Pizza var auglýst í fyrsta sinn á matseðli á Íslandi þann 1. apríl 1960 á Naustinu, þeim sögufræga veitingastað.

Nokkrar hugleiðingar um rasista og mataræði þeirra

Ef mjög þekktur andstæðingur hælisleitenda segist borða mat sem er búinn til samkvæmt uppskriftum frá framandi slóðum, getur hann þá verið rasisti? Þessi andstæðingur, sem er jafnframt sannkristinn og mætti þar með rifja upp gullnu regluna, telur svo ekki vera. Það er í öllu falli tilefni til að skoða þetta aðeins nánar áður en fullyrðingin er slegin alveg út af borðinu, þó ekki nema aðeins því hún er það absúrd.

Hvað er það sem skilur raunverulega að mannskepnuna frá öðrum lífverum dýraríkisins? Ef þú myndir spyrja Michael Pollan, blaðamann og prófessor í matarmenningarfræðum við Kaliforníuháskóla í Berkeley, myndi hann svara því til að það sé geta mannsins til að matreiða. Að breyta því sem við borðum frá einu formi, einni áferð, einni efnasamsetningu, í eitthvað annað. Með því að blanda saman hráefnum, nýta okkur hita eða kulda, eld eða vatn, rakastig, þrýsting eða hvað sem ímyndunaraflið býður – til að breyta einföldum hlutum á við hrátt egg í steikt egg. Kjöti í grillveislu. Fisk í sushi. Eða, sem er líklega mesta menningarafrek sögunnar; að breyta korni, vatni og salti í brauð.

Matargerð er sögulega ekki aðeins eitthvað sem mannskepnan þurfti á að halda til að lifa af. Öll þurfum við jú að nærast. Saga matargerðar er einnig saga tjáningar, saga vísinda og saga menningararfleifðar menningarsvæða og menningarkima. Mannkynssöguna er bókstaflega hægt að lesa í gegnum bragðlaukana. Matargerð er sem betur fer oftast sameinandi, enda fátt betra en að deila góðri máltíð með góðu fólki. Brauð og smjör getur verið besta máltíð lífs þíns, því þegar öllu er á botninn hvolft skiptir ekki máli hvað þú borðar, heldur með hverjum þú borðar. En þar með er ekki öll sagan sögð. Matur getur einnig verið notaður í vafasömum pólitískum tilgangi, jafnvel rasískum. Hann er notaður við öðrun, til að gera lítið úr menningarsögu „annarra“, menningararfleifð þeirra og þess sem er framandi, á sama tíma og „hefðbundin“ matargerð er lofsungin sem hinn eini heilagi sannleikur.

Dæmi um þetta má finna víða. Á Íslandi, sem annars staðar, heyrðust til dæmis lengi vel rasískir hlutir á við að kalla fólk af austur-asískum uppruna „grjón“. Því það var uppistaðan í matarmenningu fólksins. Sömuleiðis voru Danir kallaðir hér „baunar“ með niðrandi xenófóbískum tón, einfaldlega því þeir borða baunir (raunar voru smjörbaunasendingar Dana á 18. og 19. öld vel þegnar af ungum námsmönnum á Íslandi og héldu líklega í þeim lífinu uns þeir komust á legg, en það er önnur saga). Bretar kalla Frakka „froska“, Þjóðverkar eru kallaðir „krauts“ því þeir borða súrkál. Svona mætti lengi telja. Öðrunin fær birtingarmynd í matnum sem við neytum, eða matnum sem þau, ekki við, neyta.

Maturinn sem við eldum, sem við kaupum og sem við neytum, segir því heilmikið um hver við erum… en einnig, maturinn sem við viljum alls ekki leggja okkur til munns. Að vera vegan er langoftast pólitísk afstaða (frekar en heilsufarsleg) sem bendir á óréttlæti, ómannúðleg vinnubrögð við slátrun dýra og mikilvægi umhverfisvitundar. Gyðingar og múslimar borða ekki svínakjöt af trúarlegum ástæðum. Maturinn og mataræðið er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar og menningu – og, mögulega, afstöðu okkar til annarra menningarsvæða.

