Yfir eiturgrænan Diskóflóann

Prófessorinn og Ljóti kallinn stóðu lafmóðir á dansgólfinu og það var ljóst að þeir yrðu að semja um jafntefli á meðan þeir enn stóðu í lappirnar. Þeir tókust því í hendur. Prófessorinn viðurkenndi að Ljóti kallinn væri kannski hreint ekki svo ljótur eftir allt. Og Ljóti kallinn játaði að kannski væri ekki sérlega góð hugmynd að reka fansí tehús í ósamþykktu húsnæði sem er allt undir súð. Hann lofaði því að tryggja áframhaldandi rekstur fágunarskólans með því skilyrði að hann fengi sjálfur að kenna námskeið í nútímadiskói og splattermyndagerð. Og þá var í raun ekkert eftir nema að kveðja Diskóeyju. Daníel og Rut lofuðu prófessornum að skilnaði að vera eins skemmtileg og þau mögulega gætu þegar þau yrðu stór. Daníel sagðist ætla að verða ljóna- og kyrkislöngutemjari og Rut ætlaði að opna diskóísbúð. Um leið og þau væru búin með lögfræðina. Þau stigu inn í svifnökkvann og veifuðu Prófessornum og félögum hans að skilnaði. Síðan brunuðu þau áleiðis heim á leið yfir eiturgrænan Diskóflóann á meðan Sólkonungurinn kyrjaði angurværan kveðjusöng.

Úr Diskóeyjunni eftir Braga Valdimar Skúlason. Prófessorinn lék hæstvirtur Óttarr Proppé en Ljóta kallinn lék Bja.. nei ég meina Páll Óskar.