Við erum öll sama manneskjan (og samt ekki)

Hugleiðingar mínar í tengslum við þýðingar Hjalta Rögnvaldssonar á bókum Jon Fosse

Jon Fosse er norskur höfundur, fæddur árið 1959, og hefur á löngum ferli skrifað ótal bækur og leikverk. Mér skilst að leikverk hans hafi verið sviðsett oftar en þúsund sinnum, sem hlýtur að teljast nokkuð góður árangur (það er næstum jafn oft og ég tékkaði tölvupóstinn minn á meðan ég skrifaði þessa grein), og svo er hann lofað ljóðskáld og sagnahöfundur, einkum í Evrópu. Að mínu viti vinnur Hjalti Rögnvaldsson, leikari og þýðandi, því mikið þjóðþrifaverk með því að kynna íslenska lesendur fyrir þessum stórfínu bókum, en út hafa komið fjórar skáldsögur á síðustu misserum, hvorki meira né minna, undir hatti Dimmu, sem er sú íslenska útgáfa sem hefur, að mínu viti, glatt okkur með flestum áhugaverðum þýðingum undanfarið. Jon Fosse hafði lengi verið á leslistanum hjá mér. Að vísu hef ég aldrei gert neinn „leslista“, svo að kannski væri eðlilegra að segja að bækur hans hafi lengi „legið á náttborðinu mínu“, nema bara að ég á ekki heldur neitt náttborð. Og ekki nóg með að mig hafi skort náttborð heldur skorti mig einnig alveg bækur eftir Jon Fosse, eða alveg þangað til þær komu nýlega út á íslensku, þökk sé Hjalta Rögnvaldssyni og Dimmu, og því réttast að segja að ég hafi lengi vitað af Jon Fosse, langað til að lesa hann, en að almennt skipulagsleysi í lífi mínu – sá trassaskapur að útbúa aldrei leslista; sú skammarlega staðreynd að ég átti ekki náttborð – hafi aftrað mér frá því að láta af lestrinum verða. Heldur vænkaðist þó hagur Strympu þegar mér bárust skyndilega í pósti til New York, fyrir nokkrum mánuðum, þrjár bækur eftir Fosse, frá föður mínum, og þá ekki síst fyrir þær sakir að þennan sama dag hafði ég loks drifið mig í stóran innkaupaleiðangur í IKEA – til að kaupa mér, ótrúlegt en satt, náttborð. Ég veit, algjörlega fáránleg tilviljun … Þegar ég kom heim lét ég það því verða mitt fyrsta verk að setja saman nýja náttborðið mitt og fyrstu bækurnar, sem ég svo lagði á náttborðið, voru þrjár skáldsögur eftir Jon Fosse; loksins voru bækur eftir Jon Fosse komnar á náttborðið mitt. Þá fyrstu, Morgunn og kvöld, tók ég raunar jafnharðan aftur af náttborðinu og hafði með mér á kaffihús þennan sama dags og las hana þar í einni striklotu, eins og maður ætti alltaf að gera á sunnudögum; lesa bók í einni striklotu á kaffihúsi. Þá næstu, Andvöku, las ég í neðanjarðarlest daginn eftir og þá þriðju, Drauma Ólafs, las ég svo andvaka um nóttina. (Ég veit að eðlilegra hefði sjálfsagt verið að lesa Andvöku þegar svefnleysið plagaði mig og síðan Drauma Ólafs að loknum heilsteyptum, draumríkum nætursvefni.) En nóg um það, tvær síðastnefndu bækurnar eru hluti af þríleik og mig dauðlangaði eðlilega að reka smiðshöggið á lesturinn með því að striklesa þá þriðju, Kvöldsyfju, en ekki var nú aldeilis hlaupið að því að fá sent eintak af henni frá Íslandi, svo að ég gæti lagt hana á nýja náttborðið mitt, þar sem bókin var ekki enn farin í prentun. Því gladdi það mig ósegjanlega þegar ég sneri heim til Reykjavíkur allnokkru síðar og sá að heima hjá foreldrum beið mín póstpakki, sendur frá Dimmu, með nýprentuðu, ilmandi eintaki af lokahöggi þríleiksins hans Jons Fosse, Kvöldsyfju.

