Taka boltann, takk takk

Það er svo mikið talað um þann íslenska ósið þessa dagana að farið sé í manninn en ekki málefnið og því þakka ég Starafugli fyrst og síðast fyrir að vera farvegur umræðu, misgildishlaðinnar, um hlutverk menningar í samfélaginu og hvernig t.d. sé hægt að spyrða saman hugtakið þjóð og leikhús svo vel sé. Í þakkardebatt sem hér hefur birst eru dregin fram afdráttarlaus sjónarmið um að Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið séu menningarstofnanir sem megi skilgreina sem þjónustustofnanir ákveðinna hópa á ákveðnu svæði. Margt er til í því. Varpað var upp hugmyndum sem eru „skemmtilegar“ hvernig hægt sé að efla þjóðmenninguna, þ.e.a.s. að jafnari aðgang að menningu megi koma á koppinn svo að landsbyggðin og höfuðborgarbúar hafi jöfn tækifæri til sköpunar og þess að njóta „lista“ – hvort sem um er að ræða afþreyingarefni á vegum listastofnanana eða varðveislu menningararfs þjóðarinnar t.a.m. í svokölluðu Þjóðleikhúsi. Í þessari umræðu allri birtast mismunandi áherslur í pólítík, þó menningarpólítík sé – en það sem uppúr stendur að mínu mati er að lausnirnar miða að einhverju sem rúmast að flestu leyti innan núverandi kerfis. Ef einhver kallar eftir einhverju á menningarmarkaðnum er nánast undantekningarlaust hægt að benda á hvernig sé reynt að koma til móts við viðkomandi sjónarmið; þ.e.a.s. hvernig það hafi verið reynt, hvaða tilraunir hafi verið ætlaðar til að mæta ákveðnu sjónarmiði o.s.frv. Vandamálið er oftast að mannskepnan hefur ekki verið nægilega upplýst til að fatta að þarna var eitthvað fyrir hana, eða að höfundar hugmyndanna ganga með það í maganum t.d. að ákveðnir þjóðfélagshópar hafi þörf fyrir ákveðna tegund menningar.

Ranghugmyndir um þjóðmenningu

Kannski er ég 19.aldar maður að því leyti að mér er afskaplega annt um þjóðmenningu – menningu allra þjóða að vísu – en þessi dásamlegu sérkenni sem koma uppúr dúrnum þegar grannt er skoðað. Og endurkoma þjóðahyggju – frekar en kannski þjóðernishyggju – liggur í loftinu almennt í Vestur-Evrópu allri, á röngum jú sem réttum forsendum, í hættulegum mæli sem og á sakleysislegum forsendum. Við skulum kalla íslensku forsendurnar sakleysislegar svo þessi umfjöllun fari ekki að rekja þráð rökræðu í þágu annars og fari fjalla um ástand í alls annarslags pólítískum málum hér á landi. En. Ranghugmyndir um þjóðmenningu grassera hér á landi eins og annarsstaðar. Við tökum það misalvarlega. Ég tek það mjög alvarlega þegar einhver blæs til þjóðmenningarátaks (og hefur völd til að láta slíkar hugmyndir hafa stórkostlegt brautargengi) en hefur að mínu mati stórkostlegar ranghugmyndir um þjóðmenningu. Það er persóna sem gengur með þetta einmitt í maganum; fullvissuna um að ákveðnir þjóðfélagshópar hafi þörf fyrir ákveðna tegund menningar. Menn hafa verið nefndir til sögunnar í pistlum sem þessi sprettur af, bæjarstjórar, leikhússtjórar, ráðamenn og erkifátæklingar sem og aðrir byltingarsinnar. Ég held að við getum alveg sleppt því að tala um ákveðnar persónur, en við getum ekki sleppt því að tala um muninn á aðstæðum á landsbyggðinni og þeim sem fyrirfinnast í okkar ágætu höfuðborg. Ég hef að einhverju leyti gert grein fyrir því sem ég tel að beri að varast þegar þjóðmenningar-hugtakið er haft í flimtingum (17.júní Hrafnseyri) í pólítískum tilgangi og tíunda það ekki hér. Enda er meiningin að spinna við þann þráð sem hófst með spurningunum í fyrri pistlum: Er þjóðmenning til dæmis efling listastarfsemi á landsbyggðinni?

