Samtímasaga – samtímasögur

Um skáldsöguna Vinkonur eftir Rögnu Sigurðardóttur

Skáldsagan Vinkonur kom út fyrr á þessu ári og fór umfjöllun um hana ekki hátt. Verkið verðskuldar meiri umfjöllun.

Hver er höfundurinn?

Fyrsta skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur, Borg, kom út árið 1993 og þótti það frambærileg að hún var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá var Ragna þrjátíu og eins árs að aldri og laut í lægra haldi fyrir Hannesi Péturssyni. Verk hans Eldhylur var talið bezt það árið. Borg þótti nýstárlegt formtilraunaverk af þeim sem vita gerst. Mætti máske staðsetja það sem jaðarverk.

Aðrar skáldsögur Rögnu eru Skot frá 1997, Strengir frá 2000, Hið fullkomna landslag frá 2009 og Bónusstelpan frá 2011. Þar að auki hafa verið gefin út tvö bókverk eftir hana og ein ljóðabók.

Aukinheldur skrifaði hún lengi um myndlist fyrir Morgunblaðið. Ragna er einmitt menntuð á því sviði. Lagði hún stund á myndlist við Mynd- og handíðaskólann á Íslandi og stúderaði myndlist í Niðurlöndum. Í því samhengi er vert að minnast á að víða í verkum hennar eru myndlistarskírskotanir. Í Hinu fullkomna landslagi svo og Bónustelpunni er meira að segja hægt að segja að myndlist spili einna stærstu rulluna.

Ragna hefir allajafna fengið lofsamlega umfjöllun fyrir verk sín þótt frægðarsól hennar sé enn á bak við fjall. Henni hefir verið hampað fyrir góð efnistök og framsetningu, fyrir að vera vel skrifandi, svo og fyrir samtímanálgun. Sumar skáldsögurnar minna á spennu- eða glæpasögu og eina þeirra, Skot, mætti draga í þann dilk. Því hefir einnig verið haldið fram að verk hennar beri keim af kvikmyndum.

-Svar við spurningunni: Myndlistarmenntaður rithöfundur sem fengið hefir ágæta umfjöllun fyrir verk sín og gefið út all nokkur verk.

Víkjum nú sögunni að nýjasta verki Rögnu og eyðum ekki meira púðri í fyrri verk enda er tíminn peningar og sá tími sem í þetta fer er ekki færður til reiknings. Ísland er nefnilega kannski bara bókmenntaey þegar til kastana kemur. Látum það þó liggja á milli hluta hér og nú.

Nýjasta skáldsaga Rögnu, Vinkonur, státar af öllu því sem talið var upp í lok fyrsta hluta. Og hún er langt frá formtilraunamennsku fyrstu skáldsögunnar. Sagan á sér stað á tveim tímaplönum 1984/1985, þegar sögupersónurnar eru í áttunda bekk Austurbæjarskóla, og tuttugu og fimm árum seinna. Greinir hún, í þriðju persónu, frá þrem táningsstelpum-konum: Hafdísi ráðherradóttur-dómsmálaráðherra sem fer með málefni hælisleitenda, Júlíu félagsmálapakka-líkamsræktardrottningu og Láru dóttur einstæðar myndlistarkonu-myndlistarkonu sem ber hag hælisleitenda, sérstaklega Ghulem Sakhi frá Afganistan, fyrir brjósti.

Um hvað er sagan?

Sé innihaldi bókarinnar yfirborðslega lýst fjallar samtímahlutinn um það hvernig Hafdís tekst á við að vera umdeild stjórnmálakona vegna málefna hælisleitenda og Dyflinarreglugerðarinnar. Sérstaklega brennur mál Afganans Ghulem Sakhi, sem senda á úr landi, á henni. Það mál leiðir til þess að hún hittir æskuvinkonu sína Láru á gistiheimili fyrir hælisleitendur og Lára fær það verkefni, ekki fyrir tilstuðlan Hafdísar, að mála andlistmynd af ráðherranum. Hafdís glímir einnig við heilsubrest og þarf að huga að heilsunni. Það leiðir hana til Júlíu. Í þátíðarhlutanum er Hafdís líka miðpunktur frásagnarinnar. Þar greinir frá því er Júlía kemur ný í 8. bekk og vingast við Hafdísi sem verður til þess að Láru er bolað til hliðar. En Lára og Hafdís höfðu verið bestu vinkonur frá því í fyrsta bekk. Láru er það mikið ýtt til hliðar að þessi spurning er borin upp: „Hvenær hættir vinátta að vera vinátta og verður eitthvað annað. Hvenær verður stríðni að látlausu einelti?“ (bls. 86)

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er meginþemað vinátta. Og þar sem tímaflakk á sér stað innan verksins má ljóst þykja að breytingar gegna stóru hlutverki. „Hún var ókunnug en samt gamalkunnug í senn, kona sem hún þekkti ekki en líka stelpa sem hún þekkti svo vel.“ (214) Þannig hugsar Hafdís um Júlíu þegar dregur að lokum sögunnar og er vel hægt að heimfæra þetta upp á allar aðalpersónurnar. Þar að auki felur afturlitið í sér samanburð; hvernig íslenskt samfélag hefir breyst á þessum árum. Afturlitið ber með sér eins konar kvikmyndakeim, sem er algengur í glæpasögum, Það er svo að segja „klippt“ snöggt á milli sena, einkum þegar litið er til baka.

