Kuldarokk í hæsta klassa

Qþrjú er þriðja útgáfa hinnar fornfrægu pönkhljómsveitar Q4U og á henni er að finna 14 lög. Áður hafa komið út frá sveitinni stuttplatan Q1 árið 1982 og svo kom Q2 á geisladisk árið 1996. En sú var safn upptakna frá árunum 1980 – 1983. Á plötunni sem er hér til umfjöllunar eru meðlimir sveitarinnar Elínborg Halldórsdóttir sem sér um söng, Gunnþór Sigurðsson bassaleikari, Árni Daníel Júlíusson sér um hljómborð, Egill Viðarsson leikur á gítar, Guðjón Guðjónsson trommuleikari og Ingólfur Júlíusson gítarleikari. Ríkarður Friðriksson leikur einnig á gítar. Upptökur voru gerðar af Ríkharði og Agli. Hljóðjöfnun var í höndum Bjarna Braga Kjartanssonar. Platan er gefin út af Norður & Niður.

Tíu fyrstu lögin eru stúdíólög og myndu þess vegna væntanlega teljast hin eiginlega plata. Fjögur síðustu lögin eru tekin upp á tónleikum og ættu þess vegna sjálfsagt teljast viðauki. Ég mun fjalla um diskinn út frá þeirri skiptingu. Þannig að þegar ég tala um plötuna er aðeins um að ræða fyrstu tíu lögin. Þegar ég minnist á viðaukann er ég að tala um síðustu fjögur lögin og þegar ég nota orðið diskur er það heildin sem er málið.

Platan byrjar á laginu My Little Girl og maður veit strax hvaða hljómsveit er hér á ferðinni. Hljómurinn hefur verið uppfærður og hljómsveitin hljómar eins og hljómsveit dagsins í dag. En uppruninn leynir sér ekki, 80s kuldarokkspönksveitin Q4U lætur ekki að sér hæða. Tónlistin er kraftmikil og hrá en vel unnin á sama tíma. New Order og Joy Division áhrifin eru enn til staðar en eins og áður þá taka þau aldrei yfirhöndina og Q4U er fyrst og fremst Q4U. Hljómsveit með sínar eigin áherslur og eiginleika.

Þegar Q4U komu fyrst fram á sjónarsviðið var kalda stríðið í algeymingi og samfélög Evrópu enn undir þungum skugga seinni heimstyrjaldarinnar. Og textar laganna voru oft eftir því. Í dag þegar þau snúa aftur með sitt fyrsta nýja efni í rúm 30 ár er eins og lítið hafi breyst og þrátt fyrir endalok kalda stríðsins hafi ástandið bara breyst til hins verra ef eitthvað er. Enn þarf Ellý að syngja um stríðsógnir sem engan endi sér fyrir og hvað heimskulegt þetta allt saman er.

Eins og fyrr segir þá eru tíu lög á plötunni og eru þau öll nema eitt ný. Annað lag plötunnar er lagið Skemmtistaður sem hefur áður komið út sem demó á öðrum útgáfum. Það mætti alveg deila um tilganginn með því að hafa lagið með á plötunni (og ég hef verið alveg á báðum áttum með það) en þegar öllu er á botninn hvolft þá er ný útsetning lagsins afskaplega vel heppnuð og í ljósi þess að lagið, sem er mjög gott, kom aðeins út sem demó þá er vel skiljanlegt að bandið hafi viljað sjá það gefið út á almennilegann hátt. Ásamt Skemmtistað þá þykir mér bestu lög plötunnar vera Sýrland í ljósaskiptunum, Lie to Me og Things We Used to Do. Annars er platan mjög jafngóð og ekki feilspor á henni að finna.

Viðaukinn kom mér á óvart. Ég spurði mig hvort hann ætti nokkuð heima á disknum þegar ég sá lagatitlana Böring og Creeps þar. Enda er ekki ljóst á umslaginu að þarna er um tónleikaupptökur að ræða. Sigurinn er einnig tónleikaupptaka en síðasta lagið, Víkingalagið, er tekið upp í æfingahúsnæði sveitarinnar árið 2012. Allur vafi um ágæti viðaukans fjaraði út um leið og ég heyrði tónleikaupptökunnar. Þvílíkur kraftur! Hljómsveitin nær að ljá smellunum tveimur nýtt líf á þessum upptökum og hrein unun að heyra þetta.

Þessi endurkoma Q4U er afskaplega vel heppnuð og þeim hefur tekist að setja saman plötu sem nær ekki aðeins að standast þeirra fyrri verkum snúning heldur bætir við verk þeirra á sannfærandi hátt og sýnir á hljómsveitin á alveg jafnmikið erindi við okkur og þau áttu á sýnum tíma. Þetta er vel af sér vikið.