Strákalegar rímur og  menning þeirra ungu

Gerviglingur þeirra JóaPé og Króla

Eftir bókstaflega B.O.B.U sem hristi upp í samfélagi Íslendinga í haustgráum hversdegi, sem gaf fyrirheit um að þrátt fyrir sumarlok geti enn verið sumar í hjarta og barnsleg gleði til að dansa við, var beðið í ofvæni eftir útkomu plötunnar Gerviglingur. Undirrituð ákvað að vaka eftir þeirri stundu þegar að hún yrði opinberuð á tónlistarveitunni Spotify á slaginu miðnætti en áttaði sig svo fljótlega á því að hún væri í öðru landi, tveimur tímum á undan, sem þýddi að hún þyrfti þá að bíða til klukkan tvö að nóttu til. Undirrituð fór því að sofa eins og miðaldra einstaklingurinn sem hún er orðin og hlustaði daginn eftir. Því þrátt fyrir að bresta í skyndilegan dans og söng yfir rappi íslenskra stráka, þá er undirrituð ekki lengur í menntaskóla, Þó hún stundum hagi sér þannig. Ég segi hér ungmennarappi stráka já, þar sem þetta virðist að mestu vera enn fremur karllæg sena. Auðvitað er hægt að koma með nokkur dæmi um ofurkvendi (vil sérstaklega nefna Alviu Islandia hér) sem eru að ryðja sér gott og fallegt pláss en sem eru samt ekki enn búnar að bola burt hefðinni um strákalegar rímur. Samt sem áður líkar undirritaðri vel við blómaskeið rapptónlistar sem einbeitir sér að mestu að menningu þeirra ungu. Auðvitað er ég ennþá ung, tek það sérstaklega fram hérna eftir allt rausið. En það sem skiptir máli og punkturinn sem ég er að reyna að koma að hérna, en mögulega mistakast þar sem ég get ekki einu sinni sett mig í hóp þeirra miðaldra, er að íslenskt rapp eða hip hop tónlist getur farið þvert yfir ákveðin aldursmörk þrátt fyrir að textarnir fjalli um unga upplifun af samfélaginu.

Miklar pælingar hafa sprottið upp hjá mér yfir því hvers vegna rapptónlist er orðin svona miðlæg og vinsæl. Þá sérstaklega eftir að nokkrar góðvinkonur hristu hausinn yfir ofuraðdáun minni á slíkri tónlist. Góður kunningi sagði mér eitt sinn í viðtali að rapptónlist hefði þetta aðdráttarafl vegna þess að hún léti hlustandann í raun finnast hann vera „kúl“. Jafnvel þó maður sé ekki endilega talinn kúl eftir einhverjum rótgrónum samfélagslegum viðmiðum í hinu daglega lífi. Ég er mjög sammála þessari örgreiningu. Ég vil einnig bæta við að hún lætur mér finnast ég vera að eilífu yngri en ég er, því ég er auðvitað ung, svo það væri í mínu tilviki aðeins yngri en ég er. Hvað á ég við þegar ég segi að hún láti hlustanda líða eins og hán sé yngri? Jú einmitt það að ég upplifi mig sem hluta af þeirri orðræðu sem má finna í textunum, auk þess sem að takturinn er oftast upplífgandi og hress og hvetur líkamann til hreyfingar. Með því fylgir auðvitað að ég set mig í spor strákanna og þar af leiðandi verður einhvernveginn til samsvörun með að vera „bara ég og strákarnir“. Sem er auðvitað jafn leiðinlegt og það getur verið gaman, aðal gallinn þá auðvitað sá að þegar textarnir upphefja strákamenningu og niðurlægja (oft og tíðum) stelpur í staðinn. En þegar allt vatn er runnið til sjávar, lagið er búið og fáranlegi gleðidansinn hættur að heltaka taugarnar, þá er ég enn kona í þessu samfélagi og get því ekki upplifað mig „kúl“ á ókynjuðum forsendum. Spurningin sem vaknar er hvort að kúl-leikinn sem er nú viðurkenndur sé einungis karllægur. Stelpur eru samt vanar allt frá fæðingu að setja sig í spor karla svo kannski er það bara í lagi. Viðhöldum sömu rútínu.

