Dvergflóðhestar og ofbeldi

– um skáldsöguna Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos

Spurninguna sem sprettur úr hjarta skáldsögunnar Veisla í greninu (Fiesta en la madriguera) eftir Juan Pablo Villalobos mætti orða svona: hvað er ofbeldi? ef við kærðum okkur á annað borð um að umorða heilar skáldsögur 1, heilar spurningar í eina setningu, þrjú lítil orð. Svarið við spurningunni er auk þess að finna í bókinni, sem er hentugt, að hafa þetta allt svona á sama staðnum, en aftur er manni óhægt um vik að hafa svarið eftir án þess að einfalda, snúa út úr eða hreinlega misskilja – en það er auðvitað fyrst og fremst það sem gagnrýnendur gera, þeir misskilja bækur, við þetta vinna þeir og því látum við bara vaða. Og svarið er hvorki skýrt né endanlegt – það nær kannski meira að segja bara yfir eitt lítið horn spurningarinnar. En það er samt vel af sér vikið, enda stór spurning.

Ofbeldi er menning. Það er lært, ekki bara í þeim skilningi að maður eigi kennara sem segi manni frá ólíkum tegundum afhausanna um víða veröld, mismunandi tegundum skotvopna og því hvernig þegnar dýraríkisins koma fram hver við annan, heldur líka með hálfgerðri osmósu. Við búum í heimi sem er fullur af ofbeldi, hefur alltaf verið fullur af ofbeldi og verður það sennilega nokkuð áfram – ef eitthvað ægilegt tekur ekki fyrir hendurnar á annars morðóðu mannkyni, Drottinn almáttugur, móðir náttúra, heimsveldin eða kapítalisminn – og verðum eftir því sem við lifum lengur „náttúrulegri“ hluti af þessum heimi og til þess þarf í raun ekki að kenna okkur neitt. Við erum ofbeldisfólk.

Ekki hommatittur heldur kanína

En skáldsagan – nóvellan – Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos (fæddur í Guadalajara, árið 1973) um hvað fjallar hún? Nú skal ég segja ykkur það. Hún fjallar um drenginn Tochtli, sem ég hef séð kallaðan sjö ára og tíu ára (á internetinu), en ég er hreinlega ekki viss um að það komi fram hversu gamall hann er. Það fór þá framhjá mér, en hann er ekki mjög hár í loftinu. Tochtli elst upp hjá föður sínum, Yolcaut, sem er mexíkanskur eiturlyfjabarón, og Mazatzin, sem er einkakennarinn hans. Móðir hans er fjarverandi og fjarvera hennar aldrei útskýrð – en pabbi hans á þó ástkonur. Tochtli hefur áhuga á samúræjum, playstation, fallöxum, mannkynssögu og dýrum – sérstaklega líberískum dvergflóðhestum, sem hann langar mikið að eignast (en hann á þegar tígrisdýr og eitt og annað fleira í garðinum). Á endanum sannfærir hann svo föður sinn um að fara með sig til Líberíu á dvergflóðhestaveiðar, sem enda með ósköpum. Þar heita allir eftir bandarískum mikilmennum.

Tochtli gangstersonur er enginn helvítis „hommatittur“ og grætur ekki – ekki nema þegar hann er veikur í maganum – sem hann er oft, en pabbi hans segir að það sé í lagi að gráta þegar maður er veikur, en læknirinn segir að hann sé reyndar ekki veikur í líkamanum heldur „sálfræðinni“. Það er greinilega ekki tekið út með sældinni að alast upp með blóðuga silfurskeið í munni.

Nánast fullkomin

Höfundurinn Juan Pablo Villalobos hlaut fyrstubókarverðlaun breska dagblaðsins Guardian árið 2011 þegar bókin kom út á ensku – eftir dálítið baks í heimalandinu, einsog gengur. Hann fór seint (25 ára) að læra bókmenntir og skrifaði meistararitgerð sína um hinn stórkostlega Cesar Aira, sem er annar höfundur stuttra skáldsagna sem mætti gjarna fara að fást í íslenskri þýðingu. Veisluna í greninu lauk hann við um tíu árum síðar og var það hans fyrsta útgefna skáldverk.

Bókin hefur mestmegnis hlotið góðar viðtökur hvar sem hún hefur komið út – tungumálin eru víst sautján – og á allra besta hrósið allt skilið, „liggur við að hún sé fullkomin“ sagði einhver, ég tek bara undir og segi að þeir sem fást við því að sögumaðurinn sé of „fullburða“ til þess að vera sjö ára eða tíu ára eða hvað hann er gamall ættu bara að lesa Einar Áskel í staðinn, með fullri virðingu fyrir hinum stórkostlega Einari Áskel, og hætta að vera með þessa óþolandi smámunasemi. Sennileiki byggir á erkitýpum – raunverulegar sögupersónur, einsog raunverulegt fólk, bregður út af hinu sennilega og er öðruvísi en maður hélt. Tochtli er þroskaður drengur en hann á líka margt ólært.

Ég er búinn að vara ykkur við

Þýðingin er kjamsgóð og spænskan skín í gegn á öllum réttu stöðunum hjá Maríu Rán Guðjónsdóttur – Guðrún Baldvinsdóttir gagnrýnandi Víðsjár gerði því skóna að þýðing Maríu Ránar væri „jafnvel“ betri en sú enska og það þykir mér ekkert ólíklegt, bæði vegna þess að ég á vini sem eru uppteknir af spænskumælandi bókmenntum og hafa tjáð mér að enskar þýðingar á spænskumælandi bókmenntum séu alla jafna geldar og leiðinlegar og gerðar af lífsleiðum háskólaprófessorum, hverra háskólar gefa þær út, vegna þess að „markaðurinn“ hefur engan áhuga á útlenskum bókum, og ekki síður vegna þess að enski titillinn „Way Down the Rabbit Hole“ er örlítið tilfyndinn (Tochtli þýðir kanína) en fyrst og fremst lélegur.

Bókin er gefin út af til þess að gera nýstofnaða forlaginu Angústúra – sem er „lítið forlag í Vesturbænum“. Veisla í greninu er fyrsta bók í áskriftarröð forlagsins. Það er ástæða til þess að biðja fólk að kaupa sér áskrift, þýddar fagurbókmenntir eiga sér alltof fáa vini og þær eru sannarlega lífsblóð allra annarra íslenskra bókmennta. Þjóð sem þýðir ekki góðar bækur á enga bókmenningu. Það þýðir ekkert að koma til mín og væla ef þetta fer allt til andskotans, ég er búinn að vara ykkur við.

https://www.angustura.is/askrift

   [ + ]

1. Eða nóvellur, réttara sagt, kannski – þetta er stutt bók, mjög stutt, en ég gæti samt alveg samþykkt að hún væri kölluð skáldsaga, þótt hún hafi komið út sem hluti af smásagnasafni á ensku, sem er náttúrulega skemmdarverk.