Spurt er um staðsetningu. Hún er mælanleg á korti í breiddar- og lengdargráðum; 64 gráður eða 66, það er kalt úti, mínusgráður og okkur dreymir um hitann, en líklega kemur það út á eitt hvort manni er kalt á Lækjartorgi eða Silfurtorgi.
* * *
Einu sinni fyrir langa löngu þekkti ég hóp af frjóu og skemmtilegu ungu fólki sem átti það sameiginlegt að vera alltaf á leiðinni til Indlands en enda alltaf í Svíþjóð. Hugmyndin var sú að kæmist maður til Indlands myndi maður uppljómast – fá svonefnt menningarsjokk – og sjá í kjölfarið heiminn í gersamlega nýju ljósi.
En það er dýrt að fara til Indlands og því fylgir umtalsvert meira vesen en að flytja til Lundar. Maður þarf til dæmis að útvega sér vegabréfsáritun og láta sprauta sig fyrir allra handa pestum. Síðan er ábyggilega líka skítugt í Indlandi og þröngt og þegar til kastanna kemur er maður alltof víðsýnn til meika hindúismann eða hugmyndir heimamanna um stöðu kynjanna, stéttanna og hlutverk kýrinnar í samfélaginu, eða sína eigin stöðu í þriðja heiminum – þar sem maður er alltaf nýlenduherra, sama hvað maður gerir, og við sem héldum að við værum bóhem.
Og þá fer maður náttúrulega bara til Svíþjóðar. Þar er hreint og fínt, auðvelt að fá vinnu og/eða bætur, en allt er aðeins öðruvísi – þeir eru pínulítið víðsýnni en við, pínulítið klárari, aðeins krítískari, veðrið örlítið skárra – og þar er þess utan hægt að fá ódýrt falafel, ef maður vill. Hugsanlega er meira að segja hægt að fá í Lundi bærilegt tandoori framreitt af manneskju sem var alin upp í Indlandi. Það gerist ekki meira ekta.
Ef maður kemst ekki einu sinni til Svíþjóðar er síðan alltaf hægt að fara til Reykjavíkur.
* * *
Efniviður listamannsins eru fyrst og fremst upplifanir hans – í víðtækum skilningi þess orðs – upplifanir sem takmarkast eðlilega af aðgengi hans eða hennar að heiminum. Það aðgengi stýrist ekki bara af landfræðilegri stöðu listamannsins – í hvaða firði hann eða hún stendur – heldur ekki síður af tilviljunarkenndum gæðum stofnana samfélagsins – er bókasafnið gott? vídjóleigan frambærileg? veit Kristján í Hljómum eitthvað um tónlist? – og þar á ofan af getu listamannsins til að innbyrða. Hversu heitt getum við elskað, hversu margt getum við munað í einu, hversu margar mótsagnakenndar hugmyndir erum við fær um að hantera? Og svo framvegis.
Nú er auðvitað búið að loka vídjóleigunum og Kristján Freyr er löngu hættur að vinna í Hljómum – ég frétti síðast af honum á leiðinni til Indlands – en bókasafnið er ennþá gott og við höfum fengið annars konar aðgengi að heiminum í krafti sítengingar við netið. Þar þarf auðvitað að díla við ýmis konar landfræðilega lása og tiktúrur en það breytir því þó ekki að aðgengi að hlutum einsog tónlist, bókum og bíómyndum – að ónefndum skrifum um tónlist, bækur og bíómyndir, allri menningarsamræðunni – er allt annað en það var þegar t.d. ég var að alast upp. Ekki ótakmarkað, en ansi nærri því.
Í heimi þar sem maður getur orðið sér úti um hvaða lag sem er á innan við tíu sekúndum, fundið öll málverk heimsins í fullkominni upplausn, lesið sér til um allar heimsins heimspekilegu dellur og pantað sér bækur í kindilinn á augnabliki; þar sem maður getur grafið uppi fjarlægasta fólk og sent þeim skilaboð samstundis; þar sem er jafnvel erfiðara að fela sig fyrir upplifununum en að festast í þeim – í heimi þar sem aðgengið er algert og þar sem heimurinn rennur þess utan meira og meira saman í eitt – borgum svipar saman, hegðunarmynstur íbúanna verða líkari og líkari, tabúin alls staðar þau sömu og kurteisisvenjurnar meira og meira krefjandi, enginn ofbýður öðrum, þar sem við eigum endalausa kröfu á að ekkert trufli okkur – í heimi af því tagi fær litli mismunurinn í lífum listamanna óendanlega mikið vægi, hver einstök upplifun sem listamaðurinn deilir ekki með öðrum – hvorki í holdinu eða á netinu – að uppistöðunni í því sem gera á list hans einstaka.
