Við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki og Noreg eða ekki og kjósa um nýja stjórnarskrá eða ekki. Við viljum vera frjáls. Við viljum vera sjálfstæð. Við viljum vera reið og að á okkur sé tekið mark.
Krafan er skýr og krafan er þessi:
Við mótmælum Landspítalanum og flugsamgöngunum og jarðgöngunum. Við mótmælum Stöðvarfirði og sjávarútveginum, Vísi og Þingeyri, Fiskistofu og Flateyri, mótmælum háspennulínum og Framsóknarflokknum. Umfram allt annað mótmælum við Framsóknarflokknum.
Við mótmælum forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu í forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu í innanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu hvar sem það er að finna. Við mótmælum líka utanríkisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu og hinum sem tekur því ekki að nefna.
Við mótmælum moskukrítískum og mótmælum hríðskotabyssum og mótmælum moskukrítískum hríðskotabyssum.
Við mótmælum lögreglunni, Morgunblaðinu, eignarhaldinu og einkaeignarréttinum, einkaeignarhaldinu og eignabrunanum.
Við mótmælum í sjölum, kápum og frökkum, mótmælum á Austurvelli og netinu, með trefilinn fyrir andlitinu, lambhúshettuna, Guy Fawkes-grímuna eða bara eitthvað hallærislegt, einsog það sé ekki hallærislegt, þetta verður langur vetur, forsætisráðherra er þaulsetinn og við viljum ekki láta bera kennsl á okkur.
Við mótmælum í síðbuxum, mótmælum í smekkbuxum og kortbuxum. Það er langt í nýtt sumar og þá mótmælum við í stuttbuxum, ef lygin leyfir. Þá mótmælum við í mínipilsum, strápilsum og pylsuvögnum, ef lygin leyfir.
Krafan er skýr. Krafan er skýr og krafan er þessi:
Við mótmælum Sjálfstæðisflokknum og Kolkrabbanum og Sambandinu, Mjólkursamsölunni og LÍÚ eða hvað það nú heitir. Við mótmælum verkalýðsfélögunum og verkalýðsleiðtogunum en við mótmælum ekki verkalýðnum, ekki einu sinni þegar hann er hvítur, ciskynja, gagnkynhneigður, rétthentur, heilsuhraustur, karlkyns á miðjum aldri í millistétt og vinnur á skrifstofu, og svo sannarlega ekki þegar hann er ekkert af þessu. Vegna þess að við stöndum saman, annars fáum við engan kvöldmat.
Við mótmælum styttum bæjarins og degi ljóðsins. Við mótmælum fegurðarímyndum og staðalmyndum og launamuni kynjanna og launamuni stéttanna og launamuni punktur. Við mótmælum auðninni og vegaleysum, mótmælum vegagerð og háhýsum, raðhúsum, ráðhúsum og kirkjubyggingum.
Krafan er skýr.
Krafan er skýr og krafan er þessi:
Við mótmælum í grasinu og grjótinu, slabbinu og drullunni, mótmælum í tröppunum, á svölunum, í kuldagöllunum og undir regnhlífunum. Aldrei mótmælum við jafn innilega og undir regnhlífunum, með trefilinn þéttvafinn um andlitið, öll saman í einu faðmlagi.
Öll þessi búsáhöld og enginn matur. Allur þessi matur í öllum þessum ruslatunnum. Við mótmælum þessum ruslatunnum.
Krafan er skýr. Hún er þessi.
Við mótmælum afarkostum og bókasköttum, mótmælum niðurskurði og lekum og lekum og lekum á lækum.
Við mótmælum meðferðinni á hælisleitendum. Meðferðinni á flóttamönnum. Meðferðinni á fátæklingum.
Við mótmælum meðferðinni á skuldurum. Meðferðinni á skuldunum. Meðferðinni á peningum.
Við mótmælum meðferðinni á kennurum. Meðferðinni á læknum. Meðferðinni á hjúkrunarfræðingum.
