Októberbyltingin hundrað ára: túlkanir og þýðing í dag

Until they are a few mental light-years away from them, the major temptation of historians confronted with such events is either to denounce or to defend them, to deprive them of historical options or to wish them away. Much of the historiography of the great revolutions is a choice between ‘like it or not, nothing else could have happened’ and ‘but for avoidable errors or accidents none of this need have happened.’ […] The Russian Revolution, with all its brutality and excess, will not be wished away by retrospective (or prospective) denunciation. It must be understood.

-Eric Hobsbawm

Whatever the later avatars of this unprecedented adventure, and whatever the present situation in which contemporary Neolithic cliques are taking matters back in hand around the world, the communist revolution of October 1917 remains our basis for knowing that at the temporal level of humanity’s becoming, the ruling capitalism is, and will forever be, something of the past. That, notwithstanding passing appearances.

-Alain Badiou

There is a basic contradiction between us and our opponents in the understanding of what is order and what is law. Until now, they thought that law and order was what suited the landlords and the bureaucrats, but we maintain that law and order is what suits the majority of the peasants. . . . The important thing for us is the revolutionary initiative; the laws should be the result of it. If you wait until the law is written, and do not yourselves develop revolutionary energy, you will get neither law nor land.

-Lenin

„The press accused the militia of acts of violence, requisitions and illegal arrests. It is indubitable that the militia did employ violence: it was created exactly for that. Its crime consisted, however, in resorting to violence in dealing with representatives of that class which was not accustomed to be the object of violence and did not want to get accustomed to it.“

-Trotsky

Í tilefni hundrað ára afmælis rússnesku byltingarinnar hafa undanfarið, á heimsvísu, verið birtar greinar um þennan einstaka atburð mannkynssögunnar og mikilvægustu persónu hans: Lenín. Enda væri annað furðulegt, en hér er ekki einungis um að ræða fyrstu sósíalísku byltingu mannkynssögunnar heldur þann einstaka atburð sem hafði mest áhrif á gang tuttugustu aldarinnar – afleiðingar sem við finnum svo sannarlega fyrir og erum enn að vinna úr í dag. Á Íslandi hefur þó eitthvað minna farið fyrir umræðum um byltinguna, merkilega lítið að mati greinarhöfundar. Hver svo sem skýringin kann að vera á því þá ætla ég í eftirfarandi að minnast byltingarinnar á hundrað ára afmælinu með því að ræða hana, með sérstökum fókus á hinn umdeilda leiðtoga hennar Lenín.

Einn mikilvægasti atburður mannkynssögunnar

Rússneska byltingin var auðvitað í rauninni tvær byltingar sem kenndar eru við mánuðina sem þær urðu, febrúar og október (skv. júlíanska tímatalinu, en Rússar skiptu ekki yfir í gregoríska fyrr en árið eftir). En þá ótrúlegu og fáheyrðu atburðir sem áttu sér stað í Rússlandi árið 1917 er oft talað um undir þessu samheiti. Rússneska byltingin er sú síðasta af stóru vestrænu byltingunum og að mati margra sagnfræðinga og fræðimanna, sú langmikilvægasta. Til dæmis hefur Tariq Ali, sem gaf frá sér bókina The Dilemmas of Lenin á árinu í tilefni afmælisins, bent á að þrátt fyrir óneitanlegt mikilvægi ensku, amerísku og frönsku byltinganna, þá voru þær breytingar sem þar var náð óhjákvæmilegar. Það er að segja, miðað við gang sögunnar og samfélagsþróunina, þá var það óumflýjanlegt að t.d. borgarastéttin myndi ná yfirráðum í Frakklandi á einn eða annan hátt, Ameríka myndi slíta tengslin við England og lýsa yfir sjálfstæði, o.s.frv. Í rússnesku byltingunni hins vegar, nánar tiltekið Októberbyltingunni, var ekkert óhjákvæmilegt eða nauðsynlegt við valdatöku Bolsévika – atburðarrásin árið 1917 er auðvitað ekkert annað en lygileg og hefði getað farið á ótal vegu. En undir forystu Lenín tók langþjáð alþýða Rússlands þó söguna föstum tökum á og sveigði inn á allt aðra og nýja braut sem hún hefði aldrei annars gert.

Þessi braut endaði vissulega síðar meir með hryllingi stalínismans. Fyrir því eru margar og flóknar ástæður sem enn er deilt um í dag. Ég mun þó ekki fjalla um hann hér og einblína einungis á Októrberbyltinguna sjálfa. Því hann breytir ekki því að Októberbyltingin var ótrúlegur og einstakur atburður í mannkynssögunni sem hefur ennþá marga lærdóma að geyma, sérstaklega fyrir daginn í dag – eitthvað sem gleymist eða er litið framhjá þegar einungis er fókusað á allt það slæma sem hún hafði í för með sér síðar meir.

Af þeim lærdómum getum við minnst á þann langmikilvægasta strax: byltingin sannaði – í eitt skipti fyrir öll svo enginn þurfi að efast – að sagan er í höndum fólksins. Með samheldni, skipulagningu, þrautseigju og hugrekki getur það skapað hvaða samfélag sem það vill. Ofurefli auðvaldsins er hægt að sigra.

