Orð eru ljóð eru orð

Orð eru ljóð eru orð

umfjöllun um bók Stefáns Boga Sveinssonar, Brennur – eftir Þorgeir Tryggvason

 

Stefán Bogi Sveinsson treystir orðum.

 Það er góður eiginleiki hjá ljóðskáldi. Þó að við (eða ég allavega) höfum mörg talsverða nautn af fimleikum og flugeldum í skáldskap þá er gott annað slagið að vera leitt fyrir sjónir hvers einfaldleikinn er megnugur.

 Nokkum ljóðanna í Brennum er þó ætlað að snúa upp á tungumálið, vekja bros í heilaberkinum, “a smile in the mind” eins og það er kallað í frægri bók um sköpunarkraftinn. Sum þessara ljóða ná ekki alveg að gegna hlutverki sínu fyrir minn smekk en önnur lukkast ágætlega:

Óyndi

 Hér hef ég fest

óyndi

og við því

verður ekki séð

úr því sem komið er

yndið

veit ég ekki hvar

ég hef fest

ef einhversstaðar

vísast skilið það eftir

á glámbekk

einhvers staðar

 

sem og ljóð eins og:

Spurn 3

Á ég að gæta bróður míns?

Já og systur þinnar líka

Ef þú ert duglegur að passa

færðuvasapeninga.

 

Tveir rauðir þræðir binda bókina saman, annarsvegar föðurmissir og hinsvegar ástarsamband. Föðurljóðin eru saknaðarljóð frekar en mannlýsingar. tilfinningalýsingar og tilraunir til að spegla sig í minningunni. Mörg eru þau falleg í einlægum einfaldleika sínum.

 

I

Eitt augnablik

ein örstutt minning

eitt orð

Og ég finn hvernig

þykknar í hálsinum á mér

og þessi undarlega tilfinning

tekur sér bólfestu innra með mér

Tárin brjótast út

að hvörmunum

en fara eiginlega aldrei lengra

því hver grætur yfir fimmtán ára gamalli sorg?

 

Tilfinningaríkt látleysi

Og það er hiti á bakvið látleysi ástarljóðanna.

 

Skrifað um sólina

 

Ég veit að ef ég snerti þig

brenni ég mig

samt vil ég vera

eins nálægt þér

og nokkur er kostur

Því án þín er myrkur

Einfaldleikinn er samt tvíeggjað sverð. Stundum ná slík ljóð ekki til lesandans, allavega ekki þessa lesanda. Það þarf að vera eitthvað. Eitthvað sem hreyfir við huga eða tilfinningum. Fyrir minn smekk á Stefán Bogi til að treysta orðum sínum um of og ljóðin rata þá ekki til mín.

 

Á hinn bógin eru að hin sem maður man, og lifa með manni.

 

Brennur er falleg lítil frumraun sem mætti luma á aðeins fleiri og eilítið öflugri flugeldum. Stærri fjölskyldupakka.

 

Þorgeir Tryggvason