Fjármálahverfið

Jón steig út úr strætó í hverfi sem hann hafði aldrei komið í áður. Gangstéttin var hörð undir fæti og greinilega nýsteypt. Enginn manneskja var á ferli; einungis bílar sem hópuðust saman kringum turna úr stáli og gleri. Þeir risu með reglulegu millibili upp úr malbikinu og hýstu skrifstofur allskonar fyrirtækja. Jón þrammaði þvert yfir bílastæði og stefndi beint á glervegg skrifstofuturns. Rétt áður en nef hans hefði klesst á harðann flötinn runnu tveir gluggar hvor í sína áttina og Jón gekk inn í bygginguna án þess að hika. Í anddyrinu var hátt til lofts og vítt til veggja og á miðju gólfinu var gosbrunnur en skrúfað hafði verið fyrir vatnsinntakið. Fátt benti til þess að þar starfaði fólk en til hægri handar sá Jón mann í glerbúri og bar upp við hann erindi sitt.

— Ég er kominn til að hitta herra X. Það er út af vinnu.
Maðurinn svaraði með því að benda vísifingri í átt að lyftunni og segja: sjöunda hæð. Jón gekk að lyftunni og þrýsti á hnappinn. Hann smeygði sér inn í hreyfanlega boxið um leið og sjálfvirku dyrnar opnuðust.

• • •

— Ég verð að viðurkenna: ég man ekki eftir að hafa auglýst eftir nýjum starfsmanni. En fyrst þú ert mættur geturðu kannski reynt að sannfæra mig. Hvernig gætir þú hjálpað fyrirtækinu?
Jón sat í stól og horfði á framkvæmdastjórann, sem sat aftan við skrifborðið sitt. Á leiðinni var hann mörgum sinnum búinn að fara yfir atvinnuviðtalið í huganum. Hann bjóst ekki við þessu.
— Hvað segirðu? Vantar ykkur ekki fólk?
— Okkur vantar alltaf gott fólk. Ég man bara ekki eftir að hafa auglýst eftir starfsmanni. Hvaða hæfniskröfur voru gefnar upp í auglýsingunni?
 — Það var talað um háskólapróf sem nýtist í starfi, hæfni í mannlegum samskiptum og getu til að vinna undir álagi.
— Ertu með háskólapróf, til dæmis?
— Ég útskrifaðist í fyrra með BA í viðskiptafræði. Reyndar með kínversku sem aukagrein.
— Hvernig mun það nýtast þér í starfi?
— Það er náttúrlega alltaf verið að tala um aukin tengsl landsins við Asíu. Ég gæti kannski hjálpað fyrirtækinu að sækja inn á markaði í austri.
Það var eins og kviknaði ljós bak við augu framkvæmdastjórans. Hann stóð upp og gekk að stóra glugganum sem var með útsýni til hafs og Esjunnar.
— Hefurðu komið til Kína?
— Já, ég fór einu sinni í bakpokaferðalag til Asíu. Flaug fyrst til Indlands, fór í gegnum allskonar lönd og endaði í Kína.
— Hvernig voru borgarljósin í Sjanghæ?
— Fjármálahverfið er náttúrlega geggjað. En þegar maður fer lengra út búa menn í óttalegum kofaræflum.
— Þetta er rosalega spennandi land, sagði framkvæmdastjórinn. Hann horfði með fjarrænum augum út á hafið. Heyrðu, ég er að hugsa um að ráða þig. Ég set þig í deild erlendra reikninga. Þeir hljóta að geta notað þig þar.