Þetta er þó eitthvað sem auðvald nútímans vill einmitt helst að við gleymum. Söguskýring þess einblínir því – fyrir utan Stalín og gúlagið – að mestu leyti að persónu Leníns. Gert er lítið úr þætti fólksins í byltingunni og sögulega aðstæðunum og í staðinn er dregin upp mynd af einhverju illmenni sem hægt er að benda fingur á og kenna um ófarirnar. Því tel ég nauðsynlegt að ræða töluvert þá flóknu og stórmerkilegu sögulegu persónu, en líklega það eina sem allir eru þó sammála um er það að án hans hefði Októberbyltingin ekki orðið. Skoðum því ásakanirnar á hendur honum nánar.

Lenín sem goð?

Fyrst þarf að minnast á að sú túlkun á Lenín sem ég mun ræða betur neðar, er og hefur verið sú almenna í vestrænum kapítalískum ríkjum. Almenna skoðunin í Sovétríkjunum og á áhrifasvæði þeirra var hins vegar sú að Lenín væri einhvers konar goð eða ofurmenni sem bar að tilbiðja. Hann var alvitur, óskeikull, algóður og bar stærsta ábyrgð á sigri kommúnismans og stofnun mikilvægasta ríki veraldar: Sovétríkjanna. Allir borgarar þess og víðar stóðu honum í ævarandi þakkarskuld.

Ein afleiðing af þessari túlkun var sú að rit hans voru ekki skilin sem fræðirit sem átti að lesa og takast á við, þar sem settar voru fram ýmsar hugmyndir, rannsóknir og kenningar um samfélagsleg og heimspekileg efni. Þau voru öllu heldur helgirit sem litið var á sem heilagan sannleika (fyrir utan þau sem pössuðu ekki við þessa sköpuðu ímynd auðvitað, þau voru falin).

Það kemur auðvitað ekki neinum á óvart að sannleikurinn er sá að Lenín var mannlegur og enginn dýrlingur. Hann gerði bæði mörg mistök og var engan veginn alvitur (eins og frægt er lýsti hann því yfir í útlegð í Zürich að byltingin yrði ekki í sinni lífstíð – þetta var í janúar 1917). Þessi persónudýrkun á Lenín á uppruna sinn í valdabaráttu innan kommúnistaflokksins sem geisaði strax eftir dauða hans – einkum á milli Stalín og Trotský. Stalín vissi að hann stóð höllum fæti þar sem – fyrir utan Lenín sjálfan – spilaði Trotský langstærsta hlutverkið í Októberbyltingunni og sigrinum í borgarastríðinu sem fylgdi í kjölfarið. Stalín var ekki einungis mest megnis í bakgrunninum og spilaði lítið sem ekkert hlutverk í mikilvægustu atburðunum, í mörgum tilvikum var hann beinlínis á móti þeim aðgerðum sem Lenín boðaði og leiddu á endanum til sigurs Bolsévika, einna helst þegar kom að málamiðlunum við bráðabirgðastjórnina. Í öðrum, eins og í stríðinu við Pólland sem var einn liður í þeim stríðshörmungum sem riðu yfir Rússland í kjölfar byltingarinnar, klúðraði hann málunum svo rækilega vegna vanhæfni sinnar að málstaður kommúnismans beið stórskaða af. En með því að innleiða persónudýrkun og upprunasögu af trúarlegum toga sem ekki mátti draga í efa – og þar sem hann var búinn að skipta Trotský út fyrir sjálfan sig sem hægri hönd Leníns – gerði hann persónu Leníns að vopni sem hann beitti óspart sér í hag og átti stóran þátt í að hann varð ofan á í valdabaráttunni.

Þessi persónudýrkun er auðvitað galin og enginn í vestrinu tekur hana alvarlega – réttilega. En ég vil hins vegar meina að hin almenna söguskoðun Vesturlanda sé svo bjöguð og gegnsýrð af hugmyndafræði og hræsni að hún sé litlu skárri. Þá á ég við þá útbreiddu túlkun að Lenín hafi verið valdagráðugur einræðisherra og blóðþyrstur fjöldamorðingi sem skeytti engu um rússneska alþýðu og lagði meðvitað grunninn fyrir alræðisstefnuna sem Stalín fylgdi svo eftir, meðal annars með fangabúðum sem urðu svo að hinu alræmda gúlagi. Önnur túlkun, sem finna má meðal örlátari fræðimanna, er sú að Lenín hafi frekar verið draumóramaður, sem vildi kannski vel, en keyrði í gegn með ofbeldi samfélagssýn og hugsjón sem hann neitaði að horfast í augu við að var dæmd til að mistakast – með hræðilegum afleiðingum.[1]

Skoðum þessar túlkanir lið fyrir lið.

Lenín sem einræðisherra?

