Hugvísindin og nýfrjálshyggja

In Defense of a Liberal Education & Undoing the Demos

Engum dylst að hugvísindin eiga undir högg að sækja í dag. Árásirnar á þau birtast á ýmsan hátt. Ef við tökum bara Danmörku sem dæmi, þar sem greinarhöfundur býr, hefur ríkistjórnin undanfarið staðið fyrir linnulausum niðurskurði á framlagi til hugvísindanna, sem hefur leitt til þess að mun færri nemendur eru teknir inn. Allt er þetta gert undir því yfirskini að nám verður að nýtast á vinnumarkaðnum – eitthvað sem hún segir að hugvísindin geri ekki. Þessi niðurskurður hefur leitt til þess að Kaupmannahafnarháskóli hefur nýlega ákveðið að leggja niður forn-grísku deildina sína, ásamt öðrum tungumálum og fögum með fáum nemendum og lítið efnahagslegt gildi. Þegar þetta er skrifað er ráðgjafafyrirtæki einnig nýbúið að leggja til við Kaupmannahafnarháskóla að Árnastofnun verði lokað til að hægt sé að spara enn meira og framtíð þessarar mikilvægu stofnunar því í mikilli óvissu. Svipaða sögu má segja um önnur lönd. Lógíkin er sú að ef námið eða starfsemin standa ekki undir sér fjárhagslega þá verði að skera hana niður. Lögmál markaðarins eigi að ráða í menntakerfinu eins og á öllum öðrum sviðum samfélagsins – í samræmi við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.

Háskólakennarar og nemendur hafa ekki alfarið tekið þessu þegjandi og hljóðalaust, þótt ótrúlegt verði að teljast hversu lítil mótmælin hafa verið miðað við þær gríðarlega róttæku breytingarnar sem hafa – og eru – að eiga sér stað á einu mikilvægasta sviði samfélagsins. En meira um það á eftir.

 

 

Nýleg bók, In Defense of a Liberal Education, eftir Fareed Zakaria, kemur hugvísindunum til varnar og gagnrýnir þennan niðurskurð og þann útbreidda misskilning sem atvinnulífið virðist hafa um þau. Zakaria fjallar þó ekki með beinum hætti um hugvísindin heldur það sem í Bandaríkjunum kallast a liberal education. Þar nær hugtakið ekki aðeins til hugvísinda eins og sögu, heimspeki og bókmennta heldur einnig til faga innan félags- og raunvísinda eins og stærðfræði eða félagsfræði. En hugsjónin á bak við slíkt nám hefur verið sú að gefa nemendum breiðan grunn þekkingar úr ólíkum áttum, ekki síst klassískra heimsbókmennta, í þeim tilgangi að gera þá að heilsteyptum borgurum sem eru færir um að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Hugtakið liberal í þessu samhengi notast við upprunalegu latnesku merkinguna: frelsi. Í bandarísku menntakerfi hefur slík menntun verið talin nauðsynleg til að skapa frjálsa borgara sem eru færir um að hugsa á eigin spýtur og taka sameiginlegar ákvarðanir í samráði við meðborgara sína. En þrátt fyrir að Zakaria fjalli ekki með beinum hætti um hugvísindin þá ræðir hann þó sérstaklega gildi þeirra, sérstaklega heimspeki, bókmenntafræði, mannfræði, sögu, o.fl.

Þessi hugsjón um menntun hefur mátt þola harðar atlögur undanfarið. Vegna hækkandi skólagjalda, minna atvinnuöryggis, og meiri og harðari samkeppni, eru háskólar undir miklum þrýstingi um að bjóða uppá nám sem er í meiri tengslum við atvinnulífið. Nemendurnir sjálfir eru einnig mun líklegri til þess að velja „skynsamara“ nám sem eykur líkurnar á því að þeir fái góða og vellaunaða stöðu þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn, en atvinnurekendur eru mun ólíklegri til þess að ráða einhvern með óljósan bakgrunn í bókmenntum og öðrum hugvísindum, heldur en einhvern sem hefur gráðu í einhverju sem þeir þekkja, t.d. viðskipta- eða tölvunarfræði.