• • •

Þegar Jón steig út úr lyftunni í deild erlendra reikninga mætti honum maður íklæddur ljósblárri skyrtu við svartar buxur. Ljóst hárið var nýklippt og hann brosti breitt þegar hann rétti fram höndina.
— Vertu velkominn í deild erlendra reikninga.
— Takk fyrir það. Ég er mjög glaður að vera loksins búinn að fá vinnu.
— Þú átt eftir að standa þig vel. Við gerum það öll. Enda höfum við verið í örum vexti á undanförnum árum.
— Það er mikill heiður að fá vinnu hjá fyrirtæki sem gengur vel. Ég mun leggja mig allan fram.
Deildarstjórinn vísaði Jóni veginn að litlum bás. Þar fékk hann sitt eigið skrifborð og tölvu. Þegar hann var sestur rétti nýi yfirmaðurinn honum bláa möppu. Hann átti að lesa allt í henni áður en vinnudagurinn væri á enda. Svo fór deildarstjórinn og sagði honum endilega að spyrja ef það væri eitthvað.
Jón sat í skrifborðstólnum og skoðaði básinn sinn þar sem hann hafði sitt eigið skrifborð með tölvu og síma. Við hliðina á borðinu var hilla sem var tóm fyrir utan eina rauða möppu. Á henni stóð: „XXX“. Þetta hlýtur að vera mappa frá þeim sem vann hérna á undan mér, hugsaði hann. Hann teygði sig eftir möppunni og fann strax að hún var mjög þung, eins og það væru ekki bara venjuleg pappírsblöð í henni. Um leið og hann opnaði hana fann hann skugga leggjast yfir skrifborðið.
— Þetta er víst mín mappa. Ég var ekki með nóg pláss inni á básnum hjá mér.
Jón leit upp og sá stóran og skeggjaðan beljaka í hvítri skyrtu. Hann flýtti sér að loka möppunni og rétta manninum hana.
— Ég heiti Benjamín og vinn hérna á næsta bás.
Jón stóð upp til að taka í höndina á vinnufélaganum. Hann var að minnsta kosti tveir metrar á hæð en það var samt erfitt að meta það nákvæmlega því hann var svo rosalega breiður um sig. Þó ekki beint feitur, heldur einfaldlega vaxinn eins og jötunn.
— Þú ert heppinn að byrja hérna. Þetta er alveg frábær vinnustaður. Þú átt eftir að skilja það betur og betur.
— Ég er bara mjög spenntur, svaraði Jón. Meðan hann stóð og spjallaði horfði hann yfir skilrúmið í næstu bása. Hann sá að sinn bás var aðeins einn af fjölmörgum í risastórum sal.
Eftir þessa stuttu heimsókn fór Benjamín aftur yfir á sinn bás og tók með sér möppuna, sem var merkt „XXX“. Jón einbeitti sér í staðinn að því að skoða möppuna frá deildarstjóranum. Það var kynningarmappa um fyrirtækið og starfið í deildinni. Í viðauka aftast voru lýsingar á ýmsum verkferlum. Það voru líklega verkin sem Jón átti að vinna til að byrja með.
Hann las þangað til hann þurfti að pissa. Þá stóð hann upp og ráfaði um deildina þar til hann fann karlaklósett við endann á löngum gangi. Þar inni voru risastórir speglar og þegar hann var búinn að pissa leit hann í spegilinn og sá að greiðslan var farin úr skorðum. Efst á hvirflinum voru nokkur strá sem höfðu ekki látið vaxið halda sér niðri og stóðu beint upp í loft. Hann renndi fingrunum í gegnum hárið til að laga það og vonaði að enginn hefði tekið eftir þessu sem hann taldi þó ólíklegt.
Á leiðinni til baka í vinnusalinn sá hann drykkjarvatnstunnu á hvolfi með krana. Hann fyllti eitt plastmál af vatni og drakk í botn. Það var svo kalt að það sveið í gómnum. Svo henti hann glasinu í ruslakörfuna og settist aftur á sinn bás.

• • •

Þegar Jón kom heim sá hann að það var búið að stela sjónvarpinu. Hann hafði sett tilbúinn rétt í örbylgjuofninn og síðan hlammað sér niður í sófann. En þegar hann ýtti á takkann á fjarstýringunni gerðist ekkert. Jafnvel þótt hann ýtti fastar kom ekkert hljóð. Þá leit hann upp frá matnum og sá í stað sjónvarpsins hvítan auðan vegg. Hann stóð upp og gekk nær. Þá sá hann greinilegt far eftir sjónvarpsborðið í gólfteppinu og fullt af ryki sem hafði safnast saman undir því og á bak við.
Hann settist niður og borðaði matinn sinn í hljóði. Innst inni í kartöflumúsinni var frosinn köggull. Engu að síður kláraði hann allt af disknum. Svo ákvað hann að fara snemma að sofa til að vakna úthvíldur morguninn eftir.