Að þessu sögðu, þá er vert að líta á lögin og textana á plötunni hjá nýgræðingunum í þessari sívinsælu tónlistarsenu. Nýgræðingarnir sem um ræðir eru auðvitað þeir ungu menn sem kalla sig JóaPé og Króla – öðrum nöfnum Jóhannes Damian Patreksson og Kristinn Óli Haraldsson. Það var kannski mjög ungur aldur þeirra sem lét undirsskrifaða líða eitthvað eldri en hún er í raun. Platan skaut þeim fljótt upp á vinsældalistann hjá þjóðinni og hefur hún skapað þeim kyrfilegt sæti meðal raða þeirra sem við myndum telja til vogarafls rappheimsins á Íslandi, allavega ef litið er einungis til vinsælda meðal almúgans. Hún hefur að geyma átta lög í heildina og er aðgengileg á Spotify. Ísfirðingurinn Þormóður Eiríksson er maðurinn á bak við þrjú lög af plötunni þau; B.O.B.A, Sagan af okkur og O shit. Upptökustjórinn $tarri er síðan nafnið á bak við  Gerviglingur, Stælar, Taktlaus og Labba Inn og að lokum er það Whyrun sem á hlutdeild í Draumórar.

Ætlun mín var alls ekki að fara að benda fingri og skella einhverri skuld á nýju strákana í leiknum vegna hefðarinnar sem viðhefst í rappi, en þeir vissulega skrifa sig inn í ákveðna hefð, eins og aðrir íslenskir karlkyns rapparar hafa gert á undan þeim. Lagið B.O.B.A sem er án efa vinsælasta lagið af plötunni, þó það sé ekki upphafslag né titillag, notast til að mynda við mjög klassíska smækkun á margbreytileika kvenna í samfélaginu. Konur eða stelpur í þessu tilfelli eru annaðhvort góðar eða vondar, ekkert þar á milli. Sem er reyndar klassísk hefð innan bókmennta almennt í heiminum, þessi vísun í hina eilífu tvískiptingu á konunni sem annaðhvort maddonnan eða hóran. Það þýðir ekki að lagið sjálft sé ekki gott. Það þýðir bara nákvæmlega það að lagið skrifar sig inn í mjög rótgróna hefð sem hefur skapast og er mjög karllæg. Stelpur sem hlusta á lagið og vilja upplifa sig kúl þurfa því annaðhvort að samsama sig  með strák sem finnst stelpan sem hann er skotinn í vera vond við sig eða einmitt það að  upplifa sig sem „bombuna“ sem er rosalega vond en þó á sama tíma eftirsóknarverð í augum stráka. Lagið er mjög  hresst og skemmtilegt með virkilega góðar tilvísanir í bæði erlendan og íslenskan popp-kúltúr. Takturinn er dansvænn og textinn nógu auðveldur til að læra utan að og syngja með. Það er kjánalegt en það eru einmitt þessi kjánalegheit sem ljá laginu þennan ákveðna sjarma. Að auki rímar það vel við persónuna í laginu sem er hálfgerður auli sem virðist ekki sjá að stúlkan sem hann hrífst af hefur engan áhuga á honum. Það hinsvegar virðist ekki stoppa hann í neinu. Það stoppar reyndar heldur ekki  hana ef því er að skipta, í því að notfæra sér blindni hans enda er hún vond og skellir honum í vinahornið sem er auðvitað dauðadómur fyrir stráka. En það er einnig hægt að leggja það allt á hilluna og horfa á söguna sem textinn framsetur sem fulltrúa fyrir sameiginlega upplifun margra, óháð kyni, af því að hafa verið skotin/n í einhverjum sem kemur síðan illa fram við mann tilbaka. Tilvitnun í bardagakonuna Rondu Rousey er þó einnig mjög karllægt sjónarhorn og mætti setja stórt femíniskt spurningarmerki um notkun sterkrar konu til að lýsa yfir greddu ungra stráka.

