Hval varla allra

Þann 30. september síðastliðin gaf Sacred Bones útgáfan út sjöttu plötu norsku söngkonunnar Jenny Hval, þá fjórðu undir hennar eigin nafni. Fyrstu tvær komu út sem plötur Rockettothesky. Nýja platan heitir Blood Bitch. Hún hefur eins tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum með öðrum tónlistarmönnum og eftir hana hafa komið út tvær bækur.

Ég hafði aldrei heyrt um hana getið áður en ég tók að mér að skrifa um hana og hef notið þess að uppgötva feril hennar og á nóg eftir. Þetta er tónlist sem er varla allra en verðlaunar mann ríflega því meira sem maður hlustar.

Á Blood Bitch leitar Jenny á elektrónísk mið með naumhyggjulegri tónlist hverrar útsetningar haldast stundum varla saman. Þetta er hól. Lögin eru haganlega samin, tilraunarkennd og koma oft á óvart. Allur hljóðfæraleikur og söngur er til fyrirmyndar.

Þetta er plata um það að vera kona og textarnir eru s.s. á persónulegum nótum og hún hleypir hlustendum ákaflega nærri. Hún syngur títt um tíðir og tíðablóð og kíkir við í skoðun hjá kvensjúkdómalækni. Eins eru lög um brostin sambönd og óendurgoldna ást. Allt virkar þetta ákaflega heiðarlegt, einlægt og oft örvæntingarfullt.

Sem karlmaður þá fannst mér ég oft eins og ég væri að snuðra um málefni sem mér koma ekkert við. Mér fannst það óþægilegt. Ég hugsaði stundum með mér að kannski hefði kona átt að gagnrýna þessa plötu. En það er auðvitað argasta vitleysa. Sem karlmaður, hvað þá giftur (ég nota ekki kvæntur enda gáfum við okkur hvoru öðru) karlmaður, þá hef ég sjálfsagt bara gott af því að hafa innsýn í innri heim kvenna og hluti sem sumar þeirra kannski vilja ekkert endilega vera að ræða sjálfar. Líkamlegar funksjónir okkar ættu ekki að vera tabú.

Jenny Hval hefur sett saman ákaflega góða og þarfa plötu og kemur sínum sjónarmiðum og tilfinningum vel til skila. Platan situr í manni og neyðir mann til að hugsa um það sem er hér á ferðinni eftir að hlustun líkur og er það vel. Óþægileg list á tilverurétt líka.