• • •

Þri 4. maí: Gekk vel í vinnunni. Afkastaði þremur verkefnum. Þegar ég kom heim fann ég ekki þvottavélina. Einhver hefur greinilega stolið henni.

Fim 6. maí: Gekk vel í dag. Jók söluna. Fór heim í góðu skapi. Bauð Kristínu í mat. Eftir mat fann ég ekki sófann til að bjóða henni sæti. Hún fór. Eitthvert fífl hefur stolið sófanum mínum.

Mán 10. maí: Gekk ekki svo vel í vinnunni í dag. Var skammaður fyrir að vinna hægt. Þegar ég kom heim var búið að stela rúminu mínu. Svaf á gólfinu í öllum fötunum.

• • •

Morguninn eftir vaknaði Jón kaldur og sveittur. Hann hafði leitað út um allt en hvergi fundið sæng. Þá ákvað hann að fara í sturtu en það var sama hvernig hann leitaði fann hann hvergi handklæði til að þurrka sér. Þegar hann leitaði að hreinum nærbuxum fann hann bara skítugar. Ekki tókst betur til með sokkana. Enda var búið að stela þvottavélinni. Hann neyddist því til að fara úfinn og illa til reika í vinnuna.
Hann byrjaði vinnudaginn eins og venjulega á því að fá sér að drekka úr vatnstankinum. Þar hitti hann Benjamín, hreinan og strokinn, sem bauð Jóni góðan dag og spurði hvernig hann hefði það.
— Jú takk, fínt. Ég svaf reyndar ekki svo vel. Það hafði einhver stolið rúminu mínu. Svo klikkaði ég á því að komast í sturtu. Þannig að ég er frekar sveittur.
— Það er leiðinlegt að heyra með rúmið þitt. Ertu búinn að láta húsvörðinn vita?
— Uh, nei. Ég er ekki með neinn húsvörð, held ég …
— Ég ætla bara að láta þig vita, ef það skyldi henta þér, að inni í skúringakompunni hérna á ganginum við hliðina á klósettunum eru svefnpokar til að maður geti sofið hérna í vinnunni, til dæmis undir skrifborðinu. Það gera margir. Sérstaklega stuttu fyrir deadline á verkefnum.

• • •

  1. maí: Eftir að hafa sofið nokkrar nætur í vinnunni fór ég loksins heim. Þá var búið að stela öllu innbúinu. Meira að segja búið að skrúfa af hurðarhúna og rífa raflagnir úr veggjum.

  2. maí: Það er einmanalegt að búa í galtómri íbúð. Ég borða alltaf hamborgara hérna neðar í götunni og sef á gólfinu í öllum fötunum því ég á enga sæng.

  3. maí. Ég sagði upp leigunni í dag. Ég get alveg eins sofið hérna á skrifstofunni því að heima var orðið alveg tómt og ég átti ekkert erindi þangað lengur. Þetta var einfaldur gjörningur því ég þurfti ekki að flytja neitt dót. Sagði bara leigusalanum að lyklarnir væru í póstkassanum.

