Ég sat í stofunni minni með þessa bók í höndunum og vissi ekkert hver þessi tiltölulega nýbakaði höfundur var. Á sama tíma birtist nýr fréttamaður á skjánum að taka viðtöl við þingmenn um nýjustu afglöp valdhafanna og vandræðaganginn við að drepa umræðum um þau á dreif. Og viti menn: þessir tveir nýju menn voru sami maðurinn. Heimurinn er lítill, en hann er nú samt ferlíki miðað við Ísland.
(Þjóðar)sálin hans Jóns míns er ekki ferlíki. Sextíu og fjögurra síðna bók í litlu broti, heimildaskrá meðtalin. Kynnt sem fyrsta bókin í „Fræi“ ritgerðaröð Partusar um samfélagið og samtímann. Metnaðarfull áform, nú þegar þeir sem vilja setja fram skoðanir sínar á þessum málefnum hafa heilt Internet til umráða, en vonandi bera fræin sem flesta og fjölbreyttasta ávexti.
En semsagt, þessi „esseja“ er sá fyrsti. Hér er gengið á hólm við sjálfsmynd Íslendinga. í grunninn er þetta allt nokkuð kunnuglegt. Birkir Blær er auðvitað ekki fyrsti penninn sem rekur augun í taum- og innihaldslausa sjálf- og þjóðhverfuna sem birtist í auglýsingum í Leifsstöð eða skelfur af kjánahrolli yfir ímyndarskýrslu Svöfu Grönfeldt fyrir forsætisráðuneytið 2009. Undanþágufrekja „okkar“ þegar kemur að alþjóðlegum reglum og skuldbindingum eru heldur ekki nýjar fréttir, frekar en almennt kæruleysi við eftirlit með því hvernig þeim sem við þó undirgöngumst er framfylgt.
Það sem er hins vegar nýtt (held ég) og ferskt (finnst mér) er að hnýta þessa Íslendingalesti saman með þjóðsögunni um sálina hans Jóns og það afrek kerlingar að koma henni alls óverðugri í himnaríkissæluna með bellibrögðum þegar fortölur og spælingar dugðu ekki til.
Í meðförum og túlkun Birkis verður þetta saga um sérhyggju og frekju, virðingarleysi fyrir yfirvöldum og almennum reglum. Frekar en þrautseigju, útsjónarsemi og trúfesti eins og okkur/mér hefur lengi fundist. Hetjan er skúrkur. Og það sem meira er: séríslenskur skúrkur. Svolítið eins og Bjartur í Sumarhúsum. Nema bara öfugt: Bjartur var skúrkur, var hugsaður og meintur sem skúrkur, en varð hetja. Séríslensk hetja í hugum fólks sem vantaði svoleiðis.
Það kemur ýmislegt skemmtilegt út úr þessum samslætti þjóðsögu og menningarástands. Bitastæðast er þegar hann er ekki alveg augljós, eins og til dæmis þegar Birkir ímyndar sér fræðimenn á borð við þá sem lofuðu íslenska útrásareðlið á gerfi-vísindalegum forsendum túlka söguna:
… konan hans Jóns míns hefur mikla reynslu af því að ganga, hún hefur gengið frá því hún var lítil og ekki bara það, hún hefur gengið í þúfum, hún hefur gengið í mýrlendi og sérstaklega hefur hún gengið á fjöllum …. hugsaðu þér bara hvað það hefði nú verið gaman ef hún hefði bara haldið áfram og gefið í og stormað beint framhá þessum gamla sprelligosa í skýjunum og farið út fyrir gufuhvolfið til að rannsaka himingeiminn og skjóta Íslandi á toppinn í stjörnuvísindum!
(37)
Og svo þessi klausa, sem er kannski kjarni málsins:
Hún fékk kannski einu sinni viðurkenningu frá Bændasamtökunum fyrir framúrskarandi sauðfjárbúskap og viðurkenningarskjalið er stolt hennar og prýði, hangir innrammað á vegg í baðstofunni, en hún lítur á það á hverjum degi og hugsar með sjálfri sér, ég er besta bóndakona í heimi, og er komin hálfa leið til himna. En ef það væru bæir í nágrenninu kæmist hún fljótt að raun um að þar er einnig rekinn fyrirmyndarbúskapur, þar hangir ef til vill líka viðurkenning uppi á vegg.
(50)
Mér finnst reyndar bókin, og öll hliðstæð gagnrýni, reyndar falla á þessu sama prófi og kellingin sem veit ekki af verðlaunum hinna. Því það að upphefja sig í krafti (falskrar) sérstöðu sinnar er heldur ekki séreinkenni Íslendinga. Allar þjóðir gera þetta, stórar og smáar.
Það má vel vera að sagan af kerlingunni sem laumaði Jóni sínum í eilífðarsæluna sé einstök og séríslensk, eins og Birkir Blær vill meina, en það má alveg örugglega heimfæra hana upp á flestar aðrar þjóðir. Öllum finnst gott að njóta sérréttinda. Og öllum finnst þeir verða að hafa áhugavert svar við spurningunni „hver ert þú?“
Þetta er sérstöðuþverstæðan. Þeir sem vilja endilega rífa niður og „afsanna“ allar hugmyndir Íslendinga um hve einstakir þeir eru í heiminum vegna uppruna, eðlis sem náttúran hefur mótað, vegna höfðatölu fara einatt nálægt því að skilgreina nýtt séreðli fyrir þjóðina: að trúa statt og stöðugt á sérstöðu sína með tilheyrandi forréttindum og aðalhlutverkum.
Bæði eru rétt. En hvorugt er sérstaða. Og sem því nemur lélegra til aðgreiningar frá öðrum.
(Þjóðar)sálin hans Jóns míns segir ekki nýja sögu af Íslendingum, en hún setur hana í frumlegt samhengi sem reynist fyllilega nógu frjótt til að halda athygli lesandans ferskri í 54 síður plús heimildaskrá.