1. maí í Reykjavík. Mynd: Þjóðviljinn / timarit.is

Þrír prósar

Vélasalurinn

Það er skipst á vöktum við gangverk auðvaldsins. Vinstri öflin leysa hægri öflin af og svo öfugt. Í vélasalnum hafa allir hlutverki að gegna og engum dettu í hug að bregðast skyldu sinni. Dagarnir eru misgráir í þessu ríki auðs og frama. Árin líða og áratugir án þess að snurða hlaupi nokkru sinni á þráðinn. Nýir menn koma reglulega til starfa, menn sem sverja kapítalismanum tryggð og hollustu – varðhundar Mammons.

Korn

Við erum korn í brauðdeigi auðvaldsins sem hefast drýgindalega fyrir baksturinn í glóandi ofni frjálshyggjunnar.

Stökk skorpan er vitundarbyltingin sem aldrei varð. Í morgunsárið er brauðunum raðað snyrtilega í rekkana og seld ýmist sneidd eða heil á verði við hæfi.Við erum kornin í brauði auðvaldsins sem hinir lystugu gæða sér á.

Ákall

Takturinn sleginn á húðirnar í dagrenningu. Seiðandi trumbuslátturinn er ákall til hinna stríðandi fylkinga sem berjast fyrir friði á jörðu. Ákall um að boðskapurinn megi skjóta rótum í hjörtum hinna sundurþykku friðarspilla. Ákall til hinna gleymdu og týndu í mannhafinu að þeim auðnist að stíga út úr myrkri fásinnis og finni lífi sínu tilgang í kærleiks- og friðarboðskap.