Þeir sem vilja meina að Lenín hafið verið engu skárri en Stalín benda alltaf á meinta einræðistilburði hans sem sönnun þess að hann var að leggja línurnar fyrir sömu alræðisstefnu og fylgdi í kjölfarið á dauða hans. Þar má nefna hvernig hann leysti upp þing og ráð verkamanna (sovét) þegar þau stóðu í vegi fyrir honum. Einnig neitaði hann oft að hlusta á aðra flokksmeðlimi sem greindi á um aðgerðir og áherslur og sýndi lýðræðislegri ákvörðunartöku oft litla virðingu ef ekki andúð – oft á tíðum var hann bókstaflega einn á móti öllum Bolsévikaflokknum en gaf sig þó aldrei ef hann var sannfærður um réttmæti eigin stefna. Ein afleiðing þess var þó t.d. sjálf Októberbyltingin en flestir aðrir leiðtogar Bolsévika, þ.á.m. Zinoviev og Kamenev, voru hikandi eða mótfallnir henni. Þetta eru einkennileg viðmið sem virðast eiga sérstaklega við hann. Því oftast þegar vestrænir stjórnmálamenn standa fast á sínu er það talið þeim til tekna frekar en hitt, hvað þá þegar það kemur í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér og sannfæring þeirra leiðir til sigurs, eins og oftast var tilfellið með taktík og aðgerðir sem Lenín taldi nauðsynlegar. Hann hafði einstaka hæfileika til að lesa aðstæðurnar og snúa þeim sér í vil. Slíkt er oftast talið vera merki um góðan stjórnmálaleiðtoga frekar en einræðisherra. Hér væri hægt að nefna George Washington, annan byltingarleiðtoga sem er dáður mun meira fyrir mun minni afrek af svipuðu tagi (ásamt því að á sama tíma er litið framhjá ódæðunum sem hann framdi, meira um það neðar).

Fram til 1918 deildu Bolsévikar völdum með öðrum flokkum og ráðum verkamanna sem það átti í ýmsu samstarfi við. Staðreyndin er sú að fram að þeim tíma er erfitt er að finna annan stjórnmálaleiðtoga í gjörvallri mannkynssögunni sem náði betri árangri í að fá fjöldann – sem í hans tilviki voru bláfátækir verkamenn og bændur sem höfðu langflestir enga reynslu af stjórnmálastarfi – til að hætta að vera fórnarlömb yfirvalds og taka örlögin sín og samfélagsins í eigin hendur. Eitthvað sem maður hefði haldið að Vesturlönd, sem veifa sífellt lýðræðishugsjóninni, kynnu að meta.

En eins og alkunna er kom Lenín síðar á aukinni miðstýringu valds sem flokkur hans, sem hét þá Kommúnistaflokkurinn, fór með. Þetta vald notaði hann svo til dæmis til að takmarka fjölmiðlafrelsi, ráðast gegn pólitískum andstæðingum (meira um það neðar) og gera uppskerur bænda upptækar með valdi sem leiddi til ýmissa átaka og uppreisna – svo við tökum einnig dæmin sem oftast eru nefnd í þessu sambandi.

Hér er erfitt að átta sig á hvernig slíkar stefnur gera hann að einræðisherra. Fyrir utan þá einföldu staðreynd að einræði var aldrei við lýði undir Lenín, þá er mjög hæpið að halda því fram að það hafi verið stefnan eða takmarkið. Aukin miðstýring valds er vissulega andlýðræðislegt, og eignaupptaka bænda sem höfðu ekki mikið fyrir hljómar ekki eins og eitthvað sem er í anda sósíalismans. En þessar aðgerðir þarf að skoða í samhengi við hverjar aðstæðurnar í Rússlandi á þessum tíma voru. Efnahagskerfið og allir samfélagslegir innviðir voru ein rjúkandi rúst eftir margra áratuga óstjórn keisarastjórnarinnar, ofan í það kom fyrri heimsstyrjöldin, eftir hana borgarastríð sem voru ein blóðugustu átök í sögu Evrópu og samfélagið féll endanlega saman og ef það var ekki nóg leiddu þurrkar til uppskerubrests og alvarlegrar hungursneyðar.

Ekki má heldur gleyma því að Lenín og kommúnistastjórninni stóð einnig mikil og raunveruleg ógn af utanaðkomandi öflum, vestrænum ríkjum sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að grafa undan nýju stjórninni með ýmis konar íhlutun og aðstoð til gagnbyltingarsinna og íhuguðu alvarlega beina innrás – eitthvað sem Lenín átti alveg eins von á á hverri stundu. Margir fræðimenn og aðrir hafa fært fyrir því sannfærandi rök að án vestræns stuðnings hefði borgarastríðið aldrei getað verið háð. Þessi hryllilegu átök, þar sem mannfallið var á við alla fyrri heimsstyrjöldina, var þannig á ábyrgð vestrænu heimsveldanna – ábyrgð sem þau hafa aldrei sýnt minnstu viðleitni til að horfast í augu við alveg fram til dagsins í dag.[2]

Við takmörkun fjölmiðlafrelsisins tóku Lenín og Trotský skýrt fram að þetta væri tímabundin aðgerð (þótt það hafi vissulega verið deilur innan flokksins um hvort og að hvaða miklu leyti borgarastéttin ætti að hafa leyfi til að dreifa kapítalískum og heimsvaldasinnuðum áróðri – en annað væri nú líka skrýtið). Eins þegar uppskerur voru gerðar upptækar af ríkinu var það algjört neyðarúrræði. Lenín mat það sem svo að það var ekki um neitt annað að ræða ef ekki ætti enn verr að fara (og ef það hefði farið svo væri það væntanlega einnig dæmi um illsku Leníns). Eftir borgarastríðið gerði Lenín það sem hann gat til að bæta þeim bændum það upp – en það var t.d. ein aðalhugsunin á bak við NEP efnahagsstefnurnar.[3]

Hræsnin sem hér er á ferð kemur bersýnilega í ljós þegar við höfum í huga að vestrænar, frjálslyndar lýðræðisþjóðir eins og Bandaríkin og Bretland gripu til fullkomlega sambærilegra aðgerða, t.d. í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni, og stóðu þær ekki frammi fyrir neinu sem kemst nálægt aðstæðunum í Rússlandi á þeim tíma. En slíkt er fyrirgefið í tilviki t.d. Woodrow Wilson sem einnig takmarkaði fjölmiðla- og málfrelsi, sem nauðsynleg aðgerð á stríðstímum. Í tilviki Lenín er það hins vegar merki um einræðistilburði.

