Tíminn drepinn

Hugleiðingar um bóksöluhrun, fantasíur, glæpasögur og fagurbókmenntir

Átök eru í aðsigi. Eða hvað?

Undanfarnar vikur hef ég lesið hálfkveðnar vísur eftir íslenska rithöfunda og annað bókmenntafólk um hvað valdi hinu svokallaða hruni í bóksölu á Íslandi eftir að því var flaggað að hún hefur dregist saman um þriðjung. Höfundar úr ólíkum kreðsum hafa hnýtt hver í annan og gert tilraun til að etja fagurbókmenntum og tegundabókmenntum saman, tala um elítur og snobb, glæpi og lík, og gefið í skyn að ein ástæða bóksöluvandans sé sú hvers konar bókmenntir eru gefnar út.

Hér ætla ég mér ekki beint að andmæla neinum þeirra sérstaklega nema með því að segja: Þetta er ekki svona svart og hvítt og það þjónar engum tilgangi að stilla bókmenntategundum upp við vegg og búast þannig við svörum eða lausnum.

Staða íslenskra bókmennta er mótsagnakennd. Ef við sýnum ekki samstöðu steypum við okkur í glötun. Ef við tökumst ekki á og ræðum bókmenntir fullum hálsi steypum við okkur í glötun. Hvað er til ráða? Margir horfa til unga fólksins. Er rétt að benda á það og segja: „Þið lesið ekki! Hangið bara í tækjunum ykkar! Hérna, komiði, lestrarátak! Komaso! Þetta er kúl!“?

Þeim finnst það örugglega ekkert kúl.

Hvað með fullorðna fólkið? Ef það hefur ekki efni á að kaupa bækur, hefur ekki tíma til að lesa eða vill það ekki, munu þá börnin þeirra lesa?

Ástæðan fyrir því að ég tjái mig eftir áralanga fjarveru frá greinaskrifum, eftir að hafa talið skáldsagnaskrifin nægja, er sú að íslenskar fantasíur, vísindaskáldsögur, hrollvekjur o.fl., sem ganga nú undir samheitinu furðusögur, hafa loksins fest sig í sessi á Íslandi og því óumflýjanlega blandast inn í átakaumræðuna; þær flokkast undir það sem fólk vill kalla greina- eða tegundabókmenntir til aðgreiningar frá „fagurbókmenntum“ (e. literary fiction). Því finnst mér tímabært að ég geri tilraun til að sporna við frekari fordómum gagnvart furðusögunum og opni stærri gátt inn í heim Furðunnar. Einnig ræði ég um glæpasögur og enda á því að ræða aðeins um lestrar- og bóksöluvandann.

Fjölbreytni Furðunnar

The Fantastic, sem útleggst hér á íslensku sem Furðan, er einkenni allra tegunda furðusagna. Hún er hinn fantasíski grundvöllur textans og viðtakna hans en ekki viðbót eins og í til dæmis töfraraunsæi. Lesandinn gengst við Furðunni frá fyrstu síðu.

Í Furðunni varðveitist að mörgu leyti sögumannseðli okkar. Að segja sögur og láta ímyndunaraflið fara á flug er okkur eðlislægt, við hugsum lengra, hugsum abstrakt um umhverfið í kringum okkur, framandgerum hversdaginn svo við lifum ekki í eintómum gráleika, ímyndunaraflið fær okkur til að fara ótroðnar slóðir.

Í þekktri rannsókn fann franski mannfræðingurinn Claude-Lévi Strauss samsvörun í goðsögnum heimsins, svipaðan strúktúr og þankagang mátti greina í sögunum hvar sem var í heiminum. Það mætti því segja að allt mannfólk hugsar í grunninn eins og sumir vilja tengja slíkar niðurstöður við það hvernig minnið okkar virkar. Sagnaeðlið er nátengt minninu. Í því sambandi er vert að nefna söngva frumbyggja Ástralíu sem hafa erfst frá kynslóð til kynslóðar; sagnasöngva sem lýsa umhverfinu í formi ævintýra í því skyni að kortleggja landsvæðið, hvar vatn sé að finna, hvaða leið sé greiðust, hvar hættur leynast. Sagnalistin var og er hluti af sjálfsbjargarviðleitninni. Hún var og er hluti af lífinu sjálfu.

