Gísli Friðrik Ágústsson tók myndina

úr Hinni svörtu útsendingu

EINURÐ

Þegar þú stígur út um dyrnar og á efstu tröppuna missirðu andann og þú hrekst aftur inn. Þú stígur aftur út og sagan endurtekur sig. Þú reynir nokkrum sinnum til viðbótar en kemst aldrei lengra út en í þriðju tröppu að ofan og ert í kjölfarið úrvinda. Þú hvílist um hríð á forstofugólfinu og færð þar þá hugmynd að klifra út um eldhúsgluggann. Þegar þú hefur smeygt hægri fæti út yfir gluggasylluna missirðu andann og hendir þér snarlega inn á eldhúsgólfið. Þú prufar að setjast upp í gluggann með fótleggina kreppta upp við búkinn og stinga þeim svo samtímis út en það fer á sama veg. Og í þetta skiptið brýturðu kaffivélina í bægslaganginum. Reiðist þá og hendir litla útvarpinu viljandi í gólfið en það lætur engan bilbug á sér finna og útvarpsmaður híar á þig. Þú strunsar aftur fram í forstofu og rífur upp útidyrahurðina. Klæðir þig í regnkápu, setur hettuna upp og dregur reimarnar þétt saman um andlitið. Stígur nokkur skref til baka og setur þig í stellingar. Hendist svo af stað og stekkur út og upp úr dyragættinni. Svífur giska þrjá metra uns þú snarstoppar í loftinu. Hringsnýst og engist um og nærð ekki andanum. Kafnar þar, yfir gangstéttinni miðri. Hefðir betur gefist upp. Hellt þér upp á kaffi. Hlustað á útvarp.

HUNDSLAPPADRÍFA Í VESTURBÆNUM

Þarna fyrir utan gluggann stikar kona eftir hráblautri gangstéttinni eins og hún þekki ekki sumarið. Og hvað veit ég, kannski er sú raunin.

ÖRSAGA AF GALEIÐUNNI

Barinn.

BEININ

Þau fylltu íbúðina af kindabeinum sem þau fengu fyrir slikk í sláturhúsinu. Fyrirkomulagið var ólöglegt en enginn bar skaða af, en einn kjötskurðarmaður drýgði tekjurnar dálítið. Beinin hreinsuðu þau vandlega úti í bílskúr og suðu í iðnaðarpotti sem þau höfðu keypt á uppboði hjá sýslumanni. Bæði unnu þau fulla vinnu, hann var skólaliði en hún rak bensínstöðina, en í raun snérist líf þeirra fullkomlega um kindabeinin. Það má segja að þau hafi fengið köllun. Vissu þó ekki hvaðan. Hvorugt var úr sveit. Hvorugt var grænmetisæta. Þau vissu það eitt að þau yrðu að fylla íbúðina af kindabeinum. Að þau höfðu ekkert val. Smám saman urðu þau að losa sig við flest húsgögn. Skenkinn í stofunni, borðstofuborðið, sófann, ameríska rúmið, skápinn fyrir yfirhafnirnar í forstofunni, standlampann í holinu og svo framvegis. Allsstaðar voru kindabein. Stæðurnar náðu frá gólfi upp í loft. Gangleiðir um íbúðina voru varla nema þröngir kindastígar. Stofan fylltist algerlega svo þangað varð ekki komist. Þegar þau höfðu fyllt íbúðina svoleiðis að aðeins var hægt að skáskjóta sér frá útidyrunum að klósettinu annars vegar og litlu dýnunni í horni svefnherbergisins hins vegar leigðu þau pláss í skemmu í útjaðri bæjarins. Tóku til við að fylla það af beinum. Af því að þau urðu.