Hin einstaka kvikmynd, The Tribe (Plemya), verður frumsýnd í Bíó Paradís næstkomandi föstudag. Myndin, sem er úkraínsk, fjallar um heyrnalausan ungling sem fer í heimavistarvistaskóla fyrir heyrnalausa og gengst þar inn í framandi samfélag. Hann verður ástfanginn af einum meðlimi hópsins og fellur smátt og smátt í þá gryfju að brjóta allar þær óskrifuðu reglur sem hópurinn hefur sett sér. Myndin er fyrsta kvikmynd í fullri lengd í leikstjórn Myroslav Slaboshpytskiy en hún sópaði að sér verðlaunum á gagnrýnendaviku kvikmyndahátíðarinnar í Cannes og hafa gagnrýnendur víðsvegar um heim staðið á öndinni yfir þeirri stórbrotnu kvikmyndagerð sem hér er um að ræða. Myndin er án tals og er eingöngu talað táknmál í myndinni.
Myndin hefur verið margverðlaunuð fyrir einstakan kvikmyndastíl, meðal annars á Cannes kvikmyndahátíðinni, en myndin þykir fanga á einstakan hátt veröld heyrnalausra.
Nánari upplýsingar um myndina, og haustdagskrá Bíó Paradís, er hægt að nálgast á heimasíðunni bioparadis.is