Þýðing: Kári Páll Óskarsson

Byltingarbréf #19

ef það sem þú vilt er störf
handa öllum, þá ertu ennþá óvinurinn,
þú hefur greinilega ekki hugsað til enda

hvað það þýðir
ef það sem þú vilt er húsnæði,
iðnaður

(GE á Navajó
verndarsvæðinu)

bíll handa öllum, bílskúr, ísskápur,
sjónvarp, meiri pípulagnir, vísindalegar
hraðbrautir, þá ertu ennþá
óvinurinn, hefur kosið
að fórna plánetunni fyrir nokkur ár af einhverjum
útópískum vísindaskáldskap, ef það sem þú vilt

er ennþá, eða getur verið, skólar
þar sem börnunum okkar öllum er þrýst í sömu lögun og kennt
að það sé betra að vera ‚bandarískur‘ en svartur
eða indjáni, eða Japani, eða Púertóríkani, þar sem Dick
og Jane verða og eru draumurinn, lítur þú út
eins og pabbi Dicks, heldurðu ekki að barnið þitt
óski í laumi að þú gerðir það

ef það sem þú vilt
er læknastofur þar sem læknasamtökin
geta matað þig á pillum til að halda þér veikburða eða ófrjóum,
dælt sýklum í börnin þín á meðan Merck & Co
græðir

ef þú vilt
fría geðhjálp handa öllum
svo að geðlæknarnir,
melludólgar þessa dekadens, geti látið
það blómstra fyrir okkur, ef þú vilt

ef þú vilt ennþá sneið
litla sneið af úthverfunum, græna lóð
sem ferfetið kveður á um,
litasjónvarp, með geislandi orku sinni sem
drepur heilasellur, með undirmeðvituðum auglýsingum sem
heilaþvo börnin þín, hafa hertekið
drauma þína

gráður úr háskólum sem eru ekkert
annað en slömmleigusalar, úldnandi rotþrær
lyga, svo að þú getir farið
og logið að öðrum á einhverjum sætgrænum kampusi

ÞÁ ERTU ENNÞÁ
ÓVINURINN, þú ert að selja
þig ódýrt, mundu
að þú getur fengið allt sem þú biður um, biddu um
allt