ýmsum samskiptum við – bæði góðum og slæmum. Það er svo sem lítið sem ekkert plott til staðar, og því ekki mikið meira um söguframvinduna að segja. Eins og fyrri mynd leikstjórans fjallar myndin um utangarðsfólk, fólk á botninum sem enginn kemur til hjálpar eða skiptir sér af og hvernig það reynir að spjara sig. Hér er þó fókusinn enn meira og fyrst og fremst á fátækt sem myndin fjallar um á frábærlega næman og áhrifaríkan hátt.
Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að Baker tekst ekki bara að forðast allan sentimentalisma og móraliseringu annars vegar heldur einnig alla rómantík hins vegar – eitthvað sem leikstjórar velflestra mynda um þetta umfjöllunarefni geta nánast aldrei stillt sig um a.m.k. að einhverju leyti. Þessi nálgun hans er mjög einstök og einkennandi. Þrátt fyrir að myndin fjalli um hrikalegar og sorglegar félagslegar aðstæður, og innihaldi hryllilega sláandi senur (vændisatriðið aðallega), einkennist myndin þó fyrst af fremst af ótrúlegum léttleika, húmor, jafnvel gleði. Þetta á einnig við um einstaklega fallega kvikmyndatökuna þar sem Disney stemmingin, skærir og bjartir litir sem leikstjórinn notar mikið, í bland við mikið sólskin stangast á við alvarlegt viðfangsefnið – misræmi sem vekur upp sérstök og áhugaverð áhrif. Baker neitar þannig að setja fátækt fram sem eintóma eymd og volæði á sama tíma og hann gerir á engan hátt lítið úr alvarleika og örvæntingu slíkra aðstæðna. Þvert á móti, hér er á ferðinni einhver frumlegasta og með mikilvægustu myndum um fátækt sem þessi gagnrýnandi hefur séð í nokkur ár.
Þessi næma nálgun á flókið viðfangsefni sést einna helst og er tjáð í gegnum ótrúlega margslungnar og djúpar persónur – eitthvað sem á einnig við fyrri mynd Baker og mætti jafnvel segja að sé eins konar vörumerki hans af þessum tveimur myndum að dæma. Hér eru engar hetjur eða skúrkar. Ekki eins og við eigum að venjast að minnsta kosti. Þær eru mannlegar á hátt sem maður tengir svo sterkt við og skilur að upplifunin af aðstæðunum sem þær standa frammi fyrir og þurfa að takast á við verður þeim mun átakanlegri og sorglegri. Það á auðvitað einna helst við Moonee sem lætur fátækt og bágbornar félagslegar aðstæður á engan hátt stoppa sig í að vera barn, með allri þeirri gleði og þeim ævintýrum sem því fylgir.
Myndin heppnast þó einnig og ekkert síður svona vel vegna leik aðalleikaranna sem eru ekkert annað en stórkostlegir allir þrír. Það er mjög sjaldgæft að sjá slíka frammistöðu hjá barni, en Brooklynn Prince er frábær og mjög eftirminnileg. Það sama á við um Bria Vinaite sem er athyglisvert afrek í ljósi þess að þetta er fyrsta hlutverk hennar og hafði hún engan bakgrunn eða reynslu í leiklist – Baker fann hana víst bara á Instagram. Hún hefur þrátt fyrir það gríðarlega sterka og sjarmerandi kvikmyndalega nærveru. Það er þó auðvitað Dafoe sem á myndina má segja. Hann er auðvitað goðsögn þegar kemur að því að leika einstaklega ógeðslegar persónur (nýlegt og frábært dæmi er hin vanmetna Dog Eat Dog eftir Paul Schrader frá 2016), þá reiðir hann hér fram frábæra en þó ósköp venjulega og þannig séð óspennandi persónu. Það sem gerir hana þó svo frábæra er þessi einstaklega mannlega og hversdagslega góðmennska sem Dafoe tjáir á mjög lúmskan og áhrifaríkan hátt. Maðurinn er hreinlega gjöf frá Guði.
