Sumardagur í sveit eftir Gunnlaug Scheving.

Að ráða úr hlutunum

smásaga

Sama kvöld og Jóna sagði Hannesi að hún væri ólétt komu þau sér fyrir við eldhúsborðið andspænis pabba hennar. Hannes hafði þekkt hann lengi. Feður þeirra Jónu voru góðir vinir. Þegar pabbi Hannesar var strákur hafði hann unnið fyrir afa Jónu á sumrin. Feður þeirra voru einu krakkarnir á býlinu. Eitt sumarið fóru þeir saman á sveitaball og þar, fyrir tilstilli pabba Jónu, kynntust foreldrar Hannesar. Þau sendu honum árlegt jólakort í þakklætisskyni.

Einhvern tímann síðasta vor barst svo til tals að Hannes vantaði sumarvinnu og í sömu andrá var hann ráðinn. Samt hafði ekki staðið til að ráða vinnumann á býlið. Bernskuvinirnir voru einfaldlega að gera hvor öðrum greiða. Hannes gat ekki annað en kennt þeim um hvernig fór.

Jóna hafði strax farið að sýna honum áhuga. Þó þau ættu ekki margt sameiginlegt gátu þau engu að síður rætt saman. Hún talaði blátt áfram og það var eins og hún ætti sér engin leyndarmál. Hún hikaði heldur ekki við að ræða hluti eins og barneignir. Honum þótti það skondið í fyrstu en eftir því sem á leið fór barnahjalið að verða óþægilegt. Hún var óþolinmóð. Vinkonur hennar voru allar giftar. Þær sátu heima með börnunum meðan makar þeirra unnu úti á túni eða sjó. Varla ætlaðist hann til þess að hún biði hans ein? Nei, það gerði hann ekki. En hann ætlaði heldur ekki að barna hana.

En það gerði hann samt.

Bóndinn var þreyttur þegar hann settist og leit óþolinmóður á þau. Það var tekið að kvölda og maturinn beið tilbúinn í ofninum. Jóna hafði beðið hann um að bíða því hún þyrfti að segja honum dálítið. En þetta dálitla gat verið hvað sem er og líklegra en ekki að það yrði honum dýrkeypt. Hann var stór maður með svart skegg og flókið hár, sísveittur og það var sjaldan sem hann skipti um föt. Auk þess var hann heldur þögull en hann hæddist mikið að kunnáttuleysi stráksins. Jóna svaraði oftast fyrir hönd Hannesar svo hann lét sér nægja að þegja. Hann vildi sem minnst með bóndann hafa.

Núna þagði Jóna hins vegar. Hannes átti að tala. Bóndinn leit líka í áttina að honum en Hannes hafði ekkert að segja. Hann vildi taka sjálfan sig úr jöfnunni og var með hugann við það. Á leiðinni inn í eldhús hafði hann tekið eftir naglabyssu sem lá á borði inn í skúrnum. Einhvern tímann hafði pabbi Jónu sagt að kindurnar finndu ekkert fyrir naglanum.

„Einn hvellur: Bang! Og svo er það búið.“

Bóndinn ræskti sig og hváði: „Já?“

Jóna leit frá honum á Hannes. Hann horfði tómlega til baka.

„Ég er ólétt,“ sagði hún.

„Nei, hvur andskotinn,“ tautaði karlinn en virtist hvergi brugðið.

„Og hvað á hann að heita?“ spurði hann.

„Pabbi …“

„Tja, það má spyrja. Hvað finnst pabbanum?“ spurði hann og leit á Hannes.

Hugur hans reikaði aftur að naglabyssunni.

„Það skiptir ekki máli,“ sagði Hannes.

„Nei, nafnið skiptir ekki neinu máli,“ sagði Jóna og kreisti höndina hans. Hann langaði að losa sig en gerði það ekki. Bóndinn hló og óskaði parinu til hamingju. Hann dró rauðvínsflösku úr skáp undir vaskinum og hellti í glös fyrir þau. Allir fengu sér sopa, bóndinn tvö. Jóna hallaði sér upp að Hannesi.

Hann virti hana fyrir sér og hugsaði til þess að innan fáeinna ára yrði þessi stelpa að fullorðinni konu. Ljóst hárið hennar ætti eftir að tapa lit sínum, fíngerður líkaminn eldast og fitna. Mjúk húðin yrði hrjúf og lafandi, elskulegur tónninn hvass og leiðinlegur. Núna hló hún að bröndurum hans, kyssti hann við minnstu tilefni og sagðist elska hann. En hve lengi entist það? Aldrei höguðu foreldrar hans sér eins og þau. Það var kannski helst á jólin, þegar mamma hans þakkaði manninum sínum fyrir pakka, að hún kyssti hann. Þó voru þau hamingjusöm saman. Þau lásu bæði mikið og höfðu gaman af að fara á tónleika. En um leið áttu þau sér einkalíf: aðra vini og önnur áhugamál. Áttu hann og Jóna að eyða ævinni ein saman út í sveit? Hann sá fyrir sér líf þeirra næstu árin, ár eftir ár, barn eftir barn, sömu tökin með sömu skóflunni, mokandi skít á túnið á meðan konan hans öskraði á börnin …

„Hvað finnst foreldrum þínum?“ spurði bóndinn.