Íslendingar hafa til að mynda verið afar fálátir gagnvart nýjungum í matargerð, allt frá landnámi. Það sem var nýtt og framandi hefur mætt mikilli andstöðu íhaldsafla. Sjálfsagðar afurðir á borð við grænmeti, pizzu, eða jafnvel ólífuolíu, voru fordæmdar af íslenskri alþýðu þegar þær litu fyrst dagsins ljós á Íslandi. Pizza var til að mynda fyrst auglýst á matseðli á íslenskum veitingastað árið 1960. Það tók hana, þennan vinsælasta rétt veraldar, heila þrjá áratugi til viðbótar til að ná almennilegri fótfestu. Slík var mótstaðan. Brautryðjendur í grænmetisrækt mættu sömuleiðis miklum fordómum (þótt kartöflur og rófur hafi helst verið teknar í sátt). Kálgarðar voru prófaðir, en að lokum eyðilagðir. Það þótti mikilvægara að rækta hey fyrir búfénað. Talað var um grænmeti sem „gras“ og Íslendingar ætluðu ekkert „að borða neitt helvítis gras.“

Þekkt er saga um Jón Bergsted, kálfrömuð í Skagafirði á 19. öld, sem reyndi hvað hann gat til að fá sveitunga sína til að borða grænmeti. Lífseig vísa varð til um hann, þegar kona sem var hjá honum í vist tók beinlínis upp á því að flýja þetta stöðuga gras.

Um Jóhönnu myndast mál,
mellu slapp úr lási;
hún vildi ekki kjamsa kál
kýladólgs í Ási.

Kál var því, í þau fáu skipti sem það var notað á 18. og 19. öld, sett í grauta. Mjólkurgrauta(!). Svona rétt eins og rófur og næpur. Uppskriftirnar voru yfirleitt á svipaða leið; grænmeti/næpur/rófur eru soðnar í mjólk eða vatni, ásamt krafti ef til. Þegar sýður er mjöli kastað í pottinn, sé það fyrir hendi. Loks má bæta við sykri ef hann er við höndina. Úr þessu varð svo grautur/grænmetisstappa með mjólk sem hljómar ekkert sérstaklega vel.

Hluti af þessari andstöðu við það sem er nýtt, ber því augljós merki menningarlegrar og þjóðernislegrar íhaldssemi, að vernda það sem fyrir er og halda óbreyttu ástandi – sama þótt það óbreytta ástand bjóði upp á tilfinnanlegan skort fjölda næringarefna og er auk þess heldur viðbjóðslegt á bragðið. Þannig eru þjóðarréttir jafnan notaðir í þjóðernispólitískum tilgangi, eitthvað sem sameinar „okkur“ og skilur að frá „hinum.“ Þorramaturinn er gott dæmi og áhugavert, sérstaklega þar sem þorrabakkinn er að miklu leyti skapaður menningararfur sem á rætur sínar að rekja til veitingahússins Naustsins þar sem hann var settur saman upp úr miðri 20. öld. Þrátt fyrir það finnur almenningur hvergi meira fyrir þjóðernisstolti en þegar kjafturinn er fullur af hákarli og brennivíni í miðju víkingaklappi á þorrablóti. Þessi þjóðernisstefna sem lýsir sér í matarsmekk og matarneyslu náði svo ákveðnum hápunkti þegar þáverandi formaður Framsóknarflokksins, og síðar forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagðist ætla eingöngu að leggja sér „íslenskan mat“ til munns árið 2011.

Ef við fetum í fótspor þjóðfræðingsins Henry Glassie, og spyrjum „hvað er raunverulega upprunalegt?“ þegar kemur að íslenskum mat er ljóst að Sigmundur hefði ekki haft úr mörgu að velja. Meira að segja skyrið okkar er byggt á erlendum fyrirmyndum, það elsta er líklegast labneh, sem enn er neytt í miklum mæli í löndum eins og Líbanon, Palestínu, Írak og Egyptalandi – þar sem siðmenningin varð til.

En gott og vel. Sigmundur vakti þrátt fyrir þetta mikla athygli og vinsældir hans jukust við athæfið. Fólk kunni að meta það stolt sem hann hafði gagnvart „íslenskum“ mat, hvað sem því líður að uppáhaldsdrykkur Sigmundar er bandaríski svaladrykkurinn Mountain Dew. Er Sigmundur þar með rasisti, þar sem hann vildi aðeins borða „þjóðernissinnaðan“ mat?

Ef til vill er betri spurning, sérstaklega í dag, hvort rasisti geti svarið af sér kynþáttafordóma og vanvirðingu fyrir öðrum menningarheimum, með því að borða mat sem er gerður samkvæmt uppskriftum sem eru, eða voru í öllu falli, Íslendingum framandi? Nóg er um rasisma sem má beinlínis tengja við framandi mat. Hver hefur ekki lent í því að vera illt í maganum og fá spurningu á borð við „jiiii, varstu að borða indverskt?“ Er ekki beinlínis jákvætt og lýsandi fyrir víðsýni að fólk borði mat sem er þeim framandi?

