Þór Vigfússon opnar einkasýninguna Víxlverkun í Höggmyndagarðinum á Nýlendugötu 17a. Afhjúpun verkanna fer fram á laugardaginn 30. maí kl. 16:00 og verður því fagnað til 18:00.
Þór Vigfússon (f. 1954) býr og starfar í Djúpavogi. Hann hefur haldið fjöldan allan af sýningum um allan heim og þess má til gamans geta að hann hefur verið meðlimur í Myndhöggvarafélaginu allt frá stofnárum þess.
Undanfarið hefur Þór safnað saman ólíkum hlutum úr stáli sem fela í sér misljósa notkun og virkni. Úr varð höggmynd sem Þór teflir á móti litaformfræðilegum flötum sem líta má á sem endurspeglun strúktúrsins en á sama tíma endurspeglar strúktúrinn fletina. Víxlverkunin á sér þannig stað á bókstaflegan jafnt sem og á huglægan hátt.