Þegar ég geng inn í litla salinn í Borgarleikhúsinu gleymi ég alltaf við hverju ég á að búast. Ég hef séð ótalmargar sýningar þar en í hvert sinn hefur litla rýminu verið umturnað svo algerlega og breytt í nýjan heim að ég verð alltaf jafn hissa.
Á Kartöfluætunum eftir Tyrfing Tyrfingsson fékk ég hins vegar líklega mesta salarsjokkið, ef svo má að orði komast, því ég gekk ekki inn í sal heldur inn í barnæsku mína. Sviðið er sett upp sem lítil íbúð, maður sér eldhús, klósett, borðstofu og stofu, svalahurð og stiga niður á næstu hæð. Það sem grípur mann alveg er þó ekki eingöngu hversu raunsæisleg íbúðin er heldur það að brún sviðsins er umkringd gripum sem einkenndu æsku mína og annarra. Ótal leikföng og almennt drasl sem ég man eftir frá tíunda áratugi síðustu aldar, og þeim fyrsta þessarar, renna saman í litríkan hrærigraut sem rýmar vel við annars látlausa íbúðina.
Á meðan við aldraður faðir minn biðum eftir að fólk týndist inn og sýningin hefðist gleymdum við okkur algerlega í að benda á allt dótið sem við þekktum og var til á æskuheimili mínu, og jafnvel hans, meðal annars hið fræga fótanuddtæki sem hann tjáði mér að hafi verið sous vide tæki síns tíma. Þá er maður strax kominn í nostalgíukast áður en sýningin byrjar og setur það áhorfendur nær atburðarrásinni að ég held, þessar kunnuglegu tengingar sem margir muna eftir. En tengingin skiptir afar miklu máli því persónurnar standa okkur og samtíma og samfélagi nærri og nokkuð sennilegt er að flestar fjölskyldur fari í einhverskonar hlutverkaleik, sambærilegan þeim sem við sjáum á sviðinu, og reyni að breiða yfir misalvarlegar misfellur fortíðarinnar.
Kartöflæturnar, sem dregur nafn sitt af samnefndu verki Van Gogh af bláfátækri fjölskyldu að snæðingi, fjallar einmitt á sinn hátt um ljótleikan innan hinnar fastmótuðu úthverfafegurðar. Munurinn er sá að úthverfi Van Gogh er ekki Kópavogur heldur hollensk sveit. Ekki er fjallað beint um málverkið í sýningunni en í leikskránni má finna stutta grein um tilurð þess og hvernig það tengist leikritinu, og tengingin er augljós ef áhorfandi hefur lesið leikskránna eða þekkir til verksins, þegar fjölskyldan á sviðinu styllir sér upp á sama hátt og persónurnar á málverkinu og snæðir kartöflur.
Leikskráin er listaverk í sjálfu sér, en í hana er mikið lagt. Þrátt fyrir umtalsverða þykkt er þó hvergi farið yfir söguþráð eða söguna á bak við verkið, en lesi áhorfandi hana fyrir sýningu færist þó að honum grunur um hvað koma skal.
Fyrstu textar leikskránnar eru tvö ljóð, annað þeirra Teikn tvö, sem fjallar um hversu ofurhægt veröldin molnar undir konu. Sem er áhugavert þar sem leikritið fjallar um fjölsyldu sem hefur verið að molna ofurhægt í gegnum árin en springur hreinlega á sviðinu í eins konar lokauppgjöri, og þá aðallega aðalkvenpersónan. Svo er texti eftir sálfræðing um meðvirknina og hvernig fjölskyldur frjósa í fyrndinni, áður en vikið er að áðurnefndri umfjöllun um Kartöfluætur Van Gogh.
Síðan mætir augunum strætókort af Kópavogi, og þar á eftir síða með einni uppskrift af lambi og þremur af kartöflum – þjóðarréttur íslendinga og kartöflur, sem eru alltaf þær sjálfar inn við beinið, klæddar í mismunandi búninga.