Það sem við sköpum er sjálfsmynd okkar

Ég ætla að vísu ekki út í Íslendingasögurnar – eða sögu leikritunar og menningararfs af öðrum toga – en það er alveg ljóst að afurðir listamanna allra þjóða varpa upp einhverskonar mynd af þjóðinni, þó að viðkomandi listamaður passi kannski ekki inní sína eigin blessuðu þjóð á þeim tíma sem hann kemur fram. Hann aftur á móti mótar það sem á eftir kemur. Snorri var hámenntaður Norðmaður, Hallgrímur þrautpíndur vandræðagemsi, Jónas drykkfellt dalaskáld, Laxness var snobbaður og Björk er og verður pönkari. Eða eitthvað. Mér er eiginlega sama um líkingarnar, nenni ekki að rífast um þær. Og Þjóðleikhúsið – bara rétt eins og Tónlistarhúsið – er ríkisstyrkt fyrirtæki á menningarmarkaði. Eigum við að banna fermingarveislur heldri borgara í Hörpunni, fárviðrast yfir Les Misérables eða hvaða „kassastykki“ sem er? Eigum við að gráta það að þeim peningum sem varið er í menningu sé varið í „lágmenningu“ – söluvörur, neysluskammta en ekki list, hina heilögu og hátt upphöfnu list sem umhverfir veröldinni í auga sjáandans, nei fyrirgefið – fullnægir þörfum fátæklinganna.

Ætli bændum á Héraði þyki menningararfinum borgið þegar fjárréttin góða á heiðinni hefur verið steypt upp? Og er það þjóðmenning, að söfnunum sé viðhaldið og þjóðbúninganámskeiðin vel sótt? Hver er þessi menning sem hlúir að okkar ástkæru dreifbýlistúttum, þessari alþýðu landsins sem harkar við þjóðvegina svo sjoppurnar séu opnar á sumrin þegar yfirlætisfullir borgarbúar sækja sér skammt af náttúru og anda djúpt að sér alþýðlegri þjóðmenningu, til mótvægis við allan Shostakovichinn hjá honum Volkanov eða hvað hann nú heitir? Hlúir kannski að okkur framar öllu sjálfsmynd Íslendingsins sem skapandi manneskju – sem getur jafnvel birst í menntamálaráðherra sem spilar lítið lag eftir sjálfan sig í sjónvarpi allra landsmanna á hátíðarstund, til að minna okkur á að þrátt fyrir allan niðurskurðinn þá er lítill listamaður í öllum, háum sem lágum? Ég veit það ekki.

Ameríski draumurinn í íslenska samhenginu

List er list er list, myndi Sigurður Pálsson kannski segja, og menningin er samansafn listanna og engin veit hvað er list og hvað er það ekki. Uppsetning leikfélags á landsbyggðinni á vinsælu stykki er kannski ekki listræn, en hún er félagslegt fyrirbæri og þroskar skynbragð þeirra sem uppsetningarinnar njóta á menningu og er þessvegna list (í stóra samhenginu) þó hún sé ekki fagleg. Einhverjir óttast fagmannatal þegar kemur að listum og það er skiljanlegt því það þrengir sjóndeildarhringinn þegar að því kemur að meta það menningarlega framlag sem felst í öllum athöfnum mannsins. En ég ætla leyfa mér að fullyrða að við séum (ennþá) óskaplega amerísk þegar það er skoðað hvernig „það sem stendur uppúr í menningunni“ kemur til. Það er einstaklingsframtak og verður til fyrir einurð og eldhug listamanna, frekar en umhverfi lista á Íslandi, þrátt fyrir að hin alræmdu listamannalaun geri jú flestu því fagfólki sem starfar utan stóru leikhúsanna og Sinfóníunnar mögulegt að starfa að list sinni. Popptónlistin er auðvitað sér á parti því þar ræður markaðurinn því hvort listsköpun ákveðinna einstakinga verður að lifibrauði eða ekki. Til að forðast útúrdúra í þessu samhengi vil ég koma aftur að ójafnaðartalinu sem varðar landsbyggð og höfuðborg því að ein rökin sem fylgdu því máli voru að „listastarfsemi af landsbyggðinni“ ætti að eignast sinn eigin grundvöll í Reykjavík (þar sem markaðurinn er) til dæmis vegna jafnaðarsjónarmiða. Hlutverk Þjóðleikhúss ætti t.d. að miðast við að hlúa að slíkum jöfnuði því starfsemi þess væri ríkisstyrkt.