Með sögum létu forfeður og -mæður okkar sér detta ólíklegustu hluti í hug og framkvæmdu þá, því sögustundir eru samræða og með samræðu verða til hugmyndir. Þau hættu sér lengra inn í óbyggðir, fundu upp á tækjum og tólum, fundu upp hjólið. Goðsagnir sem trúarbrögð urðu að sögum, sögurnar urðu að þjóðsögum og þjóðsögur og goðsögur urðu helsti hugmyndabrunnur furðusagna. Þannig varðveitir furðusagan arfleifð árþúsundagamallar sagnalistar.

Hoppum nú frá forverunum, yfir nokkur árþúsund: Sá fyrsti til að lýsa gervihnöttum var vísindaskáldsagnahöfundurinn Arthur C. Clarke. Annað og nýlegra dæmi: Stjórnvöld í Kína komust að því að fólk í vísinda- og tæknigeiranum læsi ógrynni af ólöglegum vísindaskáldsögum og því var ákveðið, í stað þess að refsa þeim, að opna fyrir slíkar bókmenntir og leggja áherslu á þær. Í dag hafa kínverskir rithöfundar hreppt helstu furðusagnaverðlaun heims.

Enn er lenskan á Íslandi sú að tengja furðusögur að mestu við yngri lesendur, þegar raunin er allt önnur. Erlendis er langstærstur hluti útgefinna furðusagna ætlaður eldri lesendum og gróskan í þessum bókmenntum hefur sjaldan verið meiri, þær eru orðnar alþjóðlegri og raddir kvenhöfundanna hljóma sífellt hærra. Þar má nefna Nnedi Okorafor, Kameron Hurley, Octavia Butler, Elizabeth Bear og fleiri og fleiri.

Ég hef tekið eftir því að nær undantekningalaust þegar furðusögur ber á góma á menningarmiðlum Íslands, og það á að varpa fram einhverjum samanburði, nefnir fólk bara Hringadróttinssögu og/eða Harry Potter. Ég hef ekkert á móti skáldverkunum, les Tolkien jafn mikið og annað, en þegar þetta tvennt er einungis sett fram sem mælistika lýsir það, að ég tel, ýmist vanþekkingu á efninu eða mótþróa við að kafa dýpra í Furðuna. Heimur furðusagnanna er risastór, í honum eru allskyns tegundir og undirtegundir, þar eru jú fjöldaframleiddar háfantasíur, en líka hrollvekjandi borgarfantasíur, pólitískar nýfurður (e. new weird), súrrealískar vísindaskáldsögur, harðkjarna gufupönk og svo mætti lengi telja. Þetta eru oft bókmenntaverk þar sem höfundunum liggur mikið á hjarta.

Furðan í samtímanum

Margar furðusögur eru spegill heimsmálanna og eru það nú jafnvel í meira mæli en áður. Samt sem áður er sífellt verið að mæra dystópíur eftir gamla höfunda á borð við Orwell og Huxley og litið á bækur þeirra sem hluta af bókmenntakanónunni, sem þær réttilega mega vera, en hvað með dystópíunar sem skrifaðar eru í dag?

Heimur samtímans er nánast á heljarþröm. Dag frá degi eykst spennan, stríðsglæpir eru framdir, mannréttindi brotin og þrátt fyrir allt það sem mannkynið átti hafa dregið lærdóm af er svo margt á niðurleið. Í andstöðu við hraðar framfarir í vísindum og tækni verða úreltar hugmyndir trúarbragða æ fyrirferðameiri, þjóðernisstefnur rísa, rasismi er daglegt brauð, kynjamisrétti fær að ríkja, konur eru kúgaðar. Á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar höfnuðu Dadaistar fyrri listsköpun og rifu hana niður því þeir töldu að allt það sem manneskjan hafði gert og skapað fram að því hafi gert hana að ófreskju, þar með talin listin. Þá má á hinn bóginn spyrja: Hafa bókmenntir 20. aldarinnar einhverju breytt? Breyttu framúrstefnan og módernisminn einhverju? Breyttu hippatímabilshöfundarnir einhverju? Er manneskjan ekki sama ófreskja og áður? Þurfum við enn eina skáldsöguna um stúdentauppreisnina í París og áhrif hennar? Þurfum við ekki heldur á gróskunni í furðusögum og öðrum tegundabókmenntum að halda? Eða þurfum við ekki bara allt saman, allar bókmenntir?