Ekkert af þessu er sett í samhengi við verkið í texta, en að verkinu loknu og við endurlit til leikskrár kemur þetta allt heim og saman. Einnig er leikskráin þakin glæsilegum myndum af sýningunni, sumum hverjum með textabrotum þekktra íslenskra dægurlaga við, og tvær þeirra með dramatískum tilvísunum í verkið sjálft. Bæði tilvísanirnar í verkið og áhrifaríkar myndirnar sem sýna miklar tilfinningasveiflur gefa áhorfanda til kynna að nú taki við dramatísk sýning.
Söguþráðurinn er í sjálfu sér einfaldur og framvinda atburða í keim við hið ameríska stofudrama, þar sem áhorfandi fylgist með persónum, sem virðast meðlimir ósköp venjulegrar fjölskyldu fyrst um sinn, afhjúpa syndir sínar og fjölskylduleyndarmál hægt og bítandi.
Persónur verksins eru fimm, og fyrst stígur á svið eigandi íbúðarinnar Lísa, leikin af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur. Hún lætur réttilega eins og hún sé heima hjá sér, vafrar um, hlustar á tónlist og gerir sig til fyrir stefnmót. Rómantísk plön hennar breytast þó þegar dóttir hennar, strætóbílstjórinn Brúna, leikin af Eddu Björg, birtist skyndilega og biður hana að passa táningsson sinn, Höskuld. Amma fellst á það með tilheyrandi kvarti um að hún fái aldrei að hitta strákinn, og ljóst er að samband mæðgnanna er styrt og lítið um samgang. Eftir að Brúna er komin og farin og Lísa og Höskuldur, snilldarlega leikinn af Gunnari Hrafni Kristjánssyni, hafa eytt smá stund saman, kemur babb í bátinn í formi fyrrum stjúpsonar Lísu, Mikaels. Mikael var, þegar ég sá sýninguna fyrir áramót, leikinn af Atla Rafni Sigurðarsyni, en óvíst er að hann haldi því hlutverki þegar sýningin kemur aftur á fjalirnar seinna á þessu ári.
Lísu bregður við komu Mikaels, enda enn minni samgangur milli þeirra en hennar og mæðginanna. Mikael er heldur ekki kominn í óvænt sunnudagskaffi heldur til að grátbiðja Lísu um að bjarga orðspori hans. Í ljós kemur að hann situr undir nauðgunarásökunum og -ákæru frá fyrrverandi kærustu sinni og þar sem faðir hennar er hátt settur laganna maður er nokkuð ljóst að Mikaels bíður fangelsisdómur og svipting ærunnar. Mikael játar brot sitt fúslega svo næsta skref ætti augljóslega að vera að fyrrverandi stjúpmóðir hans kasti honum á dyr. En Mikael hefur hönk upp í bakið á Lísu, því hún er ekki einöngu fálkaorðuhafi fyrir starf sitt sem hjúkrunarfræðingur á stríðshrjáðum svæðum, heldur hafði hún einnig ítrekað samræði við Mikael þegar hann var undir lögaldri og hún gift föður hans. Þar þykkist flækjan því Lísa getur ekki hent honum út og hunsað hann án þess að hann ljóstri upp um gjörðir hennar á hans hlut, svo Lísa ákveður að taka sér hlutverk sáttasemjara milli fórnarlambs sem hún þekkir ekki og fyrrum fórnarlambs hennar.
Þá er Kristínu, fyrrum kærustu Mikaels, boðið í heimsókn og áhorfandi sér að hún er ráðvilt og undir þrýsting frá föður sínum til að kæra Mikael. Hann er óneitanlega sekur en það er þó ekki skylda þolanda að kæra kynferðisbrot.
Mikael reynir allt sem fíkill og fórnarlamb að eigin mati myndi reyna, en á endanum eru tilraunir hans árangurslausar og hann stendur uppi með ekkert nema ákvörðunina um að enda líf sitt.