• • •

Í fjármálahverfinu hafði Jón meira val um kvöldmat heldur en í gömlu íbúðinni eftir að ísskápurinn hvarf. Hann gat valið um hamborgara, víetnamskan mat og grænmetisfæði. Oftast fékk hann sér hamborgara og núðlurétti á víxl, en heilsurétti þegar honum fannst hann þurfa að hreinsa sig.
Eitt kvöld seint í ágúst eftir nokkra hamborgaradaga í röð vildi Jón hreinsa meltinguna með kjötlausum rétt og pantaði sér grænmetislasagna. Honum leið ótrúlega vel í maganum eftir það. Þegar hann kom út af veitingastaðnum tók hann eftir því að það var orðið dimmt úti — í fyrsta skipti um það leyti dags í langan tíma. Þegar hann gekk eftir steyptri gangstétt í átt að skrifstofubyggingunni, sem hafði verið heimili hans seinustu mánuðina, tók hann eftir því að hverfið var mannlaust. Hvert sem hann leit sá hann engan. Heldur enga bíla. Eina hreyfingin sem hann sá var gervihnöttur sem sveif uppi í heiðskírum himninum. Handan hans sá Jón stjörnur skína í óravíddum geimsins.
Þegar hann kom að sinni byggingu opnuðust dyrnar ekki. Þetta hafði aldrei gerst áður. Þótt hann leitaði að inngönguleið kom hann bara að læstum dyrum. Þrátt fyrir það varð hann ekki áhyggjufullur. Hann hafði klárað og skilað af sér stóru verkefni fyrr um daginn og stjörnuhiminninn fyllti hann friðsælli einingartilfinningu með alheiminum. Hann ákvað að setjast á stéttina og horfa á stjörnurnar.
Þegar honum var orðið kalt stóð hann upp. Nú fór hann að hugsa um hvað hann ætti eiginlega að gera. Hann hélt af stað án þess að vita hvert. Hann gekk einfaldlega beint af augum til að halda á sér hita. Þegar hann nálgaðist gatnamót fjármálahverfisins við stóru hraðbrautina sá hann mann standa í skini ljósastaurs. Hann virtist leita einhvers í nærliggjandi ruslatunnu.
Þegar Jón var kominn svo nálægt að hann fann af honum þefinn rétti maðurinn fram höndina og sagði: „hérna!“. Í hendi hans var brúnn bréfpoki sem hafði verið vafið utan um flösku.
— Nei, takk.
— Þetta nær úr þér hrollinum.
— Mér er ekkert svo kalt.
— Jú víst, ég sé það á þér. Þú skelfur allur og tennurnar glamra.
— Ég þarf ekkert að drekka. Ég er bara í smá kvöldgöngutúr.
— Hættu þessari afneitun. Ég sé á þér að þú ert heimilislaus og ráfar um í leit að hita. Fáðu þér bara sopa.
Jón vissi ekki hvað hann átti að gera. Hann fékk sér sjúss. Bragðið var ekki svo slæmt og alkóhólið reif notalega í.
— Ég skal sýna þér góðan stað til að vera yfir nóttina.
Jón var ekki að fara neitt sérstakt og þurfti ekki að mæta í vinnu fyrr en eftir marga klukkutíma. Svo hann elti manninn sem rölti af stað meðfram hraðbrautinni.
Útigangsmaðurinn leiddi hann undir brú þar sem menn stóðu í kringum eld í olíutunnu. Þeir voru allir klæddir í slitnar skjólflíkur sem ekki höfðu verið þvegnar lengi. Einn þeirra var í svefnpoka-dúnúlpu eins og Jón hafði átt sem unglingur og allir höfðu hettur sem þeir drógu niður í augu. Ef bjarminn frá eldinum hefði ekki lýst upp andlitin hefði ekki sést framan í þá. Þeir létu flösku í bréfpoka ganga hringinn á milli sín.
Jón tók sér stöðu við hliðina á útigangsmanninum sem hafði leitt hann á staðinn. Hann rétti fram hendurnar og yljaði sér við hitann frá eldinum. Þetta er stórfínt, hugsaði hann. Hér gæti hann að minnsta kosti haldið á sér hita þangað til hann mætti í vinnuna klukkan átta. Þegar flaskan barst að honum fékk hann sér góðan slurk og fann hvernig hann hitnaði jafnt yst sem innst.
Mennirnir skeggræddu málin og hver um sig tók sér góðan tíma til að útskýra sína afstöðu. Á meðan hlustuðu hinir þolinmóðir og handfjötluðu skeggið. Spekin í loftinu var svo mikil að Jóni fannst sem hann væri staddur á fundi hagfræðinga í ráðgjafanefnd um fjármálastöðugleika. Hann vissi ekkert hvað hann átti að segja, hélt sig því bara til hlés og hlustaði á umræðurnar. Þó náði hann aldrei almennilega þræðinum því hann hafði misst af byrjun þeirra. Útigangsmennirnir virtust vera að ræða hvernig hagkerfið virkaði þegar allt væri tekið með í reikninginn. Það eina sem Jón mundi úr þessum umræðum, þegar hann rifjaði þær upp síðar, var sú kenning útigangsmanna að toppunum hætti til að afneita undirdjúpunum og byrja að telja við jarðhæð þó að kjallarar og hvelfingar næðu djúpt niður fyrir yfirborðið.

