Reykjavík Dance Festival – Dagur 1

Mikið er ég ánægður með þetta nýja fyrirkomulag á RDF. Hátíðin hefur verið einn af hápunktum íslensks menningarlífs undanfarin ár að mínu mati. Ég er ekki alveg hlutlaus en ég ætla heldur ekkert að reyna að vera það. Fyrir þá sem ekki vita hefur einni hátíð, sem oftast var haldin í lok sumars, verið bútuð niður í fjórar minni hátíðir en um leið og ég skrifa þetta átta ég mig á því að þetta er alls ekki rétt. Í fyrsta lagi var ekki hátíðin ekki bútuð niður eins Mel Gibson í lok Braveheart heldur fjölgaði hún sér frekar eins og Michael Keaton í Multiplicity. Í öðru lagi er flókið að tala um stærðir þegar listahátíðir eru annars vegar. Mælingarnar eru frekar fólgnar í því hvort aðstandendum tekst að ná tilsettum markmiðum, hver svo sem þau eru. Og eru þessir fjórir útlimir ekki allir hluti af sama dansandi líkamanum? Er þetta ekki tilraun RDF-liða til að halda partýinu gangandi allan ársins hring, halda dansinum í sviðsljósinu af fremsta megni með það fyrir stafni að hér skapist þekkingargrundvöllur fyrir almenning að taka þátt í dansinum? Svona eins og Dans, Dans, Dans án útsláttarkeppninnar. Þetta er allavega helvíti skemmtilegt fyrirkomulag og ég er ekki frá því að þau séu á góðri leið með að vekja fólk til vitundar um dansinn. En þau eru langt því frá ein á báti og er skemmst að minnast Elda Sigríðar Soffíu og Black Yoga Screaming Chamber Ernu og Valda í Shalala sem aldeilis vöktu athygli á því hvað kóreógrafían teygir anga sína víða – úr iðrum líkamans upp til himna.

Undirtitill þessarar útgáfu er Queering the Popular; án þess að leggja í beina þýðingu hef ég ákveðið að styðjast við eina mögulega merkingu sem gæti útlagst á þann hátt að hér sé verið að setja spurningamerki við poppkúltúrinn og bera hann saman við listina. Það er heilmargt í þessu. Í áraraðir hefur listafólk verið duglegt að endurnýta hverskyns menningarlíki og hvert sem maður fer er einhver listamaður að vísa í eitthvað feitt. Listaverkin þeirra vísa manni fram og aftur menningarsöguna, svona eins og Pulp Fiction, vísa í önnur verk og jafnvel verkið sjálft. Þversögnin felst í því að þessir tveir heimar, listin og poppið, passa mjög vel saman þó svo að þeir ættu að rekast á. Það sem ég er að reyna að segja er að einkenni poppsins eru yfirborð og afþreying á meðan listin leitast kannski við að skera dýpra og afneita þeim þægindum sem fylgja afþreyingunni. Þetta eru þá kannski meira eins og jarðflekar frekar en heimar, því jarðflekar geta rekist saman og skapað fjallgarða eða þá að annar flekinn kaffærir hinum.

Christian Falsnaes hóf hátíðina með verki sínu Face. Falsnaes, sem var einnig hluti af dagskrá SEQUENCES 2011, notar áhorfendur til þess að framkvæma verk sín en þó er á mörkunum að þetta sé þátttökuleikhús. Þetta er náttúrulega klárlega ekki leikhús – þarna í Face fengu áhorfendur ýmiskonar leiðbeiningar sem við áttum að fylgja. Fyrst var okkur skipt í tvennt og það var kannski það sem mér fannst einna mest töff: þegar helmingur áhorfenda var beðinn um að horfa á hinn helminginn sem svo var beðinn um að horfa á performerinn/leiðbeinandann. Ég hafði lesið mig aðeins til um þennan gaur og vissi að hann var svona að ráðskast með fólk, leika sér að því hver hefur valdið og hvaða hlutverk birtast manni, og þarna fannst mér það mjög einfalt og fallegt. Leiklistarnámskeiðið hélt áfram og stjórn verksins flaut á milli nokkurra einstaklinga sem annaðhvort samsömuðu sig áhorfendahópnum eða stigu út úr honum. Falsnaes var þó aldrei í hlutverki stjórnanda heldur tók líka þátt. Áhugavert en mjög concept-heavy og það bjargaði minni upplifun að ég hafði lesið mig til áður en ég sá verkið, svipað og þegar ég sá Synecdoche New York.

Svo var farið í Mengi (sem er fáránlega nett rými) og þar fluttu Amanda Apetrea og Halla Ólafsdóttir DEAD Beauty and the Beast, verk í vinnslu samansett af klisjulegum rokktónleika-myndhvörfum, klámljóðalestri og Dj-setti. Þær komu sem sagt fyrst fram undir upptöku af dynjandi fagnaðarlátum, íklæddar svörtu og sín í hvorum pelsinum. Þær voru málaðar í framan ekki ósvipað og KISS. Ég ætla bara að koma til dyranna eins og ég er klæddur og segja – það er mjög erfitt að skrifa um þetta verk. Ég sá fyrri birtingarmynd þessa verk fyrir tveimur árum síðan og var hrifinn af pælingunni um að reyna að beisla þessa orku sem myndast á rokktónleikum. Þarna var áfram verið að vinna með þær pælingar. Það eru allir listamenn öfundsjúkir út í tónlistina fyrir þetta leyti – ég er viss um að öllum langaði til að slamma á nýju sýningunni hans Hreins Friðfinnssonar en það bara fokking má ekki nema á tónleikum!

Svo voru það klámljóðin, þau voru mjög áhugaverð! Þær kalla þau „poernms“ (ég sting upp á pörm) og þar var att saman fagurfræði ástarljóða og tungutaki klámhunda af báðum kynjum. Klámhundur er svo gott orð btw. Þannig var klámið blessað af hendi Braga og ljóðið dregið inn á slóðir sem það kannski fer ekki oft á. Ég velti því fyrir mér hvort list geti á annað borð ennþá farið „yfir strikið“. Landamærin hafa að mörgu (siðferðislegu) leyti verið grannskoðuð og ef farið yrði lengra væri eins hægt að tala um sakamál. Ég er að vísa til líkamslistamanna sem meiða sjálfa sig og aðra. Enda nýttu þær sér fantasíuna þegar að ljóðin urðu einna erfiðust og því skoppuðu orðin upp af blaðinu og inn í litla hugsanablöðru fyrir ofan listakonurnar.

Að lokum er vert að minnast á litlu eventana sem RDF stóð fyrir í og með dagskránni. Annarsvegar Second Hand T-shirtology og svo fiskisúpuna frábæru að lokinni dagskrá. Þetta voru góð tæki til þess að halda fólki saman og fá það til að tala og það er það sem ég hef alltaf kunnað að meta við RDF. Þegar á öllu er á botninn hvolft er það nefnilega ekki eitt og eitt verk sem skiptir máli heldur það að næra og stækka samfélagið. Og mér finnst samfélagið hafa fundið sér flotta fósturforeldra í RDF og ég veit að það á eftir að verða dansari þegar það er orðið stórt.