Ævisaga ársins

Níu snöggsoðnar hugrenningar að afloknum lestri Jóns lærða og náttúra náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson

I

Ekkert bókaflóð er fullkomið án að minnsta kosti einnar bókar á borð við þessa. Hnausþykkrar, fræðilegrar en samt læsilegrar úttektar á ævi og ferli einhvers af stórmennum fortíðarinnar: stjórnmálamanns, listamanns eða skálds. Bækur fyrir almenna lesendur en reistar á kröfuhörðum grunni akademíunnar.  Blómaskeið slíkra bóka er nokkuð að baki, þegar stofuhillurnar fylltust af smáatriðum úr lífi og bjástri Einars Ben, Jónasar Hallgrímssonar og nafna hans frá Hriflu. Í fyrra var sýnist mér engin svona bók í Bókatíðindum. Að þessu sinni ein. Sem er lágmark.

Auðvitað verðskulda bækur á borð við Jón lærða og náttúrur náttúrunnar alvöru „jafningjaumfjöllun“, þar sem til þess bærir sérfræðingar fara í saumana á vinnu höfundarins á skjalasafninu, þefa uppi misbresti sem leikmönnum eru ósýnilegir og rífast yfir niðurstöðunum. Þetta er ekki svoleiðis ritgerð. Hér talar meðaljón úr markhópnum, áhugasamur lesandi sem treystir því að sprenglærður höfundurinn hafi notað árin sem fóru í verkið vel, fari rétt með, meti og túlki heimildir skynsamlega og játi greiðlega þegar hann freistast til að álykta út frá einberum líkum eða treysta bláþráðum af því „sagan er góð“.

II

Sagan er svo sannarlega góð. Og kannski aðeins betur þekkt en mantran um „huldumennsku“ Jóns Guðmundssonar lærða, jafnvel einhverskonar „þöggun“ um minningu hans, gefur til kynna. Jón kemur við sögu í skáldsögunni Ariasman eftir Tapio Koivukari frá 2011 og Rökkurbýsnir Sjóns frá 2008 byggir á þáttum úr ævi hans. Ný heimildarmynd Aitors Aspe, Hjálmtýs Heiðdal og fleiri góðra manna um Baskavígin, þar sem Jón er í öllum skilningi aðalsöguhetjan, hefur svo varpað enn bjartara ljósi á minningu hans. Að ógleymdri ritgerð og útgáfu Einars G. Péturssonar á Edduritum Jóns.

Fyrir nokkrum árum kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi ritgerðasafn um Jón lærða á vegum Hjörleifs Guttormssonar, sem sýndi glöggt að fjöldi fólks er að velta við hinum ýmsu steinum í kringum lærdómsmanninn.

Sjálfur kynntist ég manninum og verkum hans við grúsk í Landfræðissögu Þorvaldar Thoroddsen í kringum endurútgáfu Ormstungu á því höfuðverki upp úr aldamótum, en Þorvaldur helgar Jóni og náttúruspeki hans drjúgan hluta ritsins, sem maklegt er, þó afstaða hans til vinnubragða og heimsmyndar lærdómsaldarmannsins sé mjög í anda vísindanna, sigurvegarans sem skrifar söguna.

Hér er rýnt á annan hátt. Meira af því síðar.

Alla vega má segja að frægð Jóns sé umtalsverð og sú tilfinning að hann sé minna kunnur en maklegt er dregur örugglega ekkert úr henni.

III

Frægð Jóns er umtalsverð og mynd hans er rómantísk. Hvernig má líka annað vera? Við erum að tala um frummynd hins sjálfmenntaða alþýðufræðimanns, og fátt er nú göfugra en það í sjálfsmynd okkar. Nema kannski að vera ekki bara skáld, heldur einhverskonar erki-kraftaskáld. Í fámenninu er þúsundþjalasmíði síðan alveg sérstök dygð, svo að vera myndlistarmaður eins og Sölvi Helgason og ekki bara göldróttur eins og Sæmundur fróði heldur reka hreinlega galdraskóla ofan á allt annað er stórkostlegur bónus.

Og þá erum við ekki einu sinni byrjuð að ræða þau hlutverk Jóns sem heilla kannski mest í nútímanum. Orð eins og „whistleblower“ og „Fyrsti íslenski rannsóknarblaðamaðurinn“ flugu frjálslega í umræðum eftir sýningu á Baskavígunum um daginn, undir stjórn Wikileaksmannsins Kristins Hrafnssonar með Viðar Hreinsson, höfund bókarinnar okkar, í pallborði.

