Skáldskapur vikunnar: Úr Erfðaskrá vélstúlkunnar eftir Idu Linde

Það er ég sem er Vélstúlkan.
Allir munu deyja en ég ætla að deyja fyrst.

Bróðir minn Sören fer á alla fótboltaleiki í bænum
og safnar dósum.
Hann fór einu sinni til Stokkhólms
þótt enginn skilji reyndar hvernig hann fór að því.
„Hann var góður leikurinn þarna í Stokkhólmi“,
er hann vanur að segja.

*

Það er erfitt að heyra þegar Sören talar
einsog það sé stöðug snjókoma sem skilur hann að
frá umhverfi sínu.

Þegar Stig þjálfari gengur meðfram hliðarlínunum
hrópar Sören á eftir honum:
„Stig! Stiggi! Stiggarinn!“

Sören snýr sér að konunni við hlið sér og segir
„Stig, helvíti góður strákur atarna“
og heldur áfram að leita.

Dag einn ætlar Sören að fara með dósirnar í endurvinnslu og verða ríkur.
Þá ætlar hann að kaupa gjöf handa Stig
af því að hann sinnir starfi sínu svo vel.

*

Það er ég sem er Vélstúlkan.
Allir munu deyja en ég ætla að deyja fyrst.

Ég kann að baka brauð. Ég les hratt. Ég er með tattú.
Ég er með tvær spurningar:

1. Hvað munuð þið gera við óhreina tauið mitt?
Mun einhver taka upp naríurnar mínar,
þrýsta þeim að vitum sér og segja
„Guð hvað ég sakna Vélstúlkunnar“

2. Hvað komið þið til með að gera við matinn í ísskápnum?
Er leyfilegt að drekka mjólk dauðrar konu?

*

Það var pabbi sem reddaði Sören vinnu.
Sören átti að hunsa skiltið sem hann hafði alltaf vandlega
virt:

„Það má ekki ganga á grasinu,
þeim sem virða það ekki verður meinuð aðganga að öllum deildarleikjum“

Sören átti að fá að búa til fallegu hvítu línurnar,
setja leikmönnunum skorður og hann leit beint á mig og sagði
að þær væru einsog snjór
og þjónuðu sama tilgangi.

Erfðaskrá vélstúlkunnar eftir Idu Linde kemur út hjá Meðgönguljóðum í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl þann 15. apríl næstkomandi.