Fantasía og vísindaskáldskapur geta tekist á við óskiljanlega viðbjóðinn sem á sér stað í heiminum, sem raunsæisskáldsagan nær stundum ekki utan um. Ágætis dæmi er nýleg íröksk vísindaskáldsaga eftir Ahmed Saadawi, Frankenstein in Baghdad. Bókin fjallar um mann í Bagdad samtímans sem safnar saman líkamspörtum fólks sem hefur látist í bílsprengjum og annars konar átökum í borginni, hann saumar partana saman og úr verður skrímsli. Skrímslið öðlast sjálfstæðan vilja, flýr skapara sinn og fyllist hefndarþorsta, leitar uppi alla þá sem bera ábyrgð á dauða allra þeirra sem skrímslið er gert úr. Vítahringur hefnda og haturs. Með þessari sögu var höfundurinn að reyna að ná utan um ástandið í heimalandi sínu, óskiljanlega viðbjóðinn sem á sér svo flóknar skýringar, ef skýringar má kalla, og eina leiðin var að beita Furðunni.

Að sama skapi eru furðusögurnar í ríkara mæli farnar að takast á við umhverfisvandann, mengun og loftslagsbreytingar. Með því að skyggnast inn í framtíðina er betur hægt að átta sig á því hvaða afleiðingar ástandið í dag mun hafa. Talað er um undirtegund vísindasagna: climate fiction eða cli fi. Auk þess blómstra nú alþjóðlegar furðubókmenntir, til dæmis í Kína, Nígeríu og Pakistan, og það má segja að bókmenntaheimurinn finni að mörgu leyti sameiginlegan grundvöll í furðusögunum (að minnsta kosti á sama hátt og í öðrum kreðsum). Til að mynda er hægt að skilja algerlega við hugmyndir um þjóðerni í þeim eða fjalla um þjóðerni á nýstárlegan hátt.

Þó er ég alls ekki að segja að allar furðusögur eigi endilega að takast á við heimsmálin. Afþreyingin má einnig njóta sín. Ég lít ekki á afþreyingu sem veruleikaflótta, heldur þvert á móti veigamikinn þátt í lífi fólks. Leikur, að leika sér, er eðlislægt manneskjunni og þá á ég einnig við fullorðnar manneskjur. Alvarleiki samfélagsins, hraði markaðshyggjunnar og samkeppnissjónarmið hafa eyðilagt leikinn fyrir fullorðnum. Rannsóknir á huganum hafa sýnt að leikur fullorðinna stuðli að frjórri hugsun og aukinni samkennd (sbr. rannsóknir bandaríska geðlæknisins Stuarts Brown, svo fólk haldi að ég sé ekki að búa til staðreyndir). Er aukin samkennd ekki tímans virði sem það tekur að njóta afþreyingarinnar? Aukin samkennd er það sem heimurinn þarfnast, er það ekki?

Indælasta og heiðarlegasta fólk sem ég hef kynnst kemur úr aðdáendasamfélögum furðusagna og/eða spilar mikið af tölvuleikjum. Hafið þið séð áhugasaman fantasíulesanda tala um uppháldsbækurnar sínar af ástríðu? Hvernig það geislar af honum eða henni? Samtali við slíkan lesanda fylgir ánægja, samkennd og leikur. Því má ekki rugla saman við fegurð. Það er mikill misskilningur að fantasían hafi eitthvað með fegurð að gera. Ljótleikinn er jafn mikilvægur vegna þess að ef hið ljóta er ekki sýnt er ekki hægt að sýna neina fegurð, auk þess sem það er nauðsynlegt að takast á við hið ljóta til að reyna að skilja það. Í raun er raunveruleikinn mun viðbjóðslegri og bilaðri en nokkur furðusaga getur verið.

Það er heldur ekkert samamsemmerki milli almenns skáldskapar og fegurðar en stundum er því haldið fram, til dæmis þegar talað er um bækur sem konfekt, gull eða perlur. Þá er verið að upphefja skáldskapinn upp á stall sem stór hópur fólks samsamar sig ekki með.

En, sem sagt, í tengslum við furðusagnaheiminn er ástríða og leikur ekki það sama og fegurð. Ég les að mestu myrkar borgarfantasíur, heimsendasögur og ankannalegar nýfurður. Þar ríkir ekki mikil fegurð.