Við lifum alltaf í einhverri von um að „það sem eigi það skilið“ hljóti að eiga rétt á því að vera uppgötvað, t.d. ótrúlega hæfileikaríki leikarinn í áhugamannasýningunni sem ferðaðist til Reykjavíkur til að sýna í „Landsbyggðarleikhúsinu“ sem Þjóðleikhúsið ber veg og vanda af. Þannig birtist okkur ameríski draumurinn um „Iceland’s got talent“ og við hljótum að vilja þannig eflingu menningarlífs á landsbyggðinni: Að það eigi séns í Reykjavík. Og þannig metum við listahátíðir á landsbyggðinni, hvað það hafi margir komið frá Reykjavík. Og þannig fer menningin fram á landsbyggðinni – sama hversu lókal er reynt að hafa hlutina – viðmiðið er; hversu vel það tókst til í stóra samhenginu. Ég er alls ekkert á móti því. Aldrei fór ég suður væri engin árshátíð íslenska rokkbransans ef það kæmi enginn að sunnan til að taka þátt í henni, og Seyðisfjörður væri ekki Mekka austurlands í myndlistinni ef að hópar myndlistarnema færu ekki þangað til að taka námskeið á vegum Listaháskólans vegna þess arfs og elju sem fólk hefur lagt í að byggja Seyðisfjörð upp sem „listamannabæ“. Svona er þetta með marga staði og þá menningarviðburði sem eiga sér stað víðsvegar út um allt land. Og það er atriðið sem skiptir máli – að tengslin á milli menningar hér og menningar þar þurfa að vera í báðar áttir. Listamaðurinn af landsbyggðinni þarf ekki bara að komast í bæinn að meika það, heldur þarf jafnræðið að felast í því að listamennirnir í Reykjavík komi út á land til að efla „menningarstigið“ þar. Það gerist aftur á móti ekki með þeirri aðferð sem var haldið á lofti í umræðunni, að til séu t.d. leikhús úti á landi sem geti tekið á móti „leikhúsi allra landsmanna“ þegar ákveðið er að sýning fari á ferðalag svo landsmenn geti notið menningarinnar. Hvernig verður alþýðan á landsbyggðin hluti af því „uppeldi“ ef hún er bara neytandi söluvöru? Kannski bara á sama hátt og ef að við ákveðum að „menning landsbyggðarinnar“ felist í varðveislu fornminja. Hjól í kúltúralkapítalískri vél sem hún hefur enga stjórn á? „Við fáum fjölmörg verkefni hér við að leika víkinga fyrir ferðamenn á sumrin“ – segir formaður Leikfélags Krummaskuðs stolt af sjálfsbjargarviðleitni sveitunga sinna. Ég er ekki að hæðast.

Til að vera íslensk og eiga íslenska drauma þá þýðir ekkert að keyra um á Chevrolet. Það eru ekki til íslenskir bílar og engin íslensk New York, London, París, Róm. En það er til Berlín, vissulega – og hún er í Reykjavík. Og þessvegna eru tengslin á milli „alþýðu“ og „menningar“ eitthvað sem við búum ekki til með steinsteyptum fjárréttum á heiðum heldur því að flytja grunnþátt samtímamenningarinnar í það samhengi að hann smiti út frá sér að jafnaði út um allt land. Áhrifasvæði stóru leikhúsanna og annarra menningarstofnanna eru smitleiðir „listamannabakteríunnar“ að því leyti að möguleikar barna til að njóta „uppeldis“ af þessum stofnunum eru takmarkaðir við búsetu og efnahag. Ég er ekkert að horfa fram hjá því að fullorðnir búa líka við þessa mismunun heldur það að þjóðfélaginu ber skylda til að veita börnunum jöfn tækifæri, óháð búsetu og efnahag, ef við kjósum að sjá það þannig. Það er íslenski draumurinn um þjóðmenningu, fyrir mitt leyti. Og þesslags þjóðmenning er ekki að því leyti íslensk að þjóðremban um víkingana eða að allir geti orðið stjörnur sé drifkrafur hennar, heldur sú að í okkur öllum þræli listhneigt barn í þágu frægðardrauma, heldur bara viðurkenningar á því að við erum öll skapandi einstaklingar og eigum uppeldi skilið sem mætir sköpunarþrá hvers manns.