Það er þessi hugmynd – að nám í hugvísindum veitir manni ekki neina hæfileika og getu sem nýtist á vinnumarkaðinum – sem Zakaria ögrar. Hann bendir á að hugvísindanám þjálfi ekki einungis nemendur sem nýtast á vinnumarkaðnum, heldur sem vinnumarkaðinn sárvantar. Hann bendir aukinheldur á hæfileika eins og það að hugsa skýrt, að geta skrifað og lesið fljótt og vel, að geta komið hlutum frá sér með skýrum hætti, o.s.frv. Eitt mikilvægasta atriðið er þó sjálfstæð, skapandi og gagnrýnin hugsun, eitthvað sem er mun erfiðara að þjálfa starfsfólk í heldur en það sem vinnan felur beinlínis í sér. Þannig bendir hann t.d. á að Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, hafi lagt stund á klassískar bókmenntir, forn-grísku og sálfræði, eitthvað sem hann segir sjálfur að hafi veitt sér ómetanlega þekkingu og reynslu.

Þetta er auðvitað allt gott og blessað í sjálfu sér, en fólk menntað í hugvísindum vill auðvitað góða vinnu eins og allir aðrir. Það sem vekur athygli við bók Zakaria er það hversu blindur hann virðist vera á gildi hugvísinda, þrátt fyrir að hann telji sig vera að koma þeim til varnar. Hann minnist vissulega á gildi þess að geta hugsað sjálfstætt, að læra hvernig á að læra, rökræða, o.s.frv. Einnig minnist hann á hina upprunalegu hugsjón liberal education, að slík menntun sé forsenda fyrir frelsi borgaranna. Þrátt fyrir þetta er ljóst að fyrir honum hafa hugvísindin fyrst og fremst gildi á meðan að þau þjóna atvinnulífinu – sem hann telur þau gera. Vörn hans felst því í því að reyna að sannfæra fólk um að leggja stund á hugvísindi – og atvinnurekendur að ráða það – vegna þess að einhver sagnfræðingur, heimspekingur eða bókmenntafræðingur þarna úti gæti verið næsti Steve Jobs eða Jeff Bezos, nú eða gæti stofnað næsta Google. Þetta á ekki aðeins við um tæknigeirann. Zakaria tekur dæmi af bróðir sínum sem lærði stærðfræði við Harvard og réð sig svo eftir námið hjá virtu alþjóðlegu fjármálafyrirtæki, en hann heldur því fram að það sé ekkert við starf hans sem einstaklingur með bakgrunn í hugvísindum og almennan grunnskilning á stærðfræði gæti ekki einnig gert og því ætti fjármálageirinn einnig að opna dyrnar fyrir fólk sem kemur úr hugvísindunum.

Hugvísindin eru því hér, eins og annars staðar, alfarið skilin í gegnum gleraugu nýfrjálshyggjunnar.

 

 

Önnur nýleg bók, Undoing the Demos: Neoliberalism’s Stealth Revolution eftir Wendy Brown, varpar ljósi á þessa hugmyndafræði, sérílagi það hversu lúmsk hún getur reynst. Svo mjög að þeir sem telja sig vera að gagnrýna hana gera það oft útfrá hennar forsendum – eins og er tilfellið í bók Zakaria.

Ég gef mér að lesendur séu það kunnugir nýfrjálshyggju að ekki þurfi að eyða mörgum orðum í einkenni hennar, en hún birtist einna helst í markaðsvæðingu allra sviða samfélagsins þar með talið sjálfsins, ásamt einkavæðingu helst allra stofnana og auðlinda samfélagsins. Brown bendir þó á að, líkt og kapítalisminn sem liggur henni til grundvallar, þá er nýfrjálshyggjan einnig í alltaf stöðugri þróun og breytingu. Þannig hefur hún í dag fjarlægst rætur sínar sem liggja m.a. í ritum F.A. Hayek og stefnum Ronald Reagans og Margaret Thatcher. Einnig bendir hann á að þrátt fyrir að þær stefnur sem innleiddar voru t.d. í S-Ameríku og víðar með valdi af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, séu vissulega nýfrjálshyggja, þá eru einkenni hennar á Vesturlöndum nokkuð önnur. Því er engin einföld skilgreining á þessari hugmyndafræði sem nær utan um allar birtingarmyndir hennar.

