Afsakið, gert hefur verið hlé á allri dagskrá af því að núna er núna

Um nýjustu plötu Jóa Pé og Króla

ATH. Þessa plötu er best að hlusta á í blússandi botni í bílnum á leið þinni frá fyrra sjálfi og gömlu tímabili. Með öðrum orðum, frá öllu því sem gefur þér ekki neitt lengur í framtíð né nútíð.

Það verður að segjast að listamennirnir Jói Pé og Króli eiga mikið lof skilið fyrir að vera fáranlega miklir dugnaðarforkar. Þvílík afkastasemi! Fyrir þá sem vita það ekki þá gáfu þeir út fyrstu plötuna sína í september árið 2017. Um sjö mánuðum síðar er komin glæný plata frá þeim á Spotify, og það er sko engin smáskífa. Væntingarnar voru auðvitað háar, enda skutust þeir gríðarlega hratt upp vinsældarlistann á Íslandi  og erfitt að hugsa ekki til þess að þeir muni einhverntímann brotlenda. Þeir hafa afsannað það strax með þessari plötu, en með henni sýna þeir að þeir hafa dýpri hliðar á sér og að það býr í þeim meira en einungis hæfileikinn til að spýta frá sér poppuðum smellum. 

Nýja platan, sem ber titilinn Afsakið hlé, er uppfull af alvarlegri rímum og dúnamjúkum tónum en þemu plötunnar eru sjálfsleit , sjálfsöryggi og ánægjan við það að lifa í augnablikinu. Lögin eru mannleg tilvist þjöppuð í formið en textarnir fjalla meðal annars um efahyggju, þráhyggju, tilvistarrétt, ungar ástir og núvitund. Línur á borð við „missti takið missti viljann missti núið“  grípa mann strax og fá mann til að hugsa hvort maður sé ekki alveg örugglega þakklátur fyrir þau spil sem maður hefur fengið gefin í lífinu. Það sem mér finnst þó mikilvægast að nefna við þessa plötu er að það eru engar bitches, engar tussur, ekkert dóp, ekkert fjólublátt sprite, engar konur sem viðfang. Af þeirri ástæðu sérstaklega, finnst mér platan einstaklega hressandi og flott.

Afsakið hlé kom út í heild sinni á Spotify þann 18. apríl síðastliðin og er hún unnin í samstarfi með þeim Þormóði Eiríkssyni og $tarra. Jói Pé og Króli fá síðan í lið með sér stór nöfn í bransanum (ætla ekki að segja stærri þar sem ungliðarnir eru farnir að verða stærri en forverar þeirra) en listamennirnir Emmsjé Gauti, Herra Hnetusmjör, Aron Can, Smjörvi og Helgi A. rappa með þeim í fjórum lögum af þeim fjórtán sem eru á plötunni. Þá er ég ekki að telja með tvo innganga og svo eftirkafla. Þessa plötu er því best að hlusta á línulega til að njóta til fullnustu. 

 Það eru þó nokkur lög sem standa upp úr á meðan önnur óumflýjanlega verða meira undir, en ég vil tala um þessi einstöku lög aðeins nánar. 

Í Átt að tunglinu er svona mjög hressandi og upplífgandi en samt sem áður melankólískt lag, en þessi undarlega samsetti hljómur, sem ég kann ekki að útskýra betur en svo, virðist einkenna plötuna. Lagið fjallar um metnað en einnig þá mikilvægu lexíu að muna að lifa í núinu og ekki dvelja í fortíðinni eða hafa of miklar áhyggjur af framtíðinni. Línan; „stefni lengst upp, í átt að tunglinu, höldum okkur samt bara í núinu“ er ein af mínum uppáhalds á plötunni og gefur hún manni bara yndislega tilfinningu um að allt sé gott. Þetta með að „sjarminn þinn hreinlega greip mig“ er líka svo dásamlega skemmtileg tilbreyting við endalaust tal um útlit. Áfram sjarminn. Þetta er sjarmerandi lag. 

Grunnar týpur fjallar eins og nafnið gefur til kynna um grunnar týpur í samfélaginu sem  „tala bara um dóp“ og bara við þessa línu er ég komin á lestina með allt sem þeir eru að gera með þessari plötu. Ádeila á kollega sína sem upphefja ákveðinn eitraðan lífstíl er hugrekki í sjálfu sér. Auðvitað er það hefð innan rappsins að niðurlægja aðra en það að þeir fara gegn annarri hefð  sem viðgengst í senunni með þessu lagi, og svo einnig í fleiri textabrotum sem er að finna á plötunni hlýtur að teljast mjög gott. Það hvort að listamenn eigi að vera góðar fyrirmyndir er reyndar allt önnur umræða en mitt persónulega mat er að þeir Jói Pé og Króli eru að gera flotta hluti og hafa góð áhrif. Það að þeir séu „krakkavænir“ er samt ekki eitthvað sem ég vil stimpla á þá (þó það sé ekki slæmur hlutur út af fyrir sig)  því þessi plata er mjög vel gerð og einkennir það hana sérstaklega að hún er full af þroska og alvarleika. 