Undir lok verksins þegar öll sund eru öllum lokuð og allskyns lygar afhjúpaðar rífur Lísa vegg sem hafði lokað af barnaherbergi Brúnu eins og hún skildi við það, og afhjúpar ferðatöskur fullar af hári sem hún stal af fyrrum skjólstæðingum hennar frá því hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur í Kósóvó og fékk fálkaorðu fyrir. Að lokum situr fjölskyldan eftir hafandi kastað af sér öllum grímum og tilgerð, sambönd styrkjast og nýr og opinskárri kafli í lífi fjölskyldunnar virðist um það bil að hefjast.
Uppsetningu sviðsins hefur áður verið lýst, en persónur stíga á svið með þvi að banka á gegnsæjar svaladyrnar. Má líta á það sem táknrænt þar sem allt þetta fólk úr fortíðinni læðist í raun inn um huglægar bakdyr Lísu og trufla hennar tilveru. Þá má líta á íbúðina í heild sem ígildi Lísu, enda eru þær báðar rifnar niður í endan, önnur táknrænt og hin í raun, og í báðum tilfellum afhjúppar niðurbrot veggjar ruglið sem er falið sjónum.
Búningarnir eru raunsæislegir og látlausir. Mikael er í búningi flagarans og Lísa virðulegrar en kynþokkafullrar konu, en bæði fletta þau sig klæðum og klæðast á ný um leið og þau eru afhjúpuð sem lygarar, hræsnarar og breiksar manneskjur.
Höskuldur lítur svo út eins og hver annar unglingsdrengur, Brúna er klædd skrúða strætóbílstjóra og Kristín lítur út eins og hver einasta unga kona sem sést á B5 á síðkvöldum helga. Líkt og raunsæislegt sviðið eru búningarnir þannig raunsæið uppmálað, hvorki og lítið né mikið af neinu, en undirliggjandi merkingu má finna sé leitað.
Atli Rafn og Sigrún Edda eiga að mínu mati stærstan þátt í hvað sýningin er góð, og ná með túlkunum sínum á persónum að breiða yfir galla verksins, sem eru vissuleg til staðar án þess að vera yfirþyrmandi alvarlegir. Til að mynda fékk ég af og til kjánahroll yfir myndlíkingaríku málfari Lísu, þrátt fyrir að í heildina hljómi textinn sannfærandi, fyndinn og átakanlegur.
Hvernig Sigrún Edda leikur grímuna sem karakter hennar setur upp og tilfinningarnar laumast í gegn er með eindæmum áhrifaríkt. Strax frá upphafi fær áhorfandi að fylgjast með því hvernig hún púslar saman svipmynd af sjálfri sér sem hún vill að aðrir sjái en er ósamkvæm henni um leið. Hún afneitar því sem hún er að gera á meðan hún gerir það, segist til dæmis ekki drekka áfengi á meðan hún drekkur og klæðir sig í búning kynveru og úr honum aftur hægt og bítandi. Og er það lýsandi fyrir alla fjölskylduna, þar sem allir eru að þykjast, mismikið, og tekst misvel upp. Atli Rafn er svo ótrúlega sannfærandi í hlutverki meints kynferðisafbrotamanns sem sér enga sök hjá sjálfum sér, og spennan á milli persónu hans og konunnar sem braut á honum sem barni er rafmögnuð og ótrúleg. Atli Rafn nær að skapa samúð áhorfanda með Mikael, meðvirkni persónanna verður að meðvirkni áhorfenda, því Mikki á djöfla að draga og hendir jafnhliða djöflum í fólk í kringum sig til að dröslast með. Samúðin með honum sem fórnarlambi og andúð á honum sem geranda fullkomnar það samspil meðvirkni og vorkunnar, auk efasemda um hvað manni á að finnast, sem fanga samtímann. List höfundar, leikstjóra og leikara er að skapa saman persónu sem er ekki einhliða sjúkt skrímsli eða einhliða fórnarlamb og hetja heldur alvöru manneskja.