Sé litið til samfélagsbreytinga og samfélagslegra hitamála þá spila kynferðisafbrot, einelti, virkjunarmál og málefni hælisleitenda vegamestu hlutverkin. Ef svo vel er að gáð auðnast glöggum lesanda örugglega að finna fleiri mál enda er sagan marglaga.

Áðurnefnd hitamál hverfast um stjórnmálakonuna Hafdísi sem segir að „kynferðisbrotamál […] [séu] hennar pakki“ (bls. 39), málefni hælisleitenda tilheyra hennar ráðuneyti og hún heldur ekki aftur af sér þegar kemur að því að draga dár að Láru. Og hún er ein þeirra stjónmálamanna sem gefa vilyrði sitt fyrir virkjunarframkvæmdum.

Svar við spurningunni: Saga um vináttu þriggja persóna og þeirra breytinga sem verða á þeirra högum sem og samfélaginu.

Hvar er hægt að staðsetja verkið?

Sagan er raunsæisverk sem tekur á samtíma sínum, stíllinn er jarðbundinn, engar stílæfingar eða formtilraunir. Svo slær byrjun sögunnar tóninn fyrir það sem koma skal: „Þumallinn þrýstist undir hökuna og efri brún handabaksins upp undir nefið.“ (5) Augljóslega á sér nauðgun stað en það er ekki gefið upp hver gerandinn er. Það er ekki gefið upp fyrr en undir lok sögunar.

Verkið er þó ekki beinlínis glæpasaga, allavega ekki í hefðbundnum skilningi, þótt glæpir séu framdir. Talsvert er um að atvik sé sett fram sem eins konar ráðgátur. Hver er fortíð Júlíu?, hvað kom fyrir Láru í þýska herskipinu?, hvað gerðist á milli Ghulem og Hafdísar í stofu Hafdísar?, hvað olli heilsubrestinum? og hvernig kemur málverk Láru af Hafdísi til með að líta út? Þessi atriði eru smátt og smátt afhjúpuð líkt og um glæpasögu væri að ræða.

Eitt stærsta atriðið kemur þó inn á trúverðugleika þeirra sagna sem fólkið eða brotaþolar hafa frá að greina; hvort einhver trúi þeim, hvort einhverji vilji hlýða á. Gildir það jafnt um kynferðisafbrotin sem og bakgrunn hælisleitenda sem þurfa að sanna sögu sína til að eiga möguleika á að fá hæli á lendinu.

-Svar við spurningunni: raunsætt samtímaverk sem sver sig í ætt við glæpasögur.

Er eitthvað í söguna spunnið?

Þessi saga lætur ekki mikið yfir sér. Verkið er gífuryrðalaust. Fátt er fleygt í verkinu að finna sem taka mætti út sakir hnyttni eða stílgáfu, engar fleygar tilvitnanir. Það er stíllega átakalaust. Þó verður að segjast að það er haganlega samansett. Ef notast má við orð eins og kvikmyndastíl þá er hann vel heppnaður og enga hnökra að finna á klippingunum.

Verkið er auðvelt aflestrar. Það þýðir þó ekki að um léttmeti sé að ræða heldur að það renni auðveldlega niður. Það er hvorki of né van kryddað þannig að notast sé við auðmelt líkingamál. Verkið sver sig stíllega í ætt við haganlega samansettar glæpasögur og er nógu spennandi sem slíkt til að erfitt er að láta bókina frá sér uns á enda er lesin. Það er nóg af spurningum sem halda uppi spennu og krefjast þess að lesið sé áfram og gefa tilefni til heilabrota.

Eitt er það annað sem einnig telst verkinu til tekna. Tekið er á hitamálum í íslenskum samtíma án gífuryrða og hreinni og klárri afstöðu. Ekkert gefur beint til kynna afstöðu höfundar (má þó leiða líkur að henni). Verkið tekur á manneskjulegan hátt á viðfangsefnunum; án þess að úthrópa fólk nasista eða einfeldinga, vinstrivillinga eða fábjána eða eitthvað þaðan af verra.

-Svar við spurningunni: Já, það er margt jákvætt í söguna spunnið. Þetta er jarðbundið, nokkuð hlutlaust og raunsætt skáldverk og sannlega gott fyrir sinn hatt.