Og ég hugsaði:

„Þessa þarf ég sko að setja á náttborðið mitt þegar ég kem aftur heim til New York.“

Harmkórinn

Og stóð Jon Fosse svo undir væntingum?

Já, það held ég bara.

Það er allavega ekki á hverjum degi sem á fjörur mínar rekur höfund sem hefur persónulegan stíl, ó-eftir-apanlega rödd, einstæðan og frumlegan söguheim sem gaman er að dveljast í. Fosse tikkar í öll þessi box; raunar er ég það hrifinn af honum að ég gerði mér nýlega ferð í Norræna húsið, til að taka út bækur eftir hann á frummálinu, norsku, sem er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sláandi staðreynd að ég skil ekki orð í norsku.

Sögur Fosse hefjast jafnan í miðjum klíðum (in media res) og lesandinn fær hálfpartinn á tilfinninguna að rödd sögumannsins hafi verið að þylja upp frásögn sína öldum saman. Sagan hefst, við fylgjumst með, sögunni lýkur – röddin er enn að þylja upp frásögn sína, stödd einhvers staðar mitt á mörkum lífs og dauða. Það er einhver draugaleg obsessjón í stílnum. Þá er ört flakkað fram og aftur í tíma, oft um heilu mannsaldrana, og það sem mér fannst kannski mest sláandi er hvernig Fosse máir nær alveg út mærin milli ólíkra vitunda, ólíkra persóna; við erum í raun öll sama manneskjan, virðist hann segja. Í þessu samhengi varð mér hugsað til „harmkórsins“ hans Jóns Kalmans, raddanna sem ávarpa lesendann jafnan í upphafi bókanna hans. Mig rámar meira að segja í að hafa heyrt Jón Kalman boða þessa sömu lífssýn: „Við erum öll sama manneskjan,“ gott ef hann sagði þetta ekki einhverju sinni á fyrirlestri í Háskóla Íslands („Hvernig bók verður til“). Mér hefur ekki enn gefist færi á að rukka Jón Kalman um hvað hann átti við, nákvæmlega, þegar hann hélt þessu fram – ef við Jón Kalman værum sama manneskjan þyrfti ég raunar ekki að spyrja hann, enda vissi ég þá auðvitað svarið – en mig grunar að hugsunin hjá honum sé í þá áttina að okkur séu, svona nokkurn veginn, áskapaðar sömu tilfinningar, sömu draumar, sama hlutskiptið á jörðinni – og svo framvegis. En þetta er raunar ekki alveg rétt hjá honum heldur; reynslan hefur kennt mér að ólíkar manneskjur innihalda mjög misstóra skammta af tilfinningum; oft hitti ég fólk sem segist „aldrei dreyma neitt“; nýafstaðin kosningabarátta hér á Íslandi bar með sér að hlutskipti fólks í samfélaginu er afskaplega ólíkt. Hvernig getum við þá öll verið sama manneskjan? Þetta er óskiljanlegt.

En nóg um það. Í norrænni frásagnarlist finnst mér alltaf eitthvað svo hressandi þessi sterka tilfinning fyrir tragísku eðli mannlífsins; ýmsir flottir norrænir höfundar – meðal annars Kalman og Fosse – berjast enn (kannski er það samt að breytast) fyrir „tilkalli okkar til harmleiksins“, eins og mig minnir að Milan Kundera orði það, ólíkt til dæmis starfsbræðrum þeirra í Bandaríkjunum, þar sem dapurt fólk þykir bara hlægilegt og er sett á sterk lyf. Á Norðurlöndum skrifar dapurt fólk ljóð og skáldsögur. Þessa tragísku lífssýn eiga nafnarnir Kalman og Fosse sameiginlega: Hvernig allt sem birtist hlýtur að hverfa aftur og hvað sú blákalda staðreynd er eitthvað svekkjandi, svona þegar maður virkilega spáir í það. Í harmkórnum hjá Jóni Kalman endurspeglast, rétt eins og hjá Fosse, þessi vonlausa tilraun til að leyfa röddum hinna liðnu að hljóma; munið eftir okkur, við vorum einnig hér á þessari jörðu áður en þið komuð til sögunnar. Við lifðum, við elskuðum, við hlógum, grétum og dóum, og eins mun fara fyrir þér, kæri lesandi, þess vegna áttu ekki síður margt sameiginlegt með okkur látnu en hinum lifandi, þú ert dæmdur til sömu örlaga og við, einn daginn mun rödd þín bætast í harmkórinn …

Við erum öll sama manneskjan.

