Scarlett Johansson í skaðabótamál við franskan rithöfund

premierechosequonregarde

Skáldsagan La première chose qu’on regard , eða Það fyrsta sem maður sér, eftir franska rithöfundinn Grégoire Delacourt, fjallar um konu sem er svo lík Scarlett Johansson að fólk heldur iðulega að hún sé Scarlett Johansson. Í viðtali við franska dagblaðið Le Figaro sagði höfundurinn að með þessu vildi hann segja eitthvað um það hvernig rómantískar fantasíur samtímans mótast af gegnsýringu frægðarmenningar. En það var víst ekki nógu gott fyrir Scarlett sjálfa sem hefur farið í mál við höfundinn upp á tæpar átta milljónir í skaðabætur og lögbann á sölu kvikmyndaréttar. Haft er eftir lögfræðingi Scarlettar, Vincent Toledo, að með bókinni sé nafn leikkonunnar og ímynd misnotuð í því skyni að afla bókinni meiri vinsælda hjá bókakaupendum.

Sjálfur segir Delacourt að þetta komi sér á óvart, að því er haft er eftir honum í The Guardian, enda hafi hann ekki skrifað bók um Scarlett Johansson heldur um frægðina, yfirborðið og fegurðina. „Mig óar við tilhugsuninni um að dómarar geti blandað sér í hvernig rætt er um sögupersónur í bókum. Ef að rithöfundi er ekki lengur leyfilegt að nefna hlutina sem umkringja okkur, bjórtegund, minnismerki, leikara … þá verður erfitt að búa til skáldskap.“

Málið er rekið í Frakklandi en ólíklegt þykir að hægt hefði verið að kæra vegna þessa í heimalandi leikkonunnar þar sem 1. viðauki bandarísku stjórnarskrárinnar – sem fjallar meðal annars um tjáningarfrelsið – verji rétt höfunda til að nota persónur á þennan hátt.