Bæði fegurðin og ljótleikinn framandgera og fá lesandann til að sjá umhverfið sitt í nýju ljósi. Ef áhrifin vara stutt er réttast að lesa meira.

Möguleikar glæpasögunnar

Ef einhver bókmenntategund hefur þurft að sæta meiri fordómum en furðusagan er það glæpasagan. Að sjálfsögðu eru gæðin misjöfn, jafn misjöfn og bækurnar eru margar. Það eru til frábærar glæpasögur og svo eru til þær sem eru býsna slakar, og í þær síðarnefndu er gjarnan hnýtt og bókmenntategundin stundum smættuð undir hatt hins slaka.

Í grófustu tilvikunum eru allar tegundabókmenntir smættaðar undir sama hatt og dúsa þar sem andstæða við fagurbókmenntirnar.  En það eru líka til virkilega leiðinlegar og lélegar fagurbókmenntir, sem eru í raun stefnulaust og hugmyndasnautt rugl falið í orðskrúði þar sem höfundurinn hafði lítið annað í höndunum en góðan stíl og samheitaorðabók. Eða sannsögur (e. non-fiction) sem hafa verið dulbúnar sem skáldskapur með flötum persónum sem þjóna engu öðru hlutverki en að vera málpípur fyrir skoðanir höfundar. Setjum við svoleiðis skáldskap undir hatt raunverulega góðra skáldverka og fagurbókmenntirnar dæmdar út frá því? Nei, það er sjaldan gert.

Glæpir eru félagslegt vandamál sem beinist ekki aðeins að þolendum heldur geta glæpir haft neikvæð og keðjuverkandi áhrif á aðstandendur og fleiri, ástæðurnar fyrir glæpunum geta verið flóknar og sprottið úr ýmsum aðstæðum. Glæpum á Íslandi hefur fjölgað og bláköld morð eru ekki jafn ólíkleg og áður. Því er mér spurn: Hvers vegna eru glæpir og sakamál ekki jafn mikilvægt viðfangsefni í bókmenntum og til dæmis skilnaður eða tilvistarlegar krísur nútímamannsins? Með þessari spurningu vísa ég til orða höfundarins Kazuo Ishiguros 1 eftir að hann gaf út fantasíuna The Buried Giant og velti fyrir sér fordómum gagnvart tegundabókmenntum.

Rannsakandinn í glæpasögum getur þjónað hlutverki miðlara eða „guide“. Hann flakkar á milli þjóðfélagshópa, býr til ólíklegustu tengingar og afhjúpar myrkar hliðar ólíkra einstaklinga. Í sumum glæpasögum í dag eru heimsmálin spunnin inn í söguþráðinn: pólitískt ástand, innflytjendamál, umhverfismál. Glæpasagan getur varpað jafn miklu ljósi á samtímann og fagurbókmenntirnar gjarnan gera, en auðvitað er þetta spurning um hversu vel það er gert.

Í tegundabókmenntum á borð við glæpa- og furðusögur er oft, ekki alltaf, mikilvægt að hafa góða fléttu og byggingu. „Að plotta“ þykir víst ekki fínt meðal sums bókmenntafólks, en mér er þá aftur spurn: Hvers vegna ekki? Hvers vegna er ekki fínt að segja vel byggða sögu? Er það vegna þess að það er ekki módernískt, framúrstefnulegt, abstrakt? Hefur það ekki jafn mikið listrænt gildi? Hvað er listrænt gildi? Hvað færði framúrstefnan okkur? Er villimennskan ekki enn til staðar? Er ekki jafn róttækt og/eða listrænt að leggja áherslu á frásagnarlistina og leikinn? Ná fram framangreindri samkennd?

Mér finnst jafn mikil list fólgin í því að skrifa lýrískan marglaga texta og að byggja upp frásögn, spinna það sem ég hef rannsakað inn í söguna, viðhalda spennu og búa til tengingar milli persóna og þráða í sögunni. Ég get ekki talað fyrir hönd annarra höfunda, en fyrir mitt leyti fæ ég jafn mikið út úr því sköpunarlega séð að plotta og að takast að skrifa lýrískan texta. Þetta tvennt getur líka unnið saman.

