Orð í tíma töluð

Um skáldsöguna Bjargræði eftir Hermann Stefánsson

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út. Telur sagan 300 blaðsíður.

Hægt að viðhafa mörg orð um nýjustu skáldsögu Hermanns Stefánssonar. Enda er sagan sjálf orðmörg. Verður þó stemmt stigu við orðafjölda.  Best fer nefnilega á því að fólk taki sér þessa bók í hönd og lesi. Helst upphátt.

Saga þessi á erindi við vora tíma. Tíma sem „eru mestu dekurtímar sem mannkyn hefur lifað, sjálfsvorkunnarsamir og eftirlátsamir, þóttafullir og vílgjarnir. (bls. 8) Við þetta má bæta að vorir tímar eru aukinheldur tímar þar sem lýðurinn álítur „sig utangarðs en er það ekki […] [og fólk] aflar sér dágóðra tekna og hefur fulla burði til að vera hamingjusamt en sífrar þó án afláts, lítur eiginlega á vesöld sem heiðursmerki og keppir sín á milli í volæðisbarlómi, snerpist við að eiga sem mestum andbyr að fagna.“ (bls. 7)

Hér var gripið niður í einn af fjölmörgum reiðilestrum Bjargar Einarsdóttur eða Látra-Bjargar eins og hún vill ekki láta kalla sig (bls. 12). Hún er aðalpersóna Bjargræðis. Það kann að koma einhverjum  undarlega fyrir sjónir að hún viðhafi skammarræðu um samtímann þar sem hún er söguleg persóna. Var hún uppi á árunum 1716 til 1784.

Sögum fer af umræddri konu, ekki svo mörgum, en einhverjum þó. Þeim sögum ber saman um að hún hafi verið, skapstygg, einræn og mikil vexti, hafi haft krafta á við menn og róið til sjós og  þar var hún enginn eftirbátur karla. Auk þess var hún um nokkra hríð „flækingur […], flakkari, á vergangi, húsgangari, beiningakona, landshornamanneskja, flæmingi, umrenningur, flökkustelpa, farandkona, vergangsfólk.“ (bls. 51) Síðast en ekki síst var hún talin skáld gott, kraftaskáld og er ekki laust við að fólk hafi haft beyg í brjósti gagnvart henni. Hér hefir hún aftur orðið:

Hér eru menn með fírugt fas, firrtir dagsins striti, vaða elg með argaþras, engu þó af viti, ráfa í svefni um rótlaust líf, rata hvergi en dorma, iðka mont og kvart og kíf, klína sig við storma í vatnsglösum og vælið þý væmna kyrjar sálma um blýþungt fiður, fiðrað blý, en fúlir hundar mjálma. (bls 51.)

Sagan hefst á að Björg hefir verið boðuð í höfuðstaðinn af Tómasi nokkrum sem leitar ásjár hjá henni. Ekki er Björg hætis hót hrifin af því að vera dregin á „það lægsta of öllu lágu […][eða] kaffihús í miðbæ Reykjavíkur“ (bls. 9) sem hún segir að sé rauphneigð byggð, ráða þar andans pestir, löstur hver þar er látinn dyggð, léttvæg fundin sálar hryggð, mannkostir eru lestir. (bls. 12) Frá upphafi til enda hefir Björg orðið og lætur móðan mása um allt milli himins og jarðar. Hefir hún margt á hornum sér bæði í nútíð og þátíð og talar oftlega beint til Tómasar. Stór hluti sögunnar er því í annarri persónu.

Björg ber þó ekki eingöngu lóminn og er ekki bara orðhvöss. Henni er einnig unnt að orða hlutina mildar. Fjallar hún enn fremur um nafntogaða menn, rekur ættir, staðhætti, segir skemmtisögur, segir frá átakanlegum atburðum, ástarævintýrum, framhjátöku,  „you name it.“ Áhugavert hvernig hún tjáir sig um hvernig aðrir hafa tekið á sögu hennar. Þar bæði gagnrýnir hún og lofar.

Verður að teljast fremur nýstárlegt að nálgast þekkta sögupersónu á þennan máta; að láta hana ekki eingöngu greina frá ævi sinni heldur einnig tjá sig um hvernig aðrir hafa gert það. Er ekki úr vegi að kalla verkið frjóa sögulega skáldsögu.

Orðin eða ræðan rennur úr Björgu og virðist ekkert fá stöðvað orðaflóðið. Henni er ekkert óviðkomandi enda hefir hún 300 ára reynslu af íslensku samfélagi og stíll orðanna er allur á þá vegu eins og dæmin sýna enda er Björg „orðanna, ekki skilgreininganna, galdursins og ekki vísindanna“ (bls.29) og hrynjandin er oftar en ekki áhrifamikil. Orðfæri og orðaforði Bjargar ber keim af öldunum og hefir hann ólíkt því sem nú virðist vera viðtekin venja farið stækkandi. Hún beitir einnig mismunandi svæðisbundinu málfari og blandar öllu saman af miklum móð. Í ofanálag notar hún kvæði sín þar sem við á. Til að mynda eitt það þekktasta.

Táli pretta örgu ann,
aldrei sóma stundar;
máli réttu hallar hann
hvergi grundar dóma

Kvæði þetta er sléttuband og lesa má það aftur á bak og áfram.

Stundar sóma, hvergi hann
hallar réttu máli,
grundar dóma, aldrei ann
illu pretta táli.

Lesendum verður látið eftir að finna í hvaða samhengi kvæðið er notað í verki Hermanns.

Sagan er meira þó en innblásnar ræður Bjargar. Tómas hefir kallað hana til sín til að liðsinna sér með ákveðin mál, ákveðin mál sem kalla á viðbrögð Bjargar með sína 300 ára sýn á hlutina og orðfæri aldanna. Mál þau verða ekki tíunduð hér.

Aðalmálið er að hér er um magnaðan texta að ræða líkt og reynt hefir verið að gefa lesanda nasasjón af. Mætti sannlega tína til fjölmörg dæmi til. Dæmi er að finna á á hverri síðu.

Þetta er texti sem gefur mynd af óborganlegum einstaklingi sem talar þvert ofan í tíma og rúm, er full af þversögnum eins og mannskepnan er nú oft og tíðum (Tómas og aðrir karakterar bókarinnar eru líkt og samtímamennirnir í bókinu fremur litlausir).

Þetta verður ekki haft lengra. Þetta er bók með orðum í tíma töluð, bók sem flestir ættu að lesa. Helst upphátt.