Það er einkennilegt hvernig einblínt er á þessar aðgerðir, sem augljóslega voru framkvæmdar af nauðsyn, og horft framhjá öðru því sem komið var í verk. Um leið og kommúnistastjórnin tók við valdataumunum kom hún á svo miklum félagslegum umbótum og festi í lög svo mikil réttindi fyrir verkafólk, bændur og aðra undirokaða hópa af öllum kynþáttum og trúarbrögðum (Bolsévikar lögðu t.d. sérstaklega mikið uppúr samstarfi við múslima) að „frjálslyndu“ vestrænu ríkin voru á svipstundu lent ljósárum á eftir Rússlandi. Þar mætti helst nefna réttindi kvenna, en Febrúarbyltingin byrjaði auðvitað sem mótmæli kvenna á alþjóðlegum degi verkakvenna og voru konur lykilþáttakendur í atburðunum á öllum stigum[4].

Svo má einnig nefna að samkynhneigð var afglæpavædd. Árið 1917. Berum það saman við árangur væstrænna ríkja …

Hvað hefði gerst ef Lenín hefði lifað lengur er auðvitað ómögulegt að segja til um. En það stenst ekki neina skoðun að alræðishyggja Stalíns var einnig áætlun Leníns fyrir Sovétríkin. Eins og frægt er var hann á móti því að Stalín tæki við forystunni og varaði við valdabrölti hans. Einnig – í ræðum og ritum rétt fyrir dauða sinn – gagnrýndi hann kommúnistastjórnina og skriffræðið sem var að myndast harðlega. Hann varaði flokksmenn sína við því að þeir litu of stórt á sig og teldu sigurinn unninn. Þeir hefðu náð pólitískum völdum og sigrast á ótrúlegum áskorunum, en að byggja upp raunverulegt sósíalískt samfélag og menningu væri hin raunverulega barátta sem þeir voru varla byrjaðir á. Jafnvel sagnfræðingar sem eru annars harðir gagnrýnendur hans og kommúnisma eins og Robert Service viðurkenna að allt til dauðadags var vonin um betri og réttlátari heim án kúgunar það sem dreif Lenín áfram.[5]

Það er einnig áhugavert að minnast á orð sem Bertrand Russell – sem var enginn aðdáandi kommúnisma – lét falla um Lenín eftir fund með honum. Hann sagðist þess fullviss að Lenín hefði stigið til hliðar undireins ef hann hefði talið það málstaðnum til framdráttar. En hann neyddist til að taka málin í eigin hendur þar sem hann var einfaldlega langhæfasti einstaklingurinn í fjöldahreyfingunni.[6]

Lenín sem fjöldamorðingi?

Hér komum við að alvarlegustu ásökununum gegn honum: aftökur og fangelsun á pólitískum andstæðingum. Tölurnar yfir fjöldann af fólki sem lét lífið í þessum aðgerðum, „rauðu ógninni“, er mjög á reiki, frá 10.000 til 1,5 milljón. En það er enginn vafi um að Lenín stóð fyrir og ber ábyrgð á mjög harkalegum og blóðugum aðgerðum.

Það er auðvitað ekkert sem ég ætla að neita eða fegra. Lenín og Bolsévikar gátu verið miskunnarlausir í aðgerðum sem þeir töldu nauðsynlegar.

Hins vegar þarf einnig að hafa ýmislegt í huga í þessu samhengi. Í fyrsta lagi stóðu þessar aðgerðir yfir á tímabilinu 1918-1922. Fræðimönnum greinir á hversu lengi nákvæmlega þær stóð yfir og fer það að miklu leyti eftir því hvað miðað er við. Samkvæmt Sovétríkjunum sjálfum stóð það einungis yfir frá september fram í október 1918, en það má telja fullvíst að það sé nokkur hagræðing á sannleikanum. Hvort heldur sem er, þá er allt þetta tímabil þó nákvæmlega sami tími og borgarastyrjöldin geisaði. Þáttur hennar og mikilvægi er eitthvað sem oftast er annaðhvort gert lítið úr eða hreinlega litið framhjá í vestrænum söguskýringum. Þessar aðgerðir voru ekkert sem kommúnistastjórnin tók upp á af engri ástæðu, vegna valdagræðgi eða til að svala hefndar- eða blóðþorsta eins þær söguskýringar sem lengst ganga halda fram. Undanfari þessara aðgerða var sá að hvítliðar og aðrir gagnbyltingarsinnar voru búnir að vera að taka Bolsévika og aðra sem studdu stjórnina af lífi í tugþúsundatali og skapa alls konar glundroða, ekki bara fyrir stjórnina heldur samfélagið allt (með vestrænum stuðningi, svo minnt sé á það aftur). Þessi atburðarrás náði hápunkti þegar Lenín var sjálfur var nærri myrtur, en hann var skotinn tvisvar af launráðamanni. Lenín mat það einfaldlega á endanum sem svo að þeir yrðu að svara í sömu mynt til að reyna að koma einhverjum böndum á ástandið. Hvaða skoðanir sem fólk hefur á því, þá er það einfaldlega fráleitt að ætla að leggja þessar aðgerðir að jöfnu við hreinsanir Stalíns síðar meir. Kommúnistastjórn Leníns var að bregðast við mjög raunverulegri og alvarlegri ógn þar sem allt var undir.

