Kitlað í orgbotninn; Húrra fyrir Grétu!

Persónur & leikendur: Bjarni Snæbjörnsson, María Heba (Maja) Þorkelsdóttir, Tinna Sverrisdóttir og Þorleifur Einarsson
Tónlist: Hljómsveitin Eva – Sigríður Eir Zophoníasardóttir & Vala Höskuldsdóttir
Íslensk þýðing og leikgerð á Perplex eftir Marius Von Mayenburg – sem og leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Í sýningunni kemur einnig fram tónlist og textar eftir: ABBA, Axel Einarsson, Jóhann G. Jóhannsson & Hjálparsveitina, Björgvin Halldórsson, Bubba Morthens, Guðmund Magnússon & Sigfús Einarsson, Olgu Guðrúnu Árnadóttur, Ólöfu frá Hlöðum, Sálina hans Jóns míns, Jerry Hermann & Veturliða Guðnason.
Aðstoð við útsetningar: Axel Ingi Árnason
Aðstoðarleikstjóri: Eva Halldóra Guðmundsdóttir
Sviðshreyfingar: Erla Rut Mathiesen
Aðstoð við búninga: Gígja Sara Björnsson

Miðasölukona: Þetta er síðasta sýningin já. Í kvöld.

Óákveðinn gestur: Ókei, þá er ég á leiðinni. Einn miða. Takk.

 

Sest fremst og salurinn myrkvast, mikið af allskonar fólki, ungu fólki samt mest, fólki sem finnst gaman að fara í leikhús en er ekkert alltaf í leikhúsi; þetta er síðasta sýning – á síðustu forvöð að drífa sig. Leikararnir ganga á sviðið, sem er gólfið í salnum. Þeir kynna leikritið, það er engin sýningarskrá. Fínt. Ég held að leikritið sé byrjað. En það er það ekki.

Það er annars furðulegt hvað misskilningur eða upplýsingaskortur um listaverk getur breytt miklu þegar maður byrjar að taka það inn. Eins og að höfundurinn skipti alltaf höfuðmáli og maður sé alltaf að reyna að sálgreina hann eða „fyrirætlun spámannsins“ með einhverjum hætti. Og þegar maður er á einhvern hátt farinn að gera ráð fyrir afbyggðu leikhúsi, þessu lífsglaða formi og normi þar sem fjórði veggurinn er ekki til, um leið og leikararnir byrja að tala og kynna sig þá treystir maður ekki neinu sem þau segja. Það er allt hluti verksins.

 Í stuttu máli má því gefa smá innsýn í upplifun mína með þessum formerkjum: Þetta er verk um veruleikann og samskipti, þetta er verk um list leikarans og mátt skáldskapar, þetta er verk um það sem er alltaf að gerast og mun aldrei gerast með álíka hætti og þeim sem þarna kemur fram því leikhúsið er annar heimur, raunverulegur heimur en annar.

Hin óreiðukennda upplifun sem verkið býður upp á verður aldrei óskiljanleg eða tilgerðarleg eins og oft vill verða þegar fyrst og fremst er verið að reyna ögra áhorfendunum. Og það er mjög frelsandi, mjög gott; þessir ágætu leikarar – María Heba, Tinna, Bjarni og Þorleifur; ásamt Siggu og Völu í hljómsveitinni Evu – eru aldrei uppá stalli að „segja áhorfendunum“ hvernig lífið er. Hvaða heimspeki beri að fylgja. Hvað sé fyndið. Og svo framvegis (sem gerist svo oft þegar við förum í leikhús). Og þessar ögrandi og aggresívu senur sem íslenskir leikhúsgestir eru að verða orðnir alvanir; þær eiga sér nóg af kontrapunktum og er þar bæði galdur af hálfu hljómsveitarinnar Evu um að ræða sem og blæbrigðaríks leiks hjá genginu. Það sem að kveikti mjög í mér í upphafi sýningar (og nú má kannski fara í smá spoiler-alerts) að mér fannst hún vera útkoma úr einhverskonar spunavinnu leikaranna, einhverskonar niðurstaða sem leikstjórinn hefði leitt í land með svona „bara áhugaverðum“ hætti. Eitthvað svona hitt og þetta, snúningur um formið, og svo kæmi slútt og klassískur svona nútíma „rétt rúmlega klukkutíma“ sýning.