Fleira mætti tína til og haka við á gátlista rómantíkurinnar. Einfari. Könnuður huldra heima. Prinsippmaður gegn valdinu, „speaking Truth to Power“. Útlagi. Maður tveggja tíma á lygilega mörgum sviðum: Endurreisn/upplýsing. Fornöld/nýöld. Handritaöld/prentöld. Pápíska/Lúterska. Platón/Aristóteles.

Algerlega heillandi viðfangsefni fyrir bók eins og þessa.

IV

Þó ýmislegt hafi verið skrifað um og unnið úr ævi og verkum Jóns lærða þá má samt líta svo á að Viðar Hreinsson byrji með hreint borð. Hann þarf ekki að ganga á hólm við staðlaða mynd og sanna hvernig hún standist ekki í ljósi heimildanna. Hann er ekki að varpa „nýju ljósi“, heldur í einhverjum skilningi „fyrsta ljósi“ á viðfangsefni sitt. Það á örugglega sinn þátt í því hvað Viðar stendur þétt með hetju sinni, dregur ævinlega taum hennar og túlkar henni í hag.

Svigrúmið fyrir þá afstöðu er auðvitað gott í eyðilandi heimildaskortsins og heilt yfir er viðhorf höfundarins það skýrt og opinbert að það skemmir ekki fyrir. Þó má velta fyrir sér hvort það hefði ekki verið frjótt skoða suma gagnrýni sem Jón varð fyrir með eilítið opnari huga, hvort stimplum eins og  „ snatar valdsins“ og „þröngsýnir og rúðustrikaðir hefðarfræðimenn“ (mitt orðalag) sé ekki veifað full-örlátlega framan í þá sem hafa eitthvað út á Jón að setja.

Skýrast verður þetta í kaflanum um rit séra Guðmundar Einarssonar gegn galdraástundun Jóns. Þar tekur Viðar nokkuð hressilega til orða, þykir málstaður Guðmundar eiginlega ekki svaraverður og telur hann greinilega fyrst og fremst handbendi valdsins, og fara auk þess offari í orðbragði og yfirlýsingum. Ívitnuð brot úr „Lítilli hugrás yfir svik og vélræði djöfulsins“ slá mig nú eins og ákaflega orþodox andpápískur dogmatismi, sem einatt hrærðist saman við djöfla-, galdra- og trúvilluótta á þessum tíma. Orðbragðið og yfirlýsingagleðin er að hætti tíðarandans og til dæmis nokkrum þrepum mildari en hjá Marteini sjálfum þegar hann var í stuði.

Skrítið af Viðari að æsa sig svona yfir augljósum aðfinnslum við dans Jóns á línu hins leyfilega. Sérstaklega í ljósi þess að einn helsti útgangspunktur efnistakanna er að taka heimsmynd og hugmyndir tímans á orðinu – gangast inn á þær.

V

Viðar ver miklum tíma og texta í að endursegja og túlka rit Jóns lærða. Skiljanlega, þau eru það sem við höfum í höndunum, ástæða þess að við höfum áhugann. Hann fer ekki í grafgötur með að þær endursagnir eru frá sjónarhóli Jóns og hugmyndaheims hans. Viðar hefur stært sig í viðtölum af því að nota ekki orðið „hjátrú“ neinsstaðar til að lýsa hugmyndum Jóns, og fer þar all-nærri sannleikanum.

Auðvitað er í einhverjum skilningi ógerningur og fásinna að segja öðruvísi frá þessu. Það væri lítið á því að græða að vera sífellt minntur á að hafmeyjar séu ekki til, álfar (sennilega) ekki heldur og steinar sem vaxa í hinum nífalda heila hrafnsins hafa ekkert til síns ágætis.

Á hinn bóginn hefði alveg verið gaman að sjá t.d. hugmyndir Jóns um lækningamátt jurta borinn saman við læknisefnafræðina og ekki síður við kenningar starfandi grasalækna nútímans.

En Viðar stígur að minnsta kosti eitt skref til viðbótar við það að gefa hugmyndum Jóns sviðið, og gefur sterklega í skyn að veruleikasýn Jóns og samtíðar hans sé á einhverju heimspekilegu plani jafngild okkar. Reyndar virðist hann jafnvel á því að hún standi vísindalegri heimsmynd okkar að ýmsu leyti framar.

