Að stilla sig


Erfitt að leggjast ekki í gólfið þegar börnin byrja að væla.
Erfitt að geta ekki velt sér á hina hliðina þegar hún vill ræða málin.

Erfitt þegar forstjórinn kitlar alla nema mig.
Erfitt þegar reikningar birtast í heimabankanum.
Erfitt þegar launablað Frjálsrar verslunar kemur út.
Erfitt þegar bíllinn stenst ekki skoðun.

Erfitt að fá léttan fiðring yfir karlmanni í sundi.
Erfitt að sitja í strætó þegar allir halda að maður hafi misst prófið.
Erfitt að mæta á húsfund og hlusta á blaðrið í hinum en komast næstum ekkert að sjálfur.
Erfitt að vera í götóttum sokk og þurfa að fara úr skónum hjá ókunnugu fólki.
Erfitt að fara með mömmu í búðir því hún vill alltaf að ég máti litríkar skyrtur.
Erfitt að finna ástríðulausa væntumþykju eins og maður sé hundur en ekki karlmaður.
Erfitt að vera hvorki ungur né miðaldra en hafa þunnt hár og barnaspik.
Erfitt að öskra ekki á símasölufólk.
Erfitt að fara bara tvær ferðir á jólahlaðborði.
Erfitt að stara ekki á brjóst og rassa.
Erfitt að vera venjulegur og geta hvorki skotið leisergeislum né flogið.
Erfitt að gera sér hóflegar væntingar en verða samt fyrir vonbrigðum.

Erfitt þegar öllum finnast vandræði manns lítilmótleg og aumkunarverð
– meira að segja manni sjálfum.

Erfitt að sjá fram á eilífa endurkomu hins sama en óttast breytingar.
Erfitt að opna sjálfshjálparbók og sjá að vandamálin gera mann ekki sérstakan.
Erfitt að hata sjálfan sig en ekki nægilega mikið til að gera eitthvað í því.
Erfitt að horfa á fréttir og sjá aðra hafa það skítt en bera sig vel.
Erfitt að heyra frasa eins og: „vinna í sínum málum“.

Erfitt að stilla sig en enn erfiðara að gera ekki neitt.
Vera ekki neitt.
Erfitt.