Ekki er farið alveg jafn mjúkum höndum um Lísu Sigrúnar Eddu því það góða sem hún lét af sér leiða í Kósóvó sem hjúkrunarfræðingur er notað sem vopn gegn henni til að afhjúpa hræsni hennar. Fálkaorðuhafinn sjálfur var eingöngu að hlúa að eigin brotnu sjálfsmynd og að flýja það sem hún braut heima fyrir. Í ofanálag stelur hún hári stúlkubarnanna í Kósavó sem eiga um sárt að binda í pervertískri tilraun til að nálgast dótturina sem hún yfirgaf. Það að hún steli hári er sérstaklega áhugavert, en löng hefð er fyrir því að vestrænt fólk steli hári fólks frá þriðja heims löndum sér til hagnaðar. Má líta á hárþjófnaðinn sem punktinn yfir i-ið á eymdarklámslegri ákvörðun Lísu til að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda í fjarlægum löndum sem aðferð til að upphefja sjálfa sig og flýja. En hver hefur ekki heyrt um túrisma vestræns fólk á munaðarleysingjahæli víða um heim þar sem þau finna sjálf sig og setja sætar myndir af sér á samfélagsmiðla til að uppskera aðdáun.
Einnig er áhugavert að Mikael gagnrýnir hana fyrir að stinga af en er sjálfur að plana svipaðan flótta – hann er sakaður um kynferðisofbeldi og ætlar að ná sér í pening og flýja til Thailands – eini munurinn er sá að hann þykist ekki ætla að fara þangað í góðgerðarskyni eða til að bæta sjálfan sig, hann ætlar bara að stinga af. Hreinskilni hans er ólík hegðun stjúpmóður hans, en er Mikael betri maður bara vegna þess að hann veit að hann brýtur af sér, því hann reynir aldrei að bæta fyrir brotin, hann játar bara og kastar um leið af sér sök?
Brúna, stjúpsystir Mikka vill flýja með honum, en augljóst er frá því að hann gengur inn hversu mikið hún lítur upp til hans. Einnig er löngun hennar til að kasta frá sér eiginkonu og syni og flýja land undarleg hræsni því hún hefur aldrei fyrirgefið sinni eigin móður fyrir að yfirgefa sig sjálfa sem barn.
Mikael er fljótur að spila inn á aðdáund systur sinnar og bregður sér í hlutverk töffara sem sýnir henni athygli eingöngu þegar hann finnur að á henni sé eitthvað að græða og ólíkt áhorfendum sér hún ekki í gegnum það. Hún er einnig eina persónan sem viðurkennir að vera óhamingjusöm og er fljót að hætta að setja upp feluleik í kringum óspennandi líf sitt.
Aðalgallinn á henni er að hún sú persóna sem er ekki leikin sem alvöru manneskja, í það minnsta ekki framan af, en frá því að hún stígur á svið fara áhorfendur að hlægja að fígúrukenndri framgöngu hennar. Spurningin er hvort persónan sé skrifuð svona, hvort grínleikonan Edda Björg geti ekki að því gert að leika fígúrúlega, eða hvort ábyrgðin liggi hjá áhorfendum, enda eru það nú einu sinni þeir sem hlægja. Í sjálfu sér er ekki stór glæpur að hafa „comic relief“ persónu í leikritum, þó ég persónulega þoli það aldrei, en gallinn á að nota einmitt þessa persónu sem ódýran brandara er að hún er eina persónan sem er hluti af minnihlutahóp. Hún er ekki einöngu í lægri samfélagslegri stöðu en hinar persónurnar sem stæróbílsstjóri, starfsstétt sem safmélagið ber litla virðingu fyrir og áhorfendur vita að þeir eiga að henda gaman að, heldur einnig lesbía. Ég hoppa sjálf ekki á þann vagn að finnast hún fyndin og henda gaman að henni fyrir kynhneigð sína eða starfsval, en allt í framsetningu persónunnar grátbiður áhorfendur um að hlægja að henni fremur en með henni.