Önnur lög á plötunni er einnig hægt að tenga við ákveðna rapphefð. Þeir syngja og rappa um það að vera frægur eða þá ósk um að verða frægur. Sem er mjög hefðbundið þema fyrir fyrstu frumraun listamanna á þessu sviði. Titillagið Gerviglingur býður fram framsetningu á því hverjir þeir eru, hvað þeir óska eftir að verða í samfélaginu og nánast leiðbeiningar á því hvernig viðtökurnar á þeim og plötunni eigi að vera. Þetta er mjög hefðbundið í rappi en það að yrkja um völd sín, hvort sem þau séu til staðar á þeim tíma sem orðin eru ort eða ekki, virðist á einhvern hátt vera lykillinn í þessari listgrein í átt að frama. Vísanir í táknmyndir ríkisdæmis eru nefndar sem er einnig mjög mikið eftir uppskriftinni. Þeir vara þó við því að reyna ekki leikinn „bara til að vera með“, sem gefur til kynna að þeir vilja láta taka sig alvarlega. Mögulega þrátt fyrir ungan aldur og reynsluleysi. Það mætti líka líta á vísunina í gerviglingrið sem ákveðna íróníu til þessara hefðar um upphafningu ríkra og eilífrar vísunar til táknmynda valdastrúktúrs. Þeir eru bara eilítið glingur. Glingrið er nefninlega gervi, flott á yfirborðinu og allir laðast að því eins og krákur en er í raun bara ákveðinn ímynd sem fer eftir annarri forskrift. Glingrið er skemmtilegt skraut í lífinu og óþarfi að taka það of alvarlega.

Lögin Taktlaus og Sagan af okkur eru hinsvegar örlítið frábrugðnari öllum hinum á plötunni þar sem textarnir virðast vera ortir frá eldri og reyndari stað. Þau eru tilvistarlegri  og sammannlegri. Taktlaus fjallar til að mynda um óttann við að ná ekki að gera allt sem maður óskar að gera í þessari jarðvist. Hvernig maður dettur af sporinu og missir sjónar á því sem lífið ætti að snúast um og það hvernig leitin að tilgangi getur verið íþyngjandi. Sagan af okkur er reyndar mjög ólíkt Taktlaus, það er meira nútíma ástarsaga en í því syngja einnig Helgar tveir. Helgi B og Helgi A nánar tiltekið. Syngjandi er þá í einhverskonar átökum við sig sjálfan og ástarviðfang sitt eftir að hann fattar að hann er búinn að „fokka upp“ þar sem hún „hringir ekki lengur“. Örmynd af því hvernig skilningur og væntingar sitt hvorra aðila í sambandi getur verið ólíkur. Línan um að hann „hefði átt að kaupa allt fyrir [hana]“ er skondin þjöppun á því hvernig kapítalismi getur gegnsýrt allt samfélagsástand, jafnvel ástina sjálfa. Hann virðist vita að hann sé búinn að „fokka upp“ á einhvern hátt, en virðist þó ekki vita hvernig sem að mínu mati er frekar heiðarlegur texti fyrir ruglingsleg tímabil óvissu sem einkennir ungan aldur.