Setjum þetta einnig í annað samhengi. Við skulum vera örlát og sleppa nýlendustefnunni og þjóðernishreinsununum sem Vesturlönd stóðu þar í á svipuðum tíma.[7] Við skulum einnig líta framhjá iðnaðarslátruninni í fyrri heimsstyrjöldinni sem Evrópuþjóðirnar bera ábyrgð á (og leiddi með beinum hætti til byltingarinnar með neyðinni og örvæntingunni sem fylgdi í kjölfarið). Einblínum einungis á nýlegri atburði. Mannfallið í t.d. Víetnamstríðinu (sem geisaði auðvitað einnig í Laos og Kambódíu með hryllilegum afleiðingum fyrir þær þjóðir að auki) eingöngu er tvisvar eða þrisvar sinnum meira jafnvel þótt við miðum við hæstu tölur frá hörðustu gagnrýnendum Leníns. Mannfallið í Íraksstríðinu er á svipuðu reiki ef við gefum okkur að þær tölur séu nærri lagi (sem öll ástæða er þó til að efast stórlega um). Það er þó ekki vitað nákvæmlega hve margir hafa farist í Írak frá 2003 þar sem ráðafólk vestursins hafa engan áhuga á að vita það. Við þurfum að reiða okkur á áætlaðar tölur frá ýmsum hjálparsamtökum (sem eru sammála um að fjöldinn er a.m.k. vel yfir milljón látnir).

Í þessum tveimur tilfellum er um að ræða innrásir í önnur lönd sem Vesturlöndum stóð engin ógn af – sem er eitthvað sem Lenín gerðist aldrei sekur um. Ég tek þessi dæmi vegna þess hversu þekkt þau eru, en það er auðvitað hægt að koma með ótalmörg önnur, það hefur ekki beinlínis verið skortur á slíkum hernaðaríhlutunum og aðgerðum meðal Vesturlanda. Það er ekkert annað en ólýsanleg hræsni að aðgerðir kommúnistastjórnar Leníns sé alræmdari og jafnvel talin vera verri en endalausu stríðin sem Vesturlönd hafa háð – á nítjándu öld, alla tuttugustu og fram á þessa – og Lenín sjálfur meira illmenni en vestrænir leiðtogar sem bera ábyrgð á þeim. Ekki einungis er mannfallið ekki nærri því sambærilegt, ásetningurinn er einnig allt annar. Ekki aðeins voru aðgerðir Leníns sjálfsvörn, heldur barðist hann með hvað mestri ástríðu á móti einmitt heimsvaldastefnu kapítalismans sem gerir slík stríð óhjákvæmileg og eðlileg. Samt er af einhverjum ástæðum almennt talið að t.d. George W. Bush og Tony Blair hafi haft betri og göfugri ásetning í Íraksstríðinu en Lenín sem er sakaður um að vera fjöldamorðingi. Jafnvel þótt þessir arkitektar þess hryllings geti ekki einu sinni gefið nein skýr svör um hver ásetningurinn var, hvað þá að einhver trúi því að einhver ástríða fyrir fólkinu eða réttlæti hafi legið þar að baki (eitthvað sem flestir fræðimenn á þessu sviði efast ekki um í tilviki Lenín).

Svo má líka spyrja sig: ef vestrænar þjóðir og leiðtogar grípa til slíkra hryllilegra aðgerða og grimmdar gegn saklausum og varnarlausum þjóðum sem þeim stendur engin ógn af, getur maður rétt ímyndað sér hvaða aðgerðir þeir teldu nauðsynlegar ef þeir stæðu frammi fyrir vandamálum í líkingu við þau sem Lenín og kommúnistastjórnin þurfti að takast á við.

Það næsta sem við komumst í samanburði er kannski ameríska borgarastríðið. Og það sem við sjáum þar er einmitt aðgerðir af sama toga: aftökur á pólitískum andstæðingum, takmörkun á fjölmiðlafrelsi og borgararéttindum, hryllileg meðferð fanga, blóðugar stríðsaðgerðir þar sem engin miskunn er sýnd með hrottalegu mannfalli, o.s.frv. Aðgerðir og stefnur Lincolns eru hins vegar réttlættar og skildar í ljósi alvarlegra aðstæðna og er hann sá vestræni stjórnmálamaður sem hvað mest virðing er borin fyrir. Allt aðrar siðferðiskröfur og viðmið eru hins vegar notuð til að dæma Lenín sem virðist hafa átt að vinna hryllilegt og miskunnarlaust borgarastríð án þess að beita ofbeldi og takast á við alvarlega hungursneyð og reyna að reisa við efnahagskerfi og samfélag í rjúkandi rúst án þess að taka neinar erfiðar eða umdeildar ákvarðanir.