• • •

Jón vaknaði daginn eftir með kuldahroll. Þegar hann reyndi að standa upp gat hann það ekki. Hann lá innan í svörtum ruslapoka sem hann hafði notað fyrir svefnpoka. Undir höfðinu lá jakkinn samankuðlaður. Eldurinn var löngu slokknaður í tunnunni og hann kom ekki auga á neina útigangsmenn undir brúnni. Hann þurfti að rífa sundur ruslapokann til að losna úr honum og þegar hann stóð upp fann hann rífandi verk í hausnum. Klukkan var orðinn átta og hann þurfti að drífa sig í vinnuna.
Hann arkaði af stað til baka í fjármálahverfið. Þegar hann gekk inn í anddyri skrifstofubyggingarinnar tók hann í fyrsta skipti eftir því að þar starfaði öryggisvörður. Sá hinn sami stóð nú í vegi fyrir honum.
— Þú ferð ekki hérna inn!
— Ég þarf að drífa mig. Ég vinn í deild erlendra reikninga og átti að vera mættur fyrir hálftíma.
— Kanntu annan? Þú verður úti, félagi.
— Ég skil þetta ekki. Ég mæti hérna í vinnuna á hverjum morgni.
— Ætla ekki að rökræða við þig. Þú verður úti.
Öryggisvörðurinn tók með báðum höndum um beltið á buxum Jóns og bar hann þannig út á stétt. Jón þorði ekki að streitast á móti því maðurinn var risavaxinn kraftakarl. Síðan gekk öryggisvörðurinn aftur inn og fylgdist með Jóni gegnum glerið.
Jón hugsaði að hann gæti kannski hringt í einhvern samstarfsmann úr deildinni, sem kæmi þá niður og leiðrétti misskilninginn. En þegar hann tók símann upp úr vasanum sá hann að batteríið var dautt. Hann ákvað því að bíða fyrir utan þangað til einhver sem hann þekkti ætti leið hjá. Í fyrstu kom enginn. Allir höfðu mætt klukkan átta en núna var klukkan alveg að verða níu. Jón varð fljótt leiður á því að standa og settist niður við innganginn og beið. Milli níu og tíu var reytingur af fólki á ferli en enginn sem hann þekkti.
Um hádegisbil kom framkvæmdastjórinn askvaðandi út um dyrnar. Hann snarstoppaði þegar hann sá Jón sitja þarna, úfinn og hrakinn. Jón gladdist við að sjá framkvæmdastjórann og horfði til hans biðjandi augum meðan hann rembdist við að standa á fætur. En framkvæmdastjórinn var bálreiður og öskraði á Jón.
— Hvurn andskotann ertu að gera hérna á stéttinni? Á ég að trúa því að þú sért farinn að betla? Borgum við þér ekki nógu há laun?
— Mér var ekki hleypt inn.
— Hvaða rugl er í þér, maður? Var ég ekki að ráða þig um daginn í deild erlendra reikninga? Þú ættir að vera löngu mættur til vinnu. En í staðinn siturðu hér og betlar þér inn aukapening. Djöfulsins græðgi er þetta! Við höfum ekkert að gera með svona græðgispunga í okkar fyrirtæki. Þú skalt ekkert vera að mæta aftur. Ég sé að það voru mistök að ráða þig. Vertu sæll. Ég þarf að drífa mig á fund.
Framkvæmdastjórinn flýtti sér í jeppann sinn og keyrði burt. Jón náði ekki að bregðast við orðum hans fyrr en hann var löngu farinn. Þá stóð hann upp, sparkaði í vegginn og sagði: „Andskotans helvítis djöfulsins.“
Jón sat áfram fyrir utan skrifstofubygginguna í þeirri von að hitta einhvern sem hann þekkti. Ef hann hitti deildarstjórann væri kannski hægt að leysa úr flækjunni. Hann ætti þó að minnsta kosti rétt á því að fara inn og tæma básinn sinn.
Enginn sem hann þekkti kom. Þegar framkvæmdastjórinn mætti aftur til vinnu eftir hádegismatinn lét hann öryggisvörðinn bera Jón af lóðinni. Jón vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Hann ráfaði því um göturnar stefnulaust, í þeirri von að með því að ganga kæmi hann blóðinu á hreyfingu til heilans og sér dytti eitthvert úrræði í hug.