Ríkisstyrkir sem þjóna listuppeldi á jafnaðargrundvelli

Það er vissulega ekki gegnsætt hvernig list og menning á landsbyggðinni nýtur styrkja í samræmi við alla þá starfsemi sem ríkisvaldið heldur uppi á höfuðborgarsvæðinu. Að vísu var bæjarstjórinn frægi ekki að tala um það heldur að agnúast út í stétt sem hann sjálfur er ekki af, ef ég skil orðróminn rétt. En það er ólíkt hvernig þeir deilast út í menningarstarfsemi í hverjum landshluta fyrir sig, það er eitt og án þess að fara út í þau tæknilegu atriði þá er það ein skýringin á því hvers vegna „það er svo blómlegt listalíf á Austurlandi“ – þ.e.a.s. það er ekki atorkan í fólkinu ein og sér, heldur samspil tengsla við Reykjavík og þess fjármagns sem fer í menningarverkefni (en ekki húsnæði eins og í hinum landshlutunum). Og fjármagn til menningarverkefna á landsbyggðinni er það sem er lykillinn að því að blómlegt menningarstarf geti orðið íbúunum að innblæstri og afþreyingu. Þar sem ég þekki best til – á Ísafirði – þarf að mörgu leyti ekki að kvarta, ef maður ber það saman við eitthvað annað, en það er ekki vegna ríkisstyrkja eða jafnaðarsjónarmiða sem þær aðstæður eru uppi. Það er vegna einstaklinga og það er langt í frá að ástandið sé jafn gott og það ætti að vera í ljósi þeirra möguleika sem eru fyrir hendi. Það er nefnilega misskilningur að þeir sem eru ekki að framleiða menningu beri annaðhvort ekki skynbragð á hana eða hafi ekki hæfileika til að búa hana til. Það þarf þennan samlegðarhvata til sem alltaf er fyrir hendi í nálægð við hinar ríkisreknu listastofnanir – á Höfuðborgarsvæðinu.

Að reka menningu á landsbyggðinni er margfalt dýrara en nokkurntíma í Reykjavík. Þá fullyrðingu þarf ekki að rökstyðja frekar hér. Það er aftur á móti mikilvægt að benda á að styrkir við flutning menningar eða menningarverkefna á landsbyggðina eru ekki kostnaður sem er einungis lagður fram í þágu þeirra sem njóta eða taka þátt, heldur hluti af því sem það kostar að vera þjóð í víðfeðmu landi. Raunverulegt framlag til íslenskrar þjóðmenningar er því ekki einhliða varðveisla fornminja, heldur nýsköpun og efling allra þeirra skapandi krafta sem liggja í skúmaskotum afdankaðra félagsheimila.
Þjóðmenning er eitthvað sem verður ekki kallað fram með brauðtertu og skautbúning eða hákarli og brennivíni, lopapeysu og harðfisk, því hún er samspili ólíkra strauma sem skapa sjálfsmynd þjóðar í ákveðnu landi á hverjum tíma. Þessvegna byggir hún hvorki á draumsýn eins né mengi þess sem finnst á söfnum eða summu fjölmiðlunarinnar. Við erum sífellt að skapa hana og endurskapa. Og þessvegna höfum við ástríðu fyrir því að jafnræði sé alls staðar á landinu og gætt sé að því að við getum ræktað þjóðmenninguna í samhengi við sjálfsmynd sem byggir á því að hvert og eitt okkar sé skapandi einstaklingur. Og það er málið – þessvegna þurfum við ekki bara útflutning skapandi greina út fyrir landssteinanna heldur að flytja útungunarstöðvar þeirra út á land. Alþjóðleg tilraun um Lýðskóla á Seyðisfirði er eitthvað sem sprettur af því að hugsa í þessum anda og þannig nýsköpun á að styrkja – ekki til að efla þjóðmenningu – heldur til að menning þjóðar auðgist af nýjabruminu og frævunum.

Takk-debattinn:
List fyrir okkar tíma; það var lítið Kristinn eftir Snæbjörn Brynjarsson (á Reykvélinni).
Takk, Kristinn eftir Ásgeir H. Ingólfsson
Takk Snæbjörn – part II eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson
Takk Snæbjörn – fyrri hluti eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson
Lausnin – pistill innblásinn af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna eftir Brynjar Snæbjörnsson (á Reykvélinni)
Menning handa þjóð – nokkrar hugleiðingar um mikilvægi menningar og aðgengi að henni eftir Brynjar Snæbjörnsson (á Reykvélinni)