Bóksöluhrunið og vandamálin

Talað er um hrun í bóksölu. En er þetta hrun? Er þetta ekki eðlileg þróun sem á sér skýringar í nokkrum krónískum vandamálum? Sum vandamálanna ætti að vera hægt að leysa með frekar auðveldum hætti, önnur tengjast vítahringum sem erfitt er að losna úr. Ég tel vandamálin vera þessi, en listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi:

  1. Hækkun virðisaukaskatts úr 7% í 11%. Í sumum löndum hefur vaskurinn á bókum verið afnuminn. Hjá rúmlega 330 þúsund manna „bókmenntaþjóð“ ætti auðvitað ekki að vera vaskur á bókum. Þennan hníf þarf einfaldlega að draga úr kúnni og það eiga stjórnvöld að gera.
  2. Stöðnun á bókamarkaðnum. Á Íslandi eru of fáar útgáfur sem standa undir sér og þær sem gera það fylgja — þó það sé ekki algilt — úreltum mekanisma fyrir jólabókaflóðið, þ.e samspili útgáfa og fjölmiðla sem nær ekki lengur til nýrri kynslóða. Það kostar víst peninga að breyta til, uppfæra og aðlaga sig að breyttum aðstæðum og núna, þegar salan hefur dregist svona saman, geta of miklar áhættur reynst banabiti. Þetta er vítahringur.
  3. Minni bókmenntaumfjöllun, sem á sér víst meðal annars skýringar í því að fólk les helst fréttir og umfjallanir á vefsíðum og umfjöllun um bók fær ekki nógu marga smelli. Það dregur úr tölfræðilegu meðaltali smellfjölda sem er víst það eina sem auglýsendur skilja. Ef fjölmiðlar geta ekki lokkað auglýsendur er gamanið búið.
  4. Illmælgi og rógur sem beinist gegn rithöfundum landsins þegar listamannalaunum er úthlutað. Það skapar gjá á milli höfundanna og þeirra sem standa utan bókmenntaheimsins, andúð sem skilar sér í því að þeim sem er uppsigað við „afæturnar“ vilja helst ekki kaupa bækur eftir íslenska rithöfunda. Þetta er meira mín tilgáta.
  5. Önnur tilgáta. Sú staðreynd að heil kynslóð rithöfunda var skilin eftir úti í kuldanum í hartnær áratug, þ.e. að nær enginn undir þrítugu fékk listamannalaun og afar fáir fengu útgáfusamninga, gerði það að verkum að lítil endurnýjun fór fram, nýjar raddir fengu ekki hljómgrunn, sem gæti hafa skapað enn meiri fjarlægð við nýrri kynslóðir lesenda. Með því á ég ekki endilega við ungt fólk heldur einnig fullorðið fólk komið á atvinnumarkað sem hafði efni á að kaupa bækur og vildi ef til vill fá að lesa eitthvað meira í takt við tíðarandann. Þetta er alls ekki skot á eldri kynslóðir útgefanda og höfunda, ég veit að bókamarkaðurinn er brothættur og að skrifreynsla skilar sér í gæðum; ég er aðeins að tala fyrir meiri fjölbreytni því ef hún eykur lestur kemur það sér til góðs fyrir alla höfunda. Bóksöluhrunið gæti verið að hluta til eftirköst eftir þessa stöðnun. Nú hafa hins vegar breytingar orðið, fleiri „yngri“ höfundar (í kringum þrítugt) fá tækifæri og það er vel. Vonandi heldur sú þróun áfram. Þetta er að miklu leyti á ábyrgð stjórnvalda því bókmenntirnar þurfa á hærri fjárveitingum að halda svo þær geti bæði endurnýjast og dafnað.
  6. Of mikið álag, of lítill tími til lesturs. Ég tel samfélagsgerðina hafa mikið að segja og ég kem að því hér að neðan.
  7. Og svo er það samkeppnin við aðra miðla, til dæmis kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki.

Samkeppni við aðra miðla

Krafa tölvuleikjaspilara um góða sögu og samtöl er orðin gífurlega hávær og gott dæmi um það er útgáfa nýjustu Mass Effect-leikjanna og Fallout 4. Sjónrænt séð eru leikirnir meistaraverk en vegna þess að sagan er ekki nógu góð voru leikirnir rakkaðir niður af spilarasamfélaginu. Í kringum árþúsundamótin var þessu öfugt farið, allir leikir áttu að státa af bestu grafíkinni og söguþráðurinn skipti engu máli. Nú þegar tæknin er orðin svo mikil og flott grafík ekki lengur jafn spennandi vill fólk aftur fá góða sögu — nei, það krefst góðrar sögu.

