Kriðpleir: Konungar hversdagsleikans

Ef við eigum að vera hreinskilin, þá er ekki margt merkilegt sem stendur upp úr þegar maður deyr. Manneskjan hefur hugsanlega einhver áhrif á sitt nánasta umhverfi. Stofnar kannski fyrirtæki sem gengur þokkalega. Við búum til líf. Það er líklega stærsta afrek flestra. Sumir búa aldrei til líf, heldur eltast við leyndardóma eða ævintýri heimsins. Líklega til þess eins að liggja tiltölulega svekktir á dánarbeðinu og velta því fyrir sér af hverju þau eignuðust aldrei börn. Því þegar yfir líkur, skiptir fátt máli, enda ævin samansett af óskipulagðri röð hversdagslegra viðburða þar sem manneskjan er sofandi í 33 ár eða er með tusku á lofti í sex mánuði. Í það minnsta þegar lífin eru dregin saman.

Og þó maður hangi á klósettinu í nokkur ár samkvæmt sömu forskrift, þá þarf hversdagsleikinn ekki endilega að vera ómerkilegur.

Kriðpleir frumsýndi leikrit sitt, Ævisaga einnhvers, í Tjarnarbíói um helgina, og tekst leikhópurinn einmitt á við sameiginlega ævisögu okkar allra; hversdagsleikann.

Þetta er fjórða sýning Kriðpleirs, sem samanstendur nú af Friðgeiri Einarssyni, Ragnari Ísleifi Bragasyni og nú Árna Vilhjálmssyni sem hefur verið með í þremur síðustu sýningunum.

Ævisaga einhvers er líklega næst hinu hefðbundna leikhúsformi, en hingað til hafa þeir félagar notast við nokkurskonar leikrænt fyrirlestraform, þar sem framvinda sögunnar er keyrð áfram með afar óhefðbundnum hætti.

Þær sýningar eru að mínu mati það frumlegasta sem hefur sést í leikhúsum hér á landi. Hópurinn nær að blanda saman húmor, frumlegheitum og ekki síst leiftrandi sköpunargáfu þríeykisins.

Sýningarnar er auðvitað mis-dramatískar. Síðbúin rannsókn var hreinn gamanleikur á meðan Krísufundur, þeirra besta sýning að mínu mati, var harmræn innsýn inn í líf Ragnars Ísleifs og hvernig hann tókst á við þunglynda móður sína sem framdi að lokum sjálfsmorð. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að sú sýning hafi verið nánast fullkomin í nálgun sinni. Ekki síst formið þar sem þeir félagar voru að reyna að vinna sig út úr klisjunni.

Það skiptir satt að segja engu máli hver þráðurinn er í leikritinu Ævisögu einhvers. Tilgangur félaganna er að taka viðtöl við fólk um ævi þeirra. Markmiðið er þó óljóst. Það er að segja hvað í ósköpunum þeir ætla að gera við sögurnar. Þetta er engu að síður verðugur efniviður. Þarna má nefnilega finna spurninguna um tilgang lífsins og hvað í ósköpunum mannskepnan er yfirhöfuð að vilja á jörðinni.

En leikritið snýst fljótlega upp í smáatriðin. Viðmælendur félaganna mótmæla minningunni, og þeirra stærsti harmleikur í lífinu reynist nauðaómerkileg eftirsjá, sem lýsir fólki sem ekkert skortir í lífinu nema ef til vill smávegis dramatík. Og í þannig aðstæður verða stóru áföllin ansi léttvæg.

Til þess að brjóta upp hversdagslega rútínu verksins, brestur Árni Vilhjálmsson í söng og syngur frábær popplög sem hann semur í samvinnu við Birgi Ísleif Gunnarsson tónlistarmann. Til gamans má geta að þeir hafa ekki unnið saman síðan þeir gerðu garðinn frægan með MH-rapphljómsveitinni Motherfuckers in da house.

Ef við eigum að taka út handbragð sýningarinnar þá var leikurinn til fyrirmyndar. Friðgeir er enn í sínu alvarlega hlutverki sem Friðgeir sem er í senn óframhleypinn og teknókratískur í hegðun allri, sem kannski sést best í kostulegu atriði þar sem hann skrifar bréf til húsfélagsins. Ragnar Ísleifur er ávallt jafn eðlilegur og kvikur og einlægur í túlkun sinni á Ragnari – sem maður efast í raun um að sé svo mikill leikur. Enda eru þeir ávallt á mörkum þess að vera þeir sjálfir. Þó að enginn ætti að velkjast í vafa um að þarna er sannarlega leikhús í gangi.

Árni Vilhjálmsson á frábæran leik sem hinn sjálfsöruggi Árni sem hefur varla neina þolinmæði fyrir ruglinu í Ragnari um stífurnar. Þegar hann brestur í söng minnir hann áhorfendur á að hann er alþjóðleg rokkstjarna í hjáverkum.

Árni og Ragnar halda svo uppi mjög skemmtilegu og nauðsynlegu spennustigi á milli persóna sem gerir það að verkum að manni leiðist aldrei.

Félagarnir halda áfram að nýta sér tækni skjávarpans, líkt og þeir hafa gert í öllum sýningunum. Þá notast þeir lítillega við bíótjald, þó aðallega til þess að varpa fram stórkostlega fyndnu bréfi Friðgeirs til húsfélagsins síns.

Búningar eru í anda hversdagsleikans, „normcore-ið“ (hverdagsöfgar?) svífur yfir vötnum og verður svo yfirgengilegt að það verður beinlínis ýkt.

Það er ekki laust við að Meaning of life með Monty Python hópnum bergmál í gegnum sýninguna. Bæði í gegnum léttleikandi tónlistina, en ekki síður í fáránleika lífsins, sem brýst stundum út í tæknilegum samræðum um snittur og kex. Hugrenningatengslin báru mann líka til Samuel Beckett og biðinnar eftir Godot. Því stundum er lífið hversdagslegur biðleikur.

Táknrænt ris sögunnar er líklega á stórkostlega fyndnum miðilsfundi þar sem maður fær á tilfinninguna að þegar maður deyr, sé það svipað og að yfirgefa húsið sitt, og muna ekki hvort maður hafi slökkt ljósin eða ekki. Því af hverju ættum við að verða hyldjúp og merkingarþrungin eftir dauðann, þegar vorum það aldrei í lifandi lífi?

Niðurstaðan er einhver aðgengilegasta leiksýning þeirra félaga, og hugsanlega sú fyndnasta. Efniviðurinn er merkingarfullur, en það getur verið nokkuð djúpt á merkingunni fyrir suma. Sýningin rambar á milli þess að vera nauðaómerkileg og hyldjúp. Ég get vel skilið misskilninginn ef hann kemur upp. Líklega erum við að misskilja eitthvað hálfa meðalævina hvort sem er.

Niðurstaðan er einföld. Sýningin er frábær og félagarnir í Kriðpleir eru konungar hversdagsleikans. Geri aðrir betur.