Með þeirri persónu reiðir Baker einnig fram þónokkuð áhugaverða samfélagsgagnrýni. Því góðmennska hans, hvernig hann reynir eftir fremsta megni að koma til móts við aðstæður Helley og sérstaklega Moonee sem hann hefur augljóslega mikið dálæti á, er í beinni mótsögn við ábyrgð hans og hlutverk sem mótelstjórinn þar sem þær dvelja. Hann er jú að reka fyrirtæki ekki góðgerðastarfsemi. Þetta er auðvitað enginn frumlegur punktur sem afhjúpar einhvern dulinn sannleika. Öllum má þetta ljóst vera þó það vill gleymast áberandi og alvarlega oft. En hvernig Baker dregur fram að einföld góðmennska og náungakærleikur annars vegar og kapítalískt samfélag hins vegar útilokar hreinlega hvort annað meðal hinna lægst og verst settu gefur myndinni dýpri og áhugaverða vídd.
Það er þó ekki síst sögusviðið – ódýrt og vafasamt mótel þar sem fátækt utangarðsfólk býr en er beint við hliðina á frægasta og mesta fantasíustað á Jörðinni, Disneyland – sem er meistaraleg nálgun. Þessi kontrast, hvernig Baker stillir fantasíunni og raunveruleikanum svona upp hlið við hlið, hljómar kannski full augljóst og ófrumlegt ef maður hefur ekki séð myndina. En í meðförum Baker er það gert á listilegan hátt. Við sjáum t.d. ekkert inní Disneyland fyrr en í blálokin í gríðarlega áhrifaríkri og sorglegri senu (sem skotin var ólöglega á iPhone – það má auðvitað engin skyggnast inní hamingjuna án þess að borga fyrir það). Einnig er frábær sena þar sem túristar í brúðkaupsferð enda á mótelinu (sem heitir The Magic Kingdom og er fjólublátt og í Disney stíl) fyrir slysni. Nýbakaði eiginmaðurinn hafði bókað vitlaust og eiginkonan er auðvitað allt annað en sátt. Þetta er þó ekki einungis eitthvað sem við eigum að skilja sem svo að sé eitthvað sem gerist reglulega – það er ekki hægt að trúa öðru en að bisnessmódelið gangi að miklu leyti beinlínis út á slíkan misskilning í ljósi nafnsins og útlitsins.
Í ljósi þess hvernig The Florida Project setur fram stóráhugavert samspil milli fantasíu og raunveruleika á sama tíma og hún fjallar um alvarleg félagsleg málefni á gríðarlega áhrifaríkan hátt, hefði maður auðvitað mun frekar viljað sjá hana vinna Óskarinn en The Shape of Water – sem er jú pjúra fantasía. Með fullri virðingu fyrir þeirri mynd þó, hún var einnig frábær á sinn hátt. En það er leiðinlegt að Akademían hafi tekið slíkt feel-good efni fram yfir flóknari og í raun sósíalrealíska framsetningu á fátækt og aðstæðum hinna verst settu. Fátækar konur sem ná ekki að sigrast á aðstæðum sínum af hetjudáð heldur tapa öllu þrátt fyrir að hafa barist eins og hetjur og reynt allt til að bjarga sér og börnum sínum er greinilega eitthvað sem minni áhugi og stemming er fyrir. Ekki það að maður taki Óskarnum það alvarlega að maður telji hann hafa einhverja þýðingu fyrir gæði mynda. Þetta er bara synd að því leyti að The Florida Project er mikilvæg mynd sem á skilið mun meiri athygli, áhorf og umtal – eitthvað sem Óskarinn hefði getað hjálpað mikið með.
Myndir sem takast á við samfélagið og félagsleg vandamál á slíkan hátt – ekki einungis með tilliti til dýptar heldur fagurfræði ekkert síður – eru svo sannarlega ekki á hverju strái. Kannski full snemm og djörf yfirlýsing: en af þessum tveimur myndum að dæma stefnir Baker í að verða hinn ameríski Ken Loach. Hann er að mínu mati allavega kominn í flokk með honum ásamt öðrum breskum sósíalrealistum eins og Clio Barnard og Andrea Arnold. Ásamt hinum belgísku Dardenne bræðrum og öðrum.
Ég hef sagt þetta áður, einmitt í umfjöllun um suma af þessum leikstjórum, en það má alveg endurtaka það: við þurfum einfaldlega á svona kvikmyndum að halda í dag. Bæði með tilliti til stöðu kvikmyndalistarinnar og samfélagsþróunarinnar almennt.