Eftir nokkra stund flettist utan af áætlun höfundar; leikarinn sem ég var ekki ánægður með í einni senu brillerar í annarri, það sem virtist óæft eða klúður er þaulhugsað uppbrot – hlutirnir fara að ganga smurt eins og í „fullkomnu spunasýningunni“ sem maður hittir aldrei á en er markmið allra spunasýninga; leikararnir taka senur, skipta um karakter, detta í klisjurnar, koma manni á óvart; og eftir nokkra stund áttar maður sig á að þetta er allt algjörlega hnökralaust. Svo þaulofið að mér leið – eins og áður sagði – eins og leikararnir og ótrúlega efnilegur íslenskur höfundur hefðu náð svona líka rorrandi flæði; áhorfendur orguðu af hlátri í farsakenndustu senunum (því það var vit í þeim, sterkar tilfinningar og alvara, annars næði hláturinn aldrei niðurá org-botninn) en héldu líka í sér andanum af andakt þegar tilfinninganæmustu senurnar liðu fram af … svona tvístígandi rómans, ef svo má kalla. Þegar maður er síðan teymdur áfram, fram úr klukkutímanum án þess að taka eftir því; í næstum tveggja tíma sýningu án þess að leiðast, þá var maður nú nokkuð fullviss að nú væri stigið fram frábært íslenskt leikskáld. Ef maður er sveitamaður. Soldið eftirá. Ekki alveg að fylgjast með. Það var yndislegt. Og hvað þá með Marius von Mayerburg, höfund verksins – finnst mér ekkert um hann og hans orginal verk? – spyr sig kannski einhver.

Staðfærsla, leikgerð, þýðing; hvaða nafni sem það nefnist þá get ég ekki vitnað um frumgerðina. Leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir tvinnar saman einhverjum orginal og ýmsu efni sem er svo íslenskt eitthvað að maður er aldrei að pæla í því að maður sé að horfa á eitthvað útlenskt verk, kafa í einhvern útlenskan veruleika eða tabú. Við erum tekin að hjarta allra íslenskra klisja í upphafi verks þar sem Draumalandið hljómar – í bestu útsetningu sem ég hef heyrt síðan ég heyrði Þorvald Þorvaldsson Alþýðufylkingarmann syngja það á Karókíkvöldi náttúruverndarsinna í Norræna húsinu um árið – og allir þessir snúningar hljómsveitarinnar Evu á þeim innleggjum sem þær sjá um eru konfekt í annars frábæru kökuboði. Samsöngsena þeirra og Þorleifs Einarssonar á einum af hápunktum „búningakvöldsins“ var líka leikhúsupplifun sem maður gleymir seint; það er að segja – það var svona sjaldséð móment þar sem maður heillast algjörlega af einhverju tvennu í einu og þarf virkilega að brýna athyglina til að taka það inn, fullur aðdáunar á því hvað leikurunum tekst að halda sinni siglingu fumlaust. Vel gert!

Að því sögðu held ég að alla þessa leikara hafi ég ekki séð jafn sterka á sviði áður, María Heba kom sérstaklega skemmtilega á óvart og ég held að maður verði bara að rekja það enn og aftur að styrkri stjórn Grétu Kristínar og hennar teymis. Einlægt og hástemmt hrós og fimma héðan úr sveitinni. Og ef þú ert einn af þessum óákveðnu gestum sem lætur stundum ekki verða af því að demba þér á sýningu sem þú ert ekki viss um. Fylgdu fordæmi mínu. Það er síðasta sýning – enn á ný – nú um helgina. Þú munt ekki sjá eftir því.