Samkvæmt Brown hefur nýfrjálshyggjan svo gott sem gert út af við lýðræðið og hinn lýðræðislega borgara. Nýfrjálshyggja, sem boðar að öll athöfn sé efnahagsleg athöfn og öll svið tilverunnar ætti að meta á mælikvarða hagfræðinnar, hefur velt lýðræðishugsjóninni úr sessi og holað hana að innan. Stjórnmálin fjalla ekki lengur um rökræður og hugleiðingar um réttlæti, ólík gildi og framtíðarsýn og átök um hvað er best fyrir samfélagið í heild, heldur eintóma reikninga og líkön. Þetta hefur ekki einungis róttækar afleiðingar fyrir samfélagið heldur einnig sjálfið. Róttæk tilfærsla hefur átt sér stað, frá því sem hún kallar homo politicus, borgara sem lætur sig varða og tekur þátt í málefnum samfélagsins í samráði við samborgara sína, yfir í homo oeconomicus, sjálfsveru sem lítur á sig sem fyrirtæki sem leitast einungis eftir að hámarka hagnað sinn á hinum ýmsu mörkuðum tilvistarinnar, hvort sem það er ást, vinna eða áhugamál. Öll samfélagsmeðvitund og æðri hugsjónir, hugmyndir um manninn sem listræna, menningarlega, hugsandi, sögulega, skapandi eða trúarveru, er fyrir bí. Sjálfsveran er orðin að mannlegu fjármagni (human capital). Sjálft tungumálið, hugtök eins og frelsi, jafnrétti og sjálfstæði, eru afbökuð þeim umbreytt í andstæðu sína.

Frekar en Marx og marxisma er Brown undir áhrifum frá Foucault og frægu fyrirlestrum hans Fæðing lífvaldsins frá 1978-1979. Þannig sér Brown ekki nýfrjálshyggju sem svar við krísu í auðsöfnun hins kapítalíska hagkerfis heldur fræðilega og pólitíska stefnu og rökvísi (political eða governing rationality eins og hún kallar það) sem endurforritar lýðræðislega stjórnarhætti með því að umbreyta tengslunum milli ríkis, samfélagsins, hagkerfisins og atvinnulífsins, og sjálfsverunnar.

Ein áhugaverðasta greining hennar er sú hvernig áherslan hefur færst frá stjórnmálum yfir í stjórnunarhætti og aðferðir. Það er gefið í nýfrjálshyggju að öll svið og stofnanir ætti að reka eins og farsæl gróðafyrirtæki, hvort sem það er Wal-Mart, háskóli eða sjúkrahús, og sama hvar í heiminum það er. Því er ekkert því til fyrirstöðu að yfirfæra stjórnunarhætti eins sviðs yfir á annað. Þetta er gert undir yfirskini hugtaka eins og skilvirkni, hagræðingar, sparnaðar, o.s.frv. Þessi aðferð nýfrjálshyggjunnar – með því að þykjast snúast einungis um stjórnunarhætti og aðferðir en ekki hugsjónir eða gildi – dulbýr þó hina gríðarlegu breytingu á gildismati og hlutverki stofnananna sem um ræðir og á sér stað undir yfirborðinu, eitthvað sem hefði áður fyrr verið tekist á um á sviði stjórnmálanna. Þetta er ein ástæðan fyrir því að svo erfitt er að gagnrýna og takast á við nýfrjálshyggju. Ef þú gagnrýnir hana ertu t.d. á móti hagræðingu eða skilvirkni, og þess vegna sjálfkrafa fylgjandi því að stofnanir séu reknar illa og peningum sóað í óþarfa vitleysu.