Sjónvarpsþættir og tölvuleikir eru mikilsráðandi sagnaform samtímans og þar varðveitist frásagnarlistin á jafn mikinn hátt og í furðusögunni. Margir þáttanna og leikjanna eru hrein og klár afþreying en á sama tíma eru jafn mörg verk sköpuð sem teldust listrænni. Tölvuleikjaskrif eru orðin viðurkennt listrænt sagnaform í mörgum löndum, til að mynda veitir nú Writer’s Guild of America verðlaun fyrir leikjahandrit. Pólverjarnir sem skrifuðu söguna og samtölin í Witcher 3: The Wild Hunt hlutu þau fyrir nokkrum árum. Hvílíkur leikur.

Ef einhverjir kunna að halda að ég átti mig ekki á því að afþreyingin er að miklu leyti framleidd af stórfyrirtækjum sem vilja bara græða segi ég móti: Hvað með bókamarkaðinn? Hvað með nær alla framleiðslu? Vandamálið er ekki afþreyingin heldur er það markaðshyggjan.

Það má samt spyrja hvort afþreyingin eigi að hafa einhver takmörk og kemur mér þá til hugar allir þessir raunveruleikaþættir. Þar eru gæðin misjöfn eins og alls staðar. Ég vil líta svo á að slæmir raunveruleikaþættir séu afurð deyfðarinnar og firringarinnar sem samfélagsgerð markaðshyggjunnar hefur leitt af sér. Margir hafa gaman af að horfa á fólk velja sér brúðarkjól og það er ekki við áhorfendurnar að sakast. Ég hef nú svo sem ekkert á móti brúðarkjólum en ef samfélagsgerðin myndi breytast á þann hátt sem ég nefni í lokin myndu ef til vill vera á skjánum raunveruleikaþættir um fólk að velja sér bók. Það má velta þessu fyrir sér.

Hvernig á bókin annars að hafa roð við vinsælli miðlum þar sem frásagnarlistin verður sífellt betri og umfangsmeiri? Hvernig í ósköpunum á bókin, sem krefst þess að lesandi haldi einbeitingu og ímyndi sér það sem hann er að lesa, að keppa við sjónræna sagnalist sem sér um það fyrir áhorfandann?

Með snjalltækjanotkun hefur hlustun hljóðbóka stóraukist, það er jú ein leið, en skilar það sér á sama hátt og lestur? Við þurfum lestur. Skilningurinn og einbeitingin sem honum fylgir er okkur mikilvægur, er það ekki? Ég veit ekki hvort ég sé með Svörin með stóru s-i, Svör sem alþjóðlegi bókmenntaheimurinn hefur ekki enn getað veitt, og því veit ég ekki hvort það séu endilega til nein rétt svör um samkeppni bóka við aðra miðla, nema þá að við verðum að horfast í augu við það að með því að setja bókmenntir upp á einhvern stall eykur það fjarlægðina við þá sem lesa lítið.

Bókmenntirnar þurfa að vera nálægari við almenning, meira í takt við það sem er að gerast, eldri rithöfundar mega ekki festast í sama farinu, það þarf að tækla samtímann, ekki stúdentauppreisnina í París eina ferðina enn. Heimurinn breyttist eftir 11. september 2001. Nú er árið 2017 og í svipinn man ég ekki eftir mörgum nýlegum íslenskum skáldverkum, fagurbókmenntum, sem takast á við heimsástandið. Kannski er ég að fara með fleipur en þetta er sú tilfinning sem ég fæ. Kannski má skýra skort á heimsvandamálum í íslenskum bókmenntum á þann hátt að við erum svo vernduð frá umheiminum. Við erum hobbitar norður í Héraði sem áttum okkur ekki á því að við lifum rólyndislífinu og getum velt okkur upp úr smáskandölum og ætterni vegna þess að úti í heimi eru aðrir að takast á við stóru vandamálin fyrir okkur. Til er sú kenning að fyrirmynd Tolkiens að hobbitum hafi verið Íslendingar í torfkofum og burstabæjum. Það mætti segja að ég sé núna að falla í þá gryfju að nefna Tolkien til sögunnar en ég get þó borið fyrir mig að hafa nefnt ýmislegt annað á undan.

