Handan fyrirgefningar

Við meltum þennan einfalda en öfluga sannleika og súpum úr vatnsflösku sem ég fiska upp úr bakpokanum

(104)

„The story we related is unique“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir í lok TED-fyrirlesturs hennar og Tom Stranger um ferlið sem hófst þegar Tom nauðgaði henni í herberginu hennar eftir jólaballið 1996 og „lauk“ með vikulöngum endurfundum í Höfðaborg 2013 sem eru efni, eða rammi, bókarinnar Handan fyrirgefningar. Auðvitað er hún að meina að hvert einasta tilfelli nauðgunar er einstakt, og ekki skal ég útiloka að einhver þolandi og gerandi hafi ráðist í svipaða vegferð og þau, sem hófst með bréfi Þórdísar til Toms átta árum fyrir Höfðaborgarfundinn. Engu að síður er ljóst að þau eru á lítt eða ókönnuðu landi þegar þau hefja sameiginlega leit að því hvað gerðist, hvers vegna og hvort einhver leið sé fær út úr þeim ólíku en hliðstæðu öngstrætum sem þau voru hvort um sig komið í.

Öll mál eru einstök, og eins og Þórdís kemur líka inn á í niðurlagi fyrirlestursins tilheyra þau Tom forréttindahópi í heiminum. Vel stæðir og vel menntaðir Vesturlandabúar í þjóðfélögum þar sem umræða og lagarammi um kynferðisafbrot eru ljósárum frá því miðaldamyrkri sem víða ríkir, þó enn sé pottur brotinn eins og dæmi sanna. Þau búa líka við þau forréttindi að vera einstaklega vandað fólk að upplagi og virðast bæði hafa komist óskemmd út úr allri áhættuhegðuninni og sjálfsfyrirlitningunni sem þau lýsa í fyrirlestrinum og bókinni og rekja til þessarar örlaganætur.

Öll mál eru einstök en það er hið (líklega) einstaka úrvinnsluferli sem hefur vakið verðskuldaða athygli og er efni bókarinnar. Hvernig þau hefja samtal um nauðgunina og afleiðingar hennar sem lýkur í Höfðaborg og í framhaldinu ritun bókar og fyrirlesturs.

Form bókarinnar er línuleg frásögn frá dögunum níu í Höfðaborg, á leið þangað og þaðan. Inn í það eru felldar hugleiðingar og upprifjanir á fyrri samskiptum og lífi þeirra beggja, bæði fyrir og eftir nauðgunina. Stundum er dálítið erfitt að trúa því að samtölin hafi gengið nákvæmlega svona fyrir sig, svo vel og skipulega skila upplýsingar sér til lesandans, en ákvörðun um að gera söguna opinbera liggur ekki fyrir fyrr en í vikulok. Stundum hugsaði þessi lesandi til þess hvað þau voru að ræða í þessi átta ár af tölvupóstum fyrst það sem hér er opnað var ósagt þar. Þetta hefur í sjálfu sér engin áhrif á erindi, slagkraft eða trúverðugleika bókarinnar, en gerir hana læsilega, spennandi jafnvel. Þórdís Elva er þjálfaður rithöfundur og hún er óhrædd við að miðla tilfinningum með sterkum og heitum orðum, sem setur sterkan persónulegan blæ á bókina. Eins og við á.

Eins og oft með bækur sem greina frá sönnum atburðum þá er það hið óskáldlega eðli raunveruleikans sem gefur þeim bæði trúverðug- og framandleikann. Hér er það sjálf framvindan sem er í þessu hlutverki. Þar sem hið tilfinningaþrungna uppgjör fer fram í samhengi algerlega venjulegs hversdagsbjásturs fólks á ferðalagi. Innan um opinberanir, játningar og leit að niðurstöðu eru þau Þórdís og Tom á rölti milli ferðamannastaða í borginni, að glíma við rysjótt veður og í leit að drekkanlegu kaffi. Togstreitan milli þessa og umræðuefnisins er kröftugt eldsneyti og skapar óvenjulega lesningu sem hefði sennilega verið alveg nógu áhrifarík þó hún væri hrár díalógur um aðalefnið.

Það er mikilvægt að leggja áherslu á að Handan fyrirgefningar er ekki uppskriftabók. Nokkuð sem Þórdís hefur bent á hvað eftir annað. Þetta er ekki einu sinni sjálfshjálparbók nema í þeim bókstaflega skilningi að hún er um hvernig kjarkmikið og klárt fólk fann leið til að grafa sig upp úr holu sem annað þeirra gróf þeim. Hjálpa sér sjálft. Gagnsemi hennar felst í að vekja kjark, benda þeim, sem treysta sér í slíka ferð, á leið. Afhelga og opna á nýjan og óvæntan hátt umræðuefni sem er sveipað þöggun, skömm og djúpt liggjandi hagsmuna- og valdakerfi. Það er sláandi að eina skiptið sem Tom veitir uppgjörinu viðnám er þegar Þórdís veltir því upp að kynferðisofbeldi sé angi af hinum alltumlykjandi og ofbeldisgrunnuðu yfirráðum hvítra karla í heiminum.

Það er eitthvað alveg heillandi við hugrekkið og einurðina sem blasir við í frásögn bókarinnar. Alveg burtséð frá allri forgjöf menningar og mannkosta. Eitt er til dæmis hin algera fjarvera undanbragða og deilna um staðreyndir málsins. Inngangur bókarinnar, fyrsti svarpóstur Toms frá 2005, gefur tóninn um þetta atriði og er kannski stærsta forgjöfin. Þetta annað skref, að það skyldi vera stigið og í þessa átt. Það blasir því við að þó við vitum minnst um hvað nákvæmlega fór þeim Þórdísi og Tom á milli öll þessi ár þá snerist það ekki um að knýja fram játningu.

Annað sem gefur svigrúm fyrir alvöru persónulegt uppgjör er líka fjarvera. Lögin, dómstólar, sannanir og refsingar eru utansviðs í samskiptum og viðræðum Þórdísar og Toms. Skjóta nánast einungis upp kollinum þegar Þórdís segir frá rannsóknum sínum og baráttu á sviði kynferðisofbeldismála. Eitt meginþema í kommentaþræði TED-fyrirlestursins er hins vegar hvort Tom verðskuldi refsingu. Annað er svo hvort þeirra sé meiri hetja. Hvorugt umræðuefnanna er frjótt, og kannski er það mikilvægasta sem Handan fyrirgefningar hefur fram að færa er að varpa ljósi á hvað getur farið fram sé þessum spurningum ýtt til hliðar. Því þrátt fyrir allt eiga þau Þórdís og Tom fyrst og fremst sameiginlegra hagsmuna að gæta: að öðlast sálarró.