Þegar dimma tók hafði hann ekki ennþá fengið neina hugmynd. Aftur á móti var mjög fallegt haustkvöld, heiðskírt og stjörnubjart eins og nóttina á undan og tunglið var næstum fullt. Þegar líða tók á kvöldið minntist hann þess hvers vegna húsaskjól er nauðsynlegt mannfólki á norðurslóðum. Honum varð kalt og hann fór að hugsa um eldinn í tunnunni undir brúnni.
Eldurinn logaði skært þegar Jón kom þar að og útigangsmennirnir stóðu í kringum tunnuna eins og kvöldið áður.
— Við höfum verið að bíða þín, sagði heimilislausi maðurinn sem Jón hafði hitt undir ljósastaurnum og vissi nú að hann hét Haraldur og hafði verið verðbréfasali í City of London, áður en hann yfirkeyrði sig með kókaíni og setti heilan fjárfestingarsjóð á hausinn.
— Við biðum þín vegna þess að okkur langar til að segja þér svolítið, sagði Haraldur. Allir hinir þögðu og horfðu spenntir á Jón.
— Nú afhverju?
— Jón, það er dálítið sem þú skilur ekki ennþá. Þú ert að vissu leyti fastur undir blekkingarhulu — því sem þú kallar eignarrétt. Það er bara þvættingur. Enginn getur átt neitt nema það sem hann getur passað upp á sjálfur. Þú passaðir ekki upp á hlutina þína. Þess vegna ertu búinn að missa allt og býrð á götunni.
Jón vissi innst inni að þetta var rétt en þegar allt kom til alls var honum alveg sama. Honum fannst bara meiri heimilisbragur að hafa húsgögn frekar en að sofa á gólfinu.
— Fyrirtækin taka það sem þau geta, bæði úti í náttúrunni eins og banana á trjánum, og önnur verðmæti sem liggja annars staðar á glámbekk. Þessa hluti flytja þau í verksmiðjur þar sem þeim er breytt í vörur sem einhvern langar í. Svo selja þau hlutina og fá í staðinn peninga, en í ströngum skilningi eru þeir ekkert nema pappírar sem standa fyrir vonina um að hagkerfið haldi áfram að vaxa.
Jón var hættur að skilja um hvað Haraldur var að tala. Hann hljómaði eins og ungur stundakennari í háskólanum með nýstárlegar hugmyndir og Jóni hafði verið ráðlagt að hlusta aldrei á slíka menn. Hann missti þráðinn og í staðinn sóttu að honum minningar úr bernsku. Hann minntist föður síns sem einnig átti það til að predika um peninga. Á síðkvöldum þegar áfengið hafði tekið völdin sagði hann oft að peningar væru allt og að þeir stjórnuðu heiminum. Á daginn virtist hann ekki fylgja þessu, því hann gerði fátt sem miðaði að því að auðgast sjálfur. Hann kvartaði sífellt yfir því að vera blankur og sagði syni sínum að hann skyldi gera allt til að eignast peninga. Þá mundi hann sleppa við þetta eilífa basl. Óttinn við fátækt innprentaðist í Jón með þessum hætti strax frá unga aldri, jafnvel þótt hann hefði í raun aldrei liðið skort. Það var ekki fyrr en hann fór til Asíu að Jón kynntist raunverulegri fátækt. Þar vissi hann ekki alltaf hvar hann gæti hvílt sig yfir nóttina en þar sem hann hafði alltaf einhvern pening með sér eða gat farið í hraðbanka var hann eins og ríkur maður í þessum löndum.
— Hvað segirðu Jón, ertu með?
— Ég skil ekki um hvað þú ert að tala. Með í hverju?
— Við ætlum að stofna stjórnmálaflokk og breyta heiminum. Okkur vantar fleiri menn eins og þig sem hafa starfað í fjármálahverfinu.
Þar sem Jóni leist ekkert á að hella sér út í pólítík spörkuðu útigangsmennirnir honum undan brúnni og sögðu honum að koma aldrei aftur. Svo Jón rölti af stað og leið hans lá niður að sjó þaðan sem hann fylgdist með sólarupprásinni. Hann hóf nýjan dag með tvær hendur tómar og engar eignir nema skyrtuna og skóna sem hann gekk í og án þess að vita hvar hann gæti sofið næstu nótt.