Allavega. Til gamans langar mig að tæpa á því að bækur Charles Dickens voru á hans tíma, á 19. öld, gefnar út í köflum í vikulegum og mánaðarlegum tímaritum. Þetta voru framhaldssögur og afþreying þess tíma, fólk í amstri hversdagsins talaði um hvað skyldi nú gerast næst, hvaða persónur myndu gera hvað, líkast því þegar fólk talar um sjónvarpsþætti í dag. Dickens tók mark á viðtökunum og spann sögurnar eftir því. Í dag yrði eflaust sagt að hann væri að skrifa vinsælar afþreyingarbókmenntir til þess eins að selja. En tíminn umbreytir vinsældum dauðra höfunda í gæði og setur menn og konur á borð við Dickens á heimsbókmenntastall.

Mér þætti gaman að sjá höfunda í dag skrifa framhaldssögur og forlög gefa þær út, til dæmis í formi rafbóka eða á vefsíðum, nýta þannig tæknina betur og jafnvel fanga athygli þeirra sem geta eða vilja ekki sitja við lestur of lengi í einu. Framhaldssögur sem fólk myndi tala um eins og sjónvarpsþætti. Þetta er pæling. Pæling sem nær þó ekki lengra en svo að íslenski rafbókamarkaðurinn á einnig við vandamál að stríða.

Rafbækur henta mörgum, einkum þeim sem lesa á ferð í hröðum samtíma sem krefst þess að við séum í vinnu með námi eða tveimur eða þremur vinnum, eigum börn, eigum að vera fullkomin og sá sem vinnur ekki af sér rassgatið er aumingi.

Íslenskar rafbækur. Nú er þess krafist að þær séu ekki svona dýrar en staðreyndin er sú að ef þær eru of ódýrar og höfundurinn fær 18-23% af sölunni eins og á við um fýsískar bækur fær hann samasem ekkert, jafnvel þótt prósentan hækki örlítið. Þótt prentkostnaðurinn sé enginn við rafbækur felst enn kostnaður í ritstjórn, yfirlestri, hönnun og umbroti. Forleggjarinn þarf að geta borgað laun.

Einnig er auðvelt að dreifa rafbókum ólöglega og slíkt bitnar mikið á rithöfundum. Við höfum fátt annað en textann okkar og söguna, við getum ekki haldið stórtónleika líkt og tónlistarfólk sem hagnast á því að tónlistin rati sem víðast, þótt hún sé ókeypis til að byrja með (ég veit að þetta gildir ekki um lítt þekkt eða strögglandi tónlistarfólk). Ef sögu rithöfundar er dreift ólöglega, ef enginn kaupir hana, fær hann ekkert og getur því ekki haldið áfram að skrifa. Ef fýsísk bók selst ekki í þúsundum eintaka er það sama sagan. Sem betur fer er listamannalaunum úthlutað á Íslandi því ef svo væri ekki hefðum við gróflega á að giska aðeins tíu höfunda sem gætu gefið út bækur og lifað á því. Að skrifa vandaða skáldsögu, rannsaka fyrir hana og hvaðeina, er að minnsta kosti eins árs vinna, yfirleitt meira, svo því sé haldið til haga. Engin manneskja gæti gert það til lengri tíma án þess að fá greitt fyrir.

Rafbækur eru vitaskuld frábær kostur en eins og staðan er á örbókamarkaði Íslands í dag gefur útgáfan lítið af sér, því miður. Það er erfitt að halda verðinu niðri sem leiðir af sér að fólk kaupir ekki margar íslenskar rafbækur. Hvers vegna ætti maður annars að kaupa rafbók sem kostar aðeins þúsund krónum minna en fjögur-fimm-sexþúsund króna fýsísk bók í búð?

Tími og lestur

Í nágrannalöndum hefur verið talað um styttingu vinnudags. Það ku auka ánægju og afköst og fólk hefur meiri tíma til að lifa lífinu.

Á Íslandi neyðist fólk til að vinna mikið til að hafa ofan í sig og á einfaldlega vegna þess að það er dýrt að lifa. Matur, húsnæði, föt, helstu nauðsynjar — allt er þetta allt of dýrt í samanburði við launin. Kaupmátturinn er til skammar.