Meintur transleiki sonar hennar er einnig gamanmál, allir eru vissir um að hann sé að ljúga til að fá athygli og sleppa frá heimanámi fremur en að tala frá sálu sinni. Meira að segja lesbískar mæður hans eru á einu máli um að þetta sé vitleysa og þegar Mikael gengur á svið dissar hann strax óhefðbundna kynvitund og hegðun barnsins. Sú eina persóna sem tekur vel í tjáningu hans er amma hans, og í samtali þeirra virðist nokkuð ljóst að Höskuldur er ekki að þykjast heldur vill hann prófa sig áfram með kyngervi. Kannski eru viðbrögð hinna persónnanna við kyngervi Höskulds raunsæ lýsing á hvernig fjölskylda gæti brugðist við slíku, en ég vona innilega að svo sé ekki. Og jafnvel þó svo væri er farið með málið á gamansaman hátt svo salurinn skellir upp úr. Þannig er bæði óhefðbundin tjáning kyngervis sem og samkynhneigð gamanmál á sviðinu, á meðan kynferðisbrotamenn fá meiri virðingu og samúð. Dæmi það svo hver sem vill.
Síðasti hængurinn á verkinu, að mínu mati, er að haldið er í þá gömlu góðu mýtu að ef karlmanni er nauðgað muni hann umsvifalaust snúa sér við og nauðga öðru fólki. Og þó vissulega sé skiljanlegt að Mikael eigi erfitt með mörk og persónuleg sambönd er ekki víst að við þurfum enn eina uppsetningu á karlkyns þolanda sem verður gerandi.
Persónan sem ég hef enn lítið talað um er unga konan sem Mikael braut á. Hún er föst á milli stjórnsemi pabba síns og þeirri kröfu hans um að kæra kynferðisbrotið, en jafnvel þó hún viti að brotið hafi verið á henni er ekki þar með sagt að hún sé tilbúin að kæra. Í henni er líka þessi togstreyta og tvívirkni eins og í Mikael og Lísu og það er held ég þessi stöðuga tvöfeldni sem lætur áhorfendur halla sér fram í sætinu, skilur hann eftir með spurningar og varpar ljósi á heilmikið af mannlegu eðli. Mikael er bæði fórnarlamb og gerandi, Lísa hetja og djöfull, Kristín tvöfalt fórnarlamb sem veit ekki hvaða herra hún á að þóknast, Brúna eiginkona og móðir en samt bara barn og Höskuldur á mörkum kynjanna. Sviðið sem umvefur þetta í anda ókennileika Freuds þar sem allt er kunnuglegt úr lífi áhorfenda en samt eitthvað svo rangt, ýtir svo undir og dregur fram þessar áherslur, og þrátt fyrir að ég geti gagnrýnt sumar áherslur sýningarinnar stendur það eftir og upp úr að hún er að mestu leiti frábær vegna þessarar glæsilega skrifuðu, uppsettu og leiknu mynd af raunsæislegu fólki.
Og svo ég minnist aftur á hið ameríska stofudrama, voru það verkin sem leikritið minnti mig helst á. Mörg íslensk verk eru gömul, eða ný en unnin upp úr eldri verkum, og merkilega mörg gerast í torfkofum eða nágrenni þeirra. Stofudrömu amerískra meistara 21. aldarinnar eru vissulega sammannleg og tilfinningarnar sem þau vekja eiga alltaf við. En það er frískandi að sjá verk sem er sett upp á svipaðan hátt og Death of a Salesman og Long Day’s Journey into Night í nútímalegum og íslenskum búningi, en hvað hefur reynst íslenskara í gegnum aldirnar en kartöfluát og að hanga á mörkum syfjaspella? Það er eitthvað spennandi og ferskt við að sjá minn eigin ljóta raunveruleika í búning þar sem allt kemur heim og saman, fólkið er fallegra og kemst betur að orði, sviðsmyndin hefur merkingu og allt endar vel um leið og það endar illa. Ég á reyndar enga stjúpbræður sem mamma mín getur riðið en þess utan passar sýningin vel inn í minn veruleika og vafalaust margra annara sem hana sáu.