Það sem vill einnig gleymast er að Bolsévikar voru hreinlega að berjast fyrir lífi sínu. Ef þeir hefðu tapað borgarastríðinu er ekki nokkur vafi á því (Kornilov hershöfðingi fór t.d. ekkert í felur með það) að þeir – og mikill fjöldi fólks sem álitnir væru stuðningsmenn þeirra – hefðu verið teknir af lífi í hreinsunum af sama toga, líklega mun stærri. Það hefði verið gert af stjórn sem væri studd af vestrænum lýðræðisríkjum sem hefðu himinlifandi lýst yfir sigri. Það má spyrja sig hvort þær aftökur væru þá eins alræmdar í mannkynssögunni og þær sem Lenín stóð fyrir? Einhvern veginn efast ég um að þær væru eitthvað sem yfirhöfuð hefði verið minnst á. Hvað þá að einhver myndi eftir þeim í dag.

Lenín sem einfeldningslegur draumóramaður?

Loks er það mildari hugmyndin um Lenín sem leiðtoga sem leiddi heilt samfélag, og tugmilljónir manna, til glötunar vegna hugsjónar sem hann neitaði að gefa upp á bátinn þrátt fyrir að öllum væri ljóst að hún var óraunhæf og dæmd til að mistakast.[8] Í þessum skilningi hafði hann þó góðan ásetning, þótt hann beri samt sem áður ábyrgð á hryllilegum hörmungum.

Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að engin vissi það betur en Lenín að sósíalísk útópía var aldrei að fara að verða að veruleika í Rússlandi þess tíma. Marxismi kveður á um að sósíalismi getur einungis tekið við af iðnvæddum kapítalískum ríkjum, sem næsta þróun í samfélagsgerðinni (og Marx hafði einnig, eins og Lenín, algjöra andúð á útópíuhugsun). Samkvæmt þessu var sósíalísk bylting augljóslega ekki möguleg í bændasamfélagi sem var ekki einu sinni enn almennilega komið út úr lénskerfinu og hafði mjög litla og máttlausa verkamannastétt (sem samkvæmt Marx er eina stéttin sem er fær um að koma á sósíalískri byltingu). Aðrir marxískir byltingarsinnar, eins og Mensévikarnir, töldu að byltingin ætti að snúast um að borgarastéttin tæki völdin, sem myndi svo gera aðstæðurnar réttar fyrir sósíalíska byltingu síðar meir. Lenín fór hér gegn einni aðalkenningu marxisma – og ekki í fyrsta skiptið. Það sem gerði Lenín einmitt að svo stórkostlega hæfum stjórnmálamanni var ótrúlegur hæfileiki hans til að aðlaga stefnur sínar og taktík eldsnöggt að aðstæðum sem voru sífellt undir miklum og ófyrirsjáanlegum breytingum. Hann vissi langoftast nákvæmlega hvar, hvenær og hversu mikið hann ætti að beita þrýstingi.

Októberbyltingin var framkvæmd í þeirri trú að bylting í Rússland myndi leiða til byltinga í öðrum löndum Evrópu, þá helst í Þýskalandi sem myndi þá koma Rússlandi til aðstoðar. Það var þessi trú sem var undirliggjandi ákvörðun Leníns að skrifa undir niðurlægjandi Brest-Litovsk samninginn. Þessari ákvörðun var mótmælt harðlega af hinum leiðtogum Bolsévika, ekki síst Trotský. En Lenín taldi það að komast út úr fyrri heimsstyrjöldinni vera einu leiðina ef byltingin átti að lifa af, einna helst út af því að fólkið krafðist þess (sem hljómar aftur ekki eins og einræðisherra!). Hann taldi einnig að niðurlægjandi skilmálarnir, þar sem Rússland missti t.d. gríðarlega stór landsvæði, væru hvort sem er bara í gildi þar til byltingin væri gerð í Þýskalandi. Þetta var hins vegar eitt af þeim tilfellum þar sem Lenín reyndist ekki sannspár. Þrátt fyrir það var þessi spá vissulega djörf en langt frá því að vera einhver fantasía, Evrópa logaði öll í uppreisnum og átökum vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar og bylting var vissulega gerð í Þýskalandi, en hún fór út um þúfur vegna svika þýska sósíalistaflokksins – eins og frægt er. Annað mikilvægt atriði sem gerði einnig út af við áætlanir hans var einfaldlega það að stór hluti verkamannastéttarinnar, allir helstu og efnilegustu fulltrúarnir sem voru bráðnauðsynlegir fyrir uppbyggingu sósíalísks samfélags, fórust í borgarastríðinu. Lenín reiknaði ekki með því stríði, hversu blóðugt og eyðileggjandi það yrði.

Hér reifa ég bara nokkur stærstu dæmin, en það þarf ekki að kafa mjög djúpt til að sjá hversu fráleit þessi hugmynd um Lenín er. Hann var þvert á móti mjög djúpur hugsuður og víðsýnn fræðimaður (meira að segja Churchill, sem kallaði hvað háværast eftir því að Vesturlönd gerðu innrás í Rússland og útrýmdu kommúnisma með fjöldaaftökum tók undir það![9]), sem velti stöðugt fyrir sér öllum möguleikum, skipti vandræðalaust um skoðun ef aðstæðurnar kölluðu á það og náði þrátt fyrir allt ótrúlegum árangri í ólýsanlega erfiðum aðstæðum.

Lenín og byltingin sem ógn við auðvald kapítalismans

Hver er þá skýringin á því að Lenín er dæmdur svona hart fyrir verknaði sem eru smámunir miðað við það sem leiðtogar Vesturlanda bera reglulega ábyrgð á og oft er ekki einu sinni talið vera þess virði að minnast á?