Ég verð að viðurkenna að þessi afstaða fer í taugarnar á mér. Auðvitað er nauðsynlegt til skilnings á fortíðinni að máta á sig föt og gleraugu tímans, en þar sem þau greinir á við það sem við köllum „þekkingu“ í dag þá þykir mér málið útrætt. Það er ekki, og var aldrei, hægt að verja sig gegn þjófnaði með galdrastöfum og sætistala gulls er 79. Var það líka á miðöldum.

Og mér finnst beinlínis „pervers“ að gefa fræðaiðkun endurreisnar og lærdómsaldar einkunnina „forvitni“ í metingi við upplýsingu og nútímavísindi. Heims-, náttúru- og læknisfræði sem byggði á að jórtra rit Aristótelesar og éta hver upp eftir öðrum án þess að bera saman við það sem blasti við augum verðskuldar ekki þá einkunn, en þekkingarleitin í árdaga hinnar Newtonsku heimsmyndar og hliðstætt grúsk í líf- og læknisfræði er augljóslega forvitnidrifin fyrst og fremst.

Merkilegt líka að þó ekki megi leggja mælikvarða vísindanna á fræði fortíðarinnar er höfundur ófeiminn við að nota einkunnarskala hins líberala nútíma á réttlæti og siðferði ráðamanna. Þá er ekkert að því að fella harða dóma um heimsku og vonsku út frá forsendum okkar, en ekki þeirra sem véla um mál út frá sýn samtíma síns á rétt og rangt.

Þó útgangspunktur Viðars móti að talsverðu leyti efnistökin, og hann verji reyndar talsverðum texta í að útlista og verja hugmyndina, þá réði punkturinn sem betur fer ekki úrslitum um lesánægju mína, eða gagnsemina sem ég tel mig hafa haft af bókinni. Við vitum vel að flest af því sem Jón hafði fyrir satt er það ekki. Hugmyndasaga hans er ranghugmyndasaga. Horfum framhjá því og við blasir furðuveröld og mergjuð lífsaga einstakrar hetju sem svo sannarlega er barn síns tíma.

VI

Bókin er skýrt og lipurlega skrifuð og látlausu og stælalitlu máli. Viðar hefur söguna á sviðsetningu, með barnið Jón á vappi í fjörunni fyrir vestan, og sú mynd fær framhaldslíf sem hóflega notað og vel heppnað leiðarstef. Annað slíkt er hvernig Viðar skrifar stutta kafla um tvo evrópska lærdómsmenn á svipuðum tíma en við gerólíkar aðstæður: Ole Worm og Felix Platter, og notar þá til að skerpa á sérstæðum aðstæðum og afrekum Jóns. Þetta er vel til fundið og útfært. Hefði alveg þolað meira pláss.

Síðan er það verðugt verkefni hvers lesanda að leggja til sínar eigin hliðstæður. Þannig varð mér hugsað til Shakespeares, sem er tíu árum fyrr á ferðinni í heiminum en Jón, þar sem galdramaðurinn stendur á Snæfjallaströndinni og kveður niður draug sama ár og William skrifar sitt síðasta meistaraverk þar sem hann lætur Prosperó brjóta staf sinn og sökkva galdrabókinni á fertugt dýpi.

VII

Og talandi um að skrifa skýrt og lipurlega: Ég hef nýlega þrælað mér gegnum tvo Jóna frá svipuðum tíma: Reisubók Indíafarans og Píslarsögu þumalsins. Ef marka má það sem Viðar birtir hér af textum Jóns lærða þá ber hann af nöfnum sínum í ritfærni og stílgáfu eins og gull af kanselískum og knosuðum eiri. Allt auðskilið nútímaíslendingi, einfalt og fallegt. Ekki síst hinn lipri kveðskapur. Meira að segja Snjáfjallavísur hinar síðari, þó safinn sé nú kannski að mestu úr þeim runninn og allt hljómi þetta eins og þungarokkstexti í tæpu meðallagi í dag.

VIII

Þetta er fallegasta bók flóðsins. Einstaklega fagur gripur hjá Ragnari Helga Ólafssyni og Lesstofunni. Talsverður íburður, meðal annars splæst í tvílit, en vandvirknin nær líka til leturs, umbrots og hlutfalla texta og flatar. Snjallt að nota ævikvæðið Fjölmóð sem spássíuskreyti. Það hefði kannski mátt splæsa í eina orðskiptingaryfirferð í viðbót.

IX

Þrátt fyrir allt: Ævisaga ársins.