Sjálft hugtakið almannahagur verður sífellt erfiðara umfjöllunar þegar allt er komið undir hatt viðskipta- og (nýfrjálshyggju-) hagfræðinnar. Þegar öll svið hafa verið markaðsvædd fer allt í einu spurningin um afhverju allir ættu að borga fyrir það sem aðeins sumir nota að hljóma skynsamlega, hvort sem það er bókasöfn, almenningsgarðar, eða skólar. Þetta leiðir einnig til spurningarinnar um hlutverk ríkisins, en þegar markaðsvæðingin er komin á visst stig þá er farið að líta á ríkið sem ekkert nema enn einn samkeppnisaðila á markaði, frekar en fyrirbæri sem stendur fyrir – og þjónar hagsmunum – almennings. Því vakna spurningar um afhverju ríkið ætti endilega að sjá um það sem hingað til hefur verið litið á sem grunnstoðir frjáls og lýðræðislegs samfélags.

Þegar kemur að menntakerfinu hefur nýfrjálshyggjan víðtækar og alvarlegar afleiðingar, ekki bara fyrir það sjálft heldur samfélagið allt. Skólar eru ekki lengur stofnanir sem hafa það hlutverk að skapa hugsandi og sjálfstæða borgara í lýðræðislegu samfélagi sem færir eru um að taka ákvarðanir í sameiningu, heldur fyrirtæki sem nemendur fjárfesta í til að hámarka persónulegan hagnað sinn. Millistjórnendur, sem hafa ekkert að gera með kennslu eða rannsóknir, fá sífellt meiri völd og leita allra leiða til að hagræða og auka skilvirkni. Kennarar eyða minni og minni tíma í kennslu og meiri í kennslumat. Nemendur, sem líta á sig sem kúnna þar sem þeir hafa eytt stórfé í námið (oft með skuldsetningu sem þeim endist ekki ævin til að borga tilbaka), fara fram á aukna ávöxtun á fjárfestingu sinni í gegnum hærri einkunnir og meiri líkur á góðri stöðu eftir námið. Hugtök eins og þekking, hugsun og þjálfun eru metin aðeins að svo miklu leyti sem þau auka auðsöfnun eða tryggja valdastöðu. Þetta þýðir ekki endilega aðeins tæknilega þekkingu og hæfileika. Mörg mikilvæg störf í dag reiða sig á hæfni í rökgreiningu, samskiptum, þekkingu á mörgum tungumálum, uppfinningasemi og næmra lestrarhæfileika, eins og Zakaria bendir réttilega á. En þessir hæfileikar eru ekki eftirsóttir vegna þess að þeir leiða til góðra borgara sem styrkja menninguna og leita nýrra leiða til að lifa í sátt og samlyndi. Þau eru alfarið og einungis eftirsótt vegna getu þeirra til að hámarka hagnað eða tryggja ákveðna stöðu.

Slík sjónarmið er hvergi að finna í bók Zakarias, þrátt fyrir velviljaða tilraun hans til að koma hugvísindunum til varnar. Bókin er raunar mjög gott dæmi um það sem Herbert Marcuse kallaði the closing of the political universe[1], hvernig kapítalisminn, og í þessu tilfelli nýfrjálshyggju afbrigði hans, girðir fyrir ólíka sýn á stjórnmál og samfélagið. Hann telur sig vera að gagnrýna áhrif nýfrjálshyggjunnar á svið sem er honum dýrmætt; hugvísindin og háskólasamfélagið. En hann stígur þó ekki út fyrir þann þrönga ramma sem hún afmarkar. Þetta sést víðar. Sú gagnrýni sem á sér stað í opinberri umræðu, og beinist gegn stefnum stjórnmálamanna eða aðgerðum stórfyrirtækja, er oftar en ekki sett fram innan lógík nýfrjálshyggjunnar, frekar en að boða einhverja sýn sem einkennist af ólíku gildismat og annarri vegferð fyrir samfélagið. Hér getum við tekið tvö dæmi úr íslenskri umræðu.

