Eitthvað nýtt. Níu sinnum í röð.

Það er eitthvað við plötur, eitthvað sem maður fær ekki við það að hlusta á lagalista á Spotify eða iTunes eða Deezer eða þúst (sem arðræna listamennina). Uppröðun plötu er list, maður hlustar til að komast að því hvað tekur við af hverju og hvernig þetta smellur allt saman. Og maður hlustar aftur af því að úr brotunum verður heild. Bestu plötur sögunnar eru þær sem hefur verið raðað upp rétt, eins og af góðum plötusnúði, einhverjum sem veit alltaf hvaða lag passar næst. En á tímum þar sem athyglisbrestur er landlægur og krónískur (hér er ekki bara átt við Ísland, heldur alheimsbyggðina, svona allavega eins og hún er 2016, samtölin við geimverurnar gætu breytt öllu, hver veit) hlýtur að vera erfitt að setja saman plötu. Okkur leiðist svo fjandi hratt. Ef eitthvað hljómar of líkt er hætt við að við skiptum yfir á eitthvað annað.

Mugison hafa sett saman plötu sem er fyrir fólk með athyglisbrest og ofvirkni, og ég meina það á góðan máta. Hvert einasta lag gæti verið eftir mismunandi hljómsveitir með sama söngvarann. Enjoy er þannig eins og „best of“ eða safndiskur, býður alltaf upp á eitthvað nýtt, níu sinnum í röð. Þetta er ekki fyrsta platan sem býður upp á allan skalann í einu, eitthvað segir mér að meðlimir Mugison hafi hugsanlega heyrt Rain Dogs með meistara Tom Waits nokkrum sinnum. Þar er plata sem hver sem er gæti haft með sér á eyðieyju og fundið allavega eitt lag við hæfi í hverri kringumstæðu. Enjoy er soldið þannig.

Fyrsta lag plötunnar, Deliver, er á sama máta í mörgum stílum í einu, en gengur þó fullkomlega upp í sjálfu sér, er „anthem“ sem bíður þess að vera hrópað af fullum sal, hástöfum og af innlifun. Please hljómar soldið eins og The Black Keys og minnir ögn á Green Onions, myndi allavega passa flott inn í American Graffiti endurgerð, er dillandi skemmtilegt og fullt af dósahljóði. Who Would I Be Holding Tight er svo aftur af allt öðru balli, angurvært, brassið eins og stolið úr Jean-Pierre Jeunet mynd meðan Örn veltir fyrir sér hvað það sé að vera mennskur. Tipzy King krúttar yfir sig, hljómar á köflum eins og múm í denn. Hangover er algjör hittari, virkilega heillandi, dillandi. Þegar orðin „I will never drink again“ hljóma er erfitt að ímynda sér ekki sjálfa sig fulla á Aldrei fór ég suður að strengja sama heit og brjóta það um leið. Pissing In The Wind er aftur úr einhverri allt annarri mynd, fallegt og rólegt og vinnur á við hverja hlustun, strengirnir til þess gerðir að toga í hjartastrengina og myndi sóma sér vel í kvikmynd. I’m a Wolf er svo, eins og fólk veit, algjör bomba, Tom Waits „light“ og kveikir í þeim aðdáendum sem elskuðu Mugiboogie (eins og mér). Climbing Up a Dream er annað lag sem vex með hverri hlustun, mjúki-Mugi (þessi sem fólk elskar að sjá syngja með konunni sinni) fær að njóta sín með dass af djassi, meganæs. Lokalagið Lazing On er síst, skandinavískt út í fingurgóma (í hausnum á mér er viðlagið ekki I’m lazing on heldur Jag er ligeglad, það er svo danskt eitthvað), en mun eflaust kæta Júróvisjón aðdáendur. Sem sagt fullt af góðu stöffi, bland í poka, eitthvað fyrir alla.

En er eitthvað fyrir alla jákvætt? Venjulega ekki en Mugison hefur gert ýmislegt á sínum ferli og því er þetta ekki svo út úr kú. Hér er Mugison af Little Trip sándtrakkinu. Hér er líka rokkandi Mugiboogie og Mugimama mætir í partýið og er sæt. Hér er sami Mugison og mætti einn með lúp-pedala og gerði allt sjálfur því hann gat ekki hamið allar hugmyndirnar sem spruttu fram og urðu Lonely Mountain í denn. Umfram allt er hér allt krökkt af hugmyndum og sköpunargleði og bandið skemmtir sér augljóslega að spila. Því er auðvelt að njóta.

Enjoy.