Við mótmælum meðferðinni á börnum. Meðferðinni á konum. Meðferðinni á körlum.
Við mótmælum meðferðinni á útigangsfólki. Meðferðinni á námsmönnum. Meðferðinni á verkamönnum.
Við mótmælum meðferðinni á transfólki. Meðferðinni á samkynhneigðum. Meðferðinni á tvíkynhneigðum.
Krafan er þessi.
Við mótmælum í rúsi, í vímu og fullkomlega skýr. Krafan er fullkomlega skýr. Við mótmælum fyrir fréttir og eftir fréttir og ekki rétt á meðan Ísland Got Talent er í sjónvarpinu. Við mótmælum í tónum og með tiktúrum, mótmælum með tilbrigðum og tilbrigðaleysi, standandi, starandi, dag eftir dag, einu bliki, einu auga, borandi gat í þéttan múrinn.
Við mótmælum forgangsröðuninni og forganginum. Við mótmælum orðræðunni sem útilokar aðgengi að valdinu. Við mótmælum valdinu.
Við mótmælum Hæstarétti og frændunum. Við mótmælum frænkunum á háu hælunum og við mótmælum háu hælunum og mótmælum jafnvel á háu hælunum, ef okkur sýnist. Mótmælum héraðsdómum og lagabálkum. Við mótmælum einkaleikskólum, einkagrunnskólum, einkamenntaskólum, einkaháskólum og einkaspítölum. Þá ætti það að vera á hreinu.
Við steytum snjallsímum og mótmælum. Steytum lánardrottna og mótmælum. Steytum ráðunauta og mótmælum.
Við mótmælum misskiptingu og misskiptingu á misskiptingu og stöndum saman.
Við mótmælum óréttlæti og óréttlæti réttlætis og réttlæti réttlætis og réttlæti óréttlætis og óréttlæti óréttlætis og stöndum saman.
Við mótmælum stáltánum, bomberjökkunum og framsóknardrögtunum og stöndum saman.
Við mótmælum uppsögnunum og fólksflóttanum, atgervisflóttanum, atvinnuleysinu og kapítalismanum. Ekki síst kapítalismanum. Við mótmælum illfærðinni, ófærðinni og atgervinu.
Við mótmælum á öræfum, mótmælum á grunnsævi og miðunum, mótmælum vaðandi og baðandi við Noregsstrendur og utan við Klörubar, seint að nóttu, (m)ælandi bjór og sangríu, áður en sólin rís á frátekna bekki við sundlaugarbarinn, þar sem við rísum á ný, þar sem við rísum til nýrra mótmæla.
Krafan er skýr.
Við mótmælum menningarpólitíkinni, virkjunarpólitíkinni, kynjapólitíkinni, utanríkispólitíkinni, dómsmálapólitíkinni, landsbyggðarpólitíkinni og efnahagspólitíkinni.Við mótmælum einkavæðingu og fákeppni og samkeppnislögmálum. Við mótmælum fjárfestingum og innherjaviðskiptum og útvistun almannaþjónustu. Við mótmælum hagkerfinu. Mótmælum viðskiptahallanum. Mótmælum nauðhyggjunni. Mótmælum þröngsýninni. Mótmælum rörsýninni.
Við mótmælum á kennarastofum og mötuneytum, hristum kaffikrúsir og tölum æst með fullan munninn af rækjusalati og kjötbollum og steiktri ýsu í raspi. Við mótmælum í betri stofum og verri stofum og görgum á sjónvarpið ef það lætur illa að stjórn. Við mótmælum í eldhúsinu og kennum börnunum að ef maður sýnir ekki samstöðu þá fær maður engan kvöldmat. Hannes getur kannski svipt okkur hádegisverðinum en kvöldverðurinn er okkar. Yfir honum hefur enginn annar neitt að segja. Sá byltir best sem síðast hlær.
Og svo framvegis og svo framvegis.
Ljóðið er úr nýrri bók höfundar, Óratorrek.