Ein líkleg skýring er sú að byltingin er almennt talin vera ólögmæt. Lenín og kommúnistastjórnin eru því séð frá byrjun sem einhvers konar glæpamenn, ekki í sama siðferðilega flokki og vestrænir stjórnmálaleiðtogar. Það er enginn vafi á að helstu leiðtogar vestrænu kapítalísku ríkjanna litu svo á málin, en stjórnin var ekki viðurkennd af þeim fyrr en löngu seinna og þá vegna eigin hagsmuna. Til dæmis kom viðurkenningin ekki frá Bandaríkjunum fyrr en 1933. Líklega er þessi sannfæring um ólögmæti byltingarinnar að einhverju leyti svo rótgróin í hugmyndafræði vestursins að hún er enn að byrgja fólki sýn.

En það er ýmislegt við þetta að athuga. Ekki síst það að Bolsévikar – þrátt fyrir að hafa vissulega tekið völdin í Októberbyltingunni (í einhverri friðsömustu byltingu sögunnar, nánast engu blóði var úthellt) – höfðu svo sannarlega og óneitanlega stuðning mikils meirihluta fólksins. Það er eitthvað sem þeir gagnrýnendur sem kalla byltinguna frekar valdarán[10] líta algjörlega framhjá: ekki aðeins beið Lenín fram til október (nóvember skv. okkar tímatali) þar sem að það var fyrst þá sem Bolsévikar höfðu nægilegan stuðning fólksins að hans mati, heldur er það fráleitt að telja að Bolsévikar hefðu yfirhöfuð getað tekið völdin í valdaráni og stjórnað í óþökk fólksins. Sú stjórn hefði ekki lifað lengi, þegar þarna er komið við sögu er fólkið orðið þrautþjálfað og vant því að koma óvinsælum stjórnum frá. Þeir höfðu þá ekki aðeins stuðning verkamanna, heldur sérstaklega bænda sem voru jú 4/5 af íbúafjölda Rússlands þess tíma. Þeir sneru til Bolsévika eftir algjöra vanhæfni og svikin loforð hinna ýmsu bráðabirgðastjórna. Stjórn Kerenskys og leynimakk hans var kornið sem fyllti mælinn. Slagorð Bolsévika – friður, brauð og land – var snilldarlegt pólitískt útspil sem hitti beint í mark og sameinaði þrjá stærstu og mikilvægustu hópa fólksins: bændur, verkamenn og hermennina á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Útfrá lýðræðislegum sjónarmiðum sem Vesturlönd þykjast hafa í hávegum, þá er erfitt að sjá hvernig bráðabirgðastjórnin eða hvítliðarnir – hvað þá einhver eins og Kornilov hershöfðingi sem reyndi að ráðast á Pétursborg og koma á herforingjastjórn – höfðu réttmætara kall til að fara með völdin. Og þá væri aftur verið að beita viðmiðum sem eiga ekki við vestræn ríki sem víla ekki fyrir sér að traðka á lýðræðissjónarmiðum þegar þau standa í vegi – eins og hernaðaríhlutanir um allan heim eru til marks um.

Annað atriði sem þarf að hafa í huga er að ólíkt því sem gerðist í öðrum byltingum – eins og ensku, amerísku og frönsku þar sem eignastéttin tók þátt í aðdragandanum og átökunum með lægri stéttum og snerist svo gegn þeim og tryggði hagsmuni sína síðar – var borgarastéttin í Rússlandi svo veikgeðja og hrædd við alþýðuna að hún spilaði lítið sem ekkert hlutverk í atburðarásinni. Eins og rússneski sagnfræðingurinn og þáttakandi í byltingunni Sukhanov komst að orði: borgarastéttin var búin að svíkja fólkið áður en byltingin átti sér stað.[11] Það stenst einfaldlega enga skoðun að ef það hefði ekki verið fyrir Bólsévika, þá hefði frjálslynt lýðræðisríki í vestrænum anda fengið að blómstra, skoðun sem virðist oft vera undirliggjandi gagnrýninni. Aðstæður í Rússlandi á þeim tíma buðu einfaldlega ekki upp á það.

Ég tel þó meginástæðuna fyrir þessari neikvæðu ímynd vera nokkuð augljósa : Lenín og hans fordæmi, að hafa leitt fyrstu sósíalísku byltinguna til sigurs (afrek sem fram að því var deilt um hvort væri yfirhöfuð mögulegt) er skýr ógn við kapítalismann og auðvaldið. Ekki bara áður fyrr heldur enn þann dag í dag. Það vill auðvitað síst af öllu að fólk fari að taka sér Lenín – eldmóð hans gegn kúgun og arðráni kapítalismans, samúð með hinum undirokuðu og þjáðu, ástríðu fyrir réttlæti, og ekki síst hugrekki til að raungera hugsjónir sínar – til fyrirmyndar. Til að koma í veg fyrir það eru lagðar hugmyndafræðilegar línur sem gera það að verkum að það er ekki hægt að tala um hann sem fyrirmynd án þess að vera stimplaður sem rugludallur – jákvæðu eiginleikar hans og gjörðir eru einfaldlega ekki til umræðu. Innan þessara lína er einnig sú söguskýring að byltingin hafið verið dæmd til að enda í eymd og hryllingi alveg frá byrjun, í þeim tilgangi að fæla fólk frá allri hugsun um byltingu. Þannig er það gert að einhverjum augljósum sannindum að það að gera uppreisn gegn – og taka völdin af – auðvaldinu sé eitthvað sem getur einungis leitt til hörmunga. Það er líka ekki hægt að segja annað en að þessi hugmyndafræðibarátta hafi virkað vel hingað til miðað við almennu hugmyndina um byltinguna, sem er mjög neikvæð.