Mjög áhugaverð skrif hafa komið fram um einmitt þetta á undanförnum misserum. Þá sérstaklega frá Bandaríkjunum. Það er auðvitað engin nýlunda að fólk í forréttindastöðu nýti sér yfirburði sína, og raunar gerir í því að undirstrika þá yfirburði, með því að njóta matar-og menningargersema þeirra undirskipuðu. Þannig var vinsælt sport meðal nýlenduherra eyjanna í Karíbahafi, sem og nýlenduherra á bómullarekrum Bandaríkjanna langt fram eftir 20. öld, að leggja sér til munns mat sem var eldaður samkvæmt uppskriftum innfæddra eða innfluttra þræla. Hugtakið um „barbecue“ er í raun þaðan komin, frá Vestur-Indíum, en innfæddir héldu gjarnan veislur með því að heilgrilla dýr yfir opnum eldi og pensla það reglulega (basting) með kryddlegi sem var Evrópubúum framandi. Hvernig er betra að undirstrika yfirburði sína öðruvísi en að láta þrælinn matreiða það sem hann gerir best, það sem honum/henni finnst best, án þess að fá að njóta þess sjálf/ur?

Bandaríski matarblaðamaðurinn Lauren Collins segir til að mynda að „bbq“ sé í raun pólitískasti matur Bandaríkjanna um þessar mundir. Pólitískur og pólaríserandi. Sem dæmi nefnir hún mismunandi tegundir af bbq-sósum, en hver og ein á uppruna sinn á ákveðnu svæðu, í ákveðnu fylki/ríki Bandaríkjanna. Maurice Bessinger, þekktur rasisti og baráttumaður fyrir áframhaldandi kynþáttaaðskilnaði í Suður-Karólínu, er til að mynda höfundur uppskriftarinnar Carolina Gold Sauce, sem inniheldur gult, sætt sinnep. Bessinger þessi, sem er steindauður í dag, bjó þar með til pólitíska yfirlýsingu sem er fólgin í vali suðurríkjabúa á bbq-sósu. En málið er flóknara, þar sem upprunalega voru þessar sósur, „basting-sósur“, frá innfæddum eða þrælum komnar. Einnig hefur verið bent á, að það er fátt sem rasistum finnst betra en að gera lítið úr þeldökku fólki með tilliti til mýtunnar um að þeldökkir Bandaríkjamenn borði einungis steiktan kjúkling – en á sama tíma gæða sér á sama mat. Tilvísunin er þá eftirfarandi: „við stjórnum ykkur svo auðveldlega að við borðum matinn ykkar og þið getið ekkert gert í því.“

Það er auðvitað jákvætt að fólk sé tilbúið til að opna hugann og borða framandi mat, prófa nýja hluti og upplifa menningarsögu mannkyns í gegnum ljúffengan mat og drykk. Aftur á móti þarf að hafa margt í huga. Til dæmis tilhlýðilega virðingu, og að nýta sér ekki menningararfleifð annarra menningarheima (sérstaklega þeirra sem hefur verið traðkað á í nútímasögu), sér til framdráttar. Mataræði rasista getur verið auðveldlega verið fjölbreytt, rétt eins og fólkið sem þeir umgangast. Nálgunin og virðingin fyrir matnum, rétt eins og fyrir fólkinu, þarf hins vegar að vera til staðar. Það eitt að þú drekkir te, gerir þig ekki að heiðurskonsúl Kínverja á Íslandi.

Þetta er angi af stóru og flóknu máli. Það má einnig hafa í huga virðingu gagnvart verðlagningu á mat, sama hvaðan hann kemur. Fólk ætlast hreinlega til þess að asískur matur eigi að vera ódýr, eða í það minnsta ódýrari en annar matur. Hvers vegna? Afurðirnar í flestar uppskriftir frá Asíu innihalda dýrari innihaldsefni en í evrópskri/ítalskri/franskri matargerð. Hvers vegna er gerð krafa um að döner sé ódýrari en hamborgari? Er það vegna uppruna uppskriftanna? Okkar eigin duldu matarfordóma?

Spáið í það. Þetta er allt saman virkilega heillandi nefnilega.