• • •

Þegar vinnandi menn í fjármálahverfinu komu út úr skrifstofum sínum eftirmiðdaginn fimmtánda október sáu margir þeirra skeggjaðan mann, sitja með krosslagða fætur á lítilli grasflöt hjá steinsteyptri gangstétt. Við hliðina á honum stóð handmálað skilti með svohljóðandi áletrun: „Styðjum fórnarlömb efnahagskollsteypunnar“. Maðurinn stóð upp, losaði um beltið og smeygði svo afskorinni kókflösku inn í buxnaskálmina. Hann hélt henni þar í smá stund og tosaði hana svo aftur upp úr buxunum. Þá gekk hann nokkur skref að bílveginum og skvetti hlandinu yfir malbikið. Einn bílstjóri flautaði á hann en Jón var hinn rólegasti og kom sér aftur fyrir í lótusstellingu við skiltið.
Okkar maður var nú farinn að gera einmitt það sem framkvæmdastjórinn rak hann fyrir: Hann betlaði af vegfarendum og keypti sér brauð og jógúrt í súpermarkaði og bjór og sígarettur í vínbúðinni. Hann bjó og starfaði á þessari litlu grasflöt, sem var um það bil fimmtán fermetrar að flatarmáli. Skiltið gerði sitt gagn því án þess að Jón yrti á neinn var alltaf einn og einn sem kastaði til hans peningum.
Þennan dag gerðist það, eins og oft áður, að vegfarandi staðnæmdist við skiltið. Hann var svo stór að hann skyggði alveg á sólina. Þegar Jón leit upp til að biðja hann að færa sig frá, sá hann að maðurinn hélt á seðli í útréttri hendi. Jón tók á móti honum og kannaðist strax við manninn. Þetta var Benjamín af næsta bás.
Ert þetta þú Benjamín? Þakka þér kærlega fyrir.
Ekkert að þakka. Er það ekki í raun skylda manns að hjálpa fyrrverandi starfsbróður í neyð.
Takk fyrir. Þú ert góður maður.
Nei, ég er fífl. Þú þekkir mig ekki.
Þú gafst mér peninga.
— Peningar þýða ekki neitt. Líf mitt er ónýtt. Það elskar mig enginn.
— Við kynntumst kannski ekki nógu vel á sínum tíma í vinnunni, en ég er mjög þakklátur fyrir það sem þú gafst mér. Ef þú býður mér upp á bjór getum við talað saman og kynnst betur.
— Ókei, gerum það.
Mennirnir tveir gengu í áttina að næstu krá. Jón gleymdi ekki að taka með sér skiltið sitt. Benjamín opnaði sig um raunir sínar. Í stuttri samantekt voru þær eftirfarandi: Konan hans hafði haldið framhjá honum með pípulagningamanni sem hann hafði ráðið til að fara yfir lagnirnar á baðherberginu. Daginn sem hann kom snemma heim úr vinnunni til að prófa nýju power-shower sturtuna kom hann að píparanum í fullu fjöru með konunni inni í svefnherbergi. Þegar hann spurði hvað væri í gangi öskraði konan á hann og skammaði hann fyrir að vera aumingi. Þá varð Benjamín svo móðgaður og sár að hann hljóp út og dreif sig aftur í vinnuna. Síðan þetta gerðist hafði hann sofið í svefnpoka undir skrifborðinu og ekkert farið heim.
Þegar þeir voru komnir á þriðja bjór benti Benjamín á skiltið sem Jón hafði sett í sætið við hliðina á sér og spurði:
— Fórstu á hausinn í seinustu kreppu eða?
— Sko, ég missti vinnuna og á hvergi heima. Þannig að ég er í svolitlum tímabundnum erfiðleikum. En þetta er alveg yfirstíganlegt. Ég mun bráðum vinna mig upp aftur.
Jón hélt áfram að útskýra fyrir Benjamíni vandræði sín. Hvernig hann hafði misst öll húsgögnin úr íbúðinni sinni og síðan flutt á skrifstofuna til að geta unnið meira. Hvernig hann kom einu sinni of seint aftur á skrifstofuna eftir kvöldmat og var læstur úti og þurfti að eyða nóttinni með útigangsmönnum undir brú. Og hvernig hann var rekinn fyrir að sitja á gangstéttinni og að hann leitaði aftur til útigangsmannanna sem vildu fá hann í lið með sér til að stofna stjórnmálaflokk, en var sparkað undan brúnni þegar hann vildi ekki taka þátt í þeirri áætlun. Hann sagði frá því að hann hefði eytt seinustu mánuðum að mestu utan peningahagkerfisins, borðað upp úr ruslagámum og sofið í skúmaskotum. Einu peningarnir sem fóru um hendur hans voru þær ölmusur sem vegfarendur gáfu honum óumbeðnir þegar þeir sáu hann hjá skiltinu á grasflötinni. Þegar þeir voru komnir á sjötta bjór sagði Benjamín að hann myndi glaður hjálpa Jóni ef það væri eitthvað sem hann gæti gert.
— Þú sagðir að píparinn hefði verið að koma fyrir nýrri power-shower sturtu?
— Jú, það er rétt. Ég ætlaði að fara prófa hana þegar ég kom að honum með konunni í rúminu og hún öskraði á mig og henti mér út.
— Ég hef verið að pæla. Mér finnst stundum eins og það eina sem ég þurfi væri að komast í góða sturtu og raka mig. Þá væri ég tilbúinn í slaginn og gæti byrjað upp á nýtt.

