Vísir – Bókasöfn án bóka

Rithöfundar eru mjög ósáttir við þann niðurskurð sem þeir þurfa nú að sæta og vilja sumir taka bækur sínar úr hillum bókasafna. Hlutverk bókasafna hefur breyst á síðustu árum, hlutverk þeirra sem menningarmiðstöðva hefur orðið meira en það eru þó bækurnar sem leggja grunn að bókasöfnum og ekki er hægt að hugsa sér söfnin bókarlaus. Það er mikilvægara í dag en oft áður að standa vörð um bókina og bóklestur, hvetja til aukins lesturs líkt og rithöfundar og bókasöfnin hafa gert undanfarið, bæði saman og sitt í hvoru lagi. Skýtur það skökku við að dregið sé úr framlagi til rithöfunda í landi þar sem höfuðborgin hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefnd Bókmenntaborg Unesco, unnið er að stofnun Bókabæja fyrir austan fjall og stefnt á stærsta lestrarátak sem lagt hefur verið í á Íslandi næsta haust. Án rithöfunda og bókasafna hefði þetta ekki komið til því rithöfundarnir sjá okkur fyrir efnivið sem bókasöfnin hjálpa til að koma á framfæri og hvetja alla til að njóta.

Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna taka undir mótmæli við skerðingu bókasafnssjóðs via Vísir – Bókasöfn án bóka.