Hjá Fosse hlýst sú upplifun þó ekki síst af því að sögurnar hans „[hverfast] um lífskjör fátæks fólks í Noregi á árum áður“ (svo að ég vitni beint til fréttatilkynninguna sem Dimma sendi mér) og á þeim tímum breyttust lífsskilyrði fólks vitaskuld ekki jafn ört og á okkar tímum. Fólk lifði nokkurn veginn sambærilegu lífi mann fram af manni, hírðist í sams konar húsum, notaði svipuð amboð og áhöld og svo framvegis. Nú notum við hins vegar öll sömu tækin og það einungis tvö: Tölvu og kaffivél. Og erum því, líkt og Jón Kalman og Jon Fosse benda á, óðum að nálgast það takmark að verða öll sama manneskjan.

Þetta er ekki bókadómur

Að lokum er rétt að taka fram að ég veit svo sem ekkert um hvað ég er að tala. Mér finnst bara gaman að lesa góðar bækur. Og bækur Fosse falla í þann flokk. Á köflum breytast bækurnar í þríleiknum raunar í hálfgerðar spennusögur (einkum fundust mér Andvaka og Draumar Ólafs lukkast vel, Kvöldsyfja er flott en ekki alveg jafn sterk) og á þeim spennusprettum fannst mér gaman, virkilega gaman, að vera lesandi. En sem sagt, ég vildi hnykkja á því að þetta er ekki bókadómur heldur miklu frekar góðfúsleg ábending, vingjarnlegt pot í þá sem fíla góðar bækur: Lesið Jon Fosse. Ég gæti raunar aldrei skrifað um bækur sem ég fílaði ekki (eða þá bara klárað að lesa leiðinlega bók, ég hef aldrei áttað mig á – og alltaf borið óttablandna virðingu fyrir – fólki sem getur klárað að lesa bækur sem því finnast leiðinlegar). Að lesa til enda leiðinlega bók eftir höfund sem maður fílar ekki er eins og að setjast vongóður upp í rútu og átta sig svo á því að rútan stefnir á leiðinlegan stað þar sem maður vill ekki vera. Bókadómur sem maður skrifar að loknum lestri bókar sem maður fílar ekki (og lestur er auðvitað líka ferðalag, rétt eins og rútuferð) er þar með eins konar kvörtunarbréf til rútufyrirtækisins: Rútan ók mér á stað sem ég kærði mig ekkert um að vitja. En þá segir rútufyrirtækið á móti: Þú hefðir bara getað stigið úr rútunni á einni hinna fjölmörgu stoppistöðva, elskan mín. Þannig getur maður sömuleiðis alltaf sloppið út úr bók, lokað henni og lagt á náttborðið sitt. Með öðrum orðum blasir því við að ég var hrifinn af verkum Fosse – en þetta er samt ekki bókadómur, NB – og í stað þess að gefa verkunum fimm stjörnur, ætla ég að gefa þeim sex handahófskennda hluti; eina styttu af lesandi apa með stór gleraugu (úr postulíni), lampa, vatnsglas, hleðslutæki fyrir síma, blekpenna og stílabók. Þessa muni – einkunnagjöfina – hyggst ég leggja á náttborðið mitt, við hlið bókanna fjögurra eftir Fosse.

Og síðan bíð ég spenntur eftir því að Hjalti Rögnvaldsson og Dimma sendi okkur næstu bók úr höfundarverki þessa norska meistara. Af nógu er að taka, ef marka má lestur minn á bókunum sem ég tók í Norræna húsinu og voru á norsku (ég skildi ekkert).