* * *
Öll sköpun er afleiðing þess sem maður hefur upplifað – listamaðurinn innbyrðir og skilar af sér, svo að segja.
Það skítur auðvitað enginn nákvæmlega því sem hann át, heldur einhverju skyldu því – hafi ég ekki misskilið eitthvað illilega í menntaskólalíffræðinni er í öllu falli fullkomlega ómögulegt að skíta einhverju sem maður hefur ekki étið. Það fer ekkert út sem ekki kom fyrst inn einhvers staðar. Í einfölduðum skilningi mætti síðan halda því fram að við sem leggjum stund á íþrótt listarinnar keppum því um hvert okkar hafi öflugustu meltingarfærin og skíti þar með árennilegustu afurðunum.
Heilinn og hjartað – líffærin sem búa til listina – reka auðvitað ekki að öllu leyti sams konar búskap og maginn, nýrun og þarmarnir. Við bestu skilyrði skila þau til dæmis því sem þau hafa innbyrt frá sér í betra ásigkomulagi en þau tóku við því, á meðan maginn gerir jafnvel mestu sælkeramáltíðir ólystugar. Þá fara heilinn og hjartað stundum ólíklegri leiðir að meltingu upplifana, lærdóms og kærleika, á meðan maginn bara malar sitt í sama takti dag eftir dag.
* * *
Ég óttast að búa í Reykjavík. Ekki bara vegna þess að mér hefur leiðst það þegar ég hef gert það, ekki bara vegna þess að ég var alltaf blankur og blautur í fæturna á vappi um miðbæinn í þeirri fullvissu að ég væri að missa af einhverju stórkostlegu – sem var ýmist alltaf eða aldrei raunin, eftir því hvernig er á það litið, í það minnsta fann ég aldrei hið stórkostlega sem ég taldi mig vera að missa af. Heldur vegna þess að ég vil standa vörð um sérviskuna í sjálfum mér og ég vil rækta hana og það er ekki svo auðveldlega gert í kraftmiklu fjölmenni. Ég er afskaplega áhrifagjarn – og vil vera það, vil vera viðkvæmur og móttækilegur, án þess að fórna hörkunni eða mótstöðunni. Og þá er fjarlægðin kannski mikilvægust alls.
* * *
Líklega er best að gangast bara við því. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða þetta. En ég sé fyrir mér að samfélag – sérstaklega samfélag einsog Ísland, sem á sér bara eina raunverulega miðju, bara Róm og enga Mílanó, bara Stokkhólm og enga Gautaborg, bara París og enga Marseille – þar sem stærstur hluti listamanna af sömu kynslóð eiga dag frá degi sömu upplifanir, þramma gegnum sama veðrið í sams konar skóm til að sækja sömu leiksýningarnar, sömu tónleikana og kaupa sömu bækurnar í sömu búðunum til þess að ræða þær á sömu kaffihúsunum og komast að samræmdri niðurstöðu um merkingu þeirra og gæði – slíkt samfélag fær fjölbreytnina ekki beinlínis ókeypis.
* * *
Ég á ekki við að það sé alltaf frábært að vera listamaður á Ísafirði – eða einu sinni bara manneskja á Ísafirði. Návígið er alveg þrúgandi stundum – fjörðurinn er í senn hlýr barmur og fantatak –þegar ég fór héðan fyrst þá var það vegna þess að ég gat ekki meira. Og mikið djöfull sem ég hef bölvað fjarlægðinni frá heiminum þegar ég þarf að ferðast úr landi, sem er alltof oft – að fara til Færeyja frá Ísafirði er álíka átak og að fara frá Kaupmannahöfn til Sydney. Mikið andskoti sem ég hef bölvað Steingrímsfjarðarheiðinni – fastur í blindhríð eða búinn að velta – eða keyrt vantrúaður í gegnum hvert flóðið á fætur öðru á Súðavíkurhlíðinni. Að nokkur skuli ennþá búa hérna.
* * *
Spurt er um staðsetningu. Hún er mælanleg í kílómetrum og millibörum, hæðum og lægðum, flóði og fjöru – það er hægt að benda á hana á korti, gúgla hana – sunnanlands eða fyrir vestan, það er alltaf rok í miðjunni og það nær út á jaðarinn nema rétt á meðan maður er að búa sig út í veðrið og þegar til kastanna kemur verðum við sennilega aldrei nægilega vel klædd, alveg sama hvar við erum.