Rót lestrarvandans, og þar af leiðandi minnkandi bóksölu, liggur ekki í samkeppni við önnur sagnaform eða tækninýjungar. Ég hef hitt marga tölvuleikjaspilara sem lesa mikið, þá einna helst furðusögur, og þeir lesa mun meira en sá eða sú sem fær tvær skáldsögur í jólagjöf og hefur síðan ekki tíma til að lesa restina af árinu sökum anna. Aðalmunurinn er þó sá að téðir spilarar lesa helst furðusögur á ensku fyrir fullorðna. Ergo: Það vantar fleiri furðusögur á íslensku fyrir fullorðna. Og það vantar fleiri þýðingar á furðusögum. Ég veit fyrir víst að þýðingar á þesskonar bókmenntum í Svíþjóð hefur gefist ágætlega og heilu sagnabálkarnir eru þýddir á sænsku.

Að því sögðu er einnig rétt að benda á að ef meira íslenskt sjónrænt efni er framleitt hlýtur það að auka líkurnar á því að fólk leiti í skáldskap á íslensku. Með því að sýna og sanna að hægt sé að njóta leikins sjónvarpsefnis, kvikmynda (t.d. Ófærðar og nýju góðu kvikmyndanna) og tölvuleikja á hinu ylhýra er auðveldara að gera slíkt hið sama með skáldskapinn. Tölvuleikir á íslensku? Já, hvers vegna ekki. Þegar ég var að byrja að skrifa furðusögur fyrir fullorðna á íslensku fékk ég stundum þau viðbrögð bókmenntafólks að það hélt að enginn myndi vilja lesa svona bækur á íslensku. Ég taldi það hafa rangt fyrir sér, hélt áfram og er feginn að hafa gert það.

Rótin liggur heldur ekki í því hvernig bókmenntir eru skrifaðar og gefnar út. Fagurbókmenntir, furðusögur, glæpasögur? Hverjum er ekki sama svo lengi sem fólk les og segir sögur?

Helst lestrarvandamálið ekki í hendur við önnur vandamál samfélagsins? Fátækt, vinnuálag, streitu, tímaskort. Við höfum engan tíma til að lesa, það er bókstaflega búið að drepa tímann okkar þegar það erum við sem ættum að hafa valdið til að verja honum.

Ég sé þetta svona: Ef við ætlum að hafa tíma til að lesa og sjá tilgang í því að kaupa bækur þarf breytta samfélagsgerð. Breytingin er í raun og veru ekki róttæk og einhverjum kann að þykja hún vera sveimhugahjal, en hún er það ekki. Breytingin felst í virðingu fyrir mennsku fólks og að vinnumarkaðurinn slaki á kröfunum. Lífið er ekki vinna heldur er þetta eina líf sem við eigum leikur, eins barnalega og það hljómar. Við eigum öll rétt á sanngjörnum launum fyrir passlegan vinnutíma svo við höfum tíma fyrir fjölskyldu, vini og okkur sjálf. Þar á afþreying fullan rétt á sér því hún veitir mörgum lífsfyllingu, gerir marga ánægðari, sem skilar sér í betri geðheilsu, betra lífi, meiri samkennd, betra þjóðfélagi. Leikur og sagnalist er enn hluti af lífinu þótt það hafi gleymst í tímans rás.

Þurfum við menningarátök til að bjarga íslenskum bókmenntum frá algjöru hruni? Þarf að etja saman bókmenntategundum og búa til blóraböggla? Ættum við ekki frekar að segja fleiri og fjölbreytari sögur, ölva okkur á þeim, fá svo meiri og betri umræðu um sögurnar, vandaðri rökræður?

Forgangsatriði ætti auðvitað að vera að leysa vandamálin sem talin eru upp hér að ofan, en ættum við ekki fyrst og fremst að gera þá samfélagslegu kröfu að allir hafi efni á og hafi tíma til að lesa og leika sér?

   [ + ]

1. “Crime is very important in our society. Why is it regarded as less serious than middle-class divorce? Why is middle-class divorce a subject for literary fiction, but [the] relationship between the drugs trade and politics is not?” – Kazuo Ishiguro í viðtali við The Independent