En eins og China Mieville kemst að orði í bók sem kom út í ár í tilefni afmælisins: Októberbyltingunni á að fagna af því að hún lýsir yfir að einu sinni breyttust hlutirnir og þeir gætu því breyst aftur.[12] Það er sorglegt ef við höfum gleymt því að fyrir hundrað árum síðan tókst fólkinu að gera ótrúlega og einstaka hluti – eitthvað sem virðist ómögulegt í dag einmitt þegar við þurfum á því að halda líklega meira en nokkurn tímann áður, í ljósi loftslagsbreytinga, óhefts kapítalisma í djúpri krísu, ójöfnuðar sem er kominn í sömu hæðir og við upphaf tuttugustu aldar, o.s.frv. En það þarf ávallt að hafa það í huga, að það var ekki einungis talið vera ómögulegt þá, heldur voru aðstæður miklu erfiðari en þær sem við búum við. Í þeim ógöngum sem við finnum okkur í í dag ætti Októberbyltingin að vera einn af þeim brunnum sem vinstrið sækir innblástur í[13] – á sama tíma og dregið er lærdóm af þeim mistökum sem vissulega voru gerð.[14]

  1. Bækurnar sem taka þann pól í hæðina eru auðvitað óteljandi. En sem dæmi.: Lenin, Stalin, Hitler. The Age of Social Catastrophe eftir Robert Gellately frá 2008 og Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin eftir Timothy Snyder frá 2011.
  2. Sjá t.d.: https://www.jacobinmag.com/2017/07/lenin-trotsky-russia-1917-war-wwi
  3. NEP (New Economic Policy) voru efnahagsstefnur sem Sovétríkin innleiddu árið 1922. Eftir að hafa þjóðnýtt allt efnahagskerfið eftir byltinguna, var kapítalismi tímabundið innleiddur á ný á sumum sviðum. Lenín mat það sem svo að það var ekki um annað að ræða til að koma efnahagskerfinu aftur í gang eftir hörmungar borgarastríðsins. NEP var við lýði í Sovétríkjunum þar til Stalín lagði þær niður árið 1928.
  4. Fyrir góða umfjöllun um hlutverk kvenna í byltingunni sjá þrettánda kaflann í The Dilemmas of Lenin eftir Tariq Ali frá 2017.
  5. Sjá t.d. Service, Robert. Lenin: A Political Life. London, 1995.
  6. Í The Practice and Theory of Bolshevism. Full tilvitnun: „Only once I saw Lenin: I had an hour’s conversation with him in his room at The Kremlin in 1920. I thought he resembled Cromwell more than any other historical character. Like Cromwell, he was forced into a dictatorship by being the only competent man of affairs in a popular movement. Like Cromwell, he combined a narrow orthodoxy in thought with great dexterity and adaptability in action, though he never allowed himself to be led into concessions which had any purpose other than the ultimate establishment of Communism. He appeared, as he was, completely sincere and devoid of self-seeking. I am persuaded that he cared only for public ends, not for his own power; I believe he would have stood aside at any moment if, by so doing, he could have advanced the cause of Communism.“
  7. Það þarf þó að minnast á absúrdleikann sem sjá má í ritum og söguskýringum Niall Ferguson sem er harður gagnrýnandi Leníns og byltingarinnar – en verjandi nýlendustefnunnar.
  8. Dæmi um fræðimann sem boðar slíka túlkun er t.d. John Gray í bókum eins og Straw Dogs.
  9. Churchill um Lenín: „He was at the age to feel. His mind was a remarkable instrument. When its light shone it revealed the whole world, its history, its sorrows, its stupidities, its shams, and above all its wrongs. It revealed all facts in focus – the most unwelcome, the most inspiring – with an equal ray. The intellect was capacious and in some phases superb. It was capable of universal comprehension in a degree rarely reached among men. The execution of the elder brother deflected this broad white light through a prism: and the prism was red.“
  10. Og hefur sú gagnrýni komið frá ólíklegustu áttum, m.a. frá Noam Chomsky
  11. Tilvitnun í Hamann, Chris. A People’s History of the World. Verso. 1999. bls. 414.
  12. October. The Story of the Russian Revolution frá 2017
  13. Eins og öfgahægrið. En Stephen Bannon, einn nánasti ráðgjafi Donald Trumps hefur lýst yfir aðdáun sinni á Lenín og hefur hann meira að segja kallað sig lenínista í viðtölum. Eins uppljóstrar Nancy MacLean í nýrri bók, Democracy in Chains, að víðtæk net hugsunarveita og hagsmunahópa af ýmsu tagi – sem fjármagnaðar eru af hinum ofurríku og hafa hagfræðinginn og fræðimanninn James Buchanan sem miðju og andlegan leiðtoga – hafa verið í leynilegu stríði gegn lýðræðinu og lægri stéttum í áratugi – í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Þessir aðilar hafa Lenín og taktík hans á leslista sínum og sækja til hans innblástur.
  14. Og ég kýs að fjalla ekki um hér, ekki af því að ég neita þeim og öðrum neikvæðum afleiðingum byltingarinnar, heldur af þeirri einföldu ástæðu að það er enginn skortur á slíkri umfjöllun.