Fyrra dæmið er umhverfisvernd. En oft hefur virkjanastefnu stjórnvalda verið mótmælt á þeim forsendum að náttúra Íslands sé meira virði ósnortin, að vegna hinnar miklu ferðamennsku sem íslenskt samfélag græðir gríðarlega á, og er í hag að styðja við, þá væri það skynsamlegra að hætta virkjanaframkvæmdum þar sem ferðamennirnir sem hingað koma gera það einmitt til þess að upplifa einstaka náttúru landsins. Látum það liggja á milli hluta hversu ósnortin náttúra Íslands í rauninni er, en slík rök eru þó ekki gagnrýni á nýfrjálshyggju, heldur einmitt rök sem runnin eru undir rifjum hennar. Hámörkun hagnaðar er mikilvægasta sjónarmiðið sem trompar öll önnur, ef önnur eru yfirhöfuð tekin með í reikninginn sem er sjaldnast.

Hitt dæmið er listamannalaun. En eins og áður segir, þegar nýfrjálshyggjan er komin visst langt þá fer það að vera skynsamlegt að spyrja afhverju allir ættu að borga fyrir það sem aðeins sumir nota og er listamannalaun eitt besta dæmið um það. Þegar litið er á list og menningu sem hverja aðra markaðsvöru eins og pylsubrauð, ilmvatn eða sófasett, þá er slíkt eðlilegt. Hin árlega umræða um listamannalaun er þá oftast á þann veg að þeir sem eru á móti þeim finnst að markaðurinn eigi að ráða og ef hann hafnar vörunum sem um ræðir og þær standa ekki undir sér sjálfar, þá eigi ríkið ekki að styðja við þær. Verjendur listamannalauna svara því oft með að benda á að listir velta í rauninni gríðarlega miklu og hafa mjög góð áhrif á þjóðarbúið. Rannsóknir Ágústs Einarssonar prófessors um hagræn áhrif lista komast að þeirri niðurstöðu að velta skapandi lista sé að skila inn í hagkerfið um 5% af landsframleiðslunni og skapi 10.000 störf. Samfara því á íslensk list mikilvægan þátt í að kynna landið og spilar þannig stórt hlutverk í þeirri aukningu á ferðamennsku sem er að eiga sér stað. Því væri það vitleysa að skera niður framlag ríkisins til lista, þ.á.m. listamannalaun vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á hagkerfið.

Hér er heldur ekki stigið út fyrir ramma nýfrjálshyggjunnar heldur þvert á móti fer þessi gagnrýni fram alfarið á forsendum hennar. Sjónarmið önnur en hámörkun hagnaðar, hvort sem þau eru pólitísk, menningarleg, fagurfræðileg eða siðferðislegs eðlis, rökræða um hvers konar samfélagi við viljum búa í, á hvaða vegferð við séum, hvað er okkur mikilvægast, o.fl., eru útilokuð eða ekki tekið mark á þeim. Þannig er nýfrjálshyggja the only game in town í umræðum um öll svið samfélagsins og tilvistarinnar. Það má taka fleiri dæmi: innflytjendur (við ættum ekki að vísa þeim úr landi vegna þess að þeir hafa jákvæð áhrif á hagkerfið), fíkniefnavandann (núverandi stefna er dýrari fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið en ef fíkniefni væru lögleidd og skaðinn minnkaður), borgaralaun (ódýrari en núverandi kerfi), o.s.frv.

 

 

Það má spyrja sig hvert við stefnum ef okkur er ekki aðeins ókleift að breyta hlutunum til betri vegar heldur reynist það sífellt erfiðara að hreinlega ímynda okkur nokkuð annað samfélag og önnur gildi. Ein helsta ástæðan er sú að við drögum úr mikilvægi – eða hreinlega gerum út af við – þau fög og þær athafnir sem sögulega hafa þjónað þessu hlutverki: bókmenntir, listir, heimspeki, sagnfræði, o.fl.

Ég gef Brown lokaorðin:

This is a measure of how far neoliberalization has already gone. Even its critics cannot see the ways in which we have lost recognition of ourselves as held together by literatures, images, religions, histories, myths, ideas, forms of reason, grammars, figures and languages. Instead, we are presumed to be held together by technologies and capital flows. That presumption, of course, is at risk of becoming true, at which point humanity will have entered its darkest chapter ever. We would be the entities of human capital, and nothing else, of the contemporary economic theoretical imagination. (bls. 188)

[1]          Í One-Dimensional Man: Studies in the Ideology of Advanced Industrial Society frá 1964.