Lagið O Shit er síðan nánast eins og fullkomið dæmi um þessa „strákamenningu“ sem ég nefndi hér áðan. Textinn ertól til að sýna vald með vísunum í ríkidæmi og hversu grimmur hann getur verið, en á sama tíma viðurkennir hann bakland sitt sem er pabbapeningurinn. Áhrif föðurs á frama auðvitað alltaf mjög miðlægt í rapptextum almennt meðan hlutverk móður í uppvexti virðist gleymast.Viðlagið með línunum „boj ó boj“ gefur síðan upp mynd af litlum strákling sem gerir prakkarastrik en allir í samfélaginu afsaka með að segja að svona séu bara strákar gerðir. Hefðin er allsráðandi í textanum, heimabyggðin er til dæmis nefnd í framhjálaupi til að undirstrika upprunann og tengingu við smáborgaralegan stall og blótsyrði eru mörg.  Takturinn er hraður og þeir sýna enn og aftur fram á að þeir eru „ferskt blóð“ sem ætli sér að yfirtaka senuna. Lagið Stælar er í svipuðum stíl, það fer á fullri ferð áfram og sýnir fram á að þrátt fyrir að þeir séu „pabbastrákar“ að þá eru þeir með stæla og eiga jafn mikinn rétt á því að vera í senunni þrátt fyrir að koma af slóðum forréttinda. Því eins og kannski flestir vita þá var rapp og hip hop tónlist iðulega verkfæri undirokaðra stétta í samfélaginu. Hér og á allri plötunni sýna þeir þó vel það sem hefur einkennt íslensku rapp-senuna að leikmenn hennar koma einmitt frá allt annarri átt heldur en vaninn var orðinn en á sama tíma ættleiða þeir, og aðrir, táknmyndir lágmenningar til að sveipa sig ákveðnum dýrðarljóma ef svo má segja. Gerviglingrið sjálft er þar sterkasta dæmið um stíl til að ljá sér margslungnari ímynd.

Það er kannski nokkuð ósanngjarnt af mér að nota Gerviglingur sem dæmi um hvernig hefðin getur verið útilokandi, margnotuð og ófrumleg. Því mér í alvörunni líkar vel við þessa plötu og þessa listamenn. Mér finnst flest lögin skemmtileg, þetta er áhugaverð frumraun og ég hef í raun hlustað mjög oft á þau mér til dægrastyttingar. Það er kannski einmitt ástæðan fyrir að hefðin er ennþá viðloðandi, því hún virkar á einhvern undarlegan hátt. Kannski hefur það eitthvað að gera með að við höfum öll alist upp við það að ríkidæmi og frami sé eina markmið lífsins. Eða kannski er það bara það að einfaldleiki og einlægni heillar á tímum þar sem allt er orðið svo flókið. Við höllumst nú oftast að því að einfalda hlutina. Ég hefði til dæmis bara getað sleppt rausinu og sagt að þetta væri bara nokkuð góð plata og gefið henni fjórar stjörnur á einhverjum rappskala. Það sýnir sig kannski best í því hvernig við skiptum samfélaginu niður í góða fólkið og hið vonda. Sem núna í endurliti rímar heldur skemmtilega við hvernig tvíeykið Króli og JóiPé líta á stelpur. Þó við betri umhugsun gæti öll platan, eða allavega hluti af henni, verið ákveðin írónía til hefðarinnar og vísa ég þá sérstaklega í línuna um að gellur sem séu með glingur, séu ipso facto vondar, sem lúmskt dæmi um að sumar birtingarmyndir sem viðgangast í dægurmenningu okkar tíma séu í raun fáranlegar. Kannski er það bara óskhyggja, og ef svo er þá vil ég gefa drengjunum lófaklapp fyrir. Á sama tíma myndi ég þó koma með þau rök að skilaboðin hafi ekki verið alveg nægilega skýr – í þetta skiptið.

Það sem ég vildi kannski helst koma á framfæri með þessari greiningu minni á plötunni Gerviglingur, sem hefur farið um þó nokkuð víðan völl, er að strákarnir eru að skrifa sig einkum vel inn í hefðina, hvort sem það sé viljandi gert eða ekki. Þeir passa mjög vel inn. Eru flottir, jafnvel mjög sniðugir á köflum. Það sem ég vil samt sjá, og þessu er beint að öllum í senunni, er eitthvað nýtt. Hvernig væri að fara að yrkja út frá öðru sjónarhorni og út frá einhverjum allt öðrum forsendum heldur en venjubundnum valdastrúktúr karla? Auðvitað gæti  verið að litla eyjan okkar hafi ekki neinar fleiri óskir að geyma annað en hin eilífu þrá um að eiga sífellt meira. Ég vil samt trúa því að það sé allavega hægt að líta á kvenkynið öðrum augum en hefur verið venjan.