Veislan

Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið, tvær gildar opinberar stofnanir, hafa tekið höndum saman um dagskrá um verstu daga lífs míns. Þjóðleikhúsið sviðsetur leikrit, um leið og Ríkisútvarpið tilkynnir þriggja þátta röð í samstarfi við leikhúsið, upp úr bók sem var skrifuð eftir bloggfærslum sem ég lét frá mér fyrir nokkrum árum. Höfundur bókarinnar færði til orð og orð og fyllti á milli með þunnum getgátum. Þetta þunnildi var á sínum tíma auðvelt að hunsa. Samstillt dagskrá tveggja ríkisstofnana er hins vegar nokkuð vel í lagt. Fyrr má dauðrota en dúka borðið.

Höfundur, leikhúsfólk og fjölmiðlar vanda sig við að nefna mig ekki á nafn í þessu samhengi. Fyrir því eru sjálfsagt lagalegar ástæður, ásamt öðru. Úr hefur orðið þetta fyrirtaks blackmail: ef ég hreyfi mótbárum endurnýja ég hugrenningatengsl milli nafns míns og hneisunnar. Ber sjálfan mig brigslum. Leikhúsið sleppur þá ekki bara stikkfrí heldur hagnast, auðvitað, verði leikritið umdeilt. Ef ég þegi, aftur á móti, heldur þetta bara áfram – eftir leikritið má selja kvikmyndaréttinn, hvers vegna ekki …

Viðfangsefni bókarinnar, leikritsins og útvarpsdagskrárinnar er uppgjör við þjáningar sem ég olli annarri manneskju. Uppgjörið var ekki sársaukalaust. Hvað mig varðar kom þar víst vel á vondan. Fleiri en ég urðu þó fyrir tjóni.

Vegna þessara raunverulegu atburða getur leikhúsið látið eins og ódýrasta melódramað í bænum sé relevant, að getgátur í búningi skáldskapar séu ekki hnýsni heldur eigi erindi.

Ég geri ekki ráð fyrir samúð syndlausra. Þeir fussumsveia að vild. Ég þarf ekki heldur samúð hinna en geri ráð fyrir skilningi, að vissu marki. Margir hafa auðvitað reynslu af slúðri. Ódýrar getgátur um skammarlegustu stundir fólks verða öðrum iðulega tilefni til að smjatta um hríð. En svona lengi, svona hátt og svona opinberlega – að slaðrið sé kostað af almannafé, brjótist fram í sviðsetningu í Þjóðleikhúsinu og þáttaröð í Ríkisútvarpinu, það er beinlínis efni í martraðir, maður myndi vakna upp með andfælum.

Svo ég vek mig.

Frábær ný bók frá höfundi sem semur verkin sín minnti mig á að til eru úrræði fyrir fólk sem nýtur ekki verndar laganna gegn yfirgangi. Bölvun. Bölvun vofir yfir þeim sem fyrir henni verða þar til hún tæmist í hörmungum þeirra. Því rammari sem bölvunin er því meiri skaða þarf til að létta henni. Sjálfur er ég hvorki þjálfaður í göldrum né beinlínis trúaður á þá en mér skilst að leikhúsfólk sé hjátrúarfullt, sem ætti að duga. Ég var búinn að semja uppkast að bölvuninni – að móti hverjum þeim sem kemur að þessari uppsetningu Þjóðleikhússins, hverjum sem tekur þátt í henni, leggur henni lið eða sér hana, mættu allir vindar lífsins blása, hið innra og hið ytra, dagar þeirra verða myrkir, og næturnar svefnlausar, vín þeirra súr, vatn þeirra mengað saurgerlum, hægðir harðar, ælupestir tíðar og ástir beiskar, megi þau stama á sviði, skrifaði ég, hrasa, svitna, stara og gleyma, og megi tilveran afhjúpast þeim sem ástríðulaus auðn – en mér finnst þetta óþarflega tiltekið. Hvernig bölvunin birtist, því hljóta að ráða þær vættir sem ég kalla til. Ég hlýt að treysta þeim, hugsaði ég, og hef þetta einfalt:

Ég kalla til vættir landsins og tröll og álfa og aðrar forynjur, komi þær sem koma vilja, og með fulltingi þeirra fjórtán ára bölvun yfir leikritið og alla sem að því standa, að meðtöldu leikhúsinu og stjórnendum þess, því rammari sem sýningunni farnast betur í miðasölu.

Leikhúsið hefur þar með rúman sólarhring til stefnu að ákveða hvort af sýningu verður, og þátttakendur hvort þeir leika með. Bölvunin drjúgan tíma til að koma sínu fram. Mér sýnist það ekki nema sanngjarnt.

Telji einhver mér skjátlast um þetta sem blasir þó allt við, vitið þið hvar þið náið í mig. Því þið vitið hvað ég heiti.