• • •

Jón steig út úr strætó í hverfinu sem hann þekkti orðið svo vel. Gangstéttin var hörð undir fæti, en hann var vanur því. Enginn annar fór út úr vagninum. Þar sem hann stóð á stéttinni, hreinn og nýrakaður, klæddur dökkum jakkafötum Benjamíns, leit hann út eins og ungur maður á uppleið í einum af glerturnum götunnar. Og ólíkt fyrsta skiptinu sem hann steig út á þessari stoppistöð vitnaði augnaráð hans nú um djúpa reynslu. Hann gekk af stað hratt og ákveðið eins og sá sem þekkir gangvirki markaðarins. Hann þrammaði beint yfir akveg án þess að líta hvorki til hægri né vinstri. Hann þveraði heilt bílastæði og stefndi beint á glervegg skrifstofuturns. Rétt áður en nefið hans hefði klesst á glerið hörfuðu rennihurðir til beggja hliða og hann var kominn inn í anddyri byggingarinnar.
— Ég er kominn til að hitta mann út af vinnu, sagði hann við móttökuritarann. Eftir að hafa gert betur grein fyrir erindi sínu var honum vísað á lyftuna og sagt að fara upp á fimmtándu hæð. Hann kom að lyftunni um leið og dökkhærð kona í blárri dragt. Brún og seiðandi augu hennar mættu augnaráði hans á meðan þau biðu eftir að lyftudyrnar opnuðust. Og Jón var stoltur af því að ýta á ’15’ að þessari fögru konu ásjáandi. Hún horfði niður fyrir sig á leiðinni upp, en leit á hann aftur þegar hún fór út á sjöundu hæð.
— Ég verð að viðurkenna: Ég man ekki eftir að hafa auglýst eftir nýjum starfsmanni. En fyrst þú ert mættur geturðu kannski reynt að sannfæra mig. Hvernig getur þú hjálpað fyrirtækinu?
Jón var ekkert að tvínóna heldur útlistaði umsvifalaust alla sína reynslu og öll sín meðmæli. Loks nefndi hann að hann hefði háskólapróf, kynni að tala kínversku og hefði starfað í deild erlendra reikninga.
— Ég sé að það er drifkraftur í þér. Við getum alltaf notað þannig menn. Veistu eitthvað um afleiður?
— Nei, en ég gæti alveg hugsað mér að vinna við það.
— Ókei, þú ert ráðinn. Ertu með einhverjar sérstakar launakröfur eða þannig?
— Bara eina. Ég vil að þið hjálpið mér að finna íbúð með hámarks öryggisgæslu.