Hægbreytilegur Glass

og tindrandi Víkingur

Örfá orð um nýjasta geisladisk Víkings Heiðars Ólafssonar, Philip Glass: Piano Works, en hann inniheldur tíu af tuttugu etýðum Philips Glass, tónverkið Glassworks: Openings, auk þess sem Strengjakvartettinn Siggi og CFCF flytja strengjaútsetningar á fjórum etýðum.

Philip Glass var alltof lengi á leiðinni til mín, en í dag er eins og hann hafi alltaf verið þarna. Ekki aðeins er hann stórkostlegur tónlistarmaður sjálfur, frumkvöðull og fullur af mjúkri kjarnorku, heldur eru áhrif hans augljós í svo ótal mörgum öðrum listamönnum sem ég held mikið upp á og hlusta á oft í viku. Þar nægir að nefna Jóhann Jóhannsson, Max Richter, Nils Frahm og Ólaf Arnalds. Líklega er ekki mikið af Glass tekið þótt ég kalli hann annan af tveimur öfum nútíma klassíkur – hinn er augljóslega hinn eistneski Arvo Pärt. Og áhrif Glass á poppið hafa líklega síst verið minni en á nýklassíkina, allt frá Brian Eno til David Bowie og þaðan til enn fleiri tónlistarmanna.

Já, Philip Glass var alltof lengi á leiðinni til mín. Líklega var það með kvikmyndatónlistinni úr The Hours sem eyru mín numu hann fyrst almennilega, þessu magnaða meistaraverki1 Stephens Daldry sem byggir á ævi Virginiu Woolf og vinnur á snilldarlegan hátt úr skáldsögu hennar, Mrs Dalloway. Umrædd kvikmyndatónlist Glass hlaut BAFTA-verðlaunin í Bretlandi en aðeins tilnefningu til Óskarsverðlauna, sem er hneyksli, því hver man eftir tónlistinni úr Frida, þeirri annars ágætu kvikmynd?

Annað hneyksli? Glass hefur enn ekki hlotið Óskarsverðlaunin.

Já, Philip Glass var alltof lengi á leiðinni til mín. En nú er hann rækilega kominn og fer hvergi, eins og hluti af umhverfinu, heimilinu, takti daglegs lífs, ekki síst þegar ég sjálfur skrifa og skapa. Þar er hann fullkomlega ómissandi. Það er eins og hann nái að fanga í verkum sínum sjálft flæði sköpunarinnar. Til einföldunar er hægt að segja að sköpunina megi nálgast frá tveimur áttum. Annars vegar út úr meðvitund, hugsun og ásetningi – ég ætla að skapa listaverk og það á að vera SVONA. Hins vegar út úr undirmeðvitund, innsæi og æðruleysi – ég ætla að leyfa listaverki að birtast og ég veit ekki hvernig það verður fyrr en það kemur.

Þetta er vitanlega mikil einföldun og stórt „en“. Því að líklega þurfa öll stór listaverk bæði á flæði og anda að halda – og hinu, sem sagt strúktúr og sársaukafullum og ofurmeðvituðum pælingum, yfirstrikunum, leiðréttingum. Ég er samt að reyna að koma orðum að því að bestu listaverkin séu í grunninn unnin í flæðinu þar sem listin ræður för, ekki höfundur listaverksins.

Og þar er Glass ásamt ótal fleirum – Murakami, Auster, Munro, John og Yoko, Jóni Kalman. Ég ætla ekki að nefna fleiri nöfn því ef listinn verður stærri er þeirri hættu boðið heim að ónefndir gætu orðið sárir.

Í bæklingi með nýjasta geisladiski Víkings Heiðars Ólafssonar, Philip Glass: Piano Works, tiltekur Víkingur sérstaklega Etýðu nr. 20 og hvernig hún sé allt önnur að byggingarlagi en hinar nítján. Og ofangreint viðtökusjónarmið listamannsins kemur skýrt fram í þessu illþýðanlega svari Glass: „I really don’t know, I just found myself out in space in that one.“

Listaverkið fór með listamanninn.

Margt hefur verið ritað um etýður Philips Glass enda hafa þær öðlast sess sem eitt magnaðasta tónverk 20. aldarinnar. Ég get ekki þóst hafa miklu við þær að bæta; ég er hvorki menntaður í tónlistarfræðum né sérfræðingur í t.d. túlkunum ólíkra píanóleikara á etýðunum. Þó get ég sagt að mér hefur alltaf fundist Glass hugsa upphátt í þessum einföldu en á sama tíma flóknu verkum sínum; nánast eins og maður sem talar við sjálfan sig og líður vel í eigin félagsskap.

Etýðurnar eru klifandi (þó mismikið), hægbreytilegar og seigfljótandi og áhrifin minna á að horfa á morf úr einu formi yfir í annað. Margar þeirra eru ofurljúfar (þótt samt séu þær krefjandi sem tónverk) og hafa ratað inn á ófáa Spotify-lagalista með rólegri píanótónlist sem ætluð er til slökunar eða einbeitingar. Þessi rólegheit eiga þó ekki við öll verkin á diski Víkings Heiðars. Annars vegar má nefna Etýður nr. 13 og nr. 6. Sú síðarnefnda er heillandi og gríðarlega hratt og krefjandi verk þar sem áslátturinn er í fyrirrúmi; fyrrnefnd Etýða nr. 20 er þessi speisaða sem enginn skilur hvaðan kom, ekki einu sinni Glass sjálfur.

Aðeins eru liðnir fáeinir mánuðir frá útgáfu plötunnar hjá Deutsche Grammophon en miðað við fyrstu viðbrögð virðist stjarna Víkings Heiðars ætla að rísa hratt í kjölfar hennar. Þessi ungi en magnaði píanóleikari þeysist nú um heim og spilar Glass, auk annarra verka. Og þann 24. mars kemur hann til Íslands til að halda útgáfutónleika í Eldborg ásamt Strengjakvartettnum Sigga.2

Það er ekki laust við að tilhlökkunin vaxi jafnt og þétt – það er ekki á hverjum degi sem svona margar stjörnur koma saman í einum brennipunkti: Glass, Etýðurnar, Víkingur og logandi Eldborgarsalurinn í Hörpu.

1 Ef ekki væri fyrir nokkuð afkáralegt gervi í síðasta atriði The Hours, þar sem Julianne Moore er gerð að aldraðri konu, gæti ég litið á þessa mynd sem algerlega fullkomna. Handritið er frábært (byggt á skáldsögu eftir Michael Cunningham) og leikur Meryl Streep, Julianne Moore og Nicole Kidman með afbrigðum góður. Sem sagt glæsilegt marglaga listaverk sem tónlist Philips Glass bindur fallega saman.

2 Á vafri mínum um intervefinn rakst ég á upplýsingar um tónleika Víkings í Mengi þann 29. mars. Ekki er þó minnst á þetta í dagskrá Mengis. Kannski er þetta feill. Kannski er þetta satt – og þar með skúbb?