Hringir seint fjallar um það að þekkja hverjir eru raunverulegir vinir manns. Eitt annað þema  í textunum sem mér finnst vera svo fallegt og einlægt. Lagið minnir mann einnig á það að  einstaklingar upplifa mörg tímabil í lífinu og að því beri að fagna því þegar maður finnur sig  á góðum stað. Fólk kemur og fer úr lífi manns og hafa áhrif á mann en svo lengi sem maður er sannur sjálfum sér, þá sigrar maður.

Stjörnur stingur aðeins í stúf við önnur lög á plötunni, líklegast útaf samstarfinu við Smjörva en það er einn listamaður sem ég væri til í að sjá gefa meira frá sér. Það er svolítið sami fílingur eins og hjá listamönnunum Kef Lavík og svo Vagina Boys. Þessi hráleiki og „ódýri“  elektró hljómur sem er svo skemmtilegur. 

Ég viðurkenni að þrátt fyrir að mér finnist þetta vel gerð plata og þá sérstaklega textarnir þá saknaði ég þess smá, samt bara stundum, að vera ekki með bombu-smell sem lætur mig vilja skyndilega dansa. Lögin Sjúkir í mig og Sósa bjarga samt konu í neyð að mestu leyti. Í fyrsta lagi ætla ég að þakka strákunum fyrir að textinn er „allir orðnir sjúkir í mig“ í staðinn fyrir að viðfangið séu konur og að „þær eru sjúkar í mig“ því já mér finnst þetta skipta máli. Línan „Kíkjum upp á sviðið við erum næstir, fimm mínútur og allir dansa í mosh pit“  er líka í uppáhaldi og ég sé bara fyrir mér reglulega hittinga áhugamanna um mosh-pit á B5 hverja helgi. 

Sósa að mínu mati er samt mesti stuð-smellurinn á plötunni og mér finnst þetta svo skemmtilega tilviljanakennt umfjöllunarefni að ég get ekki annað en brosað og hækkað í botn. Hvað sósa á að þýða er svo annað mál, kannski eitthvað í ætt við merkinguna á bak við „ost“ eða „cheese“ í öðrum hip-hop smellum. Peningar væntanlega aldrei langt undan í textum í hip-hop senunni. Svo reyndar virðist sósan fá meiri kynferðislega undirtóna í línunum hans Arons Can síðar í laginu (greinilega ekki alltaf 100% krakkavænir). Ég hef einstaklega gaman af þessu lagi en það er ekki djúpt á neinn hátt. Hin lögin á plötunni eru dýpri og segja meira en það er best þegar þetta blandast saman.  Stundum þarf maður bara að hlusta á einhverja algjöra steypu og dansa og hlæja. Ég gæti samt mögulega farið bollalengingar og tengt textann við að vera ákveðin ádeila á óeinlægni og á stöðuga ofurraunverulega markaðsetningu á sjálfi. Þar sem Jói Pé nefnir að þeir eru „ekki feik“ og að hann „þarf ekki pósu“. Svo ekki fara að segja að rapptextar séu alltaf bara einhverjar ódýrar rímur.

Ljóðið í lok plötunnar er í flutningi Króla og er sett sem einskonar svar við spurningunni um hvernig líf þeirra hefur breyst eftir frægðina. Það verður að segjast að þessi viðbót er virkilega áhugaverð. Rapptextar hafa auðvitað oft verið tengdir við ljóðformið þó skiptar skoðanir séu oft á því hvort tengingin eigi rétt á sér. Ég persónulega tel að rappið sé það ljóðform sem er hvað mest lifandi í samtímanum. Þar að auki lífgar það upp tungumál okkar, hið mikilvæga fyrirbæri menningar sem margir vilja halda stöðnuðu. Hægt er að rekja slíka samtvinnun á listformum til annarra listamanna svo ég get ekki sagt að þetta sé byltingarkennt. En ljóðið á Afsakið hlé er leitandi og  ákveðin samantekt eða úrvinnsla á tilfinningalegum rússíbana sem þeir hafa verið í. Það fjallar um það hversu hverfult lífið er og að ákvarðanir í dag geta haft áhrif á allt lífið sem er framundan. Hann endar ljóðið á þökkum. 

Þeir félagar hafa leitað meira inn á við í textasköpun sinni fyrir nýju plötuna og hafa náð að mynda einstaklega einlæga og fallega heild. Þeir mega vera ánægðir með þessa nýju plötu þeirra og klappa sjálfum sér vel á bakið fyrir dugnað  og atorkusemi en það er mikill metnaður sem býr í þeim tveim en platan  er strax orðin vinsæl í spilun samkvæmt tölfræði vinsældarlista Spotify. Tvær plötur á innan við ári, þessir strákar eru ekkert að grínast.