Fimm fiskisögur

1. mærþallarkomplex 

Bernskan hefur brenglast, sagði verndarinn
og þar sem þreyta er sérstakur sjúkdómur
einkum ætlaður konum og álíka algengur kvilli
og mígren og almennur kvíði er rétt að þú hallist
að okkur um sinn, því ella verða ofskynjanir
aðeins til vandræða. já. hjá okkur er miðað
við aðstæður – hvers og eins. 

þarf ég þá ekki að taka mér skynjunarhlé, spurði ég. 

jú það getur orðið óhjákvæmilegt, því skilurðu
þú ert afskaplega ímyndunarveik. það er til dæmis
ekki hugsanlegur möguleiki að þjóðarbúskapurinn
hafi tekið sér bólfestu í þér sem einstaklingi.
ennþá óhugsanlegra að höfuð þitt sé útibú
frá hafrannsóknarstofnun ríkisins, eða eins og þú segir
ekkert nema fiskar sem vilja komast út.
fiskar lifa og hrærast annað hvort í sjó, nú eða þá
í ám eða vötnum.
jæja – ég át nú ósköpin öll af silung sem barn
skaut ég inní. 

já, það er eins og ég segi – bernskan hefur brenglast. 

en ég veiddi þá sjálf, hrópaði ég. 

einmitt! 

2. enginn 

það er enginn sem hverfur í fjöldann
það er bull
hér er ein sem er áttræð hún söng sjö ár í kór
og hún syngur enn klukkan átta að morgni
íslenskan slagara og önnur er illa farin og öldruð
henni er hjálpað í vinnuna og úr og ein sem er ung
segist löngu hætt að sjá
hvort vélin sem hún stjórnar er í gangi eða ekki
þegar komið er fram á kvöld þá sést enginn munur
þá sýnist gólfið á fullri ferð
og ein heitir dagfríður óblíð á manninn og það dugar henni
gegnum sjúkdóma og basl og ein er að austan og göldrótt
hún galdrar bónusinn upp hjá þeim sem eru á eftir
og þannig niður hjá hinum
þrjár eru vinkonur og byrja hérna saman og sjá
hvor um aðra og sig og hér er ein sem er ein
hún vill svo gjarna vera í skóla á kvöldin hún spyr
einn morgunn hvernig hægt sé að hætta að skrópa á kvöldin
ein talar mikið og segir að ég sé nú aldeilis heppin
að hafa lent við hennar borð!
ég læt mig ekki lenda þar aftur
þó hún segist vera skapgóð og vilji að ég læri
að snúa íslandi upp en ekki niður þegar ég pakka
ein er dönsk með stúdentspróf
og aðrar tvær með dönskublöðin með sér
ein er franskur hagfræðingur
hún borðar vínarbrauð með hníf og gafli og er heppin
að skilja ekki íslensku því hún er hér til að hugsa
svo er strákur frá filipseyjum með eitt auga og grisju
þar sem hitt var áður og honum finnst friðsælt
hérna
brýningarmaðurinn gengur með hvítt flagg í brýninu
til að veifa framan í fjöldann
eins og elvis segir hann
því hér er fjöldinn allur
og enginn sem hverfur í hann 

3. ekkert venjulegt 

Það er ekkert venjulegt
að hafa sig í vinnuna bara vegna þess
að maður hefur sig ekki í að sækja um annað
það er ekkert venjulegt hvað solla er handfljót
þó hún hafi byrjað hérna fjórtán
heldur ekkert venjulegt hvað ása er lengi
að vinna fyrir bílnum til að vera fljótari
í vinnuna og úr og það er ekkert venjulegt
hvað þær sem eru að byrja draga hinar, þessar vönu
með sér niður í bónus, segja þessar vönu
og það er ekkert venjulegt hvað þær tala mikið
um að fara í eitthvað annað en láta sig samt hafa það
að hafa sig hingað morgunn eftir morgunn ár eftir ár
og segjast ekki hafa sig í annað
það er ekkert venjulegt hve mikilvægt það er
að standa jafnt í báða fætur
annars kemur verkur – öðru hvoru
megin – í mjöðmina eða hrygginn og í hendina
af að skera, það leiðir upp í öxlina upp í hausinn
af að halda á hnífnum og samt er ekkert venjulegt
hvað það venst
af að hugsa um eitthvað annan en það sem þú ert að gera
annað en það sem þú heyrir og það sem þú sérð 

