Rýni: Diskóeyjan

Eini raunverulegi vendipunktur sögunnar kemur ekki fyrren diskurinn er að verða búinn; boðskapurinn – að allir eigi að vera hressir og fallegir – er allavega siðlaus og áreiðanlega smitandi (börnin verða siðblind af því að hlusta á þetta og munu aldrei geta tekist á við heimsins harm, nema í besta falli af sjálfelsku og yfirlæti); sagn- og siðfræðilega er mjög vafasamt að undirskipa fönktónlistina diskóinu frekar en diskóið fönkinu, líkt og gert er með því að uppnefna fönkið diskó, (diskó er poppfönk – óörugga afkvæmið sem þráir ást og viðurkenningu þess sama samfélags og hafnaði uppreisnargjörnum foreldrum þess); tónlistin er hress en voða fyrirsjáanleg, ekkert að springa úr frumleika, fagnar eiginlega bara eigin hermistælum; burðarsöngvarinn í stykkinu hefur aldrei sýnt að hann geti haldið lagi og gerir það ekki heldur hér; ljóti kallinn er ekki ljótur (og það gerir hann ekkert fallegri að bent sé á að hann er ekki ljótur); höfundurinn er Hnífsdælingur; verkinu lýkur á vísi að súrrandi fylleríi – sem börnin geta ekki annað en leikið eftir; Spotify datt út í botni Álftafjarðar og barnið skeytti skapi sínu á föður sínum; ég skil enn ekki hvernig diskóeinvígið virkar; sólin syngur vögguvísu og sögumaður leggur á hana í hæsta máta ófaglegt mat; það fæst aldrei neinn botn í það hvað varð um Þóri Baldursson; en samt. Þetta bara virkar, hvernig sem það virkar, það gerir það. Margar, margar stjörnur, alveg fullt bara.

EÖN