„Ég á eftir að tala við þau,“ sagði Hannes.

„Gerðu það sem fyrst. Það þarf að redda ýmislegu fyrir brúðkaupið.“

Hannes beit í neðri vör og herti takið á glasinu sínu.

— Hún er varla svo þung —

„Pabbi … það er ekkert ákveðið. Við vitum ekki einu sinni hvaða dag við ætlum að velja,“ sagði Jóna.

„Afsakið, ég þarf aðeins að skreppa,“ sagði Hannes og stóð upp. Feðginin veittu því enga eftirtekt. Jóna færði sig til svo hann kæmist af stólnum en hélt áfram að tala ótrufluð. Hann skildi ekki til hvers hann var viðverandi. Ef eitthvað var lífgaði fjarvera hans upp á samræður þeirra.

Hannes fór gegnum stofuna, framhjá baðherberginu og beinustu leið inn í skúr. Hann var lítill og þröngur. Alls kyns verkfæri skreyttu veggina og vinnuborðið. Hannes settist við borðið og naut þagnarinnar. Þetta var í fyrsta skipti sem honum leið eins og hann hefði einhverja stjórn á atburðarás dagsins.

Naglabyssan var gömul og rygðuð. Hún var líka þung í hendi. Hann lyfti henni og lét falla nokkrum sinnum áður en hann sneri aftur inn í eldhúsið.

Þar skaut hann Jónu og pabba hennar í hausinn.

Fyrst fór hann til bóndans, greip um höfuð hans og skaut í gegnum gagnaugað. Honum tókst ekki að koma upp orði. Jóna brást ekki við fyrr en hún sá pabba sinn hníga niður á borðið sem kúvendist með miklum látum. Hún rak upp öskur en stóð stjörf á staðnum. Og þó hún streittist á móti, rækist utan í borð og velti stólum um koll, yfirbugaði hann hana auðveldlega.

Þegar því var lokið tók hann sér hlé og hvíldi sig á einum stólnum. Ýmsir smáhlutir eins og hnífapör og diskar lágu á gólfinu, glös og flöskur mölbrotnar, borðið og stólar á hliðinni og feðginin sjálf lágu klunnalega í eigin blóði eins og tuskaðar strengjabrúður. Hannes tók undir fætur bóndans. Byrðin var blýþung. Hann hafði hugsað sér að grafa þau í holu bak við hlöðu en núna sá hann ekki fram á að koma þeim út úr eldhúsinu.

Hann ákvað að byrja á Jónu.

Hann var kominn hálfa leiðina að útidyrahurðinni þegar farsíminn hans hringdi. Hann stansaði. Með líkið í annarri hendi fiskaði hann símann upp úr vasanum.

„Já,“ sagði hann.

„Hæ, Hannes minn,“ sagði mamma hans. „Hvernig hefurðu það?“

„Veistu, ég er mjög upptekinn í augnablikinu.“

„Ég veit,“ sagði mamma hans og Hannes fann hroll fara um líkama sinn.

„Hvað áttu við?“

„Haraldur sagði mér frá Jónu.“ Hannes dró andann djúpt og reyndi að koma ró á sjálfan sig. Mamma hans talaði um ábyrgð og þrautseigju, að hann gæti alltaf reitt sig á foreldra sína og hann jánkaði því öllu.

Það heyrðust skruðningar fyrir utan og hann sá ljós koma inn um gluggann. Hann gægðist út og sá lítinn bíl staðnæmast í innkeyrslunni. Þetta var hvítur jepplingur með blárri áletrun á hliðinni:

„Don‘t worry, be sexy!“

Bíllinn drap á sér og Hannes heyrði raddir ræða saman á einhverju erlendu máli. Hann sneri sér við og virti blóðuga aðkomuna fyrir sér. Augu hans hvörfluðu að skartgripaskápnum í stofunni og óhreinni naglabyssunni sem lá á eldhúsborðinu. Hann greip um sköflung bóndans með hægri hendi og dró hann ásamt Jónu að stofunni. Símanum hélt hann milli eyra síns og axlar. Á meðan á þessu stóð hélt mamma hans ótrauð áfram: „Og sama hvað gerist þá vil ég að þú vitir að þú getur alltaf komið til okkar og beðið um hjálp. Þú skalt ekki gera neitt í flýti. Það er aldrei of seint að ráða úr hlutunum.“ Í því sem hann jánkaði þessu var bankað á dyrnar og ókunnug andlit gægðust inn um gluggann.