það er ekkert venjulegt að fá heilan búnka af göllum
einmitt þegar þú ert öll af vilja gerð
til að hækka bónusinn við borðið og það er ekkert venjulegt
hve mikið þarf að vanda sig þegar pakkað er á ameríkumarkað
miðað við þegar pakkað er fyrir rússa
og heldur ekkert venjulegt hvað fiskurinn getur elt þig
– og hljóðin – inn í svefninn
inn í draumana um nætur og allt sem þú vilt
hvorki heyra né sjá, það er það
sem þig dreymir um
þú hefur ekki annað 

það er ekkert venjulegt
hvað þetta venst 

4. jósi og fuglinn og stúlkan 

Það er bræla á miðunum og mest talað um
hvort jesús hafi nokkuð kunnað að fiska
það er bræla á miðunum og henni er illa við jósa
hann heldur því fram að á sjónum
sé pottþétt að komast niður á jörðina
ef ekki á sjónum þá hvergi
og hún er á sjónum og kemst ekki lengra
en upp í brú og aldan ræður ferðinni og bakkinn
og vissulega sér hún landslag á sjónum
það er brælan og jósa er illa við einhvern
hún veit ekki hvern og kemur ekki til mála
að hún baki nokkrar lummur
hér eru sjómenn á þriðja tug
og pannan hvolfist af sjálfu sér 

hún er annar matsveinn og fugl flýgur inn
tyllir sér á brauðrist og sjálfsagt með lús eða marflær
jósi vill að dollý éti fuglinn
hún er tík með eftirnafn nöfnu sinnar parton
og hún veit ekki af hverju
jósa er illa við fuglinn
það má aldrei drepa um borð
og henni er illa við jósa
stúlkunni og hann er sá sem var fyrstur til
að drífana upp úr sjóveiki og ræfilskap
farðu bara upp og fílaðu hvernig hann veltur
sagði jósi og honum er illa við hana
hún veit ekki af hverju og hrópar
jóhann! þegar hún ræsir
og aldrei jósi eftir þetta
… með fuglinn 

5. þetta með múkkann 

hafsjór af öldum
vagga mér í svefn og ég nýt þess þegar ég venst því
að vakna klukkan fimm að elda grautinn að ræsa vaktina
alla nema bátsmanninn sem ég alltaf gleymi
því dyrnar eru beint á móti mínum
ég nýt þess að sjá þá vakna tvo þarf að öskra á
annar öskrar á móti og hinn sofnar aftur
einn vill heyra tónlist þegar hann vaknar
og annar syngur sjálfur þrælfinir strákar víðsvegar að
austan og vestan og einhverjir úr klúbbnum
en varla með ör
eins og áður þegar allir voru svo merktir
lífsbaráttu sinni að maður varð bara hræddur að koma um borð
er mér sagt og þú verður að rífa kjaft annars ertu rekinn
segir einn þeirra yngstu og sígur munnvatn
gegnum tönn sem er löngu farin
og bróðir hans gerir eins því hann er yngri
einn er dálítið finlegur í framan og er að vinna sér inn fyrir bók
sem hann ætlar að skrifa og hann glatar blænum og nefinu næstum
einn kallar þetta hundalíf
samt er hann vélstjóri og ætlar ekki í annan túr
einn fær hann kassabrún á hvirfilinn og stýrimaðurinn vaknar
við að sauma hann saman og loftskeytamaðurinn les í lófa
og herðir fisk úti á dekki og yrkir af því loftskeytatækin
eru eiginlega sjálfvirk og þegar lítið fiskast
fer hann með frumsaminn bálk og einar ben. samt
slitna myndböndin í kapp við vírana sem slitna í kapp
við taugar skipstjórans og ég er að skilja þetta
þetta með múkkann
ef slorið lendir á einum
þá étann hinir. 

 

  • Upprunalega flutt í Rúv 1983 í þættinum „Þetta með múkkann“ –